Dagur upplýsingatækninnar haldinn 27. nóvember
Dagur upplýsingatækninnar 2014 verður haldinn á Grand hóteli í Reykjavík fimmtudaginn 27. nóvember. Fyrir hádegi fer fram fræðslufundur um öryggi opinberra vefja og eftir hádegi verður ráðstefna með yfirskriftinni: Byggjum, tengjum og tökum þátt.
Dagur upplýsingatækninnar (UT-dagurinn) hefur verið haldinn árlega frá árinu 2006 af stjórnvöldum en að deginum standa innanríkisráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Skýrslutæknifélagið. Tilgangur dagsins er að fjalla um það sem er efst á baugi í upplýsingatæknimálum hjá stjórnsýslunni. UT-dagurinn 2014 er tileinkaður þeim verkefnum sem nú er unnið að samkvæmt upplýsingatæknistefnu stjórnvalda, Vöxtur í krafti netsins.
Tilgangur fræðslufundarins sem stendur frá kl. 10.30 til 12.30 er að efla varnir opinberra vefja, ríkis og sveitarfélaga, gegn hvers kyns tölvuárásum. Tölvuárásir eru stöðugt að aukast og eru nú orðnar alvarleg ógn við fyrirtæki og opinbera aðila. Á fundinum verður fjallað um öryggismál, hvað beri að varast og hvernig hægt sé að auka öryggi vefja. Í vefhandbókinni sem er hér á vefnum, ut.is, er ítarlegt efni um öryggi opinberra vefja og verður stuðst við það efni.
Ráðstefnan eftir hádegi stendur frá klukkan 13 til 16.40. Hefst hún á setningarávarpi en síðan verða flutt 8 erindi. Verður þar meðal annars fjallað um opna og gegnsæja stjórnsýslu, skipulag og öryggi, hagræðingu og skilvirkni, lýðræði, þjónustu og fjarskipti.