Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nýtt samkomulag ríkis og sveitarfélaga um afkomumarkmið

Sigurður Ingi Jóhannsson, Bjarni Benediktsson, Halldór Halldórsson og Karl Björnsson við undirritun samkomulagsins. - mynd

Nýtt samkomulag ríkis og sveitarfélaga um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaga árin 2019-2023 var undirritað í dag. Samkomulagið var undirritað af fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það byggir á lögum um opinber fjármál sem hafa að markmiði að ríki og sveitarfélög stuðli að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála.

Þetta er í þriðja sinn sem ríkið og sveitarfélög undirrita samkomulag á grundvelli laga um opinber fjármál, en samkomulagið gildir til eins árs og er gert ráð fyrir endurnýjun þess að ári liðnu.

Ríki og sveitarfélög eru sammála um eftirfarandi markmið sem byggja á fyrrnefndum grunngildum og skilyrðum laga um opinber fjármál.

a. Heildarafkoma hins opinbera (A-hluta) verði jákvæð öll árin 2019–2023. Heildarafkoma opinberra aðila (A-hluta og fyrirtækja hins opinbera) verði einnig jákvæð á tímabilinu.

b. Heildarafkoma A-hluta sveitarfélaga stuðli að efnahagslegum stöðugleika og verði jákvæð um 0,2% af VLF árin 2019–2023.

c. Aðilar munu samhæfa launastefnu sína og leitast við að tryggja sambærileg kostnaðaráhrif kjarasamninga.

d. Rekstur sveitarfélaga verði sjálfbær í þeim skilningi að skuldir þeirra sem hlutfall af VLF lækki. Miðað við forsendur um vöxt tekna sveitarfélaga og markmið og forsendur þessa samkomulags er ljóst að skuldahlutfall A-hluta sveitarfélaga samkvæmt sveitarstjórnarlögum ætti að geta haldið áfram að lækka, eins og undanfarin ár, úr 113% af tekjum árið 2018 í um 103% árið 2023.

e. Þrátt fyrir þörf á auknum fjárfestingum hins opinbera er mikilvægt að tekið sé tillit til stöðu þjóðarbúsins og heildareftirspurnar, m.a. í ljósi fjárfestinga annarra aðila. Leggja þarf mat á fjárfestingarþörf og -áætlanir opinberra aðila og samhæfa þær til skemmri og lengri tíma. Fjárfestingar ríkissjóðs og A-hluta sveitarfélaga skulu vera sjálfbærar og fela að jafnaði ekki í sér aukna skuldsetningu þessara aðila.

Á gildistíma fjármálaáætlunar munu ríki og Samband íslenskra sveitarfélaga, f.h. sveitarfélaga, vinna í sameiningu að ýmsum viðfangsefnum, sem lúta að áætlanagerð og eflingu sveitarstjórnarstigsins. Sem dæmi verður áfram unnið markvisst að því að treysta og bæta þann talnagrunn sem forsendur fjármálastefnu og fjármálaáætlunar um fjármál sveitarfélaga byggjast á.

Unnið verður áfram að endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og áhersla lögð á breytingar á tekju- og útgjaldajöfnun sjóðsins sem stuðlað geti að sjálfbærum rekstri og eflingu þjónustu sveitarfélaga.

Áfram verði unnið að mótun sameiginlegrar aðgerðaáætlunar vegna svokallaðra grárra svæða í þjónustu ríkis og sveitarfélaga þar sem þjónustusvið þeirra skarast. Skýra skal ábyrgð og fjármögnun vegna þjónustuþátta sem skarast, einkum innan velferðarþjónustunnar.
Ríki og sveitarfélög vinni í sameiningu að umbótum, meðal annars með eflingu stafrænnar þjónustu og nýsköpun í starfsemi hins opinbera.

Haldið verði áfram að efla samstarf og samráð á sviði kjaramála, s.s. vegna samhæfingar á kjaraþróun starfsmanna ríkis og sveitarfélaga á grunni sameiginlegrar launastefnu, umbóta á vinnumarkaði og greiningar á launaþróun og mannaflaþörf.

Samkomulag um markmið um afkomu og efnahag sveitarfélaga


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta