Hoppa yfir valmynd
12. september 2015 Innviðaráðuneytið

Innanríkisráðherra fjallaði um samgöngumál á opnum fundi á Patreksfirði

Ólöf Nordal innanríkisráðherra efndi til opins fundar á Patreksfirði í dag um samgöngu- og fjarskiptamál. Fundinn sat á sjötta tug manna úr Vesturbyggð og nágrenni. Ráðherra fjallaði vítt og breitt um stöðu samgöngumála á Vestfjörðum og kom einnig inn á fjarskiptamál.

Innanríkisráðherra hélt opinn fund á Patreksfirði um samgöngmál í dag.
Innanríkisráðherra hélt opinn fund á Patreksfirði um samgöngmál í dag.

Í upphafi fjallaði Ólöf Nordal stuttlega um vandann vegna flóttamanna sem nú streyma til Evrópulanda og hvernig það reyndi á Schengen-landamærakerfið. Ráðherra sagði hælisleitendum sem leita til Íslands hafa fjölgað mjög að undanförnu, aukningin væri 65% milli ágúst í ár og ágúst í fyrra og þegar hefðu 28 sótt um hæli í september. Augljóst væri að vandi flóttamanna hérlendis og í Evrópuríkjum myndi ekki leysast á stuttum tíma og mál þeirra myndi hafa í för með sér miklar breytingar.

Innanríkisráðherra ræddi síðan um Vestfjarðaveg og sagði að vonandi væri hægt að ráðast í næsta áfanga eftir að nú væri lokið þeirri endurbyggingu sem staðið hefði síðustu árin. Sagði hún áherslu sína þá að geta hafið vegarlagningu í gegnum Teigsskóg og miðað við að málið fengi viðunandi lausn yrði unnt að bjóða út verkið fyrir lok næsta árs. Ráðherra sagði ekki mikla aukningu í fjárframlögum til viðhalds á vegakerfinu á næsta ári en ekki væri þó útilokað að þar yrði bætt við. Hún sagði Dýrafjarðargöng verða næstu jarðgangaframkvæmd eftir að lokið verður við Norðfjarðargöng. Ráðherra sagði að af þeim kringum 20 milljörðum sem fara til samgöngumála árlega á næstu árum myndu um 3,5 milljarðar renna í framkvæmdir við jarðgöng.

Ýmsar hafnarframkvæmdir sagði hún á döfinni, m.a. við Bíldudalshöfn en ljóst væri að víða væri bankað á dyrnar eftir slíkum framkvæmdum, meðal annars í Helguvík.  Nýtt útboð vegna innanlandsflugs verður auglýst í næsta mánuði.

Í kjölfar inngangs ráðherra báru fundarmenn síðan fram ýmsar spurningar og urðu líflegar umræður um samgöngumálin. Fram kom meðal annars sú ábending að meðan endurbyggingu Vestfjarðavegar væri ekki lokið yrði að tryggja örugga flutninga með Breiðafjarðarferjunni Baldri með tveimur ferðum á dag að vetrarlagi til að unnt væri að koma útflutningsafurðum á markað. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri sagði að í fjárlagafrumvarpinu væri miðað við sömu upphæð í ferjusiglingar en spurning væri hvort rekstraraðili Baldurs, Eimskip, gæti hugsanlega séð möguleika í því að fjölga ferðum að vetrarlagi. Spurt var hvort haldið yrði áfram átaki í að fækka einbreiðum brúm og sagði vegamálastjóri að það væri í þágu umferðaröryggis að geta fækkað þeim. Ekki væri sérstakt átak í gangi en sett tiltekin upphæð í verkefni á hverju ári. Var einnig nefnt að aukinn fjöldi erlendra ferðamanna reyndi mjög á vegakerfið og sagðist ráðherra að leggja áherslu á það í ríkisstjórn að hugað yrði að samhengi aukins ferðamannafjölda og uppbyggingu innviða og öryggismála.

Meðal þeirra sem ræddu málin var Einar K. Guðfinnsson alþingismaður sem sagði mjög mikilvægt að fyrir vorið 2017 yrði búið að leiða til lykta vegagerð lokaáfanga Vestfjarðavegar í Gufudalssveit, að kominn væri á verksamningur og helst byrjað á verkinu á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar þannig að ekki yrði snúið aftur. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, nefndi innanlandsflugið, að mikilvægt væri að fá sjöundu ferðina í viku í áætlunarfluginu milli Bíldudals og Reykjavíkur. Einnig sagði hún brýnt að sinna verkefnum og viðhaldi í höfnum landsins.

Frá opnum fundi á Patreksfirði um samgöngumál.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta