Hoppa yfir valmynd
25. október 2021 Matvælaráðuneytið

Ákvörðun Fiskistofu um aflaskráningu og tilkynning um umframafla

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 13. janúar 2020, frá [A] f.h. [B ehf.]. Ráða má af kæru að kærð sé til ráðuneytisins annars vegar ákvörðun Fiskistofu, dags. 17. september 2019, um aflaskráningu bátsins [C], og hins vegar tilkynning Fiskistofu, dags. 6. janúar 2020, um umframafla og sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.

 

Kröfur kæranda

Ráða má af kæru að kærandi krefjist þess að ákvörðun Fiskistofu, dags. 17. september 2019, um aflaskráningu skipsins [C] og tilkynning Fiskistofu, dags. 6. janúar 2020, um sérstakt gjald vegna umframafla á fiskveiðiárinu 2018/2019, verði felldar úr gildi.

 

Málsatvik

Skipið [C] var með grásleppuleyfi á grásleppuvertíðinni árið 2019. Við uppgjör fiskveiðiársins 2018/2019 sendi Fiskistofa kæranda bréf, dags. 17. september 2019, þar sem kom fram sú ákvörðun Fiskistofu um leiðrétta aflaskráningu og að reikna 1.628 kg. af óslægðum þorski til aflamarks á ofangreint skip, sem var það magn sem kærandi hafði á tímabilinu farið fram yfir það hámark sem skrá mátti sem VS-afla að tilteknum skilyrðum uppfylltum, sbr. 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Þá fylgdu kæruleiðbeiningar þessari ákvörðun Fiskistofu. Ekki hefur komið til innheimtu sérstaks gjalds vegna umframafla skv. lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, þótt slík álagning hafi verið boðuð í tilkynningu. Stjórnsýslukæra barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, dags. 13. janúar 2020, á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með tölvupósti, dags. 12. apríl 2021, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna ásamt þeim gögnum er stofnunin teldi varða málið. Umsögn Fiskistofu ásamt gögnum bárust ráðuneytinu, dags. 26. apríl 2021 og dags. 18. júní 2021. Var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við umsögn Fiskistofu. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Málsástæður og sjónarmið í stjórnsýslukæru

Í stjórnsýslukæru kemur fram að kæranda hafi borist bréf þann 20. september 2019 frá Fiskistofu vegna fiskveiðiársins 2018/2019. Kemur fram að heimild umrædds skips til löndunar VS-afla hafi verið 740 kg. en skráður VS-afli hafi verið 2.368 kg. eða 1.628 kg. umfram heimildir. Kærandi hafi ekki mótmælt tölunum en hafi talið rétt að sjá hver niðurstaðan yrði og að bent hafi verið á kærurétt til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Þann 6. janúar 2020 hafi kæranda borist tilkynning um umframafla frá Fiskistofu, sem sæti álagningu gjalds samkvæmt ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Nam andvirði umframafla skipsins alls kr. 309.168. Segir í kæru að öllum þorskafla skipsins hafi verið landað sem VS-afla og hann seldur og vigtaður á fiskmarkaði á Akranesi. Segir að kæranda hafi ekki verið kunnugt um að það magn sem mætti landa sem VS-afla væri svo naumt skammtað sem raun varð á. Aflinn var seldur sem VS-afli og söluvirði að frádregnum sölukostnaði hafi verið skipt samkvæmt reglum þar um milli útgerðar og VS-sjóðs. Segir í kæru að einsýnt sé að taka tilbaka þá peninga sem greiddir höfðu verið í VS-sjóði. Í kæru eru talin upp atriði sem kærandi telur að líta megi til í málinu. Í fyrsta lagi að skylt sé að koma með allan afla að landi, í öðru lagi að veiðitímabil grásleppuveiða 2019 voru 44 dagar og verði að stunda veiðar án hlés annars falli veiðidagar niður, í þriðja lagi að á þessu fiskveiðiári var tekin sú ákvörðun að banna loðnuveiðar, í fjórða lagi að verð á þorski veiddum í grásleppunet hafi ekki verið nema brot af markaðsverði og í fimmta lagi að leiga á þorskkvóta hafi ekki legið á lausu í apríl það ár og leiguverð verið hátt. Kærandi hafi staðið fram fyrir tveimur valkostum vegna aðstæðna varðandi gengd þorsks. Að taka upp net og bíða þess að þorskurinn gengi annað eða halda áfram og landa þorski sem VS-afla. Sú hafi orðið niðurstaðan. Net hafi farið mjög illa. Það hafi því ekki verið í myndinni að taka upp netin og gera hlé á veiðum. Í kæru kemur fram að ef Fiskistofa ákveði að refsa kæranda fyrir ólöglegan umframafla og sekta kæranda um kr. 309.168 þá telur kærandi einsýnt að taka tilbaka þá peninga sem greiddir voru í VS-sjóð. Annar möguleiki væri að skipta sektinni milli útgerðar og VS-sjóðs. Þriðji möguleiki væri að fella sektarákvæði úr gildi og veita áminningu.

 

Sjónarmið Fiskistofu

Í umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins, dags. 26. apríl 2021, segir að engin ákvörðun hafi verið tekin í máli kæranda er varðar álagninu á sérstöku gjaldi vegna ólögmæts sjávarafla, honum hafi eingöngu verið tilkynnt um meðferð máls. Ákvörðun liggi því ekki fyrir í málinu. Í annarri umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins, dags. 18. júní 2021, segir að skipið [C] hafi verið með grásleppuveiðileyfi á grásleppuvertíðinni árið 2019 og að um vigtun og skráningu sjávarafla gildi reglugerð nr. 745/2016. Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar komi fram að allur afli skuli skráður til aflamarks á veiðiskip. Skipstjórum sé heimilt að ákveða að hluti afla skipsins reiknist ekki til aflamarks þess að tilteknum skilyrðum uppfylltum, skv. 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og 8. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 674/2018 um veiðar í atvinnuskyni árið 2018/2019. Um sé að ræða svokallaðan VS-afla og sé heimildin bundin við tiltekið magn sem skal aldrei nema meira en 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla sem hlutaðeigandi skip veiðir á hverju tímabili. Heimild til að landa VS-afla skiptist í fjögur þriggja mánaða tímabil. Þó má miða ýsuafla sem fæst sem meðafli eða meðafla við grásleppuveiðar, við heimild fiskveiðiársins í heild, enda sé sá afli gerður upp í lok þess, skv. c. lið 8. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 674/2018. Heimildin sé í fyrsta lagi háð því skilyrði að aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn og skráður sérstaklega, en í öðru lagi að aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla og andvirði hans renni til sjóðs, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Í 10. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006 segi að forráðamenn uppboðsmarkaðarins skuli standa skil á andvirði hins selda afla að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skuli útgerð skipsins fá 20% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um en 80% fara til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Segir í bréfinu að þegar Fiskistofa hafi gert upp fiskveiðiárið 2018/2019 með tilliti til ofanritaðs nam heimild skipsins til löndunar á VS-afla á tímabilinu 740 kg. Skráður VS-afli skipsins á sama tímabili nam 2.368 kg. eða 1.628 kg. umfram heimild skipsins. Í bréfi Fiskistofu sagði ennfremur að fari sá hluti afla sem reiknast ekki til aflamarks skips skv. ákvæðum 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006 yfir 0,5% af uppsjávarafla eða 5% af öðrum sjávarafla eða ef ekki hefur verið farið að ákvæðum 10. gr. við sölu aflans, skal Fiskistofa endurreikna aflamarksstöðu skipsins þannig að sá hluti aflans skráist til aflamarks viðkomandi skips að fullu, skv. 2. mgr. 52. gr. reglugerðar nr. 745/2016. Segir að ákvörðun Fiskistofu, dags. 17. september 2019, um að leiðrétta aflaskráningu skipsins byggi á framangreindum grunni og því telji Fiskistofa að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Forsendur og niðurstaða

Ákvörðun Fiskistofu um endurreiknaða aflamarksstöðu og aflaskráningu bátsins [C] fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 er dags. 17. september 2019. Kæruheimild er að finna í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun skv. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.

Tilkynning Fiskistofu um umframafla og sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 er dags. 6. janúar 2020. Kæruheimild er að finna í 8. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla og má skjóta ákvörðun til ráðherra innan tveggja vikna frá því að kærandi fékk vitneskju um ákvörðunina.

Stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu, dags. 13. janúar 2020. Í kæru kemur fram að ákvörðun um aflaskráningu hafi borist kæranda þann 20. september 2019. Kæra barst því að loknum kærufresti. Þar sem ráðuneytið telur að hvorki 1. né 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga eigi við ber að vísa frá þeim þætti málsins, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Í kæru kemur fram að tilkynning um umframafla og sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla hafi borist kæranda þann 6. janúar 2020. Ekki hefur komið til innheimtu sérstaks gjalds vegna umframafla skv. lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla fyrir fiskveiðiárið 2018/2019, þótt slík álagning hafi verið boðuð í tilkynningu. Fiskistofa staðfesti ennfremur við ráðuneytið þann 19. október 2021 að ekki hafi verið tekin ákvörðun í máli kæranda varðandi álagningu sérstaks gjalds vegna ólögmæts sjávarafla. Það liggur því ekki fyrir stjórnsýsluákvörðun í málinu hvað varðar þennan þátt málsins og lögvarðir hagsmunir kæranda fyrir úrskurði í málinu því ekki til staðar. Verður þeim þætti málsins því einnig vísað frá.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurðarorð

Vísað er frá stjórnsýslukæru vegna ákvörðunar Fiskistofu, dags. 17. september 2019, um aflaskráningu bátsins [C].

Einnig er vísað frá stjórnsýslukæru vegna tilkynningar Fiskistofu, dags. 6. janúar 2020, um umframafla og sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta