Hoppa yfir valmynd
22. október 2002 Forsætisráðuneytið

A-153/2002 Úrskurður frá 22. október 2002

ÚRSKURÐUR



Hinn 22. október 2002 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-153/2002:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 28. ágúst sl., framsendi Persónuvernd afrit af tölvubréfi frá [A], til heimilis að [...] í [...], dagsettu 26. ágúst sl., þar sem kærð er synjun landlæknis um að veita honum aðgang að bréfi hans til [B], yfirlæknis, dagsettu 8. júní 1999, um starfsleyfi til handa kínverskum læknis.

Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu 30. ágúst sl., var kæran kynnt landlækni og honum veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 13. september sl. Erindi þetta var ítrekað með öðru bréfi, dagsettu 27. september sl., og fyrri frestur framlengdur til 3. október sl. Umsögn landlæknis, dagsett 1. október sl., barst nefndinni hinn 4. október sl., ásamt ljósriti af umbeðnu bréfi.

Málsatvik

Í fyrrgreindu tölvubréfi til Persónuverndar kvaðst kærandi hafa óskað eftir því að fá að sjá bréf, ritað af embætti landlæknis, dagsett 8. júní 1999, "til [B] yfirlæknis í [...]" varðandi starfsleyfi kínversks læknis. Hafi honum verið synjað um að fá afrit af bréfinu.

Samkvæmt umsögn landlæknisembættisins til úrskurðarnefndar, dagsettri 1. október sl., kynnti [B] yfirlæknir [...] í [...] hugmyndir um að fá kínverskan lækni til starfa hér á landi í kynningar skyni og leitaði eftir sjónarmiðum embættisins til þess með bréfi, dagsettu 17. maí 1999. Í svarbréfi landlæknis, dagsettu 8. júní það ár, hafi hann tekið fram að sér þætti hugmyndin áhugaverð og að hann styddi hana svo framarlega sem "þetta sé gert einfarið á faglegri ábyrgð lækna stofnunarinnar". Í umsögninni segir síðan orðrétt: "Það er skilningur landlæknisembættisins að hér hafi verið um einstakt mál að ræða og á engan hátt fordæmisgefandi." Á þeirri forsendu hafi kæranda verið synjað um aðgang að umræddu bréfi.

Niðurstaða

Aðilar máls þessa hafa ekki látið úrskurðarnefnd í té nein gögn um samskipti sín, áður en kærandi sendi tölvubréf sitt til Persónuverndar. Þar eð landlæknir hefur ekki gert athugasemdir við staðhæfingar kæranda um málsatvik eða mótmælt því, að litið verði á erindi hans sem kæru á synjun um að veita honum aðgang að hinu umbeðna bréfi, verður leyst úr málinu eins og venjulegu kærumáli á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í 3. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr." Í bréfi því, sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að, er ekki að finna neinar upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga eða lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari skv. 5. gr. upplýsingalaga. Landlæknir hefur heldur ekki bent á önnur ákvæði í 4. eða 6. gr. laganna, sem aftra því að kærandi fái aðgang að bréfinu, en það eitt að afgreiðsla máls hafi verið afbrigðileg eða óvenjuleg af hálfu stjórnvalds getur ekki staðið því í vegi.

Með skírskotun til þessa ber landlækni að veita kæranda aðgang að umræddu bréfi.

Úrskurðarorð:

Landlækni er skylt að veita kæranda, [A], aðgang að bréfi til [B], yfirlæknis, dagsettu 8. júní 1999, varðandi starfsleyfi til handa kínverskum lækni.


Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta