Hoppa yfir valmynd
15. júní 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 169/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 169/2023

Fimmtudaginn 15. júní 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. mars 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. febrúar 2023, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á bið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 1. febrúar 2023. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 13. febrúar 2023, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt en með vísan til þess að hann ætti ótekinn biðtíma frá fyrri umsókn yrðu bætur ekki greiddar fyrr en sá tími væri liðinn. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun 16. febrúar 2023 og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. mars 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. mars 2023. Með bréfi, dags. 29. mars 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 11. apríl 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. apríl 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda 19. apríl 2023 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. apríl 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi sagt upp starfi sínu í byrjun árs 2022 og hafi lokið störfum þann 30. apríl 2022. Kærandi hafi beðið með að sækja um atvinnuleysisbætur þar sem hann hafi vitað að það væru tveggja mánaða viðurlög hjá Vinnumálastofnun við því að segja sjálfur upp starfi. Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur árið 2015 þegar hann hafi verið á milli starfa í tvo mánuði og hafi á þeim tíma verið bótalaus þar sem hann hafi verið settur á slík viðurlög.

Tveimur mánuðum eftir starfslok kæranda, í lok júní 2022, hafi hann skilað inn umsókn um atvinnuleysisbætur en verið settur á viðurlög. Kærandi hafi farið til útlanda í lok júlí 2022. Þegar hann hafi komið heim aftur hafi hann verið kominn með vinnu, þ.e. í lok janúar 2023. Kærandi hafi í kjölfarið sótt um atvinnuleysisbætur í einn mánuð þar sem nýi vinnuveitandi hans hafi óskað eftir því að kærandi myndi hefja störf þann 1. mars 2023. Kærandi hafi þá verið beittur viðurlögum að nýju. Hann hafi því ekki fengið bætur frá þeim tíma sem hann hafi lokið störfum þann 30. apríl 2022 og þar til hann hafi hafið störf að nýju þann 1. mars 2023.

Kærandi viti um nokkur tilfelli þar sem fólk hafi verið í sömu stöðu og hann, sagt sjálft upp starfi, farið í heimsreisu, komið heim og þegið atvinnuleysisbætur í kjölfarið. Dæmi sé að finna á vef Alþýðusambands Íslands um atvik þegar launamenn hafi sótt um bætur eftir að hafa sagt starfi sínu lausu án gildrar ástæðu sex mánuðum frá starfslokum. Í dæminu komi fram að ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar um biðtíma nefni ekki hvernig með eigi að fara þegar hinn tryggði segi starfi sínu upp án gildra ástæðna en sæki hins vegar ekki um atvinnuleysisbætur strax heldur bíði með það, jafnvel í nokkra mánuði. Einnig sé vísað til þess að úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta hafi fjallað um slík mál og í einhverjum tilvikum fallið frá beitingu ákvæða laganna um 40 daga biðtíma. Slík mál hafi snúist um launamenn sem hafi sótt um atvinnuleysisbætur þegar sex mánuðir eða fleiri hafi verið liðnir frá starfslokum þeirra en ekki sé útilokað að skemmri tímabil geti leitt til sömu niðurstöðu.

Kærandi ætlist til að fá sömu afgreiðslu og aðrir.

Í athugasemdum kæranda, dags. 19. apríl 2023, kemur fram að ekki sé rétt að kærandi hafi verið afskráður í kerfum Vinnumálastofnunar þar sem hann hafi ekki staðfest atvinnuleit sína. Kærandi hafi sjálfur farið inn á vef Vinnumálastofnunar og tilkynnt að hann væri farinn til útlanda og kæmi ekki til Íslands á næstunni. Vinnumálastofnun hafi ekki sent neinar áminningar í smáskilaboðum eða tölvupósti á þessu tímabili. Kærandi sé nokkuð viss um að ekki hafi verið boðið upp á þann valmöguleika að staðfesta atvinnuleit á „Mínum síðum“. Kærandi hafi komið til Íslands níu mánuðum síðar þegar hann hafi verið kominn með vinnu. Því hafi hann verið alveg tekjulaus á því tímabili. Kærandi hafi því verið erlendis bótalaus/tekjulaus og að leita sér að vinnu á Íslandi. Kærandi hafi skráð samviskusamlega á vef Vinnumálastofnunar að hann hafi komið til Íslands í lok janúar og hafið störf mánuði síðar hjá B.

Einkennilegt sé að Vinnumálastofnun haldi því fram að kærandi hafi verið afskráður í kerfum stofnunarinnar þann 1. mars 2023 þar sem kæranda hafi verið að berast tölvupóstar og smáskilaboð frá stofnuninni út mars 2023. Skilaboðin hafi verið ítrekanir um að staðfesta atvinnuleit og varðandi námskeið. Kærandi hafi ítrekað beðið Vinnumálastofnun um að hætta að senda honum skilaboð en stofnunin hafi ekki orðið við þeirri beiðni fyrr en 27. mars 2023. Kærandi geri einnig athugasemd við að vera kallaður vitlausu nafni í einu svari Vinnumálastofnunar.

Kærandi hafi verið beittur þungum viðurlögum af hálfu Vinnumálastofnunar þrátt fyrir að hafa verið svo til óslitið á vinnumarkaði öll fullorðinsárin og þrátt fyrir að hann hafi tekið á sig að vera bótalaus í atvinnuleit. Að mati kæranda sitji hann augljóslega ekki við sama borð og aðrir sem hann þekki til en auðvitað geti stofnunin hafnað því og haldið því fram að hann fái sömu afgreiðslu og aðrir. Kærandi vilji minna á tilgang laga um viðurlög. Hann hafi ekki framið neinn glæp nema þá að kunna ekki nægilega vel á kerfið og fyrir það hafi hann tekið út harða refsingu. Kærandi hafi unnið og vinni mikið með viðkvæm gögn. Af því tilefni vilji hann ekki deila persónuupplýsingum sínum eða þriðja aðila til Vinnumálastofnunar. Ástæða starfsloka hans verði því ávallt vegna persónulegra ástæðna.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 24. júní 2022. Meðal fyrirliggjandi gagna í máli kæranda sé staðfest starfstímabil vegna starfa kæranda hjá C. Þar komi fram að kærandi hafi sjálfur sagt upp störfum. Síðasti vinnudagur kæranda samkvæmt vottorði hafi verið þann 30. apríl 2022.

Með erindi, dags. 15. júlí 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að bótaréttur hans væri ákveðinn 100%. Með vísan til starfsloka hans hjá C yrði réttur hans til greiðslu atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði, frá og með 24. júní 2022. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi hafi verið afskráður í kerfum stofnunarinnar þann 4. ágúst 2022. Ástæða afskráningarinnar hafi verið sú að kærandi hafi ekki staðfest atvinnuleit sína á tilskildum tíma.

Kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta að nýju með umsókn, dags. 1. febrúar 2023. Með erindi, dags. 13. febrúar 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Með vísan til ótekins biðtíma hans, sem honum hafi verið gert að sæta með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 15. júlí 2022, yrðu bætur til hans hins vegar ekki greiddar fyrr en að tveimur mánuðum liðnum.

Þann 16. febrúar 2023 hafi Vinnumálastofnun borist tölvupóstur frá kæranda. Kærandi hafi greint þar frá nánari aðstæðum sínum þar sem fram komi að hann hafi lokið störfum þann 30. apríl 2022 og síðar farið til útlanda. Kærandi hafi snúið aftur til Íslands í lok janúar 2023 og þá ráðið sig í vinnu sem hafi átt að hefjast þann 1. mars 2023. Hann hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta vegna febrúarmánaðar til þess að brúa bilið þar til að hann myndi hefja störf. Kærandi hafi þá ekki átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta með vísan til starfsloka sinna, en ljóst væri að níu mánuðir væru liðnir frá því að hann hafi sagt upp störfum sínum. Að sögn kæranda hefði hann vitneskju um sambærileg tilvik þar sem fólk hafi sagt upp starfi sínu til að ferðast og síðar fengið samþykkta umsókn hjá Vinnumálastofnun án biðtíma. Kærandi skilji ekki af hverju hið sama ætti ekki við um hann. Kærandi hafi jafnframt vísað til umfjöllunar um biðtíma í kjölfar starfsloka á vinnuréttarvef Alþýðusambands Íslands. Þar segi að úrskurðarnefnd hafi í einhverjum tilvikum fallið frá beitingu biðtíma þegar að minnsta kosti sex mánuðir hafi liðið frá starfslokum. Kærandi hafi óskað eftir því að Vinnumálastofnun rökstyddi ákvörðun sína, meðal annars með vísan til umfjöllunar á áðurnefndum vinnuréttarvef. Kæranda hafi í kjölfarið verið veittur rökstuðningur þann 3. mars 2023.

Kærandi hafi verið afskráður í kerfum stofnunarinnar þann 1. mars 2023 þar sem hann hafi þá verið byrjaður að vinna.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta eftirstöðvum viðurlaga sinna þegar hann hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta að nýju þann 1. febrúar 2023.

Eins og að framan hafi verið rakið hafi kæranda þann 15. júlí 2022 verið gert að sæta viðurlögum í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með vísan til starfsloka hans hjá C. Kærandi hafi síðar verið afskráður í kerfum stofnunarinnar þann 4. ágúst 2022 þar sem hann hafi ekki staðfest atvinnuleit sína á tilskildum tíma.

Í 1. mgr. 54. gr. sé kveðið á um biðtíma í kjölfar starfsloka. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi þeir sem hafi sagt upp störfum sínum án gildra ástæðna ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Í ákvæðinu sé kveðið á um að biðtími skuli hefjast frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 24. júní 2022, í kjölfar þess að hann hafi sagt upp starfi sínu þann 30. apríl 2022. Ákvörðun stofnunarinnar þess efnis að kærandi skuli sæta biðtíma frá og með 24. júní 2022 sé því í samræmi við ákvæði 1. mgr. 54. gr.

Í 2. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að hinn tryggði skuli uppfylla skilyrði laganna á biðtímanum samkvæmt 1. mgr. Meðal þeirra skilyrða sem atvinnuleitendum beri að uppfylla samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar sé skilyrði b-liðar 1. mgr. 13. gr. um virka atvinnuleit, sbr. 14. gr. sömu laga. Með vísan til 13. og 14. gr. laganna, auk 7. mgr. 9. gr. sömu laga, beri atvinnuleitanda að staðfesta mánaðarlega að hann sé í virkri atvinnuleit. Með því að staðfesta atvinnuleit sína í hverjum mánuði staðfesti atvinnuleitendur að þeir uppfylli enn skilyrði laganna, meðal annars skilyrðið um virka atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr., og að þeir sækist áfram eftir greiðslum atvinnuleysisbóta. Í virkri atvinnuleit felist að atvinnuleitandi þurfi að vera reiðubúinn að ráða sig til vinnu og taka þeim störfum sem bjóðist, auk þess að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum stofnunarinnar sem standi honum til boða, sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þau samskipti atvinnuleitanda og Vinnumálastofnunar sem felist í því að staðfesta mánaðarlega atvinnuleit sé þannig mikilvægur þáttur í því að vera skráður atvinnulaus hjá stofnuninni. Þá sé ljóst að ef aðili eigi ekki virka umsókn hjá Vinnumálastofnun sökum þess að hann hafi ekki staðfest atvinnuleit sína, geti stofnunin ekki boðið honum vinnumarkaðsúrræði við hæfi.

Atvinnuleitendum sé gert að staðfesta atvinnuleit sína 20. til 25. hvers mánaðar. Kærandi hafi ekki staðfest atvinnuleit sína vegna júlímánaðar 2022. Af þeirri ástæðu hafi hann verið afskráður í kerfum stofnunarinnar þann 4. ágúst 2022. Með vísan til 2. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og framanrakinna atriða hafi kæranda borið að staðfesta atvinnuleit sína á biðtímanum. Í ljósi þess að hann hafi ekki staðfest atvinnuleit sína hafi biðtími hans aldrei byrjað að líða. Vinnumálastofnun ítreki að kæranda hafi sérstaklega verið greint frá því samhliða ákvörðun stofnunarinnar, dags. 15. júlí 2022, að honum bæri að staðfesta atvinnuleit sína á biðtímanum.

Þegar kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta að nýju með umsókn, dags. 1. febrúar 2023, hafi eftirstöðvar biðtíma hans enn verið tveir mánuðir, enda hafi biðtími hans aldrei byrjað að líða. Kæranda hafi því verið tilkynnt með erindi, dags. 13. febrúar 2023, að bætur til hans yrðu ekki greiddar fyrr en að tveimur mánuðum liðnum. Kærandi telji að sú ákvörðun Vinnumálastofnunar standist ekki skoðun, enda hefðu þá verið liðnir nærri níu mánuðir frá því að hann hafi sagt upp störfum sínum.

Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um nokkur tilvik þar sem biðtími eða viðurlög samkvæmt lögunum falli niður eða frestist. Meðal annars sé kveðið á um í 3. mgr. 54. gr. laganna að ef hinn tryggði taki starfi sem ekki sé hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á biðtíma samkvæmt 1. mgr. standi falli biðtíminn niður eftir að hinn tryggði hafi starfað í að minnsta kosti hálfan mánuð áður en hann sæki aftur um atvinnuleysisbætur, enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum. Í 3. mgr. segi að vari starfið til skemmri tíma, hann hafi sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann eigi sjálfur sök á, haldi biðtíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sæki aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 56. gr. Kærandi uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 54. gr. laganna um niðurfellingu biðtíma, enda hafi hann ekki starfað á vinnumarkaði áður en hann hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta að nýju. Þar af leiðandi hafi biðtími hans haldið áfram að líða þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur að nýju með umsókn, dags. 1. febrúar 2023, sbr. lokamálslið 3. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í 5. mgr. 56. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um að ítrekunaráhrif samkvæmt ákvæðinu falli niður þegar nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist, sbr. 30. eða 31. gr. laganna. Kærandi hafi hins vegar ekki áunnið sér rétt til nýs tímabils samkvæmt 29. gr.

Með vísan til framangreindra lagaákvæða sé ljóst að skilyrði þess að biðtími verði felldur niður séu ekki uppfyllt.

Það sé því niðurstaða Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda og að eftirstöðvar biðtíma hans skuli halda áfram að líða frá síðustu umsókn kæranda, dags. 1. febrúar 2023.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. febrúar 2023, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á bið.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. júlí 2022 var réttur kæranda til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar með vísan til þess að hann hefði sagt upp starfi sínu án gildra ástæðna. Í ákvörðun Vinnumálastofnunar var tekið fram að kærandi þyrfti að staðfesta atvinnuleysi sitt 20. til 25. hvers mánaðar og uppfylla skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á meðan á biðtíma stæði. Einnig var tekið fram að ef atvinnuleysi væri ekki staðfest á tilgreindum tíma myndi biðtími frestast þar til staðfesting hefði farið fram. Í fyrirliggjandi samskiptasögu kemur fram að kærandi hafi þann 4. ágúst 2022 verið afskráður af atvinnuleysisskrá. Þá liggur fyrir að kærandi var ekki staddur hér á landi frá lokum júlímánaðar 2022 og til loka janúarmánaðar 2023. Kærandi sótti á ný um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 1. febrúar 2023. Umsókn kæranda var samþykkt 13. febrúar 2023 en tekið var fram að bætur yrðu ekki greiddar fyrr en ótekinn biðtími frá fyrri umsókn væri liðinn.

Í 29. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Þá segir í 31. gr. laga nr. 54/2006 að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.   

Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi ekki, þegar umsókn hans barst Vinnumálastofnun þann 1. febrúar 2023, starfað í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafði því ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/2006 og því hélt allur ótekinn biðtími vegna eldri viðurlaga áfram að líða þegar hann skráði sig atvinnulausan að nýju 1. febrúar 2023. 

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. febrúar 2023, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til A, á bið er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta