Reglugerð um umhverfismat framkvæmda og áætlana í samráðsgátt
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir drög að breytingu á reglugerð er varðar landfræðilega gagna- og samráðsgátt um umhverfismat og skipulag.
Þann 1. desember sl. tóku gildi ákvæði skipulagslaga og laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana sem fela Skipulagsstofnun að starfrækja landfræðilega gagna- og samráðsgátt um skipulag, þ.m.t. gerð landsskipulagsstefnu, umhverfismat og leyfisveitingar. Nota skal gáttina við skipulagsgerð og útgáfu framkvæmdaleyfa og verða þar birt gögn, ákvarðanir og umsagnir vegna umhverfismats framkvæmda og áætlana og leyfa til framkvæmda. Aðgangur að gáttinni er öllum opinn og án endurgjalds.
Gagna- og samráðsgátt um umhverfismat og skipulag er einn liður í stefnumörkun stjórnvalda um eflingu rafrænnar stjórnsýslu og stafrænnar þjónustu stofnana ríkisins. Opið, stafrænt aðgengi að gögnum um umhverfismat stuðlar að markmiðum um að efla þátttöku almennings í umhverfismatsferlinu, leiðir til minna flækjustigs, styttir boðleiðir og eykur yfirsýn og gagnsæi ferla.
Reglugerðardrögin fela í sér breytingu á núgildandi reglugerð um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Með breytingunni verða ákvæði reglugerðarinnar samræmd ákvæðum laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana sem fjalla um gagna- og samráðsgáttina.
Frestur til veitingu umsagna er til 2. mars nk.
Breyting á reglugerð um umhverfismat framkvæmda og áætlana