Ársskýrslur ráðherra birtar
Ársskýrslur ráðherra fyrir árið 2020 eru komnar út. Markmiðið með skýrslunum sem koma nú út í fjórða sinn er að auka gagnsæi um ráðstöfun og nýtingu fjármuna en þeim er einnig ætlað að vera grundvöllur fyrir umræðu um stefnumörkun og forgangsröðun hins opinbera.
Kórónuveirufaraldurinn hafði mikil áhrif á starfsemi allra ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands á árinu 2020 og bera ársskýrslur ráðherra þess merki. Í skýrslunum er sérstaklega fjallað um fjölþætt viðbrögð og aðgerðir stjórnvalda í tengslum við COVID-19.
Birting ársskýrslna ráðherra byggir á ákvæðum laga um opinber fjármál. Þar er kveðið á um að hver ráðherra skuli birta slíka skýrslu þar sem gerð sé grein fyrir niðurstöðu útgjalda málefnasviða og málaflokka og hún borin saman við fjárheimildir fjárlaga. Þá skal í skýrslunum meta ávinning af ráðstöfun fjármuna með tilliti til settra markmiða og aðgerða.