Samið um þjónustu Netöryggissveitarinnar við stjórnsýsluna
Í dag var undirritaður fyrsti þjónustusamningur sem gerður hefur verið um þjónustu Netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar. Samninginn undirrituðu fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Póst- og fjarskiptastofnunar.
Markmið samningsins er að styrkja stjórnsýsluna til að verjast öryggisatvikum og takast á við netárásir og hliðstæðar ógnir með sérhæfðri þjónustu Netöryggissveitarinnar.
Samkvæmt samningnum veitir Netöryggissveitin stjórnsýslunni, og þá sérstaklega ráðuneytunum, netöryggisþjónustu sem er sérsniðin að þörfum hins opinbera, svonefnda GovCERT þjónustu. Netöryggissveitinni ber, samkvæmt lögum, fyrst og fremst að þjóna skilgreindum þjónustuhópi sínum. Í þeim hópi eru fjarskiptafélögin, en aðrir rekstraraðilar ómissandi upplýsingainnviða geta einnig notið þjónustu Netöryggissveitarinnar á grunni þjónustusamninga.
Stýrihópur um netöryggi stjórnsýslunnar sem skipaður er fulltrúum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis (sem fer með netöryggismál), fjármála- og efnahagsráðuneytis og forsætisráðuneytis vann að gerð samningsins fyrir hönd ráðuneytanna og er hann byggður á norskri fyrirmynd. Samningaviðræður standa einnig yfir við önnur samtök rekstraraðila ómissandi upplýsingainnviða og er byggt á sama grunni og í samningi vegna stjórnsýslunnar.
Samningurinn er ein þeirra aðgerða sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið beitir sér fyrir til að efla netöryggi hérlendis og er það gert í nánu samstarfi við önnur ráðuneyti og ríkisstofnanir, einkum á vettvangi Netöryggisráðs.