Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2006 Innviðaráðuneytið

Mikilvægt að auka rannsóknir á orsökum umferðarslysa

Mikilvægt er að auka rannsóknir á umferðarslysum og orsökum þeirra, reglugerð um hækkun sekta við umferðarlagabrotum tekur gildi 1. desember og fyrirhugaðar breytingar á umferðarlögum gera ráð fyrir að unnt verði að takmarka réttindi ungra ökumanna og beita akstursbanni vegna umferðarlagabrota. Þetta var meðal þess sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kynnti á Umferðarþingi sem sett var í morgun.

Sturla Bodvarsson a umferdarthngi
Sturla Böðvarsson flytur ræðu á Umferðarþingi sem stendur í dag og á morgun.

Umferðarþing stendur í dag og á morgun og verða þar flutt allmörg erindi um öruggari vegi og umhverfi þeirr, forvarnir, öruggari ökutæki, ökumenn og sérstaklega unga ökumenn, um slysarannsóknir og umferðaröryggi í alþjóðlegu samhengi. Í lok þingsins á morgun fjalla umræðuhópar um hin ýmsu umræðuefni þingsins.

Í upphafi ræðu sinnar minntist samgönguráðherra á kostnað við umferðarlsys sem hann sagði alltof mikinn. Hann sagði þær tölur þó fölna þegar mannlegur harmleikur slysanna væri annars vegar. Helstu orsakir umferðarslysa sagði ráðherra vera ölvunarakstur, hraðakstur og misbrest á notkun öryggisbelta. Hann sagðist þeirrar skoðunar að með því að ráðast að þessum þáttum og auka eftirlit mætti fækka umferðarslysum talsvert á komandi árum. Hann sagði fjölgun bíla hafa verið gífurlega síðustu árin og henni fylgdi aukin umferð sem kallaði á nýjar lausnir í vega- og umferðarmálum. ,,Þjóðvegakerfið og gatnakerfið í þéttbýlinu verður að geta annað þeim umferðarþunga sem orðinn er og þar dugar ekkert minna en stórátak,? sagði ráðherra.

Í ræðunni minntist samgönguráðherra einnig á þær breytingar á umferðarlögum sem lagðar verða fyrir Alþingi og snúast meðal annars um að takmarka akstursréttindi ungra ökumanna og að hægt verði að beita unga ökumenn akstursbanni. Einnig gat hann um reglugerð um hert viðurlög vegna umferðarlagabrota sem taka á gildi 1. desember.

Sjálfvirkt neyðarkall undirbúið

Fram kom í ræðu Sturlu Böðvarssonar að unnið er nú að því á vegum Evrópusambandsins að neyðarhnappur verði í öllum bílum sem hringir sjálfvirkt í neyðarþjónustu 112 við árekstur. Með því fengi neyðarlína strax upplýsingar um staðsetningu og um leið gæti ökumaður eða aðrir í bílnum gefið frekari upplýsingar strax ef mögulegt er. Ráðherra sagði hugmyndina að þessu kerfi yrði komið á í öllum Evrópulöndum. Kvaðst hann gera ráð fyrir að undirrita yfirlýsingu fyrir hönd Íslands um þátttöku í þessu verkefni í næsta mánuði. Það myndi þá geta komið til framkvæmda hérlendis árið 2009 og sagði hann verkefnið meðal annars fela í sér viðskiptatækifæri fyrir íslensk fyrirtæki sem hafa framleitt búnað í þessu skyni, svo sem framleiðanda Sögu-ökuritanna.

Í lokin gerði samgönguráðherra að umtalsefni þá hugmynd sem forstjóri tryggingafélagsins Sjóvár hefur kynnt fyrir samgönguráðuneytinu um aðgang tryggingafélaga að upplýsingum um glæfraakstur. Sagði ráðherrann meðal annars um þessa hugmynd:

,,Slíkar upplýsingar myndu gera tryggingafélögum kleift að láta iðgjöld bifreiðatrygginga ráðast betur af áhættunni en unnt er í dag. Vísað er í reynslu erlendra tryggingafélaga að iðgjöld séu innheimt í samræmi við aksturssögu einstaklinganna. Erindið er nú til umsagnar í ráðuneytinu og ég tel að í ljósi þróunar í umferðinni hjá okkur sé brýnt að leita allra leiða til að draga sem mest úr áhættuhegðun í umferðinni. Þessi leið er einn möguleikinn því það er óforsvaranlegt að ökuníðingar fái að halda sömu kjörum og þeir sem hegða sér vel í umferðinni og njóti í raun fullrar tryggingar á kostnað hinna. Hér þarf þó að fara varlega og við munum leita álits Persónuverndar á hugmyndinni. Ein leiðin væri sú að ökumennirnir sjálfir gæfu tryggingafélagi sínu slíkar upplýsingar í því skyni að njóta betri iðgjalda. En þetta er áhugaverð hugmynd sem verður könnuð rækilega.?

Ræðu samgönguráðherra við setningu umferðarþings er að finna hér.

Forgangsraðað út frá arðsemi aðgerða

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneyti og formaður umferðaröryggisráðs, fór yfir helstu þætti í umferðaröryggisáætlun 2005 til 2010. Hún sagði umferðaröryggisaðgerðum nú í fyrsta sinn forgangsraðað með tilliti til arðsemi aðgerðanna. Væri arðsemin reiknuð út frá áætlaðri fækkun slysa og óhappa út frá forsendum um kostnað við hvert slys og fjölda atvika sem skráð væru í lögregluskýrslur. Fram kom í máli Ragnhildar að árangur af samstarfssamningi samgönguráðuneytisins, Umferðarstofu og Ríkislögreglustjóra um aukið eftirlit með hraðakstri hefði haft í för með sér færri slys síðasta sumar á Hringveginum allt milli Hvolsvallar og Ljósavatnsskarðs.

Þá nefndi ráðuneytisstjórinn að með nýjum skiltum um leiðbeinandi ökuhraða á þjóðvegum væri markmiðið að fækka slysum og hefðu í fyrra og í ár verið sett upp slík skilti mjög víða. Enn væri of snemmt að meta árangur. Fram fóru lagfæringar á nærri 40 svartblettum á árinu og alls eru nú 14 fyrirtæki í samstarfi við Umferðarstofu um verkefnið umferðaröryggi í öryggisstjórnun fyrirtækja.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta