Nr. 400/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 26. nóvember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 400/2020
í stjórnsýslumáli nr. KNU20110006
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 3. nóvember 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. október 2020, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.
Kærandi gerir aðallega þá kröfu að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 4. mgr. 8. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Til vara er gerð krafa um að mál kæranda verði tekið til efnismeðferðar með vísan til 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga og 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Til þrautavara er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og málið verði sent til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun á grundvelli 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 16. júní 2020. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 25. júní 2020, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Austurríki. Þann 24. júlí 2020 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Austurríki, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í svari frá austurrískum yfirvöldum, dags. 28. júlí 2020, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 19. október 2020 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 20. október 2020. Kærandi óskaði eftir endurupptöku á ákvörðun Útlendingastofnunar þann 26. október 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. nóvember 2020, var kæranda synjað um endurupptöku ákvörðunarinnar. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar frá 19. október 2020 til kærunefndar útlendingamála þann 3. nóvember 2020. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 12. nóvember 2020 ásamt fylgigögnum.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að austurrísk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Austurríkis ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Austurríkis.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi óskað eftir endurupptöku málsins hjá Útlendingastofnun þann 26. október sl. með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til samskipta stofnunarinnar við Göngudeild sóttvarna sem hvorki kæranda né talsmanni hans hafi verið kunnugt um. Í umræddum samskiptum hafi komið fram að kærandi hafi ekki mætt í tíma sem hann hafi átt hjá sálfræðingi þann 24. september sl. Kærandi bendir á að hann hafi fengið rangar upplýsingar um tímasetningu sálfræðitímans á korti sem hann hafi fengið afhent frá göngudeildinni. Hafi kærandi brýnt fyrir Útlendingastofnun að afla gagna frá heilsugæslunni um andlega heilsu kæranda þar sem ljóst hafi verið af frásögn hans og háttalagi í viðtali að hann glími við mikla andlega erfiðleika auk þess sem stofnunin hafi ekki veitt honum tækifæri til að kynna sér og andmæla þeim gögnum sem stofnunin aflaði frá Göngudeild sóttvarna þann 2. október sl. Ekki hafi verið fallist á beiðni kæranda um endurupptöku.
Í greinargerð kæranda til kærunefndar vísar hann til málsatvika í greinargerð sinni til Útlendingastofnunar. Þar kemur m.a. fram að í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að hann glími við andleg veikindi og minnistap auk þess sem hann fái martraðir. Kærandi hafi greint frá því að frændi hans hafi myrt bræður hans og hann sjálfur hefði orðið fyrir barsmíðum í heimaríki. Þá hafi hann orðið vitni af því þegar þriðji bróðir hans hafi drukknað. Kærandi hafi greint frá því að hafa stundum velt því fyrir sér að taka eigið líf. Hann hafi greint frá veikindum sínum í Austurríki en ekki fengið aðstoð þar. Hann vilji ekki fara aftur til Austurríkis þar sem hann hafi fengið lokasynjun þar í landi og ætti yfir höfði sér endursendingu til heimaríkis. Í greinargerð kæranda gerir hann athugasemdir við umfjöllun Útlendingastofnunar um aðstæður í Austurríki og það sem kærandi óttast við endursendingu þangað. Útlendingastofnun hafi í ákvörðun sinni ekki svarað áhyggjum kæranda varðandi viðhorf austurrískra stjórnvalda og almennings í garð umsækjenda um alþjóðlega vernd en það hafi farið versnandi á síðustu árum. Í gegnum tíðina hafi verið lagðar til og samþykktar viðamiklar og mjög íþyngjandi breytingar á austurrísku útlendingalögunum en tilgangur breytinganna hafi verið að vekja ótta hjá umsækjendum. Þá sé Austurríki eitt þeirra Evrópulanda sem hafi verið gagnrýnt sérstaklega fyrir langa málsmeðferð og óvandaðar ákvarðanir. Samkvæmt alþjóðlegum skýrslum hafi í júní 2019 verið samþykkt ný lög í Austurríki sem komi á fót ríkisstofnun sem fari með réttargæslu umsækjenda um alþjóðlega vernd og komi þannig í stað sjálfstætt starfandi stofnana sem hafi veitt þessum hópi lögfræðiaðstoð. Þessi breyting kunni að hafa áhrif á það hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd njóti réttlátrar málsmeðferðar. Þá sé að finna þversögn í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar varðandi mat á því hvort kæranda standi til boða grunnþjónusta í Austurríki verði hann sendur þangað aftur. Kærandi hafi vísað til þess að eftir að hafa hlotið lokasynjun í Austurríki hafi öll þjónusta við hann stöðvast og hann hafi m.a. þurft að finna sér svefnpláss í garði. Sú frásögn kæranda hafi verið metin trúverðug og verið lögð til grundvallar í málinu. Strax í næstu málsgrein sé hins vegar komist að gagnstæðri niðurstöðu og ekki fallist á með kæranda að honum standi ekki grunnþjónusta til boða í Austurríki. Kærandi gerir athugasemdir við þetta og telur af þessu leiða að hin kærða ákvörðun sé haldin slíkum annmörkum að ógilda beri ákvörðunina og senda málið til nýrrar meðferðar. Í því sambandi vísar kærandi til 13. og 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rökstuðning ákvarðana og andmælarétt kæranda. Þá telji kærandi að draga megi í efa að rannsókn málsins hafi verið fullnægjandi hvað varðar rétt kæranda á grunnþjónustu þar sem stofnunin hafi ekki komist að ákveðinni niðurstöðu hvað þennan þátt varðar, og brot á rannsóknarreglu geti leitt til ógildingar ákvörðunar.
Kærandi byggir á því að íslenskum stjórnvöldum sé skylt að taka mál hans til efnislegrar meðferðar með vísan til 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga og sé því ótækt að beita heimildinni í c-lið 1. mgr. 36. gr. sömu laga í máli þessu. Alþjóðleg samtök hafi gagnrýnt austurrísk stjórnvöld fyrir brottvísanir á umsækjendum um alþjóðlega vernd til Afganistan. Fjöldi skýrslna lýsi skelfilegum raunveruleika sem bíði fólksins þar en talið sé að þessar endursendingar brjóti gegn non-refoulement reglu þjóðaréttar. Reglan sé grundvallarregla í þjóðarétti og sé bindandi fyrir öll ríki, án tillits til alþjóðasamninga. Samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er íslenskum stjórnvöldum einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki sé tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Í því sambandi vísar kærandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 405/2013 sem hann telur styðja mál sitt. Fyrir liggi að Austurríki hafi synjað umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og að líkur séu á að hann verði hnepptur í varðhald strax við komuna til Austurríkis og verði fluttur beint til Afganistan, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Rétt sé að taka fram að öryggisástand í Afganistan sé mjög slæmt og óstöðugt. Kærandi telur það skjóta skökku við að Útlendingastofnun skuli afgreiða andmæli hans með jafn einföldum hætti og gert sé í hinni kærðu ákvörðun. Þar sé fullyrðingum og áhyggjum kæranda ekki svarað sjálfstætt heldur einungis fullyrt almennum orðum að ekki hafi verið sýnt fram á að austurrísk yfirvöld muni ekki veita kæranda þá vernd sem áskilin sé í alþjóðlegum skuldbindingum. Íslenskum stjórnvöldum beri skylda til að tryggja, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, að kærandi verði ekki áframsendur frá Austurríki til svæðis þar sem hann verði m.a. í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Af fyrrnefndum dómi Hæstaréttar Íslands megi ráða að komi eitthvað fram í málinu sem bendi til þess að móttökuríki muni ekki veita umsækjanda þá vernd sem áskilin sé í alþjóðlegum skuldbindingum á sviði mannréttinda, þar á meðal reglunni um non-refoulement, geti endursending þangað brotið gegn 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Í máli þessu hafi komið fram sannanir þess að móttökuríkið muni ekki veita kæranda þá vernd sem áskilin sé í alþjóðlegum skuldbindingum sem það sé bundið af. Austurríki sendi fólk hiklaust til Afganistan þrátt fyrir að samkvæmt opinberum og áreiðanlegum heimildum séu almennir borgarar ekki öruggir þar. Ljóst sé að íslensk stjórnvöld séu meðvituð um ástandið í Afganistan enda séu umsóknir fólks þaðan sem teknar séu til efnismeðferðar hér á landi afgreiddar hratt, ýmist með veitingu stöðu flóttamanns eða viðbótarverndar vegna almennra aðstæðna í landinu.
Kærandi byggir einnig á því að taka skuli umsókn hans til efnislegrar meðferðar hér á landi vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Íslenskum stjórnvöldum beri að leggja heildstætt mat á einstaklingsbundnar aðstæður kæranda og þær afleiðingar sem endursending gæti haft í för með sér fyrir hann, líkamlegar og andlegar, auk þess að meta hvort hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, sbr. 25. gr. sömu laga. Í komunótum frá Göngudeild sóttvarna komi fram að í fyrstu læknisskoðun hafi kæranda verið gefinn tími hjá sálfræðingi vegna frásagnar hans af andlegri líðan sinni. Sá tími hafi farið fram 20. júlí sl. Talsmaður kæranda hafi hvatt til þess að beðið yrði með ákvarðanatöku í málinu þar til gögn úr sálfræðitímanum lægju fyrir. Kæranda hafi þá verið útvegaður annar sálfræðitími en vegna misritunar á komukort frá heilsugæslunni hafi kærandi misst af þeim tíma. Af þeim sökum liggi einungis fyrir upplýsingar úr einum sálfræðitíma. Við mat á viðkvæmri stöðu kæranda í hinni kærðu ákvörðun sé því byggt á röngum upplýsingum en þar komi fram að kærandi hafi ekki mætt í bókaðan tíma. Kærandi hafi talið rétt að Útlendingastofnun endurupptæki málið af þessum sökum og kannaði betur andlega heilsu kæranda. Þeirri beiðni hafi verið synjað og komist að þeirri niðurstöðu að ekki yrði séð að umræddur misskilningur hafi haft slíka þýðingu fyrir mál kæranda að það uppfylli skilyrði um endurupptöku. Kærandi mótmælir þessu og telur að óumdeilt sé að gögn um andleg veikindi umsækjenda frá sálfræðingum hafi oftsinnis ráðið úrslitum um það hvort sérstakar ástæður teljist vera fyrir hendi í málum vegna viðkvæmrar stöðu viðkomandi. Í tilviki kæranda hafi staðið til að bíða eftir gögnum frá sálfræðingi til að unnt yrði að leggja mat á viðkvæma stöðu hans, um það vitni gögn málsins. Þar sem kærandi hafi misst af tímanum hafi það hins vegar ekki verið gert en stofnunin hafi gengið út frá því að kærandi sjálfur ætti sök á því að hafa ekki mætt í tímann. Í stað þess að óska eftir frekari upplýsingum um ástæður þess að kærandi mætti ekki hafi verið tekin ákvörðun í málinu án þess að frekari gögn um andlega heilsu kæranda lægju fyrir. Kærandi hafi ekki fengið annan tíma hjá sálfræðingi þrátt fyrir umræddan misskilning og enginn reki að því gerður, af hálfu stofnunarinnar, að afla nánari upplýsinga um andlega heilsu hans. Ljóst sé að upplýsingar um heilsufar umsækjenda um alþjóðlega vernd geti haft verulega þýðingu þegar tekin sé ákvörðun um hvort sérstakar ástæður mæli með því að umsókn sé tekin til efnislegrar meðferðar samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Það sé í samræmi við skýringar á ákvæðinu í lögskýringargögnum, og það að einstaklingsbundnar og sérstakar ástæður sem varði heilsufar geti verið þess eðlis að ekki verði framhjá þeim litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar nr. 540/2017. Sé það jafnframt í samræmi við hina almennu rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar sem lögfest sé í 10. gr. stjórnsýslulaga og áréttuð í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Kærandi sé ungur að árum og óumdeilt að hann hafi verið á flótta frá barnsaldri. Kærandi hafi stuttlega lýst erfiðum aðstæðum í Afganistan og ítrekuðum alvarlegum áföllum sem hann hafi orðið fyrir, þrátt fyrir ungan aldur. Hafi kærandi greint frá minnistapi, þrálátum svefnvandamálum og andlegri vanlíðan. Þá óttist hann um líf sitt verði honum gert að snúa aftur til Austurríkis þar sem hans bíði vís endursending til Afganistan.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.
Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Austurríkis á umsókn kæranda er byggð á d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Kærandi hefur ekki fært rök fyrir þeirri málsástæðu sinni að 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar leiði til þess að stjórnvöld hér á landi beri ábyrgð á umsókn kæranda og ekkert í gögnum málsins bendir til þess að ákvæðið eigi við. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja Austurrísk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Aðstæður í Austurríki
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Austurríki, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:
- 2019 Country Report on Human Rights Practices - Austria (United States Department of State, febrúar 2020);
- Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2020 (European Asylum Support Office, 25. júní 2020);
- Austria 2019 Crime & Safety Report (Overseas Security Advisory Council, U.S. Department of State, 3. maí 2019);
- Asylum Information Database. Country Report: Austria (European Council on Refugees and Exiles, 26. mars 2020);
- Amnesty International Report 2017/18 (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
- Deserving Shelter: Conditional Access to Accommodation for Rejected Asylum Seekers in Austria, the Netherlands, and Sweden (Journal of Immigrant & Refugee Studies, 10. febrúar 2019);
- ECRI Conclusions on the Implementation of the Recommendations in Respect of Austria subject to interim follow-up (European Commission against Racism and Intolerance, 15. maí 2018);
- Euro Health Consumer Index 2018 (Health Consumer Powerhouse, janúar 2018);
- Freedom in the World – Austria (Freedom House, 30. apríl 2020);
- Report in immigration detention (legal context and practices; detention infrastructure) (DGP – Global Detention Project, maí 2017);
- The Return of Rejected Asylum Seekers from Austria (International Organization for Migration, júní 2016);
- Your Social Security Rights in Austria (European Commission, 2016);
- Universal Periodic Review – Austria (United Nations, Human Rights Council, 9. nóvember 2015);
- Upplýsingar af vef austurríska heilbrigðisráðuneytisins (www.bmgf.gv.at);
- Upplýsingar af vef Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (www.help.unhcr.org/austria/rights-and-obligations/asylum-seekers, sótt 18. nóvember 2020);
- Upplýsingar af vef austurríska innanríkisráðuneytisins (www.bmi.gv.at) og
- Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (http://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 16. nóvember 2020).
Samkvæmt framangreindri skýrslu European Council on Refugees and Exciles (ECRE) frá mars 2020 tekur austurríska útlendingastofnunin (a. Bundesamt für Fremdenwesen und Asyl) ákvarðanir er varða umsóknir um alþjóðlega vernd. Umsækjandi um alþjóðlega vernd á þess kost að bera synjun stofnunarinnar á umsókn sinni undir stjórnsýsludómstól (a. Bundesverwaltungsgericht) og þeim dómi er unnt að áfrýja til áfrýjunardómstóls (a. Verwaltungsgerichtshof). Umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn sinni eiga þess kost að leggja fram viðbótarumsókn hjá útlendingastofnun Austurríkis. Umsækjandi sem leggur fram viðbótarumsókn á rétt á viðtali sem á m.a. að leiða í ljós hvort nýjar upplýsingar eða gögn liggi fyrir eða hvort aðstæður hafi breyst í máli hans. Fái umsækjandi synjun á viðbótarumsókn sinni getur hann kært niðurstöðuna til stjórnsýsludómstóls. Þá eru engin takmörk á því hversu oft umsækjandi getur lagt fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga þess einnig kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu.
Samkvæmt skýrslunni hafa umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á lögfræðiþjónustu á skrifstofum útlendingastofnunar vegna umsóknar sinnar hjá stofnuninni en oft getur reynst erfitt að nálgast slíka þjónustu, aðallega vegna skorts á starfsfólki. Þá eiga umsækjendur einnig rétt á túlkaþjónustu í viðtölum sínum. Ef austurríska útlendingastofnunin synjar umsókn umsækjanda um alþjóðlega vernd fær umsækjandi skipaðan lögfræðing þegar ákvörðun stofnunarinnar er birt honum, vilji hann bera synjunina undir stjórnsýsludómstól. Þegar umsækjandi leggur fram viðbótarumsókn á hann rétt á lögfræðiráðgjöf bæði hjá útlendingastofnun og stjórnsýsludómstólnum og er slík lögfræðiráðgjöf kostuð af ríkinu.
Austurríki er aðildarríki Evrópusamstarfsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Samkvæmt framangreindri skýrslu ECRE eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á grunnþjónustu, s.s. húsnæði, heilbrigðisþjónustu, mataraðstoð og vasapeningum á meðan umsókn þeirra er til meðferðar hjá yfirvöldum. Samkvæmt upplýsingum af vefsíðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd í Austurríki rétt á grunnþjónustu, m.a. húsnæði, mataraðstoð og heilbrigðisþjónustu til jafns á við austurríska ríkisborgara, sama hvar umsókn þeirra eru stödd í umsóknarferlinu. Samkvæmt skýrslu International Organization for Migration frá því í júní 2016 og skýrslu Deserving Shelter: Conditional Access to Accommodation for Rejected Asylum Seekers in Austria, the Netherlands, and Sweden sem birt var í tímaritinu Journal of Immigrant & Refugee Studies þann 10. febrúar 2019, er aðgengi að grunnþjónustu í Austurríki eftir að umsækjandi hefur fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd byggð á samvinnu umsækjandans við yfirvöld. Umsækjendur eiga því rétt á grunnþjónustu eftir að synjun á umsókn þeirra liggur fyrir þar til þeim er vísað frá landi eða þeir fara af landi brott sjálfviljugir, svo lengi sem sú þjónusta er ekki afturkölluð vegna háttsemi umsækjandans sjálfs, t.d. ef umsækjandi neitar að skrifa undir nauðsynleg skjöl eða neitar að afhenda nauðsynleg gögn. Þá á umsækjandi rétt á grunnþjónustu ef ekki er hægt að vísa honum frá landi, s.s. vegna ófullnægjandi ferðaskilríkja, svo lengi sem ástæðan er ekki af völdum háttsemi umsækjandans sjálfs. Þó að þetta sé almenna reglan á þetta ekki við í öllum sveitarfélögum en sveitafélögin geta lagt mismunandi mat á það hverjir eigi rétt á grunnþjónustu og hvenær tilefni sé til að afturkalla slíka þjónustu. Þegar umsækjandi leggur inn viðbótarumsókn innan sex mánaða frá því hann fékk síðast synjun á umsókn sinni getur hann átt á hættu að fá ekki aðgang að grunnþjónustu. Hafi hann ekki aðgang að grunnþjónustu er umsækjandi settur í varðhald eða honum veitt minna íþyngjandi þjónustuúrræði. Umsækjendur um alþjóðlega vernd í Austurríki sem hafa aðgang að grunnþjónustu eru sjúkratryggðir. Ef heilbrigðisþjónusta fellur utan sjúkratrygginga er hægt að sækja um að fá hana greidda af ríkinu. Hafi umsækjandi ekki aðgang að grunnþjónustu hefur hann þó alltaf aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Þá veitir heilbrigðisstofnunin Amber-Med í Vín þeim sem ekki eru sjúkratryggðir heilbrigðisþjónustu á nokkrum tungumálum.
Jafnframt kemur fram í skýrslu ECRE að umsækjendur sem sendir eru til Austurríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar geti í sumum tilvikum verið settir í varðhald. Varðhaldi sé þó sjaldan beitt í framkvæmd. Ákvörðun um varðhald er tekin af austurrísku útlendingastofnuninni, m.a. í þeim tilvikum ef óttast er að einstaklingur sé talinn ógn við almannaöryggi eða þegar nauðsyn krefur vegna ótta um að umsækjandi muni fara af landi brott. Ákvörðun um varðhald er þá endurmetin á fjögurra vikna fresti en eftir fjóra mánuði fer hún sjálfkrafa til dómstóla til endurskoðunar. Þá er einnig hægt að kæra ákvörðun um varðhald strax til dómstóla sem tekur þá ákvörðun um lögmæti hennar innan sjö daga ef einstaklingur er í varðhaldi og nýtur þá einstaklingur lögfræðiaðstoðar án endurgjalds. Þá kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu samkvæmt austurrískum lögum óháð því hvort þeir séu í varðhaldi eða ekki.
Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2019 eru lögregluyfirvöld í Austurríki skilvirk og fagleg og veita einstaklingum sem staddir eru í Austurríki vernd gegn hvers konar afbrotum. Þá hafa austurrísk stjórnvöld samkvæmt skýrslu framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins frá því árið 2018 gripið til aðgerða til að sporna við margvíslegri mismunun þar í landi, þ. á m. á grundvelli kynþáttar með því að veita fórnarlömbum hatursglæpa frekari stuðning og upplýsingar um hvernig megi leitar réttar síns.
Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda
Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...] árs gamall karlmaður. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 13. ágúst 2020, greindi kærandi frá því að hann glími við andleg veikindi, minnisleysi og fái martraðir. Hann hafi orðið fyrir ofbeldi í heimaríki og hafi því ekki bein fyrir ofan augað, það hafi valdið honum höfuðverkjum. Í gögnum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 2. júlí 2020, kemur fram að kærandi sé hraustlegur en finni fyrir miklum kláða í húð og geti af þeim sökum varla sofið. Í gögnum frá sálfræðingi á Göngudeild sóttvarna, dags. 20. júlí 2020, kemur fram að kærandi sé dapur og þunglyndur að eigin sögn, hann sé með áberandi athyglisbrest og kveðist vera mjög gleyminn. Í gögnum frá Heilsugæslunni í Keflavík, dags. 7. júlí 2020 til 9. október 2020, kemur fram að kærandi sé með einkenni kláðamaurs og hafi í tvígang fengið lyf við því.
Kærunefnd tekur fram að kæranda var leiðbeint í viðtali hjá Útlendingastofnun, þann 13. ágúst 2020, um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem kærandi telji hafa þýðingu fyrir mál sitt, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun. Þá var kæranda leiðbeint, í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 1. júlí sl., um rétt sinn til þess að óska eftir viðtali við sálfræðing, auk þess sem kærandi var hvattur, í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 13. ágúst sl., til að leita eftir læknisaðstoð ef hann teldi sig þurfa á slíkri aðstoð að halda. Þá var kæranda leiðbeint með tölvupósti kærunefndar, dags. 16. nóvember 2020, um framlagningu frekari gagna, t.a.m. heilsufarsgagna væru þau til staðar. Engin frekari gögn bárust frá kæranda. Með vísan til fyrrgreindrar málsmeðferðar og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu telur kærunefnd að mál kæranda sé nægjanlega upplýst hvað varðar heilsufar kæranda og aðra þætti varðandi einstaklingsbundnar aðstæður hans. Þá er ekkert sem bendir til þess að frekari gögn um heilsufar hans geti haft áhrif á niðurstöðu málsins.
Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.
Einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst en meðal annars liggur fyrir að hann hafi glímt við andlega vanlíðan. Kærunefnd telur þó að aðstæður hans séu ekki þess eðlis að þær teljist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Í því sambandi hefur nefndin m.a. litið til þess að heilsufar kæranda sé ekki með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, eins og segir í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar. Þá telur nefndin að heilbrigðisaðstæður kæranda geti ekki talist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið, sbr. 3. mgr. sömu greinar.
Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Austurríki verður ekki annað ráðið en að umsækjendur sem fengið hafi synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi eigi rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Þá eigi umsækjendur sem sæta varðhaldi rétt á heilbrigðisþjónustu í viðtökuríki. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kærandi komi því til með að standa til boða fullnægjandi heilbrigðisþjónusta þar í landi, þó að hann muni e.t.v. þurfa að greiða fyrir slíka þjónustu sjálfur. Í þessu sambandi áréttar kærunefnd að í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga er sérstaklega tekið fram að meðferð við veikindum teljist, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana. Að mati kærunefndar er heilsufar kæranda ekki þess eðlis að ástæða sé til að víkja frá þessari meginreglu. Í þessu sambandi lítur kærunefnd til þess að kæranda var ítrekað leiðbeint um að leggja fram heilsufarsgögn sem þýðingu hafa fyrir mál hans og að stjórnvöld hér á landi hafi ekki heimild til að afla slíkra gagna sjálf. Kærandi hefur dvalið hér á landi í tæpa fimm mánuði og hefur haft næg tækifæri til að afla slíkra gagna og leggja þau fram, sé þörf á þeim fyrir mál hans.
Þá telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. áðurnefnd viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda m.a. til þess að telji kærandi sér mismunað þar í landi, s.s. á grundvelli kynþáttar, eða óttist hann um öryggi sitt að einhverju leyti geti hann leitað aðstoðar hjá þar til bærum stjórnvöldum.
Hvað varðar sjónarmið kæranda um að líklegt sé að hann verði hnepptur í varðhald við komuna til Austurríkis áréttar kærunefnd það sem þegar hefur komið fram um varðhald þar í landi. Umsækjendum um alþjóðlega vernd sem hlotið hafa endanlega neikvæða niðurstöðu í Austurríki getur, eftir atvikum, verið gert að sæta varðhaldi í samræmi við skilyrði austurrískra laga þar um og getur það t.d. átt við þegar einstaklingur á yfir höfði sér brottvísun og tilefni er til að halda að hann muni láta sig hverfa. Sé ákvörðun um varðhald tekin á lægra stjórnsýslustigi er unnt að bera lögmæti þess undir dómstóla. Í áðurgreindri skýrslu ECRE kemur fram að varðhald í Austurríki skuli vera eins stutt og mögulegt er og skuli ekki vara lengur en í sex mánuði hjá fullorðnum einstaklingum. Í varðhaldsmiðstöðvum veita frjáls félagasamtök félagslega ráðgjöf auk þess sem lögfræðingar veita ráðgjöf og aðstoð m.a. varðandi áfrýjun á umsóknum um alþjóðlega vernd. Þá njóti þeir sem dvelja í varðhaldsmiðstöðvum aðgangs að heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. geðheilbrigðisþjónustu að sama marki og aðrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin því ljóst að sá möguleiki að kærandi kunni að vera færður í varðhald leiði ekki til þess að hann teljist eiga erfitt uppdráttar í Austurríki eða að öðru leyti séu fyrir hendi sérstakar ástæður í máli hans af þeim sökum. Þá er áréttað að framangreindar landaupplýsingar um aðstæður í Austurríki beri með sér að einstaklingur sem hafi fengið lokasynjun á máli sínu í Austurríki geti lagt fram viðbótarumsókn, svo sem ef nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans eða ef aðstæður hafa breyst í máli hans.
Við mat á því hvort sérstakar ástæður mæli með því að umsókn kæranda hljóti efnismeðferð hér á landi hefur kærunefnd litið til þeirra aðstæðna sem nú eru uppi vegna Covid-19 faraldursins. Fjölmörg ríki hafa gripið til umfangsmikilla aðgerða til þess að sporna gegn útbreiðslu veirunnar. Hafa aðgerðirnar m.a. falist í ferðatakmörkunum og ferðabönnum. Í því sambandi hafa mörg aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins á einhverjum tímapunkti lokað fyrir endursendingar einstaklinga á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Var það m.a. gert hér á landi yfir ákveðið tímabil en óvissa ríkir um það hvenær framkvæmd endursendinga verði komin í sama horf og áður en Covid-19 faraldurinn skall á. Yfirvöld í Austurríki hafa gripið til umfangsmikilla aðgerða til þess að sporna við útbreiðslu veirunnar, m.a. með takmörkunum á ferðum til landsins, takmörkunum á fjöldasamkomum og útgöngubanni. Á vefsíðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna kemur fram að í Austurríki séu þær stofnanir sem sinni útlendingamálum opnar en vísað er til upplýsinga um sóttvarnarráðstafanir sem beri að fylgja, m.a. grímuskyldu á skrifstofum stofnananna og fjarlægðartakmörk. Þrátt fyrir að smitum hafi fjölgað á nýjan leik í Austurríki hefur kærunefnd ekki forsendur til annars en að líta svo á að þær takmarkanir sem við líði eru vegna Covid-19 faraldursins séu tímabundnar.
Af skýrslum er ljóst að viðtökuríkið býr við stöðuga stjórnarhætti og sterka innviði. Að mati kærunefndar er því ekkert sem bendir til þess að það tímabundna ástand sem nú ríki komi til með að hafa teljandi áhrif á getu eða vilja viðtökuríkisins til að taka á móti og afgreiða mál kæranda þar í landi þegar takmörkunum verður aflétt og veita honum nauðsynlegan stuðning og viðeigandi aðbúnað.
Í því sambandi er rétt að árétta að Dyflinnarreglugerðin gerir ráð fyrir því að samstarfsríkin hafi almennt sex mánuði frá því að lokaákvörðun var tekin um kæru umsækjanda um alþjóðlega vernd til að flytja umsækjanda til viðtökuríkis, sbr. 1. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar.
Þá lítur kærunefnd einnig til þess að skv. 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun heimilt að fresta flutningi á umsækjanda ef það telst nauðsynlegt vegna sérstakra aðstæðna hans eða ómögulegt er að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.
Er það mat kærunefndar að tímabundnar takmarkanir á endursendingum til Austurríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar geti ekki, eins og hér stendur á, leitt til þess að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi hefur kærunefnd sérstaklega litið til sterkra innviða viðtökuríkisins og þess frests sem aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins hafa til að endursenda umsækjendur til viðtökuríkis og fjallað var um hér að framan.
Það er jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kæranda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda og á grundvelli heildarmats á áhrifum Covid-19 faraldursins á aðstæður hans er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 13. ágúst 2020 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 16. júní 2020.
Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.
Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstóllinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn sé frelsissviptur, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016. Í því sambandi hefur dómstóllinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. dóm í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012. Þrátt fyrir það verði 3. gr. mannréttindasáttmálans ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. dóm í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011.
Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Austurríki er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda séu ekki slíkar að vegna stöðu hans sem umsækjanda um alþjóðlega vernd í viðtökuríki verði endursending hans þangað talin ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð.
Áður hefur verið fjallað um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Austurríki, þ.m.t. möguleika umsækjenda til að fá ákvarðanir um synjun verndar endurskoðaðar af austurrískum yfirvöldum. Austurrísk yfirvöld eru bundin af sambærilegum reglum og Ísland um vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til ríkis þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra eða frelsi ógnað (non-refoulement), sbr. austurrísku útlendingalögin (g. Asylgesetz 2005).
Að mati kærunefndar veitir málsmeðferð austurrískra yfirvalda nægilega tryggingu fyrir því að einstaklingsbundið mat sé lagt á aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í því skyni að tryggja að enginn umsækjandi sé sendur þangað sem líf hans eða frelsi er í hættu. Kærunefnd leggur þá áherslu á að við túlkun á því hvaða skyldur hvíla á ríkjum sem senda einstaklinga til annarra ríkja þar sem þeir kunna að vera sendir áfram til þriðja ríkis (e. indirect refoulement) hefur nefndin horft á hvort ríkið, sem senda á einstaklinginn til, veiti raunhæfa vernd (e. effective guarentees) til að tryggja að einstaklingar verði ekki sendir áfram í ómannúðlegar og vanvirðandi aðstæður, sbr. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011. Kærunefnd telur gögn málsins bera með sér að í Austurríki sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða endursent til ríkja þar sem það eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem líf þess eða frelsi sé ógnað. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem benda til þess að meðferð á umsókn hans í Austurríki hafi verið óforsvaranleg. Samkvæmt framsögðu benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Austurríki, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.
Vegna tilvísunar kæranda til dóms Hæstaréttar í máli nr. 405/2013 frá 24. október 2013 tekur kærunefnd fram að um sé að ræða mál einstaklings sem til stóð að senda til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar en viðkomandi hafði áður fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Í niðurstöðu dómsins kemur fram að ekkert hafi komið fram í málinu um að sænsk stjórnvöld myndu ekki veita umsækjanda þá vernd sem áskilin væri í alþjóðlegum skuldbindingum Svíþjóðar á sviði mannréttinda, þar á meðal reglunni um non-refoulement, sem öll ríki Evrópusambandsins væru bundin af, yrði hann sendur aftur til Svíþjóðar. Í því máli sem hér er til skoðunar á hið sama við; ekkert í gögnum málsins bendir til þess að austurrísk stjórnvöld veiti kæranda ekki þá vernd sem áskilin er í alþjóðlegum skuldbindingum ríkisins á sviði mannréttinda líkt og áður hefur verið fjallað um.
Samkvæmt framansögðu kemur 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki í veg fyrir að umsókn kæranda verði synjað um efnismeðferð.
Athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar
Svo sem fram hefur komið gerir kærandi ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. við umfjöllun stofnunarinnar um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Austurríki og við málsmeðferð málsins hjá Útlendingastofnun.
Kærandi byggir m.a. á því í greinargerð sinni til kærunefndar að ógilda beri hina kærðu ákvörðun þar sem rökstuðningi hennar sé ábótavant, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga, og að um brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og andmælarétti 13. gr. sömu laga hafi verið að ræða við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Kærunefnd tekur undir það með kæranda að vanda hefði mátt betur rökstuðning í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga, þá sérstaklega varðandi aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Austurríki sem fengið hafa synjun á umsókn sinni. Kærunefnd telur þó jafnframt að nefndin hafi endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu efnislegu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Bætt hafi því verið úr þessu á kærustigi málsins.
Kærandi ber fyrir sig að andmælaréttur hans hafi ekki verið virtur við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun þar sem tölvupóstssamskipti stofnunarinnar og Göngudeildar sóttvarna, dags. 2. október sl., hafi ekki verið kynnt fyrir kæranda eða honum veittur frestur til að andmæla þeim gögnum. Kærunefnd telur að færa megi rök fyrir því að það hefði verið vandaðri stjórnsýsla að deila með kæranda framangreindum upplýsingum frá Göngudeild sóttvarna, en vísað er til upplýsinganna í hinni kærðu ákvörðun. Kærunefnd telur þó ljóst að þessi samskipti hafi engin áhrif haft á niðurstöðu Útlendingastofnunar og því sé ekki ástæða til að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi á þeim grundvelli. Þá hafði kærandi tækifæri til að koma að athugasemdum og frekari upplýsingum í málinu við meðferð málsins hjá kærunefnd, þ.m.t. heilsufarsupplýsingum, eins og rakið er að framan.
Að því er varðar athugasemdir kæranda við rannsókn málsins að öðru leyti áréttar kærunefnd að kæranda var leiðbeint í viðtali hjá Útlendingastofnun, þann 13. ágúst 2020, um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem kærandi telji hafa þýðingu fyrir mál sitt, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun. Þá var kæranda leiðbeint, í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 1. júlí sl., um rétt sinn til þess að óska eftir viðtali við sálfræðing, auk þess sem kærandi var hvattur, í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 13. ágúst sl., til að leita eftir læknisaðstoð ef hann teldi sig þurfa á slíkri aðstoð að halda. Þá sé jafnframt ljóst að hann hafi fengið aðstoð á Göngudeild sóttvarna og heilsugæslu Keflavíkur, sbr. áðurgreind gögn sem skilað hefur verið inn um það. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi ekki verið ábótavant hvað þetta varðar.
Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana að öðru leyti. Hefur kærunefnd skoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda.
Frávísun
Kærandi kom hingað til lands þann 16. júní 2020 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærandi skal fluttur til Austurríkis eins fljótt og unnt er, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Í máli þessu hafa austurrísk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Austurríkis með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd á grundvelli lokamálsliðar 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin, m.a. ef afleiðingar Covid-19 faraldursins muni vara lengur og vera alvarlegri en gera má ráð fyrir nú.
Athygli kæranda er einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Bjarnveig Eiríksdóttir Sandra Hlíf Ocares