Norðurlönd – afl til friðar
Norðurlöndin eiga að vera afl til friðar og friður er undirstaða mannréttinda, félagslegs réttlætis og umhverfis- og náttúruverndar. Þetta hefur verið meginstefið í máli Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna, á þingi Norðurlandaráðs sem nú stendur yfir í Helsinki.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, kynnti í gær formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2023 en yfirskrift hennar er Norðurlöndin afl til friðar. Norðurlöndin og friður hafa sömuleiðis verið meginstefið á þeim ríflega 20 fundum sem Guðmundur Ingi hefur setið síðan á mánudag, bæði í tengslum við Norðurlandaráðsþingið og til að undirbúa komandi formennsku Íslands.
„Norrænu þjóðirnar eru sterkastar þegar þær standa saman. Saman getum við fært fjöll og verið leiðandi á heimsvísu,“ segir Guðmundur Ingi. „Það hefur verið afar ánægjulegt að finna á þinginu þá miklu samstöðu sem er á meðal Norðurlandanna. Formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á næsta ári er sannarlega spennandi viðfangsefni.“
Í dag sátu samstarfsráðherrar Norðurlandanna sameiginlega fyrir svörum í fyrirspurnatíma á þingi Norðurlandaráðs og kynntu auk þess greinargerð sína um norrænt samstarf um viðbúnað við krísum. Til umfjöllunar voru meðal annars viðbrögð Norðurlandanna við Covid-19 og hvaða lærdóm draga mætti af þeim til að takast á við aðrar sameiginlegar áskoranir.
Þá tók Guðmundur Ingi þátt í umræðum og sat fyrir svörum með utanríkis- og varnarmálaráðherrum Norðurlanda fyrir hönd utanríkisráðherra Íslands og í umræðum um Hagasamstarfið fyrir hönd dómsmálaráðherra.
Guðmundur Ingi tók einnig þátt í fundum með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og átti sömuleiðis fund með fulltrúum Norðmanna í forsætisnefndinni.
Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands
Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023 og mun leiða samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.
Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.