Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2002 Forsætisráðuneytið

A-151/2002 Úrskurður frá 15. júlí 2002

ÚRSKURÐUR



Hinn 15. júlí 2002 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-151/2002:

Kæruefni

Hinn 13. júní sl. kærði [A], fréttamaður á Stöð 2, fyrir sína hönd og [B], fréttamanns á Stöð 2, synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dag-setta sama dag, um að veita þeim aðgang að reglum um vopnaburð sem dóms-mála-ráðherra hefur sett með stoð í 3. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

Með bréfi, dagsettu 18. júní sl., var kæran kynnt dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 2. júlí sl. Umsögn ráðuneytisins, dagsett 1. júlí sl., barst 4. júlí sl. og fylgdi henni ljósrit af bréfi ríkislögreglustjóra til annarra lög-reglu-stjóra og Lögregluskóla ríkisins, dagsettu 16. mars 1999, og reglum um vald-beitingu lög-reglu-manna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna, útgefnum 22. febrúar 1999, ásamt skýringum með reglunum.

Málsatvik

Með bréfi, dagsettu 11. júní sl., óskaði [A], fyrir sína hönd og [B], "eftir aðgangi að og afriti af þeim reglum, sem dómsmálaráðherra hefur sett, um vopnaburð með stoð í 3. grein vopnalaga og ná yfir vopnaburð lög-reglu-manna, öryggisvarða og lífvarða, þ. á m. lífvarða erlendra þjóðhöfðingja í heimsókn hér á landi." Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafnaði aðgangi kærenda að umræddum reglum með bréfi, dagsettu 13. júní sl. Synjunin var rökstudd með þeim hætti að reglurnar séu eingöngu birtar innan lögreglunnar og gildi einvörðungu gagn-vart lögreglumönnum og öðrum þeim einstaklingum, sem fara með vopn á grund-velli reglnanna, t.d. erlendum öryggisvörðum. Ráðuneytinu sé rétt og skylt að takmarka aðgang almennings að þessum gögnum, enda krefjist mikilvægir almanna-hagsmunir og öryggi ríkisins þess, sbr. 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í kæru er m.a. komist svo að orði af hálfu kærenda: "Hlýtur að teljast einkennilegt í meira lagi að reglur, sem settar eru samkvæmt landslögum um vopnaburð, jafnvel erlendra gesta hér á landi, sé haldið leyndum. Er þvert á móti eðlilegt að landsmenn geti gert sér grein fyrir þeim reglum, sem gilda um vopnaburð lífvarða, sem kunna að hafa afskipti af borgurum hér."

Á það er bent í umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að í bréfi ríkislögreglu-stjóra til annarra lögreglustjóra og Lögregluskóla ríkisins, dagsettu 16. mars 1999, sé lögð áhersla á að umræddar reglur séu háðar tak-mörkunum á upplýsingarétti vegna mikil-vægra almannahagsmuna og öryggis ríkisins. Ennfremur er tekið fram að það sé skýr afstaða ráðuneytisins að með reglurnar skuli fara skv. 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Síðan segir orðrétt í umsögninni: "Reglur af þessu tagi hafa til þessa ekki verið birtar almenningi og er birting þeirra bundin við lögreglumenn og aðra þá sem fara skulu eftir þessum reglum. Reglurnar fjalla um valdbeitingu og valdbeitingartæki lögreglu, lögregluvopn, skotvopn og önnur vopn og beitingu þeirra. Það er því mat ráðu-neytisins að það stríddi beinlínis gegn almannahagsmunum og öryggi ríkisins ef þessar reglur væru á allra vitorði. Lögð er áhersla á að reglum þessum er fyrst og fremst beint að lögeglumönnum og þær birtar þeim. Ljóst er að ef þessar upplýsingar væru á allra vitorði gæti það haft afdrifaríkar afleiðingar og beinlínis valdið lögreglu-mönnum erfiðleikum og hættu í störfum sínum."

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða
Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Í 1. tölul. 6. gr. laganna segir síðan að heimilt sé "að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almanna-hagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um . . . öryggi ríkisins eða varnarmál".

Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er fyrri hluti þessa töluliðar skýrður á svofelldan hátt: "Með upplýsingum um öryggi ríkisins er eingöngu vísað til hinna veigamestu hagsmuna sem tengjast því hlutverki ríkisvaldsins að tryggja öryggi ríkisins inn á við og út á við. Upplýsingar um skipulag löggæslu, landhelgisgæslu, almannavarna og útlendingaeftirlits geta fallið hér undir . . . Við túlkun á ákvæðinu verður að hafa í huga að því er ætlað að vernda mjög þýðingar-mikla hagsmuni. Ef upplýsingar, þeim tengdar, berast út getur það haft afdrifaríkar afleiðingar. Þess vegna verður að skýra ákvæðið tiltölulega rúmt."

Reglur þær um valdbeitingu lög-reglu-manna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna, sem kærendur óska eftir aðgangi að, hafa verið settar með heimild í 1. mgr. 3. gr. vopnalaga sem er svohljóðandi: "Lög þessi gilda ekki um vopn, tæki og efni skv. 1. og 2. gr. sem eru í eigu Landhelgisgæslu, lögreglu, fangelsa eða erlendra lögreglu-manna eða öryggisvarða sem starfa undir stjórn lögreglu. Ráðherra setur um þau sérstakar reglur."

Eins og fram kemur í umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, hafa umræddar reglur einungis verið birtar lögreglumönnum og öðrum þeim sem fara eiga eftir reglunum. Eftir sem áður er þeim einstaklingum að sjálfsögðu skylt að hlíta fyrir-mælum lögreglulaga nr. 90/1996 og annarra laga, svo og stjórnvaldsfyrirmæla, þar sem mælt er fyrir um samskipti lögreglumanna og annarra þeirra, sem fara með lögreglu-vald, við almenna borgara.

Úrskurðarnefnd fellst á þau rök dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að það gæti stofnað öryggi ríkisins í hættu ef vitneskja um vopnaburð lögreglu og meðferð hennar og notkun á vopnum og öðrum valdbeitingartækjum væri á allra vitorði. Slík vitneskja gæti jafnframt valdið lög-reglu-mönnum erfiðleikum og hættu í störfum sínum.

Með vísun til alls þess, sem að framan greinir, verður að telja að heimilt sé, í þágu öryggis ríkisins, að takmarka aðgang almennings að umræddum reglum, sbr. 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Ber þar af leiðandi að stað-festa hina kærðu ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að synja kærendum um aðgang að reglunum.


Úrskurðarorð:

Staðfest er sú ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að synja kærendum, [A] og [B], um aðgang að reglum um valdbeitingu lög-reglu-manna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna, útgefnum 22. febrúar 1999.






Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta