Hoppa yfir valmynd
18. júlí 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 348/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 18. júlí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 348/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19060022

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I. Málsatvik

Þann 27. maí 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 10. apríl 2019 um að synja umsóknum [...], fd. [...], ríkisborgara Albaníu (hér eftir nefnd kærandi), og barna hennar [...], fd. [...], [...], fd. [...], og [...], fd. [...], um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 27. maí 2019. Þann 12. júní 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð hennar og barna hennar ásamt fylgigögnum. Þann 3. júlí 2019 bárust nefndinni viðbótargögn.

Beiðni kæranda og barna hennar um endurupptöku máls þeirra byggir aðallega á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi og börn hennar óska eftir endurupptöku á máli þeirra hjá kærunefnd á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Kærandi heldur því fram að þau viðbótargögn sem fylgdu beiðni kæranda og barna hennar um endurupptöku sýni fram á að dauða eiginmanns kæranda hafi borið að með saknæmum hætti jafnframt sem gögnin styðji frásögn kæranda um að fjölskylda hennar hafi mátt þola ofsóknir í heimaríki af hálfu einstaklinga tengdum albönskum stjórnvöldum. Þá styðji gögnin einnig þá fullyrðingu kæranda um að útilokað sé fyrir hana og börn hennar að leita aðstoðar albanskra yfirvalda.

Í beiðni kæranda og barna hennar kveðst hún leggja fram læknisskýrslu um niðurstöður krufningar á eiginmanni hennar þar sem fram komi að áverkar á höfði hans bendi til þess að hann hafi verið barinn í höfuðið með eggvopni. Þá komi fram í blóðrannsókn sem framkvæmd hafi verið á líki eiginmanns kæranda að hann hafi verið undir áhrifum áfengis jafnframt sem hann hafi verið með eiturefni í blóði. Kærandi heldur því fram að maður hennar hafi verið bindindismaður og því telji hún að honum hafi verið byrlað lyf og áfengi. Kærandi leggur fram skýrslu saksóknara þar sem fram komi að þrátt fyrir framangreindar upplýsingar um dánarorsök og um ofsóknir sem fjölskyldan sæti telji saksóknari að um sjálfsmorð sé að ræða og verði málið því rannsakað á þeim grundvelli. Að lokum leggur kærandi fram myndir af staðnum þar sem eiginmaður kæranda fannst látinn.

Í ljósi alls framangreinds telji kærandi tilefni til þess að mál hennar og barna hennar verði tekið upp að nýju og að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda og barna hennar þann 27. maí 2019 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda sama dag. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi og börn hennar uppfylli hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda og barna hennar í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi og börn hennar byggja beiðni um endurupptöku aðallega á framlögðum skjölum sem kærandi telur styrkja enn frekar frásögn sína. Þann 26. júní 2019 fékk kærunefnd túlk til þess að þýða skjölin munnlega. Kærandi lagði fram afrit af læknaskýrslu um niðurstöður krufningar á líki eiginmanns síns sem af áritun í stimpli virðist vera dagsett 17. apríl 2019. Þar kemur fram í niðurstöðukaflanum að einu áverkarnir á líki eiginmanns kæranda hafi verið tveir áverkar á höfði hans sem að öllum líkindum hafi komið til vegna falls eiginmanns kæranda úr hæð ofan í ána. Þá sé dánarorsök eiginmanns kæranda drukknun. Í skýrslunni kemur einnig fram að áfengismagn í blóði eiginmanns kæranda hafi verið um 2,907 gr/l. Í skýrslu saksóknara, dags. 21. janúar 2019, kemur fram að rannsókn hafi leitt í ljós að eiginmaður kæranda hafi þann […] drukkið áfengi á nokkrum börum í borginni […] í Albaníu. Hann hafi verið drukkinn og hafi hann að öllum líkindum dottið ofan í ána […] að næturlagi. Um morguninn klukkan 07.45 hafi hann fundist látinn í ánni. Kærandi lagði einnig fram yfirlýsingu saksóknara í Berat, dags. 30. maí 2019, þar sem fram kemur að ríkissaksóknari sé með allar upplýsingar um málið og að þau telji líklegt að um sjálfsmorð sé að ræða en að málið sé enn til rannsóknar hjá embættinu.

Þann 27. júní 2019 sendi kærunefnd talsmanni kæranda tölvupóst þar sem fram kom hvaða skilning nefndin hefur lagt í þau gögn sem kærandi skilaði inn með greinargerð n.t.t. niðurstöðu krufningar. Var talsmanni veittur frestur til 2. júlí 2019 til að koma að andmælum ef einhver væru. Þann 28. júní 2019 barst kærunefnd svar við umræddum tölvupósti þar sem fram kom að kærandi hafi þýtt niðurstöður krufningar með því að lesa upp úr skjalinu fyrir símatúlk. Þann 3. júlí sá. bárust kærunefndinni fjórir tölvupóstar þar sem m.a. kom fram útskýring kæranda á misræminu er varðaði niðurstöður krufningarinnar. Kærandi heldur því fram að í skýrslunni hafi möguleg atburðarás verið sett upp þar sem eiginmaður hennar kunni að hafa hlotið áverka á höfði með því að detta ofan í ána. Hins vegar kom fram í niðurstöðu skýrslunnar að áverkarnir á höfði eiginmanns kæranda séu af völdum eggvopns. Þá skilaði kærandi inn yfirlýsingu föður hennar þar sem hann kveðst hafa verið kallaður í viðtöl hjá lögreglu og verið látinn skrifa undir skjöl er lúti að dauða tengdasonar hans. Einnig leggur kærandi fram skjáskot úr síma þar sem að sögn kæranda komi fram að kærandi óski eftir gögnum og upplýsingum frá lögreglu, en hún hafi ekki fengið svör við þeirri beiðni. Þá hafi kærandi einnig óskað eftir að fá afhentar upptökur úr eftirlitsmyndavélum sem hún telji hafa náð að mynda árásina á eiginmann hennar.

Þann 4. júlí 2019 óskaði kærunefnd eftir því að kærandi vísi í þá setningu í niðurstöðu krufningar þar sem fram komi að áverkar á höfði eiginmanns kæranda séu af völdum eggvopns og var kæranda veitt frestur til 8. júlí 2019 til að skila inn umbeðnu gagni. Þann 8. júlí 2019 barst kærunefnd tölvupóstur þar sem kærandi kveðst hafa farið að fyrirmælum kærunefndar og yfirstrikað þrjár setningar í niðurstöðu krufningarinnar sem og eftirfarandi þýðing á þeim; „Á grundvelli fyrirliggjandi gagna og upplýsinga er okkar mat að sár á hinum dána séu af völdum þungra og beittra hluta (e. objects)“, „ Áverkar eru eftir hátt fall og af völdum þungra og beittra hluta“ og „Dánarörsök er köfnun (drukknun í vatni)“. Þá ítrekar kærandi í tölvupósti að upptökur úr öryggismyndavélum hafi skyndilega horfið og finnist hvergi.

Af gögnum málsins, n.t.t. í niðurstöðu krufningar og þýðingar sem kærunefnd lét gera á henni, verður ekki annað ráðið en að sú lýsing sem kærandi gaf á áverkum á líki manns hennar sé röng. Að mati kærunefndar bendir ekkert í niðurstöðum krufningarinnar til þess að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað. Þá benda gögn málsins til þess að eiginmaður kæranda hafi verið mjög ölvaður rétt fyrir andlát sitt. Tekið er fram í skýrslunni að líklegt sé að eiginmaður kæranda hafi slegið höfuðið í stein þegar hann hafi dottið ofan í ánna. Þá kemur fram í gögnum að þrátt fyrir að líklegast sé talið að um sjálfsvíg hafi verið að ræða sé málið enn til rannsóknar hjá yfirvöldum í heimaríki kæranda.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á framangreindum úrskurði ásamt þeim gögnum sem kærandi leggur fram til stuðnings beiðninni. Telur kærunefnd að umrædd gögn renni ekki frekari stoðum undir frásögn kæranda um það að hún og börn hennar hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki þeirra. Er því óbreytt það mat kærunefndar er fram kom í úrskurði hennar dags. 27. maí 2019 að kærandi hefur hvorki lagt fram haldbær gögn sem sýni fram á að dauða eignmanns hennar hafi borið að með saknæmum hætti né önnur gögn sem styðja við frásögn hennar af ofsóknum af hálfu einstaklinga í heimaríki tengdum albönskum stjórnvöldum. Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og gagna málsins er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 27. maí 2019 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda og barna hennar um endurupptöku máls þeirra hjá kærunefnd er því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð

 

 

Kröfu kæranda og barna hennar um endurupptöku er hafnað.

 

The request of the appellant and her children to re-examine the case is denied.

 

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Ívar Örn Ívarsson                                                                            Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta