Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nr. 88/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 88/2018

Miðvikudaginn 29. ágúst 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. mars 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna ellilífeyris og uppbótar vegna reksturs bifreiðar. Þá gerir kærandi athugasemdir við skattalega meðhöndlun greiðslnanna.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 28. ágúst 2017, var kæranda tilkynnt um að umsókn hans um ellilífeyri hafi verið samþykkt frá 1. ágúst 2015. Kærandi sótti um uppbót vegna reksturs bifreiðar með umsókn, dags. 28. nóvember 2017. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 13. desember 2017, var umsókn kæranda samþykkt frá 1. desember 2017. Sú ákvörðun var endurskoðuð undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála og var kæranda tilkynnt með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 29. maí 2018, að umsóknin hefði verið samþykkt frá 1. desember 2015.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. mars 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. mars 2018, var kæranda tilkynnt að kæra á ákvörðun, dags. 28. ágúst 2017, hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Með símtölum og tölvubréfi 21. og 22. mars 2018 greindi umboðsmaður kæranda frá því að hún hefði enga afsökun fyrir því að kæra hefði borist of seint en benti á að kæra lyti einnig að ákvörðun Tryggingastofnunar um upphafstíma uppbótar vegna reksturs bifreiðar, dags. 13. desember 2017. Með bréfi, dags. 12. apríl 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna ákvörðunar stofnunarinnar um gildistíma uppbótar vegna reksturs bifreiðar. Með greinargerð, dags. 17. maí 2018, krafðist Tryggingastofnun frávísunar málsins. Greinargerðin var kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. júní 2018. Með bréfi, dags. 15. júní 2018, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála á ný eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Með bréfi, dags. 26. júní 2018, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 27. júní 2018. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda með tölvubréfi 11. júlí 2018 og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að fá greiðslur ellilífeyris og uppbótar vegna reksturs bifreiðar lengra aftur í tímann en ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins kveða á um. Þá fer kærandi fram á endurgreiðslu þess skatts sem dreginn hafi verið af greiðslunum vegna tímabilsins 1. ágúst 2015 til 31. desember 2016. Einnig er gerð athugasemd við að kærandi megi ekki nýta fullan persónuafslátt vegna lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun þar sem hann hafi verið með búsetu á Íslandi frá því X.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi verrið búsettur í B frá X þar til hann hafi flutt aftur til Íslands í X. Kærandi hafi sótt um ellilífeyri til Tryggingastofnunar ríkisins í júlí/ágúst 2017 og afgreiðsla Tryggingastofnunar hafi verið sú að kærandi fengi ellilífeyri tvö ár aftur í tímann frá umsóknardegi, þ.e. frá 1. ágúst 2015. Óskað sé eftir greiðslum lengra aftur í tímann. Kæranda hafi ekki borist upplýsingar til B, eftir að hann hafi byrjað töku lífeyris þar, um rétt hans til greiðslu lífeyris frá Íslandi í samræmi við búseturétt. Hann hafi því ekki fengið greiddan lífeyri frá 67 ára aldri til X ára aldurs eða í samtals X ár.

Í kæru gerir kærandi jafnframt athugasemdir við skattalega meðhöndlun greiðslnanna frá Tryggingastofnun.

Í athugasemdum kæranda segir að í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð komi fram að heimilt sé að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Spurt er hvort þetta heimili ekki greiðslur lengra aftur í tímann en tvö ár.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að óskað hafi verið eftir greinargerð stofnunarinnar vegna ákvörðunar um gildistíma uppbótar vegna reksturs bifreiðar frá 13. desember 2017. Eftir að farið hafi verið yfir gögn málsins hafi stofnunin breytt fyrri ákvörðun sinni og fallist á að meta hreyfihömlun hans til 1. desember 2015, eða eins langt aftur í tímann og heimilt sé. Þar sem Tryggingastofnun hafi tekið nýja ákvörðun í máli kæranda þá óski stofnunin eftir því að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd að svo stöddu.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar segir að 28. nóvember 2017 hafi kærandi sótt um uppbót vegna reksturs á bifreið samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Umsóknin hafi verið samþykkt með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 13. desember 2017. Gildistími hreyfihömlunarmatsins hafi verið frá 1. desember 2017 og það hafi verið varanlegt.

Þann 12. apríl 2018 hafi Tryggingastofnun borist kæra frá kæranda. Kæruefni hafi verið fjölbreytt en eingöngu hafi verið óskað eftir efnislegri greinargerð er sneri að ákvörðun um uppbót vegna reksturs bifreiðar. Kærandi hafi verið ósáttur við að fá hana ekki lengra aftur í tímann. 

Við meðferð kærumálsins hafi stofnunin farið yfir gögn málsins og það hafi verið mat stofnunarinnar að kærandi hafi uppfyllt skilyrði um hreyfihömlun aftur í tímann. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 29. maí 2018, hafi fyrri ákvörðun Tryggingastofnunar verið breytt og hreyfihömlunarmatið látið gilda frá 1. desember 2015, eða eins langt aftur og Tryggingastofnun sé heimilt að greiða uppbót til reksturs bifreiðar aftur í tímann.

Þann 15. júní 2018 hafi Tryggingastofnun borist erindi frá úrskurðarnefnd þar sem óskað hafi verið eftir efnislegri greinargerð sökum þess að ekki hafi verið orðið við ítrustu kröfum kæranda varðandi afturvirkni greiðslna uppbótar vegna reksturs bifreiðar. 

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- og örorkulífeyrisþegar og örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna.

Í 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009 er skilgreint hvað felist í hugtakinu hreyfihömlun samkvæmt reglugerðinni. Þar segir að með líkamlegri hreyfihömlun sé átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerði verulega færni til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar sé fyrst og fremst um að ræða skv. 3. mgr.: 

„1. lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar,

2. mæði vegna hjarta- eða lungasjúkdóma, 

3. annað sambærilegt.“

Í 1.–3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009 komi meðal annars fram að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar ef bótaþega sé nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar, en 2. og 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar hljóða svo:

„Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. 

2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi fyrir.

3. Mat á ökuhæfni liggur fyrir.

Við mat á umsóknum skal fyrst og fremst líta á bifreiðina sem hjálpartæki hreyfi-hamlaðra og hvort umsækjandi þurfi bifreið til að komast ferða sinna, s.s. til vinnu, í skóla, sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.“

Í 52. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og að umsóknir skuli vera á þar til gerðum eyðublöðum. Fram komi í 4. mgr. 53. gr. sömu laga að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn hafi borist.

Þá segi í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð, eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 88/2015, að einnig skuli beita V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laga þessara.

Ekki sé deilt um hreyfihömlun kæranda heldur eingöngu frá hvaða tíma greiðslur uppbótar vegna reksturs bifreiðar eigi að hefjast. 

Réttindi og skilyrði  greiðslna uppbótar til reksturs bifreiðar séu bundin í lögum og lagatúlkun.  Í 1. mgr. 52. gr. og 4. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar komi fram að það þurfi að sækja um bætur skriflega og að ekki sé heimilt að greiða lengra aftur í tímann en tvö ár.  

Samkvæmt skýru og afdráttarlausu orðalagi 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar skulu bætur aldrei úrskurðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berist stofnuninni. Með framangreindri afgreiðslu á umsókn kæranda um greiðslu uppbótar til reksturs bifreiðar telji Tryggingastofnun að komið sé eins langt til móts við kröfur hans og leyfilegt sé lögum samkvæmt.  Ekki sé til staðar lagaheimild til að greiða kæranda uppbót vegna reksturs bifreiðar lengra aftur í tímann. Úrskurðarnefnd hafi ítrekað staðfest þessa túlkun Tryggingastofnunar, sbr. meðal annars mál nr. 110/2002, 56/2009, 286/2015, 312/2015, 360/2015, 126/2016, 127/2016 og 109/2017. 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. ágúst 2017, þar sem umsókn kæranda um ellilífeyri var samþykkt frá 1. ágúst 2015 og ákvörðun stofnunarinnar frá 29. maí 2018 þar sem umsókn kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar var samþykkt frá 1. desember 2015. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun sé heimilt að greiða umræddar greiðslur lengra aftur í tímann. Þá gerir kærandi einnig athugasemdir við skattalega meðhöndlun greiðslnanna.

A. Kærufrestur

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu rúmlega sjö mánuðir frá því að kæranda var tilkynnt um afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um ellilífeyri með bréfi, dags. 28. ágúst 2017, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. mars 2018. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. ágúst 2017 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. mars 2018, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í málinu. Með símtali 21. mars 2018 greindi umboðsmaður kæranda frá því að hún hefði enga afsökun fyrir því að kæra hefði borist of seint.

Að framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé afsakanlegt að kæra á framangreindri ákvörðun frá 28. ágúst 2017 hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að taka þennan hluta kæru til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er þeim hluta kæru, er varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. ágúst 2017, vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

B. Skattaleg meðhöndlun greiðslna

Í kæru fer kærandi fram á endurgreiðslu þess skatts sem dreginn hafi verið af greiðslunum frá Tryggingastofnun vegna tímabilsins 1. ágúst 2015 til 31. desember 2016. Einnig er gerð athugasemd við að kærandi megi ekki nýta fullan persónuafslátt vegna lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun þar sem hann hafi verið með búsetu á Íslandi frá því X.

Í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu.

Ákvörðun um skattalega meðhöndlun greiðslna kæranda frá Tryggingastofnun var ekki tekin á grundvelli laga um almannatryggingar. Ágreiningsefnið á því ekki undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Með hliðsjón af framangreindu er þeim hluta kæru er varðar skattalega meðhöndlun greiðslna einnig vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Bent er á að um er að ræða ágreiningsefni sem fellur undir valdsvið skattyfirvalda.

C. Frávísunarkrafa Tryggingastofnunar ríkisins

Tryggingastofnun óskaði eftir því að kæru yrði vísað frá með þeim rökum að fallist hefði verið á að greiða kæranda uppbót vegna reksturs bifreiðar frá 1. desember 2015 eða eins langt aftur í tímann og heimilt sé. Í símtali 15. júní 2018 greindi umboðsmaður kæranda frá því að kærandi krefðist þess að fá greiðslur uppbótar lengra aftur í tímann. Þar sem ágreiningur var enn til staðar í málinu féllst úrskurðarnefnd velferðarmála ekki á frávísunarkröfu Tryggingastofnunar ríkisins, enda er réttur kæranda til að fá ákvörðunina endurskoðaða af úrskurðarnefndinni skýr, sbr. 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, 13. gr. laga um almannatryggingar og 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála.

D. Upphafstími uppbótar vegna reksturs bifreiðar

Um uppbót vegna reksturs bifreiðar er fjallað í 10. gr. laga um félagslega aðstoð og 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Ákvæði 1. og 2. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð hljóðar svo:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Sama gildir um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar.“

Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laga um félagslega aðstoð.

Við úrlausn þessa máls lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess sem greinir í 1. málsl. 1. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar en ákvæðið er í VI. kafla laganna. Þar segir svo:

„Sækja skal um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögum þessum.“

Samkvæmt framangreindu er uppbót vegna reksturs bifreiðar ekki sjálfkrafa greidd af Tryggingastofnun ríkisins heldur verður að sækja sérstaklega um slíkar greiðslur.

Um upphafstíma greiðslna er fjallað í 53. gr. laga um almannatryggingar. Svohljóðandi er 1. og 4. mgr. ákvæðisins:

„Réttur til bóta stofnast frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til bótanna og skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Bætur falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.

[…]

Bætur skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.“

Af framangreindu ákvæði verður ráðið að ekki sé heimilt að ákvarða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn til að leggja mat á bótarétt og fjárhæð bóta berast Tryggingastofnun ríkisins. Þá skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Kærandi sótti um uppbót vegna reksturs bifreiðar með umsókn, dags. 28. nóvember 2017. Tryggingastofnun ákvarðaði honum greiðslur frá 1. desember 2015. Kærandi fékk því greidda uppbót vegna reksturs bifreiðar tvö ár aftur í tímann, þ.e. miðað við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að bótaréttur var fyrir hendi, í samræmi við 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Engar heimildir eru í lögum til þess að greiða bætur lengra aftur í tímann. Heimild Tryggingastofnunar í 10. gr. laga um félagslega aðstoð til að veita styrk til bifreiðakaupa á fimm ára fresti, sem kærandi vísar til í athugasemdum sínum, á ekki við um upphafstíma greiðslna uppbótar vegna reksturs bifreiðar.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. maí 2018 um upphafstíma greiðslna uppbótar vegna reksturs bifreiðar staðfest. Þeim hluta kæru er varðar ákvörðun Tryggingastofnunar frá 28. ágúst 2017 um upphafstíma greiðslna ellilífeyris og athugasemdir um skattalega meðhöndlun greiðslna er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. maí 2018 um upphafstíma greiðslna uppbótar vegna reksturs bifreiðar til A, er staðfest. Þeim hluta kæru er varðar ákvörðun Tryggingastofnunar frá 28. ágúst 2017 um upphafstíma greiðslna ellilífeyris og athugasemdir um skattalega meðhöndlun greiðslna er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta