Hoppa yfir valmynd
3. október 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þjónustusamningur um starfsendurhæfingu fólks utan vinnumarkaðar

Þorsteinn Víglundsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir - myndVelferðarráðuneytið

Formlegur samningur um þjónustu VIRK – starfsendurhæfingarsjóðs við einstaklinga sem standa utan vinnumarkaðar var undirritaður í velferðarráðuneytinu fyrir skömmu. Samningurinn byggist á ýtarlegri kröfulýsingu fyrir starfsendurhæfingarsjóði.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnar VIRK undirrituðu samninginn sem gerður er í samræmi við 9. grein laga nr. 60/2012 um rétt þeirra til starfsendurhæfingar sem standa utan vinnumarkaðar. Er þar meðal annars átt við þá sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri á grundvelli laga um félagslega aðstoð, örorkulífeyri á grundvelli laga um almannatryggingar og þá sem fá fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu sveitarfélaga á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Með samningnum er kveðið skýrt á um að þeir sem standa utan vinnumarkaðar og uppfylla skilyrði 11. gr. laga nr. 60/2012 um atvinnutengda starfsendurhæfingu eigi rétt til þjónustu á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á sama hátt og þeir sem eru þátttakendur á vinnumarkaði. Markmiðið er að tryggja þeim sem eru með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa og standa utan vinnumarkaðar, atvinnutengda starfsendurhæfingu þannig að sem flestir eigi þess kost að vera virkir á vinnumarkaði.

Kröfulýsing fyrir starfsendurhæfingarsjóði

Í samræmi við lög hefur velferðarráðuneytið gert ýtarlega kröfulýsingu fyrir starfsendurhæfingarsjóði. Í kröfulýsingunni eru settar fram almennar kröfur til starfsendurhæfingarsjóða. Annars vegar er fjallað um rekstur slíkra sjóða, skipulag, ábyrðgarstöður, gæða- og árangursstjórnun, skráningar og gögn, upplýsingaskyldu og eftirlit. Hins vegar er fjallað um þjónustuna, hún skilgreind og gerð grein fyrir almennum kröfum til hennar, auk þess sem fjallað er sérstaklega um einstaka þætti þjónustunnar og það sem snýr beint að notendum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta