Íslendingar gefa skó til Nígeríu
Á morgun, laugardaginn 2. júní, fer fram áhugavert fjölskylduhlaup við Rauðavatn en tilgangur þess er að safna íþróttaskóm fyrir börn og ungmenni í Nígeríu. Hlaupið verður 3,5 km hindrunarhlaup kringum Rauðavatn og er þátttökugjaldið eitt vel með farið par af íþróttaskóm sem sendir verða með DHL til SOS Barnaþorpanna í Nígeríu.
90 milljónir ungmenna undir 18 ára aldri
Nígería er þéttbýlasta land Afríku og það sjöunda fjölmennasta í heimi. Þar búa 186 milljónir manna, þar af 90 milljónir ungmenna undir 18 ára aldri og er það þriðja hæsta ungmennahlutfall allra þjóða í heimi. Þó landið sé ríkt af auðlindum er misskipting mikil og yfir 60 prósent íbúa lifa undir fátæktarmörkum. SOS Barnaþorpin eru stærstu einkareknu barnahjálparsamtökin í heiminum sem sérhæfa sig í að útvega munaðarlausum og yfirgefnum börnum heimili, foreldra og systkini. Um 9 þúsund Íslendingar eru SOS styrktarforeldrar og fá reglulega sendar myndir og fréttir af sínu barni úti í heimi. Starfsemi samtakanna á Íslandi miðar að því að afla styrktaraðila fyrir hjálparstarf samtakanna í 126 löndum. Um 25 þúsund Íslendingar styrktu SOS barnaþorpin á síðasta ári, meðal annars sem styrktarforeldrar, barnaþorpsvinir og fjöldskylduvinir. 130 Íslendingar styrkja verkefni samtakanna í Nígeríu með mánaðarlegum framlögum. Alls 82% af framlögum Íslendinga á síðasta ári runnu beint til verkefna SOS Barnaþorpanna og kostnaðurinn því lítill við starfsemi samtakanna hér á landi.
Margþætt markmið með hlaupinu
SOS Barnaþorpin á Íslandi, Morgunblaðið, Mbl.is og K100 standa að fyrrgreindu fjölskylduhlaupi sem er undir yfirskriftinni Skór til Afríku. En af hverju varð Nígería fyrir valinu? „Okkur þótti það tilvalið því Ísland og Nígería eru saman í riðli á HM í fótbolta í júní og það eru fjögur SOS Barnaþorp í Nígeríu. Það eru 320 einstaklingar í 46 fjölskyldum í þessum þorpum en miklu fleiri njóta aðstoðar okkar í gegnum sérstaka fjölskyldueflingu samtakanna. Þessir skór munu því koma að góðum notum,“ segir Hans Steinar Bjarnason, upplýsingafulltrúi SOS Barnaþorpanna á Íslandi. Hulda Bjarnadóttir, sem stýrir verkefninu fyrir hönd Árvakurs segir hugmyndinni ætlað að ná utan um heilbrigðan lífstíl og góða samverustund en einnig að þau verðmæti sem margir Íslendingar eiga í skápunum sínum fái nýtt notagildi.
Velgjörðarsendiherrar gefa skó
„Það er með ólíkindum að fátæktin sé svona mikil í eins ríku landi og Nígería er. Og erfitt að horfa á þetta héðan úr norðrinu og geta lítið gert! En lítið er samt betra en ekkert og þessvegna finnst mér þetta fjölskylduhlaup alveg bráðsniðug leið til að sýna stuðning og vináttu í verki við þjóð sem tengist okkur á HM. Svona gera heimsmeistarar! Þetta frábært tækifæri til að gera sér glaðan dag með fjölskyldunni og láta um leið gott af sér leiða í sumarblíðunni“ segir söngkonan og fasteignasalinn Hera Björk sem er einn af þremur velgjörðarsendiherrum SOS Barnaþorpanna á Íslandi. Því embætti gegna líka forsetafrúin Eliza Reid og Vilborg Arna Gissurardóttir, ævintýrakona og pólfari.
Hlaupið hefst klukkan 10 að morgni laugardagsins 2. júní og stendur skráning í það yfir á mbl.is.
Fólk getur einnig sýnt verkefninu stuðning með myndatöku og myllumerkinu #skortilafriku á samfélagsmiðlum. Hér í frétt á Mbl má sjá myndir frá fjölmörgum kunnum Íslendingum sem taka þátt í verkefninu með því að gefa skó til Nígeríu.
(Frétt á vef SOS barnaþorpanna á Íslandi)