Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Félag stofnað um fasteignarekstur Háskóla Íslands

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands gengu í gær formlega frá stofnun sérstaks fasteignafélags sem fær það hlutverk að fara með eignarhald og umsýslu á þeim fasteignum sem nýttar eru í þágu Háskólans. 

Fasteignir skólans verða nú færðar í fasteignafélagið sem fær það hlutverk að leigja aðstöðu undir starfsemi HÍ gegn eðlilegu endurgjaldi eða raunkostnaði. Með þessu er verið að uppfylla þau grunnsjónarmið sem koma fram í lögum um opinber fjármál um sérhæfða eignaumsýslu og fjárhagslegt gagnsæi við húsnæðisrekstur. 

„Lögð var rík áhersla á að rekstur fasteigna undir starfsemi Háskólans yrði sem næst stjórnsýslu hans enda hefur verið staðið vel að uppbyggingu fasteigna undir starfsemina allt frá stofnun skólans. Af þessum sökum óskaði Háskólinn eftir því að stofnað yrði sérstakt félag utan fasteignirnar og er það mjög ánægjulegt að stjórnvöld hafi orðið við þeirri beiðni háskólans með stofnun þessa félags,“ segir Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands, sem þakkaði jafnframt öllum þeim sem komið hafa að undirbúningi stofnunar félagsins undanfarin rösk tvö ár. 

Skapar aðhald og hvata til hagræðingar

Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að því að byggja upp miðlæga og faglega umsýslu á eignasafni ríkisins ásamt því að auka fjárhagslegt gagnsæi við rekstur fasteigna. Með stofnun fasteignafélags um fasteignir Háskóla Íslands er mikilvægt skref stigið í þá átt að ljúka þeirri vinnu. 
Breyttu fyrirkomulagi er ætlað að tryggja að nauðsynleg sérþekking sé til staðar í tengslum við viðhald og umsýslu sérhæfðra eigna háskólans sem eru nátengd starfseminni og koma í veg fyrir að viðhaldsskuld geti myndast í fasteignarekstrinum. Mörg erlend fordæmi eru fyrir því að fasteignir á vegum opinberra aðila séu reknar í sérhæfðum einingum en í því felst töluvert hagræði m.a. vegna stærðarumfangs og sérhæfingar.

„Með stofnun fasteignafélagsins er tryggt að kostnaður við rekstur fasteignanna verður sýnilegur án þess að það komi niður á fjárhagslegri getu háskólans til veita þá þjónustu sem honum er ætlað að veita,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. 

„Þetta skapar fjárhagslegt aðhald og hvata til hagræðingar í rekstri húsnæðis, bæði með betri nýtingu og með þróun fasteignasafnsins þannig að það þjóni sem best hagsmunum háskólans.“ 

Háskólinn nýtir nú um 100 þúsund fermetra

Háskóli Íslands nýtir um 100 þúsund fermetra af húsnæði fyrir starfsemi sína í dag í nokkrum tugum bygginga. Til viðbótar leigir háskólinn um fimm þúsund fermetra. Til samanburðar þá nýtir Landspítalinn um 162 þúsund fermetra undir sína starfsemi og Ríkiseignir eru með yfir 500 þúsund fermetra í sinni umsýslu víðsvegar um landið. 

Sala fasteigna félagsins mun lúta sama fyrirkomulagi og hjá ríkissjóði og þá mun félagið falla undir almenna eigandastefnu ríkisins um hlutafélög og sameignarfélög.

Stjórn nýja félagsins skipa þau: Daði Már Kristófersson, sem er formaður, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Guðmundur R. Jónsson, Hrafn Hlynsson og Sólrún Böðvarsdóttir. Varamenn eru Siv Friðleifsdóttir og Guðmundur Axel Hansen.  

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta