Þrettán frjáls félagasamtök með verkefni í sautján ríkjum
Fjölmörg frjáls félagasamtök á Íslandi eiga í samstarfi við utanríkisráðuneytið á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar og verkefnin er víðs vegar um heiminn. Á síðasta ári fengu þrettán frjáls félagasamtök styrki frá utanríkisráðuneytinu til verkefna í fimmtán þjóðríkjum. Hér eru fjögur nýleg dæmi um fréttir af þessu mikilvæga starfi frá SOS Barnaþorpunum, ABC barnahjálp og Barnaheill – Save the Children á Íslandi, auk fréttar frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.
Úr sárafátækt í múrsteinaframleiðslu
Medina er einstæð fjögurra barna móðir í smábænum Eteya í Eþíópíu. Eftir að eiginmaður hennar lést stóð Medina eftir ein með börnin og engar tekjur. Árið 2018 var staða fjölskyldunnar orðin svo alvarleg að börnin fengu ekki grunnþörfum sínum mætt og þau gátu auk þess ekki sótt skóla. Medina fékk þá inngöngu í fjölskyldueflingu SOS Barnaþorpanna sem SOS á Íslandi fjármagnar og þremur árum síðar hafði henni heldur betur tekist að snúa taflinu við sér í vil. Medina hefur með þessum mikla dugnaði sýnt okkur í sinni tærustu mynd af hverju fjölskylduefling SOS Barnaþorpanna er svona mikilvæg. Við tökum fyrstu skrefin með fjölskyldum út úr sárafátækt svo þær getið staðið á eigin fótum og veitt börnunum bjarta framtíð. Nú eru á sjötta hundrað fjölskyldur með yfir 1600 börnum annað hvort útskrifuð eða að útskrifast úr fjölskyldueflingunni sem hófst árið 2018.
Áveitan lýkur vatnsverkefni í Búrkína Fasó
Haraldur Pálsson og Jóhanna Sólrún Norðfjörð, eigendur Áveitunnar á Akureyri hafa á undanförnum árum, ásamt góðum hópi starfsmanna og vina, farið reglulega til Búrkína Fasó og hjálpað til við hin ýmsu verk – en þó aðallega mjög stórt vatnsverkefni fyrir skólann og ræktunarlandið þeirra. Fékk fyrirtækið nýlega styrk frá utanríkisráðuneytinu fyrir nýjasta verkefnið, sem gerði það að verkum að hægt var að framkvæma meira en ella og var verkið unnið með heimamönnum. Í janúar fór síðasti hópurinn á þeirra vegum til Búrkína Fasó.
Börn í Sýrlandi skelfingu lostin við að sofa í tjöldum á meðan stormar geisa
Úrhellisrigning og flóð hafa undanfarið valdið miklum skaða í bæði flóttamannabúðum og þorpum víða í norðanverðu Sýrlandi þar sem jarðskjálftar skullu nýlega á og eru börn of óttaslegin til að sofa í tjöldum. Flóðin hafa valdið miklum skaða fyrir fleiri en 4.000 fjölskyldur í norðanverðu Sýrlandi, sérstaklega í búðum settum upp fyrir fólk á vergangi. Að minnsta kosti 375 tjöld sem veittu fjölskyldum skjól hafa eyðilagst eða eru svo illa farin að ekki er lengur hægt að búa í þeim. Yfir 530 tjöld til viðbótar hafa skemmst. Flóðin hafa þar að auki lokað fyrir vegi og komið í veg fyrir að mannúðaraðstoð nái til fólks sem enn þarf á henni að halda vegna jarðskjálftanna í síðasta mánuði.
UNICEF styður menntun barna í Kongó í skugga átaka
UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, styrkir nú uppsetningu tímabundinna skólasvæða, þjálfun kennara og útvegar námsgögn í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó þar sem harðnandi átök í austurhéruðum landsins hafa raskað verulega menntun barna síðastliðið ár. Samkvæmt nýjustu gögnum UNICEF hefur skólaganga nærri 750 þúsund barna raskast verulega í tveimur stríðshrjáðustu héruðum austurhluta Kongó. Frá janúar í fyrra til mars í ár hafa 2.100 skólar í Norður-Kivu og Ituri-héruðum neyðst til að hætta starfsemi af öryggisástæðum. Þúsundir fjölskyldna hafa neyðst til að flýja heimili sín í leit að öryggi og áætlar UNICEF að nærri 240 þúsund börn séu á vergangi í flóttamannabúðum í kringum Goma, höfuðborg Norður-Kivu.