Ný reglugerð um Jöfnunarsjóð lögð fram í samráðsgátt til umsagnar
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur lagt drög að nýrri reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Í drögunum eru gerðar breytingar á forsendum útgjaldajöfnunarframlaga og efni gildandi reglugerðar, nr. 960/2010, uppfært í takt við breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.
Breytingar á forsendum útgjaldajöfnunarframlaga eru byggðar á vinnu sem hefur farið fram við endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs á undanförnum árum. Markmið þeirra eru að:
- auka jöfnuð milli sveitarfélaga.
- styrkja millistór sveitarfélög og draga úr framlögum til tekjuhærri sveitarfélaga.
- draga úr neikvæðum áhrifum vegna sameiningar sveitarfélaga á framlög sjóðsins til útgjaldajöfnunar og styrkja þar með hvata til sameiningar.
- auka framlög til sveitarfélaga sem eru með hlutfallslega mörg börn á grunnskólaaldri, sveitarfélaga sem hafa marga þéttbýliskjarna og sveitarfélaga á vaxtarsvæðum.
Gert er ráð fyrir því að framangreindar breytingar taki gildi um næstu áramót.