Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 103/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. febrúar 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 103/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU16120047

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 23. desember 2016 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. desember 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Hollands.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002 og barst kæran fyrir lok kærufrests sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Þann 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt 2. mgr. 121. gr. laganna gilda ákvæði þeirra um mál sem bárust kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laganna en höfðu ekki verið afgreidd með úrskurði. Fer því um mál þetta samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 14. ágúst 2016 ásamt eiginkonu sinni. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Hollandi og Þýskalandi. Þann 6. september 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Hollandi, sbr. 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 16. september 2016 barst svar frá hollenskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 1. desember 2016 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Hollands. Kærandi óskaði, þann 13. desember 2016, eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan mál hans væri til kærumeðferðar. Með bréfi kærunefndar þann 15. desember 2016 var fallist á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með fyrirvara um að kæra á ákvörðun Útlendingastofnunar bærist kærunefnd innan 15 daga frá birtingu ákvörðunarinnar. Kærandi kærði ákvörðunina þann 23. desember 2016 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 6. janúar 2017. Viðbótargögn bárust kærunefnd þann 9. janúar 2017. Frekari viðbótargögn bárust kærunefnd þann 8. febrúar 2017.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Hollands. Lagt var til grundvallar að Holland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Hollands ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. þágildandi laga um útlendinga nr.96/2002. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Hollands, sbr. d-lið 1. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga.

Kærandi byggði meðal annars á því fyrir Útlendingastofnun að hann teldi sig vera í lífshættu í Hollandi þar sem honum hefði verið hótað af meðlimum [...] glæpasamtaka. Í niðurstöðu Útlendingastofnunar segir um þessi andmæli kæranda að ekki hafi verið lögð fram nein gögn sem sýni fram á að lögregluyfirvöld í Hollandi séu ekki í stakk búin að sinna þörfum kæranda og eiginkonu hans varðandi umræddar hótanir og þá staðhæfingu kæranda að þau séu í lífshættu. Þá byggði kærandi einnig á því fyrir Útlendingastofnun að líkamlegt heilsufar hans væri ekki gott en hann hefði árið 2013 farið í tvær [...]. Í ákvörðuninni er fjallað um heilbrigðiskerfið í Hollandi og tekið fram að kærandi hefði ekki sýnt fram á nein gögn sem sýndu fram á að heilbrigðiskerfið í Hollandi væri ekki í stakk búið að sinna heilsufarsvandamálum kæranda. Þá vísaði Útlendingastofnun til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli A. S. gegn Sviss frá 30. júní 2015 er þetta atriði varðaði.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun, þann 27. október 2016, hafi kærandi greint frá því að hann vilji ekki fara aftur til Hollands, hann hafi ásamt eiginkonu sinni lagt þar fram umsókn um alþjóðlega vernd og fengið lokasynjun frá stjórnvöldum. Kærandi og eiginkona hans hafi greint frá því að þau væru í lífshættu í Hollandi og þau óttist þar [...] glæpasamtök sem kærandi hafi átt í deilum við. Kærandi hafi orðið fyrir alvarlegri líkamsárás og hafi verið stunginn nokkrum sinnum af höfuðpaur glæpasamtakanna og hafi hann í viðtalinu sýnt ör á bringu sinni og nafngreint árásarmennina. Kærandi hafi kært árásina til lögreglu sem hafi tekið skýrslu en hafi ekkert aðhafst frekar í málinu. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að heilsufar hans sé alvarlegt. Kærandi hafi gengist undir [...] árið 2013 og hafi hann einnig gengist undir [...] í lok sama árs í þeim tilgangi að fjarlæga æxli. Kærandi hafi þurft að greiða fyrir aðgerðirnar að fullu þar sem þær hafi ekki verið niðurgreiddar af [...] ríkinu. Hafi kæri einnig þurft að vera á lyfjum í kjölfar aðgerðanna en þau lyf hafi ekki verið niðurgreidd í [...]. Kærandi hafi hitt lækna í Hollandi og Þýskalandi vegna veikinda sinna og hafi þeir sammælst um að hann þyrfti að vera undir stöðugu eftirliti og hafi honum meðal annars verið bannað að fara í flug. Þá hafi andlegri heilsu hans hrakað eftir veikindin og dvöl hans í Hollandi.

Í greinargerð kæranda segir að þeir sem hafi fengið synjun á umsókn sinni um vernd í Hollandi og sæki aftur um alþjóðlega vernd þar eigi ekki rétt á húsnæði eða annarri félagslegri aðstoð sem umsækjendum um alþjóðlega vernd sé annars veitt í landinu. Verði kærandi sendur til Hollands þurfi hann því að búa á götunni þar til hann verði sendur úr landi. Sé þetta meðal annars gagnrýnt í skýrslu nefndar sem hafi eftirlit með framkvæmd félagsmálasáttmála Evrópu (e. European Committee on Social Rights) en þar komi fram að hollenskum stjórnvöldum beri að sjá til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd sem fái synjun á beiðni sinni um vernd fái húsaskjól, fatnað og mat. Að mati nefndarinnar stríði það gegn mannlegri reisn að sjá ekki til þess að viðeigandi móttökuskilyrði séu til staðar fyrir þennan hóp umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Þrátt fyrir að umsækjendum um alþjóðlega vernd bjóðist lögfræðiaðstoð í Hollandi í tengslum við umsókn um vernd og, eftir atvikum, kæru ákvörðunar þá telji sumir lögfræðingar sig ekki fá greitt í samræmi við þá vinnu sem þeir leggi í hvert mál og það geti leitt til þess að mál séu ekki undirbúin nægjanlega vel og geti það haft áhrif á úrlausn hælismála.

Í ljósi þeirrar aukningar sem orðið hafi undanfarið á umsóknum um alþjóðlega vernd í Hollandi sé óljóst hvort útlendingayfirvöld í landinu muni koma til með að geta sinnt öllum umsækjendum m.t.t. viðeigandi móttökuaðstæðna og móttökuskilyrða.

Þá sé einnig gríðarlega erfitt fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd að finna sér atvinnu og séu atvinnurekendur ekki áfjáðir í að gera ráðningarsamninga við umsækjendur um alþjóðlega vernd vegna ýmissa kerfislegra hindrana og þá eigi umsækjendur einungis rétt á að starfa að hámarki í 24 vikur á hverju tólf mánaða tímabili.

Í greinargerð kæranda er vísað til c-liðar 1. mgr. 36. gr. og 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Segir í greinargerð að í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016 sé með sérstökum ástæðum vísað til þess að einstaklingar geti verið í viðkvæmri stöðu svo sem vegna heilsufars eða þungunar eða átt erfitt uppdráttar í viðtökulandi vegna mismununar sem viðkomandi einstaklingur verði fyrir sökum kynhneigðar, kynþáttar eða kyns. Þá segi enn fremur í fyrrgreindum athugasemdum að stjórnvöldum skuli eftirlátið mat og sé sérstakalega tekið fram að stjórnvöld hafi heimild til að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiði af sérstökum reglum, svo sem reglum Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærandi leggi áherslu á að samkvæmt athugasemdum sé ákvæðinu ætlað að taka til þeirra tilvika þegar varhugavert þyki að beita ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar og senda umsækjendur um alþjóðlega vernd til ríkja í Evrópu þar sem ástæða þyki til að ætla að meðferð eða aðbúnaður þeirra sé í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða aðrar þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.

Þá sé á það bent í greinargerð kæranda að kerfisbundinn galli á aðbúnaði og meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd í aðildarríki sé ekki ákvörðunarástæða fyrir því að umsókn sé tekin til meðferðar í öðru aðildarríki en því sem beri ábyrgð skv. Dyflinnarreglugerðinni. Það fái stoð í greinargerð innanríkisráðuneytisins um endursendingar hælisleitenda til Ítalíu, frá desember 2015. Þar komi meðal annars fram að nýlegir dómar Mannréttindadómstóls Evrópu hafi skýrt að það sé ekki nauðsynlegt að sýna fram á kerfislæga annmarka á málsmeðferð eða móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd í viðtökulandinu heldur skuli miða við það hvort veruleg ástæða sé til að ætla að hlutaðeigandi einstaklingur standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð í viðtökuríkinu sem samrýmist ekki 3. gr. mannréttindasáttmálans.

Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd lagði kærandi fram, þann 8. febrúar 2017, sálfræðimat, dags. 2. febrúar 2017.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að hollensk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Hollands er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum jafnframt að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Hollandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

• Asylum Information Database, National Country Report: The Netherlands (European Council on Refugees and Exiles, nóvember 2015)

• Amnesty International Report 2015/16 – Netherlands (Amnesty International, 2016)

• Freedom in the World 2016 – Netherlands (Freedom House, 18. ágúst 2016)

• Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2015 (European Asylum Support Office, 8. júlí 2016)

• Endursendingar hælisleitenda til Ítalíu: Greinargerð innanríkisráðuneytisins (Innanríkisráðuneytið, desember 2015)

• The Netherlands 2015 Human Rights Report (United States Department of State, 16. apríl 2016)

• Upplýsingar af vefsíðu hollenska öryggis- og dómsmálaráðuneytisins: www.government.nl/topics/asylum-policy, Ministerie van Veiligheid en Justitie

Samkvæmt ofangreindum skýrslum geta umsækjendur um alþjóðlega vernd í Hollandi sem hafa fengið synjun á umsókn sinni hjá útlendingastofnun Hollands (h. Immigratie- en Naturalisatiedienst/IND) kært niðurstöðuna til svæðisdómstóls og þeim dómi er unnt að áfrýja til Ríkisráðsins (h. Afdeling Bestuursrechtspraak Raad van State). Fái umsækjandi um alþjóðlega vernd endanlega synjun á umsókn sinni á hann möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd hjá útlendingastofnun. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli umsækjanda, aðstæður hafa breyst í máli hans eða verulegir annmarkar voru á fyrri málsmeðferð, geta skilyrði viðbótarumsóknar verið uppfyllt. Jafnframt eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Taki útlendingastofnun Hollands viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd til skoðunar þá á umsækjandi um alþjóðlega vernd á rétt á húsaskjóli í gistiskýli á meðan umsókn hans er til meðferðar.

Þegar umsækjandi leggur fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd á hann rétt á lögfræðiþjónustu án endurgjalds bæði á fyrsta stigi og á áfrýjunarstigi. Hollenska dómsmálaráðuneytið hefur sett á laggirnar nefnd um lögfræðiráðgjöf (h. Raad voor Rechsbijstand). Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á því að fá lögmann tilnefndan af nefndinni en mega einnig velja sér lögmenn sem ekki eru á lista nefndarinnar. Jafnframt útvegar hollenska flóttamannaráðið (h. VluchtelingenWerk Nederland) umsækjendum lögfræðiaðstoð. Lögmaður umsækjanda um alþjóðlega vernd getur ákveðið að leggja ekki fram neinn rökstuðning fyrir hans hönd ef hann telur að áfrýjun sé ekki vænleg til árangurs. Þegar lögmaður tekur slíka ákvörðun þarf hann að tilkynna hana til framangreindrar nefndar um lögfræðiráðgjöf og getur umsækjandi beðið um annað álit sem getur leitt til þess að annar lögfræðingur taki málið að sér.

Í skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér kemur meðal annars fram að engar upplýsingar séu um að einstaklingar sem endursendir séu til Hollands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar hafi átt í erfiðleikum með að fá umsóknir sínar um alþjóðlega vernd teknar til skoðunar þar í landi.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Hollandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Hollands brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Hollandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Hollands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi óttist samlanda sína frá [...] sem séu í Hollandi og hafi hótað honum og stungið hann. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að kærandi getur leitað aðstoðar yfirvalda í Hollandi óttist hann að á honum verði brotið.

Þá hefur kærandi einnig greint frá því að að líkamlegt heilsufar hans sé alvarlegt. Kærandi hafi árið 2013 gengist undir [...]. Kærandi hafi hitt lækna í Hollandi og Þýskalandi vegna veikinda sinna og hafi þeir sammælst um að hann yrði að vera undir stöðugu eftirliti og þá hafi þeir einnig ráðlagt honum frá því að fljúga. Fram kom í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun þann 27. október 2016 að kærandi hafi þurft að taka lyf í kjölfar framangreindra aðgerða en sé ekki lengur á lyfjum í tengslum við þær. Við meðferð málsins hjá kærunefnd bauð nefndin kæranda að leggja fram gögn, svo sem læknisvottorð, er gætu veitt nýjar upplýsingar um heilsufar hans. Þann 27. janúar 2016 barst kærunefnd tölvubréf frá talsmanni kæranda þess efnis að læknisvottorð varðandi heilsufar kæranda yrði ekki lagt fram. Í gögnum málsins kemur fram að andleg heilsa kæranda sé ekki góð en hann hafi fengið sálfræðiaðstoð í Þýskalandi og hafi einnig fengið sálfræðiaðstoð hér á Íslandi. Eins og fram hefur komið lagði kærandi, þann 8. febrúar 2017, fram sálfræðimat, dags. 2. febrúar 2017. Samkvæmt niðurstöðum sálfræðimatsins glímir kærandi við alvarlegt þunglyndi, almenna kvíðaröskun og heilsukvíða. Kærunefnd dregur ekki í efa að kærandi eigi við andlega erfiðleika að stríða. Það er hins vegar mat kærunefndar að aðstæður kæranda séu ekki svo alvarlegar að hann teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt ofangreindum skýrslum og gögnum, sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Hollandi, eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þar í landi rétt á sálfræðiþjónustu og jafnframt nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Það er mat kærunefndar, þegar litið er til þess sem fram hefur komið í gögnum málsins um heilsufar kæranda og þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í Hollandi, að leggja skuli til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi geti leitað sér heilbrigðisþjónustu við hæfi þar í landi. Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að aðstæður hans séu ekki slíkar að sérstakar ástæður mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Varðandi þá málsástæðu kæranda að læknar í Þýskalandi og Hollandi hafi ráðið honum frá því að fljúga þá tekur kærunefnd fram að kærandi kom með flugi hingað til lands auk þess sem kærandi lagði ekki fram frekari og nýlegri gögn um líkamlega heilsu sína þrátt fyrir að kærunefnd hafi boðið kæranda sérstaklega að leggja fram slík gögn. Hefur kærunefnd því lagt til grundvallar að flutningur kæranda til Hollands komi ekki til með að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir heilsufar hans.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 14. ágúst 2016.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 15. ágúst og 27. október 2016 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í máli þessu hafa hollensk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Hollands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir, varaformaður

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                         Erna Kristín Blöndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta