Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 575/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 575/2022

Miðvikudaginn 22. febrúar 2023

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, móttekinni 7. desember 2022, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 10. nóvember 2022 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 16. júlí 2021, vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á B þann XX. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 10. nóvember 2022, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 7. desember 2022. Með bréfi, dags. 9. desember 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 14. desember 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. janúar 2023, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send kæranda til kynningar. Engar athugasemdir bárust.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 10. nóvember 2022 verði felld úr gildi og að bótaskylda úr sjúklingatryggingu verði viðurkennd vegna rangrar greiningar læknis þann X í kjölfar umferðarslyss þann sama dag.

Í kæru er greint frá því að þann X hafi kærandi verið ökumaður á C. Kærandi hafi […] og hlotið við það áverka. Þann dag hafi kærandi leitað á B vegna verks í hendinni. Í skráningu frá þeim degi komi fram að kærandi hafi fengið slink á hendi þegar hann hafi ekið út af veginum. Við skoðun hafi sést stórt hringlaga brunasár á miðju handabaki sem kærandi telji vera eftir stýrið. Þá hafi verið verkur við hálfa flexion og extension. Álit læknis hafi verið að um væri að ræða tognun á úlnlið og að kærandi væri óbrotinn.

Vegna viðvarandi verks í úlnliðnum hafi kærandi leitað til læknis þann X. Þar hafi komið fram að frá umferðarslysinu væri kærandi búinn að vera með mikla verki í úlnliðnum. Í kjölfarið hafi verið send beiðni í segulómun af úlnliðnum sem framkvæmd hafi verið þann X. Í skráningu frá þeim degi segi: „Í ljós kom mikil beinóregla proximalt í os scaphoideum með cystulíkum breytingum en einnig miklum beinmergsbjúg og er hér sterkur grunur um brot proximalt við miðju os scaphiodeum. Þegar þetta er lesið hefur það verið staðfest með TS.“ Niðurstaða segulómunar: „Þannig scaphoid brot með miklum beinmergsbjúg/ beincontusion og cystumyndunum. Vísbendingar eru um byrjanda osteonescrosuþróun proximalt í scaphoideum.“

Sama dag hafi verið gerð TS af úlnlið sem hafi sýnt brot sem hafi legið skáhalt í gegnum scaphoideum proximalt við miðhlutann og inn í proximal pólinn. Þá segi jafnframt í skráningunni: „Diastasi brotsins er um 1-2 mm og aðlægt brotfletinum eru cystulíkar beineyðingazonur, sú stærri liggur í distala brothlutanum og mælist um 6 mm. Þá sést aukin beinþéttni aðlægt brotinu og einkum í proximal brothlutanum sem vekur grun um þróun í átt að osteonecrosu.“

Í kjölfarið hafi verið send tilvísun á Landspítala fyrir mat hjá handaskurðlæknum. Mat hafi farið fram þann X af D handaskurðlækni en við skoðun hafi kærandi verið aumur yfir bátsbeini yfir anatomic snuff box og þá hafi verið skert hreyfigeta um úlnliðinn í flexio og extentio. Læknirinn hafi ráðlagt aðgerð. Þann X hafi E framkvæmt aðgerð á úlnlið kæranda.

Önnur aðgerð hafi síðan verið framkvæmd þann X eftir að fyrri aðgerð hafi ekki leitt til gróanda. Í nýjasta röntgensvari, dags. X, komi fram að brotið hafi enn ekki gróið eftir enduraðgerð. Kærandi hafi á nýjan leik leitað á Landspítalann þann X og hafi myndataka, sem framkvæmd hafi verið þar, sýnt að brotið væri enn ekki gróið. Enn þann dag í dag sé kærandi að glíma við afleiðingar brotsins og sé fyrirhuguð endurkoma í X, þ.e. ári frá enduraðgerð, til að meta stöðuna á nýjan leik.

Umsókn um bætur úr sjúklingatryggingu hafi verið send til Sjúkratrygginga Íslands þann 16. júlí 2021. Með ákvörðun, dags. 10. nóvember 2022, hafi stofnunin hafnað greiðslu bóta. Kærandi geti ekki unað framangreindri niðurstöðu og kæri hana því og krefjist þess að bótaskylda úr sjúklingatryggingu verði viðurkennd vegna rangrar greiningar þann X.

Kærandi byggi á því að mistök hafi átt sér stað við greiningu á slysdegi þann X á B. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi leitað þangað eftir umferðarslys og þá aðallega vegna slinks á hendi. Við skoðun hafi kærandi verið með stórt hringlaga brunasár á miðju handabaki sem hann telji sjálfur vera eftir stýrið. Þá hafi verið verkur við hálfa flexion og extension. Greining læknis hafi verið tognun á úlnlið.

Kærandi byggi á því að miðað við sögu hans, þ.e. að hann hafi ekið […], og einnig einkenni, kvartanir og áverka hefði átt að framkvæma röntgenrannsókn. Þar sem engin rannsókn hafi verið framkvæmd hafi brotið ekki uppgötvast fyrr en rúmu ári síðar. Sökum þess séu, samkvæmt fyrirliggjandi læknisfræðilegum gögnum, töluverðir fylgikvillar til staðar og afleiðingar meiri en búast megi við af slíku broti. Þá er bent á að brot á bátsbeini séu algengust allra brota á úlnliðsbeinum.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 skuli greiða bætur ef ætla megi að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

Þá komi fram í 1. mgr. 3. gr. sömu laga að greiða skuli bætur fyrir tjón sem hljótist af því að sjúkdómsgreining sé ekki rétt í tilvikum sem nefnd séu í 1. eða 2. tölul. 2. gr. laganna.

Í athugasemdum um 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu komi fram að tjón skuli hafa hlotist af meðferð eins og greini í 1. gr. frumvarpsins. Hafi sjúkdómur dregist á langinn vegna þess að sjúklingur hafi ekki fengið viðeigandi meðferð, til dæmis af því að sjúkdómsgreining hafi verið röng, geti sjúklingur átt rétt á bótum samkvæmt 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. Við mat á því hvort nauðsynlegt orsakasamband sé á milli tjóns og rannsóknar eða meðferðar sjúklings sé nægilegt að sýnt sé fram á að tjón hafi að öllum líkindum hlotist af þessari rannsókn eða meðferð, sbr. upphafsákvæði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Samkvæmt þessu taki frumvarpið til tjóns sjúklings leiði könnun á málsatvikum í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af rannsókn eða meðferð en öðrum orsökum, til dæmis fylgikvilla sem upp geti komið án þess að meðferð sjúklingsins hafi á það áhrif. Verði engu slegið föstu um orsök tjóns verði að vega og meta allar hugsanlegar orsakir. Verði niðurstaðan sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi. Sama gildi verði ekkert verður sagt um hver sé líklegasta orsök tjóns.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skuli greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars séu talin röng meðferð. Þetta feli í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði F, dags. 17. nóvember 2021, sé um að ræða bátsbeinsbrot þar sem klínískt mat hafi ekki leitt til myndatöku á slysdegi. Þannig hafi ekki verið gefin ákjósanleg meðferð frá upphafi sem hafi valdið því að brotið hafi ekki gróið og kærandi hafi þurft að undirgangast aðgerð til að lagfæra það sem hægt væri að lagfæra. Af öllu framangreindu telji kærandi það ljóst að hann hafi fengið ófullnægjandi meðhöndlun á B og að lög um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 taki þannig til þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna rangrar greiningar.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lúti að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið taki til allra mistaka sem verði við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Orðið mistök, samkvæmt frumvarpinu, sé notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkist í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr., eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segi enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem hefði mátt komast hjá með meiri aðgæslu.

Máli sínu til frekari rökstuðnings vísi kærandi til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1560/2012. Í því máli hafi íslenska ríkinu verið gert að greiða tjónþola bætur vegna rangrar greiningar á bátbeinsbroti eftir slys. Dómurinn hafi metið það svo að læknirinn sem hafi skoðað tjónþola við fyrstu komu hefði átt að framkvæma röntgenrannsókn en þar sem það hafi ekki verið gert hafi dómurinn talið að læknirinn hafi sýnt af sér saknæmt gáleysi. Sökum þess hafi dómurinn talið að bótaábyrgð vegna mistakanna lægi hjá íslenska ríkinu.

Á því sé byggt að kærandi hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni vegna mistaka við greiningu á áverka við skoðun á slysdegi þann X. Með vísan til alls framangreinds krefjist kærandi þess að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 10. nóvember 2022 verði felld úr gildi og bótaskylda vegna atviksins staðfest.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands þann 19. júlí 2021. Sótt hafi verið um bætur vegna meðferðar sem hafi farið fram á B þann X. Aflað hafi verið gagna frá meðferðaraðilum og málið í framhaldinu verið yfirfarið af lækni og lögfræðingum stofnunarinnar. Með ákvörðun, dags. 10. nóvember 2022, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið synjað á þeim grundvelli að ekki væri um að ræða bótaskylt atvik með vísan til 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Í hinni kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands komi meðal annars fram að við ákvörðun um hvort einstaklingur eigi rétt til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu sé litið til þess hvort tjón megi rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að meðferð sjúklings, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðar og/eða áhalda, hvort beita hefði mátt annarri meðferðaraðferð eða -tækni eða hvort heilsutjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem ósanngjarnt þyki að sjúklingur þoli bótalaust. Fylgikvilli þurfi að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur svo að skilyrði séu fyrir greiðslu bóta.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands verði af gögnum málsins ekki annað séð en að sú skoðun sem kærandi hafi fengið á B í tengslum við úlnliðsbrot þann X hafi verið hagað í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Vakthafandi læknir, sem hafi skoðað kæranda á slysdegi, hafi lýst nákvæmri skoðun, hafi farið yfir úlnliðinn, þreifað hann og lýst því að enginn grunur væri um brot. Þá hafi hann gefið kæranda ráðleggingar og útskrifað hann. Þá hafi verið tekin upplýst ákvörðun um að mynda ekki úlnliðinn þar sem einkenni kæranda hafi verið væg. Að mati Sjúkratrygginga Íslands verði ekki fundið að framangreindri meðferð. Skoðun læknis hafi verið fullnægjandi þótt brot hafi síðar greinst í úlnliðnum.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé jafnframt rétt að benda á að leggja verði þá ábyrgð á slasaðan einstakling að hann leiti skoðunar séu einkenni viðvarandi. Af gögnum málsins verði ekki séð að kærandi hafi gert svo þótt hann hafi hitt lækna í nokkur skipti eftir framangreint atvik. Eðli málsins samkvæmt sé ekki unnt að endurskoða greiningar sé ekki leitað læknis vegna viðvarandi einkenna.

Það sé niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands að rétt hafi verið staðið að meðferð kæranda á B þann X. Með vísan til þessa séu skilyrði 1.-4. tölul. 2. gr. laganna ekki uppfyllt.

Þá segir að ný gögn sem hafi borist með kæru breyti ekki niðurstöðu stofnunarinnar í málinu. Í kæru sé vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1560/2012 þar sem íslenska ríkinu hafi verið gert að greiða tjónþola bætur vegna rangrar greiningar á bátbeinsbroti eftir slys. Sjúkratryggingar Íslands fallist ekki á að um sambærileg atvik sé að ræða. Ljóst sé að í framangreindu dómsmáli sé alvarlegum áverka og einkennum lýst í fyrstu komu tjónþola til læknis. Í tilviki kæranda hafi hins vegar verið tekin upplýst ákvörðun af lækni um að mynda ekki úlnlið þar sem einkenni hafi verið væg. Þá ítreki Sjúkratryggingar Íslands að leggja verði þá ábyrgð á slasaðan einstakling að leita aftur læknisskoðunar séu einkenni viðvarandi en án þess sé ekki unnt að endurskoða greiningar.

Í ljósi þess að ekki verði annað séð en að afstaða Sjúkratrygginga Íslands til kæruefnis hafi nú þegar komið fram sé ekki efni til að svara kæru efnislega með frekari hætti. Sjúkratryggingar Íslands vísi því til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í gögnum málsins.

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að afleiðingar meðferðar á B þann X séu bótaskyldar samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hljótist af sjúkdómi sem sjúklingur sé haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkist í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu sína um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Hann telur að framkvæma hefði átt röntgenrannsókn á B þegar hann leitaði þangað á slysdegi vegna verks í hendi. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi úlnliðsbrot kæranda ekki greinst fyrr en rúmu ári síðar og enn séu töluverðir fylgikvillar til staðar og afleiðingar meiri en búast hafi mátt við af slíku broti.

Í greinargerð meðferðaraðila, F, læknis á B, dags. 6. október 2021, segir:

„Þann X um kl. X á C keyrði A […]. Eftir það verkur í vi úlnið. Metinn af læknakandidat á læknavakt á B samdægurs. Kliniskt mat: Ekki bólga eða mar kringum úlnlið. Getur hreyft úlnlið í allar áttir en verkur við hálfa flexion og extension. Ekki þreyfieymsli yfir úlnlið, metacarpals eða endilöngum framhandlegg. Distal status ok. Talinn otgnaður og ekki pöntuð rtg-mynd ea önnur myndrannsókn. Var að sögn ónýtur í úlnliðnum og gat ekkert notað úlnliðinn í 10 daga eða svo. Eftir það verkir, enn slæmur, minnkuð hreyfigeta, verkir. Ekki enn farið í […] ári síðar.

Leitaði næst læknis v. áverkans X, þá send tilvísun í segulómun.

MRI og TS gerð á G X sýndu beinóreglu og beincontusion með cystulíku myndunum í os scaphoideum. Brot sást sem liggur skáhallt í gegnum scaphoideum proximalt við miðhlutann og inn í proximal pólinn með diastasa um 1-2 mm. Einnig grunur um osteonecrosu.

Vísað til handarskurðlækna á LSH, metinn af D bæklunarlækni þ. X. Við skoðun var hann aumur yfir bátsbeini yvir anatomic snuff box, skert hreyfgeta um úlnliðinn í flexio og extentio. D ráðlagði að gerð yrði aðgerð. Sú aðgerð hefur ekki verið gerð enn þar sem sjúklingur vildi fresta aðgerð fram til X.

[…]

Þannig liggur fyrir bátsbeinsbrot þar sem klíniskt mat leiddi ekki til myndatöku á slysdegi. Sjúklingur leitaði ekki eftir áliti að nýju fyrr en rúmu ári eftir áverkanna. Þannig er ljóst að ákjósanleg meðferð frá upphafi var ekki gefin, með þeim afleiðingum að brotið greri ekki, og aðgerð er talin nauðsynleg til að lagfæra það sem hægt er að lagfæra.

Ekki liggur fyrir að hann hafi verið frá vinnu vegna slyssins, engin vottorð verið gerð þar að lútandi hér. Hefðbundin og rétt meðferð í upphafi hefði verið gipsmeðferð í amk 4-6 (jafnvel 8) vikur, og þá ekki færni til vinnu sem krefst álags á hendur eða mikillar útiveru í vherskyns veðri. Reikna má með óvinnufærni til erfiðisstarfa eftir aðgerð þá er fyrir liggur.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Fyrir liggur að í slysinu þann X hlaut kærandi áverka á úlnlið. Gerð var nákvæm klínísk skoðun og hann talinn tognaður. Hann leitaði næst til læknis vegna úlnliðs rúmlega ári síðar, eða þann X, og lýsti því meðal annars að hann hefði verið ónýtur í úlnliðnum í 10 daga eftir slysið. Í kjölfar þess greindist brot í Scaphoideum. Ljóst er að framangreint ferli er ekki óvanalegt, þ.e. að bátsbeinsbrot sé ekki greint í upphafi jafnvel þótt röntgenmynd hafi verið tekin þá. Úrskurðarnefnd velferðarmála gerir því ekki athugasemd við skoðun á kæranda sem fór fram X. Þá liggur fyrir að kærandi leitaði ekki frekari skoðunar vegna áverkans um langt skeið. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að meðferð hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Verður því ekki fallist á að bótaskylda sé til staðar á grundvelli 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Sjúkratrygginga Íslands á bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta