Hoppa yfir valmynd
15. mars 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 52/2004

Mál nr. 52/2004

Þriðjudaginn, 15. mars 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 3. desember 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 2. desember 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 27. september 2004 um að synja kæranda um breytingu á töku fæðingarorlofs.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars.:

„Ég vildi fá að endurgreiða einn mánuð til mannsins míns, B, þar sem ég er að fara að leggjast inn á sjúkrahús þann 15. nóvember 2004 og má ég ekkert gera í 4-6 vikur á eftir. Þá hefur B ákveðið að taka sér frí frá vinnu til að hugsa um heimilið. Okkar skilningur er sá að fæðingarorlofs tímabilið er ekki liðið og þetta skiptir okkur miklu máli.

Sjúkrahúsdvöl gerir ekki boð á undan sér og hafði ég ekki hugmynd um þegar, ég var sjálf í fæðingarorlofi fyrir ári síðan að ég ætti eftir að leggjast inn. Það er ósk okkar að þetta gangi sem best og B vill gjarnan fara í fæðingarorlof frá 15. nóvember – 15. desember 2004.“

 

Með bréfi, dagsettu 6. desember 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 30. desember 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á beiðni um að endurgreiða einn mánuð af áður greiddum fæðingarstyrk skv. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.).

Þann 21. september 2004 barst lífeyristryggingasviði bréf kæranda, dags. 17. september 2004. Með bréfi þessu óskaði kærandi eftir að fá að endurgreiða fæðingarstyrk sem hún fékk greiddan fyrir desember 2003 og jafnframt afsala sér einum mánuði af sameiginlegum rétti foreldra til maka hennar, B.

Beiðni kæranda var synjað með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 27. september 2004, þar sem tekið var fram að ekki væri hægt að verða við beiðni hennar þar sem of langt væri um liðið frá því að greiðsla hefði átt sér stað.

Forsaga málsins er sú að með umsókn, dags. 11. ágúst 2003, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 4 mánuði, annars vegar frá 1. október til 30. nóvember 2003 og hins vegar frá 1. janúar til 29. febrúar 2004, en maki hennar sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 5 mánuði.

Kærandi reyndist ekki eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og var umsókn hennar þess efnis því synjað með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 29. september 2003. Var henni þess í stað greiddur fæðingarstyrkur, sem foreldri utan vinnumarkaðar, tímabilið september, október, nóvember og desember 2003, sbr. greiðsluáætlun, dags. 14. október 2003.

Umsókn maka kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fimm mánuði var samþykkt í samræmi við tilkynningar hans um fæðingarorlof.

Eins og gerð hefur verið grein fyrir var beiðni kæranda um endurgreiðslu á áður greiddum fæðingarstyrk hafnað með þeim rökum að of langur tími væri liðinn frá því að greiðslan hefði átt sér stað.

Í lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er annars vegar í 15. gr. varðandi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og hins vegar í 23. gr. varðandi greiðslu fæðingarstyrks kveðið á um umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. ffl. skal umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun. Skal jafnframt tilgreina fyrirhugaða skiptingu sameiginlegs fæðingarorlofs milli foreldra barns. Á sama hátt er í 2. mgr. 23. gr. ffl. kveðið á um að umsókn um fæðingarstyrk skuli vera skrifleg og skuli þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag greiðslu fæðingarstyrks til foreldris og lengd greiðslutímabils. Jafnframt skuli tilgreina fyrirhugaða skiptingu sameiginlegs fæðingarorlofs milli foreldra barns.

Í fæðingar- og foreldraorlofslögunum er hins vegar hvergi kveðið á um að heimilt sé að gera breytingar á umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og/eða fæðingarstyrk, sem afgreidd hefur verið. Í lögunum er heldur hvergi kveðið á um heimild til þess að endurgreiða áður greiddar greiðslur samkvæmt lögunum vegna óska um breytingu á töku fæðingarorlofs sem koma til eftir afgreiðslu umsóknar.

Í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er kveðið á um heimild til endurupptöku máls í 24. gr. Þar segir í 1. mgr. að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1. ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Síðan segir 2. mgr. að eftir að þrír mánuðir séu liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málslins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár sé liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Lífeyristryggingasvið telur að beiðni kæranda um að fá að endurgreiða fæðingarstyrk sem hún fékk greiddan fyrir desember 2003 og afsala með þeim hætti einum mánuði af sameiginlegum rétti foreldra til maka hennar falli ekki undir ákvæði stjórnsýslulaganna um endurupptöku máls þar sem beiðni hennar varðar hvorki ákvörðun byggða á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik né íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann. Þess í stað var ákvörðun lífeyristryggingasviðs um afgreiðslu umsóknar kæranda byggð á umsókn kæranda og rétti kæranda samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Með hliðsjón af framangreindu telur lífeyristryggingasvið að ekki hafi verið unnt að verða við þeirri beiðni kæranda sem kæra þessi varðar, sem kom fram rúmum 11 mánuðum frá því að upphafleg umsókn kæranda var afgreidd og kæranda var tilkynnt um hana bréflega, svo og u.þ.b. 9 mánuðum eftir að greiðsla sú sem óskaðist endurgreidd var greidd úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dagsettu 3. janúar 2005 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust með bréfi dagsettu 14. janúar 2005, þar segir meðal annars:

„Fæðingarorlofstímabilið er 18 mánuðir og þeir eru ekki liðnir. Sonur minn er tæplega 16 mánaða.“

Síðan greinir kærandi frá því að hún geti hvergi séð það á umsóknareyðublaðinu að það séu einhverjar reglur til um það sem ekki er hægt að gera eftir á.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja beiðni kæranda um breytingu á töku fæðingarorlofs.

Kærandi ól barn þann 23. september 2003. Hún fékk greiddan fæðingarstyrk í fjóra mánuði þ.e. mánuðina september, október, nóvember og desember 2003. Faðir barnsins fékk samkvæmt umsókn sinni greitt fæðingarorlof úr Fæðingarorlofssjóði í fimm mánuði frá 1. desember 2003. Samkvæmt því var að fullu lokið greiðslum samkvæmt sérstökum og sameiginlegum rétti foreldra til greiðslna í fæðingarorlofi þegar beiðni kæranda um breytingu barst með bréfi dagsettu 16. september 2004. Í bréfinu óskar kærandi eftir að fá að endurgreiða fæðingarstyrks sem henni hafði verið greiddur fyrir desember 2003 og að afsala sér einum mánuði af sameiginlegum rétti foreldra yfir til föður barnsins.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Hvorki er í lögum um fæðingar- og foreldraorlof né í reglugerð nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks kveðið á um rétt foreldra til breytinga á töku fæðingarorlofs eða endurgreiðslu á mótteknum greiðslum. Réttur foreldra til breytinga á þegar teknu fæðingarorlofi verður því ekki byggður á þeim grundvelli. Þá verður kærandi ekki talinn eiga rétt til endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um breytingu á töku fæðingarorlofs er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta