Hoppa yfir valmynd
7. ágúst 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 194/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 7. ágúst 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 194/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20020052

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 25. febrúar 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Indlands (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. febrúar 2020, um að synja honum vegabréfsáritun til Íslands.Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

 Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 30. janúar 2020, óskaði kærandi eftir vegabréfsáritun til Íslands í 15 daga hjá sendiráði Íslands í Nýju-Delí í Indlandi. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. febrúar 2020, og þann 25. febrúar sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála en kæru fylgdu athugasemdir og fylgigögn.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnun kemur fram að umsókn kæranda hafi verið synjað þar sem hann hafi ekki getað fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar og að rökstudd ástæða hafi verið til að draga í efa ásetning hans til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkja Schengen-samstarfsins áður en vegabréfsáritunin sem sótt var um rynni út.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að þrátt fyrir það sem komi fram í niðurstöðu Útlendingastofnunar þá hafi hann ekki í hyggju að dvelja lengur á yfirráðasvæði aðildarríkjanna og að hann sé aðeins að koma hingað til lands sem ferðamaður. Þá eigi kærandi fjölskyldu í heimaríki og hafi því engin áform um að verða eftir hér á landi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 80/2016 ásamt reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 1160/2010, með síðari breytingum, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga þurfa útlendingar að hafa vegabréfsáritun til að koma hingað til lands, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Ríkisborgarar Indlands þurfa vegabréfsáritun til Íslands. Í 6. mgr. 20. gr. laga um útlendinga koma fram skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar og í 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir er tilgreint hvenær synja skuli um vegabréfsáritun. Heimilt er skv. fyrrgreindri 6. mgr. 20. gr. að veita útlendingi vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu ef grunnskilyrðum a - h liða sömu greinar er fullnægt.

Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. útlendingalaga skal vegabréfsáritun ekki veitt ef ástæða er til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar útlendings hingað til lands eða réttmæti upplýsinga sem hann hefur veitt. Er þessi regla áréttuð í 8. mgr. ákvæðisins en þar kemur fram að við mat á umsókn um vegabréfsáritun skuli auk þjóðernis taka tillit til félagslegrar stöðu og hættu á að útlendingur dvelji lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt.

Með aðild að Schengen-samstarfinu og undirritun Brussel-samningsins þann 18. maí 1999 tókust íslensk stjórnvöld á hendur skyldu til að fylgja samræmdum reglum um útgáfu vegabréfsáritana. Hafa stjórnvöld sem annast afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritanir mótað tilteknar verklagsreglur til að styðjast við, byggðar á efnisreglum Schengen-samningsins, en með aðild Íslands að Schengen-samstarfinu fylgir skuldbinding til þess að fylgja sameiginlegri stefnu að því er lýtur ferðum fólks, sbr. reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins (EB) nr. 810/2009 um vegabréfsáritanir.

Við veitingu vegabréfsáritana ber íslenskum stjórnvöldum sem einu af Schengen-ríkjunum ekki aðeins að ganga úr skugga um að öllum formskilyrðum sé fullnægt heldur einnig að meta hvort hætta sé talin á að viðkomandi útlendingur muni dvelja lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt og/eða snúi ekki aftur til heimalands. Þessi skylda íslenskra stjórnvalda er lögfest í 8. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þannig er reynt af fremsta megni að stemma stigu við því að gildandi reglur um dvalarleyfi séu sniðgengnar með því að útlendingur sæki um vegabréfsáritun í staðinn. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að rétt sé að lögfesta ákveðin sjónarmið sem beri að miða við í mati á umsókn um vegabréfsáritun. Séu þessi sjónarmið í samræmi við markmið útlendingalaganna og hafi mótast í framkvæmd Schengen-ríkjanna. Ennfremur segir í athugasemdum með frumvarpinu að við mat á einstökum atriðum sé nauðsynlegt að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja. Leiði það af eðli samstarfsins að mikilvægt sé að samræmis sé gætt á þessu sviði svo sömu skilyrði gildi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu.

Samkvæmt 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir skal með fyrirvara um 1. mgr. 25. gr. reglugerðarinnar synjað um vegabréfsáritun í nokkrum tilvikum. Meðal þeirra tilvika sem nefnd eru ef umsækjandi getur ekki fært rök fyrir tilgangi eða skilyrðum fyrirhugaðrar dvalarsinnar, sbr. ii.-lið a-liðar ákvæðisins, eða ef rökstudd ástæða sé til að draga í efa að fylgiskjöl, sem umsækjandi leggur fram, séu ósvikin eða að innihald þeirra sé rétt, eða áreiðanleika framburðar umsækjanda eða ásetning hans til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritunin sem sótt er um rennur út, sbr. b-lið ákvæðisins.

Íslenska sendiráðið í Nýju-Delí tekur á móti og fer með meðferð umsókna um vegabréfsáritanir til Íslands sem lagðar eru fram í Indlandi, sbr. 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þyki skilyrði ekki fyrir hendi til útgáfu áritunar er mál lagt fyrir Útlendingastofnun til ákvörðunar. Við meðferð málsins hjá sendiráði Íslands í Nýju-Delí hafði fulltrúi sendiráðins samband við kæranda í þeim tilgangi að afla upplýsinga um fyrirhugaða ferð hans hingað til lands. Í gögnunum kemur fram mat fulltrúans á umsókninni og svörum kæranda, en þar segir m.a. að kærandi væri að ferðast með vini sínum í fyrsta sinn á tómu vegabréfi. Flug og hótelbókanir væru í samræmi við ferðaáætlun þeirra en margt benti til þess að eitthvað grunsamlegt væri við umsóknina. Þar á meðal hafi hótelbókanir þeirra verið furðulegar en bæði á Höfn og í Reykjavík hafi þeir verið bókaðir á tvö mismunandi hótel tvo daga í röð. Aðspurður um þetta atriði af fulltrúa sendiráðsins kvað kærandi að ferðafélagi hans hafi gert þetta viljandi til að gefa sér fleiri valkosti ef hótelin stæðust ekki kröfur þeirra. Kærandi hafi hins vegar vitað lítið sem ekkert um bókanirnar og verið hikandi er hann hafi verið spurður út í ferðaáætlun. Jafnframt hafi ekki tekist að sannreyna atvinnu kæranda. Var það mat fulltrúa sendiráðsins að kærandi hafi verið mjög stressaður og hikandi í öllu viðtalinu. Taldi fulltrúinn að sterkur grunur væri á því að kærandi væri að nota góða ferðasögu félaga síns til að ferðast inn á Schengen svæðið; hann væri einhleypur, með enga ferðasögu, óljósa atvinnu og í raun ekkert sem héldi honum í heimaríki.

Í tölvupósti Útlendingastofnunar til kærunefndar dags. 7. janúar 2020, kemur fram að stofnunin hafi breytt verklagi sínu vegna synjana á vegabréfsáritunum. Synjunarform Útlendingastofnunar sé nú í samræmi við reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 1160/2010 og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um vegabréfsáritanir (2009/810/EB), en nánari tilvísun sé að finna í ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er líkt og áður greinir nú notað staðlað form þar sem hægt er að merkja í reiti á bilinu 1-17, þ.e. ástæður þess að umsókn sé synjað. Í ákvörðun kæranda er merkt í reiti 10 og 13 vegna synjunar á umsókn kæranda, þ.e. að kærandi hafi ekki getað fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar og að rökstudd ástæða hafi verið til að draga í efa ásetning hans til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritunin sem sótt var um rynni út. Með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var kæranda jafnframt leiðbeint um að hann gæti óskað eftir skriflegum rökstuðningi innan 14 daga frá tilkynningu ákvörðunar en gögn málsins bera ekki með sér að kærandi hafi óskað eftir slíkum rökstuðningi hjá Útlendingastofnun. Með vísan til síðastnefnds liggur því ekki fyrir rökstuðningur Útlendingastofnunar vegna synjunar á umsókn kæranda.

Þar sem synjunarform Útlendingastofnunar er í samræmi við reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 1160/2010 og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um vegabréfsáritanir (2009/810/EB), auk þess sem umsækjendum um vegabréfsáritanir gefst kostur á að óska eftir skriflegum rökstuðningi vegna synjana hjá Útlendingastofnun í samræmi við 21. gr. stjórnsýslulaga, gerir kærunefnd í sjálfu sér ekki athugasemd við breytt verklag Útlendingastofnunar. Hins vegar telur kærunefnd leiðbeiningar sem veittar eru í synjunarforminu vera ófullnægjandi. Í forminu kemur fram að kærufrestur sé 15 dagar frá móttöku ákvörðunar. Í forminu er hins vegar ekki vikið að því að óski umsækjandi eftir rökstuðningi ákvörðunar miðist upphaf kærufrests við móttöku rökstuðnings, sbr. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Af forminu verður því ekki ráðið að ósk um rökstuðning framlengi kærufrest. Eins og atvikum er háttað í þessu máli telur kærunefnd hins vegar ekki ástæðu til að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi af þessum sökum. Kærunefnd beinir þó til stofnunarinnar að laga leiðbeiningar synjunarformsins að kröfum stjórnsýsluréttar.

Líkt og áður greinir byggir synjun Útlendingastofnun á því að kærandi hafi ekki getað fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar og að rökstudd ástæða hafi verið til að draga í efa ásetning hans til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritunin sem sótt var um rynni út. Uppfyllti kærandi þar með ekki skilyrði 20. gr. laga um útlendinga sem og 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir.

Kærandi kveður tilgang ferðar sinnar hingað til lands hafa verið að ferðast um landið ásamt vini sínum. Við mat á því hvort ástæða sé til að draga tilgang ferðar kæranda hingað til lands í efa sem og ásetning kæranda um að yfirgefa svæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritun hans hefði runnið út verður aðallega horft til þess sem fram kom í samskiptum hans við íslenska sendiráðið í Nýju-Delí. Fulltrúar sendiráðsins tóku á móti og komu að meðferð umsóknar kæranda, m.a. með framkvæmd símaviðtals. Í umræddu símaviðtali var kærandi m.a. spurður út í ferðaáætlun sem hann og vinur hans höfðu lagt fram í upphafi málsins. Fulltrúi sendiráðs Íslands taldi ferðaáætlun kæranda vera mjög almenns eðlis þar sem aðeins var gert ráð fyrir skoðunarferðum á hverjum áfangastað hér á landi án þess að tilgreint væri með nánari hætti hvað þeir ætluðu sér að skoða eða gera. Að mati fulltrúans hafi kærandi átt erfitt með að gera grein fyrir ferðaáætlun þeirra hér á landi með nákvæmari hætti. Aðspurður út í ferðaáætlunina, þ. á m. hvað þeir hefðu í hyggju að gera hér á landi, sagði kærandi að það stæði til að skoða fjölmarga fallega staði hér á landi og sjá norðurljósin. Þá taldi fulltrúinn að ósamræmi hafi verið í svörum kæranda um það hvernig ferðaáætlun þeirra hefði verið samin. Fyrst hafi kærandi sagt að hann og vinur hans hefðu afritað ferðaáætlunina frá öðrum aðila en síðar hafi hann sagt þá hafa byggt ferðaáætlunina á því sem þeir höfðu séð á netinu. Þá liggur fyrir að kærandi er einhleypur, með enga ferðasögu auk þess sem ekki hafi tekist að sannreyna atvinnu hans. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að mat fulltrúans hafi verið forsvaranlegt og í samræmi við framlögð gögn. Þá telur kærunefnd að útskýringar kæranda hafi ekki sýnt fram á annað.

Með vísan til ofangreinds fellst kærunefnd á mat Útlendingastofnunar í fyrirliggjandi máli. Er það því mat kærunefndar að þær upplýsingar, sem veittar voru um tilgang og skilyrði fyrirhugaðrar dvalar hafi ekki verið áreiðanlegar, þ. á m. með tilliti til framburðar kæranda við meðferð á umsókn hans og ásetning hans til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkja Schengen-samstarfsins, sbr. d-liður 6. mgr. 20. gr. og 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga og ii.-lið a-liðar og b-lið 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir. Kærunefnd hefur lagt mat á öll gögn málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta