Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 42/2009

Mánudaginn 8. febrúar 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 8. desember 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 8. desember 2009.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), sem tilkynnt var með bréfi, dags. 8. september 2009, um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Af kæru má ráða að kærandi lítur svo á að Fæðingarorlofssjóður hafi með símtali 1. júlí 2009 synjað sér um fæðingarstyrk sem foreldri í fullu námi og verður kæran ekki skilin á annan hátt en þann að jafnframt sé óskað endurskoðunar úrskurðarnefndar um þann þátt málsins.

 

Með bréfi, dagsettu 10. desember 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 22. desember 2009.

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 23. desember 2009, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að honum hafi verið synjað um fæðingarstyrk námsmanna vegna ófullnægjandi námsárangurs eftir bílslys í desember 2008. Honum hafi einnig verið synjað um fæðingarorlof þrátt fyrir að hafa verið óvinnufær með öllu og fengið sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins í meira en sex mánuði á þeim forsendum að um sjúkrapeninga námsmanna hafi verið að ræða.

Kærandi telur það óréttlátt að hann hafi fyrirgert rétti sínum til fæðingarstyrks námsmanna/fæðingarorlofs með því að hafa slasast alvarlega í bílslysi. Jafnframt telur kærandi vera mótsögn í því að synja honum um fæðingarorlof vegna þess að hann sé í námi og synja honum um fæðingarstyrk námsmanna vegna þess að hann sé ekki í námi.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi hringt í Fæðingarorlofssjóð hinn 1. júlí 2009. Í símtalinu hafi komið fram að hann hafi verið í námi en lent í slysi og hafi því hvorki getað tekið próf á haustönn 2008 né stundað nám á vorönn 2009. Einnig hafi komið fram að hann fái greidda sjúkradagpeninga. Kæranda hafi verið bent á að hann ætti því trúlega ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi en jafnframt hafi honum verið bent á að sækja formlega um.

Kærandi hafi með umsókn, dags. 29. júní 2009, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar hinn 23. ágúst 2009 en kærandi hafi ekki sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi.

Með umsókn kæranda hafi fylgt tilkynning um fæðingarorlof, dags. 13. júlí 2009, greiðsluskjöl frá Sjúkratryggingum Íslands fyrir júní 2009, vottorð um væntanlega fæðingu, dags. 2. júní 2009, og læknisvottorð, dags. 10. júlí 2009. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og Þjóðskrá.

Kærandi hafi hinn 18. ágúst 2009 verið sent bréf þar sem hann hafi verið upplýstur um að engar tekjur væru skráðar á hann í skrám skattyfirvalda á tímabilinu febrúar–apríl 2009 og einnig hafi vantað staðfestingu á rétti til sjúkradagpeninga frá 1. júlí 2009 og fram að fæðingardegi barnsins. Kæranda hafi jafnframt verið leiðbeint um hvað teldist til þátttöku á vinnumarkaði í skilningi 13. gr. a. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.), með síðari breytingum. Þann 7. september 2009 hafi Fæðingarorlofssjóði borist yfirlit frá Sjúkratryggingum Íslands um greiðslu sjúkradagpeninga ásamt greiðsluseðli fyrir ágúst 2009. Á yfirliti frá Sjúkratryggingum Íslands komi fram að verið sé að greiða kæranda sjúkradagpeninga sem námsmanni.

Í framhaldinu hafi kæranda verið send synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, dags. 8. september 2009, þar sem ráða hafi mátt af innsendum gögnum og skýringum og samkvæmt upplýsingum úr skrám ríkisskattstjóra að hann uppfylli ekki skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Hafi kæranda jafnframt verið bent á rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Fæðingarorlofssjóður vísar til 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, þar sem kveðið sé á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segi í 1. mgr. að foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.

Einnig vísar sjóðurinn til þess að í 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna séu skilgreiningar á því hverjir teljast starfsmenn og sjálfstætt starfandi en samkvæmt ákvæðunum teljist starfsmaður samkvæmt lögunum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Sjálfstætt starfandi einstaklingur sé aftur á móti sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Þá vísar sjóðurinn til 1. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 74/2008, þar sem fram komi að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Fullt starf miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan taka tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Í 2. mgr. sé síðan talið upp í fimm stafliðum hvað teljist enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar.

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Einnig vísar sjóðurinn til athugasemda við 1. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 74/2008, þar sem fram komi að ákvæðið sé efnislega samhljóða 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, og feli því ekki í sér breytingar á framkvæmd laganna. Í c-lið 3. gr. reglugerðarinnar komi fram að til þátttöku á vinnumarkaði teljist enn fremur sá tími sem foreldri fái greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum. Þá segir sjóðurinn að eina breytingin sem gerð hafi verið sé því sú að greiðslum úr sjúkrasjóði stéttarfélags hafi verið bætt við ákvæðið en eftir sem áður sé ákvæðið bundið við það að réttur til sjúkradagpeninga hafi komið til þegar foreldri hefur látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum.

Jafnframt kemur fram af hálfu sjóðsins að barn kæranda sé fætt hinn Y. september 2009 og sex mánaða ávinnslutímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. ffl. sé því frá Y. mars 2009 fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfi kærandi, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á tímabilinu, sbr. 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Samkvæmt skrám ríkisskattstjóra og yfirliti frá Sjúkratryggingum Íslands sé kærandi með greiðslu sjúkradagpeninga sem námsmaður á öllu tímabilinu. Hann uppfylli þ.a.l. ekki skilyrði c-liðar 2. mgr. 13. gr. a. laganna um að sjúkradagpeningar hafi komið til vegna þess að hann hafi látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum. Ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi hafi verið á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfshlutfalli á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. og hafi kæranda því verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. bréf til kæranda dags. 8. september 2009.

Sjóðurinn bendir á að í fyrrgreindu símtali hinn 1. júlí 2009 hafi komið fram að kærandi hafi verið í námi en lent í slysi og því hafi hann hvorki getað tekið próf á haustönn 2008 né stundað nám á vorönn 2009 og að hann hafi verið að fá greidda sjúkradagpeninga. Hafi kæranda verið bent á að hann ætti því trúlega ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi en honum jafnframt bent á að sækja formlega um. Hafi þetta í raun verið staðfest með læknisvottorði, dags. 10. júlí 2009, en þar komi fram að kærandi hafi verið óvinnufær með öllu eftir umferðarslys 13. desember 2008. Hann hafi þá verið í námi í B-háskóla en hafi ekki getað stundað nám sem skyldi vegna afleiðinga slyssins og hafi orðið að segja sig frá prófum um jól og vor. Í tölvupósti frá kæranda, dags. 3. desember 2009, komi einnig fram að hann hafi verið nemi við C-deild B-háskóla en hann hafi lent í bílslysi í desember 2008 og hlotið af því talsvert heilsufarstjón. Hafi hann ekki getið tekið próf haustönn 2008 vegna áverka og ekki getað stundað nám á vorönn 2009. Hann hafi verið metinn óvinnufær með öllu og þegið sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins fram í ágúst er hann hóf aftur 60% nám við B-háskóla.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Sjóðurinn vísar jafnframt til þess að skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Þá vísar sjóðurinn til þess að í 13. mgr. 19. gr. ffl. komi fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Móðir skuli jafnframt leggja fram vottorð þess sérfræðilæknis sem hafi annast hana á meðgöngu því til staðfestingar ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám. Hvorki sé að finna sambærilega undanþáguheimild fyrir feður í lögum um fæðingar- og foreldraorlof né í reglugerð.

Í samræmi við framangreint telur Fæðingarorlofssjóður að ljóst sé að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns síns þann Y. september 2009 og sýnt viðunandi námsárangur.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að kærandi teljist ekki hafa verið á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfshlutfalli síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag barns og því beri að synja honum um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um að hafa verið í fullu námi og hvorki í ffl. né reglugerð sé að finna undanþágu sem nái yfir tilvik kæranda. Því beri einnig að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi. Loks kemur fram af hálfu sjóðsins að hinn 3. desember 2009 hafi kærandi verið afgreiddur með fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi, sbr. greiðsluáætlun til kæranda, dags. 3. desember 2009.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er sú ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dags. 8 desember 2009 um að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Ekki er unnt að skilja kæru á annan hátt en að kærandi líti svo á að honum hafi verið synjað um fæðingarstyrk sem námsmanni með símtali Fæðingarorlofssjóðs 1. júlí 2009 og óski einnig endurskoðun nefndarinnar á þeim þætti málsins.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.), er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í 2. mgr. 26. gr. segir að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð fyrr en mál hefur verið til lykta leitt.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. ffl. skal foreldri sækja um fæðingarstyrk námsmanna til Vinnumálastofnunar þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns, sbr. þó 15. gr. Í 2. mgr. 23. gr. segir að umsóknin skuli vera skrifleg og tilgreina skuli fyrirhugaðan upphafsdag greiðslu fæðingarstyrks til foreldris og lengd greiðslutímabils.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi ekki sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi og að sama skapi hefur Fæðingarorlofssjóður ekki tekið afstöðu til slíkrar umsóknar með stjórnsýsluákvörðun. Verður því ekki talið að fyrir liggi ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. ssl. Af þeim sökum kemur sá hluti kærunnar, sem varðar hugsanlegan rétt kæranda til fæðingarstyrks sem námsmanni, ekki til umfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni. Gildir þar einu þótt Fæðingarorlofssjóður hafi nú í greinargerð sinni fyrir úrskurðarnefnd lýst þeirri skoðun sinni að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um að hafa verið í fullu námi. Verður þeim hluta kærunnar því vísað frá nefndinni.

Í 1. mgr. 1. gr. ffl. segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eigi við um foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. ffl. er starfsmaður hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Í 1. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, segir að foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Í 1. mgr. 13. gr. a ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 74/2008, segir m.a. að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Fullt starf miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf.

Fæðingardagur barns kæranda er Y. september 2009. Samkvæmt því er sex mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 13. gr. ffl. tímabilið frá Y. mars 2009 fram að fæðingardegi barnsins.

Kærandi var nemi við B-háskóla þegar hann lenti í alvarlegu bílslysi í desember 2008. Hann fékk greiðslur sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands á tímabilinu frá 27. desember 2008 til 31. júlí 2009 en hóf háskólanám aftur í ágúst 2009.

Samkvæmt c. lið 2. mgr. 13. gr. a ffl. telst jafnframt til atvinnuþátttöku sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum.

Í athugasemdum með 9. gr. frumvarps til laga nr. 74/2008, sem varð að 2. mgr. 13. gr. a. ffl. kemur fram að ákvæðið sé efnislega samhljóða 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, og feli því ekki í sér breytingar á framkvæmd laganna. Í ákvæði c-liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 kom fram að til þátttöku á vinnumarkaði teldist ennfremur sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, sé á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum. Er ákvæði c. liðar 2. mgr. 13. gr. a. ffl. þannig samhljóða tilvitnuðu ákvæði c. liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 að því frátöldu að lagaákvæðið var jafnframt látið taka til greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttafélags Verður ákvæðið því ekki skýrt á annan hátt en þann, að sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim, verði aðeins talinn til atvinnuþátttöku í skilningi 2. mgr. 13. gr. a. ffl., að foreldri hafi látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum. Ákvæði c. liðar 2. mgr. 13. gr. a. ffl. tekur því að mati nefndarinnar ekki til þeirra tilvika, þar sem foreldri sem fær greidda sjúkra- eða dagpeninga lætur ekki af launuðum störfum. Í gögnum málsins er ekki að finna upplýsingar um að kærandi hafi látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum þegar hann slasaðist og hóf að fá greidda dagpeninga. Með hliðsjón af því verður ekki talið að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 13. gr. um sex mánaða samfellt starf á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingu barns Y. september 2009.

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er réttilega vísað til þess að undanþáguheimild 13. mgr. 19. gr. ffl. gildi einungis fyrir móður, sem ekki hafi getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Hvorki sé að finna sambærilega undanþáguheimild fyrir feður í ffl. né í reglugerð. Að öðru leyti verður ekki fjallað frekar um réttindi kæranda til greiðslu fæðingarstyrks foreldris í fullu námi, þar sem ekki liggur fyrir stjórnsýsluákvörðun um það atriði, sbr. hér að framan.

Með vísan til alls framangreinds ber því að staðfesta ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest. Þeim þætti í kæru er lýtur að réttindum kæranda til fæðingarstyrks foreldris í fullu námi er vísað frá úrskurðarnefnd.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta