Samkomulag um rekstur Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna
Ráðgjafarstofan var að frumkvæði félagsmálaráðherra sett á laggirnar í febrúar 1996 sem tilraunverkefni á vegum 17 aðila. Frá því að Ráðgjafarstofan hóf starfsemi sína og til dagsins í dag hafa rúmlega 3600 fjölskyldur fengið fjárhagsráðgjöf ásamt tillögum að lausn til viðkomandi aðila. Auk þess hefur þúsundum verið liðsinnt með ráðleggingum með símaviðtölum.
Á þeim tíma sem liðinn er hefur orðið breyting á fjölda samstarfsaðila og jafnframt hafa Íbúðalánasjóður, Reykjavíkurborg og lánastofnanir aukið þátttöku sína og styrk í samstarfinu. Ráðgjafarstofan hefur unnið mikilvægt starf í þágu fjölskyldna sem af ýmsum ástæðum hafa átt erfitt með að standa við skuldbindingar sínar og sjá sér farborða. Árangurinn grundvallast á öflugu starfsfólki og farsælu samstarfi þeirra aðila sem eru bakhjarlar starfseminnar og þeirra úrræða sem standa til boða.
Ráðgjafarstofan hóf starfsemi sína 1996. Á starfstíma Ráðgjafarstofunnar hafa orðið breytingar jafnt á eðli og einkennum vandamála sem og úrræðum til lausnar. Reynslan af starfi Ráðgjafarstofunnar hefur komið að góðu gagni varðandi tillögur um úrræði og forvarnastarf. Á fyrstu árunum var vandi vegna ábyrgðarskuldbindinga þriðja aðila tíður á borði ráðgjafanna. Í kjölfar ábendinga Ráðgjafarstofunnar gerðu stjórnvöld, lánastofnanir og Neytendasamtökin með sér samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Þann 1. nóvember 2001 var undirritað endurnýjað og endurbætt samkomulag um notkun ábyrgðaskuldbindinga. Á árinu var einnig gerð breyting á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, sem auka úrræði Íbúðalánasjóðs til að leysa vanda fólks sem komið er í greiðsluvandræði. Þá var samþykkt á Alþingi á árinu að afnema skattskyldu húsaleigubóta frá og með 1. janúar 2002, en sú breyting mun lækka húsnæðiskostnað láglaunafólks.
Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur unnið brautryðjendastarf á mörgum sviðum. Eitt af því tengist því innleiðingu viðmiðunar við útgjöld fjölskyldunnar sem grundvöll mats á greiðslugetu fjölskyldunnar. Viðmiðunartölur Ráðgjafarstofu hafa verið notaðar mjög víða og hafa sannað gildi sitt. Heimasíða Ráðgjafarstofunnar er ; http://www.rad.is