Hoppa yfir valmynd
8. mars 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 56/2004

Mál nr. 56/2004

Þriðjudaginn, 8. mars 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 17. desember 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála ódagsett kæra A.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 13. desember 2004 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars.:

„Ég læt fylgja með launaseðla svo þið getið séð að ég er búin að vinna 6 mánuði. Barnið var sett á 14. desember en fæddist fyrir tímann og kom í heiminn 19. nóvember, sem sagt 11 dögum áður en mánuðurinn var búinn. Ég vann fram á síðasta dag og það stóð ekki til hjá mér að hætta að vinna fyrr en 1. desember. Skilyrði fyrir greiðslum er 6 mánaðar vinna fyrir fæðingu barns en það stendur í reglunum að starfshlutfall hvers mánaðar má ekki vera minna en 25% starf og ég get ekki betur séð en að ég hafi náð því og meira til ég er búin að vera í fullu 100% starfi allan tímann fyrir utan þessa 11 daga sem vantar upp á nóvember en það er samt 75% starf fyrir nóvember sem að duga samkvæmt reglunum.“

 

Með bréfi, dagsettu 7. janúar 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 28. janúar 2005. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 18. október 2004, sem móttekin var 19. október 2004, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði frá 1. janúar 2005. Umsóknin varðar barn sem fætt er 19. nóvember 2004 en áætlaður fæðingardagur þess var 14. desember 2004.

Umsókn kæranda fylgdu vottorð um væntanlegan fæðingardag, dags. 18. október 2004, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 18. október 2004 og launaseðlar fyrir ágúst og september 2004. Þá lágu fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 26. nóvember 2004, var henni gerð grein fyrir að samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra virtist hún ekki uppfylla skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þar sem ekki kæmu fram tekjur hjá henni fyrir maí 2004. Var kæranda gefinn kostur á að leggja fram gögn til staðfestingar á því að hún hefði verið á vinnumarkaði tiltekið tímabil.

Þann 3. desember 2004 barst lífeyristryggingasviði frá kæranda launaseðlar hennar fyrir tímabilið júní til nóvember 2004.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri á innlendum vinnumarkaði rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. ffl. stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Þó er konu heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Í 3. mgr. 8. gr. ffl. er kveðið á um að kona skuli vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.

Upphafsdagur fæðingarorlofs kæranda gat því samkvæmt 2. og 3. mgr. 8. gr. ffl. í síðasta lagi verið fæðingardagur barns hennar en eins og að framan greinir er barn hennar fætt 19. nóvember 2004. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. er því frá 19. maí 2004 til fæðingardags barnsins.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum hóf kærandi, sem skráð hefur verið með lögheimili hérlendis frá 20. mars 2004, ekki störf hér á landi fyrr en í júní 2004 og var því utan vinnumarkaðar fyrstu vikur sex mánaða viðmiðunartímabilsins, sem kveðið er á um í 1. mgr. 13. gr. ffl., þ.e. frá 16. til 31. maí 2004.

Með vísan til alls framangreinds og framlagðra gagna telur lífeyristryggingasvið kæranda ekki uppfylla skilyrðið um sex mánaða samfellt starf fyrir upphafsdag fæðingarorlofs og því hafi verið rétt að synja umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 2. febrúar 2005, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Foreldri öðlast rétt skv. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofs­sjóði og greiðslu fæðingarstyrks er með samfelldu starfi átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sbr. a-lið 1. gr. reglugerðarbreytingar nr. 186/2003 telst samfellt starf ennfremur:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, er á biðtíma eftir slíkum greiðslum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, með síðari breytingum. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997, með síðari breytingum.

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Kærandi ól barn 19. nóvember 2004. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 19. maí 2004 til fæðingardags barns sem telst upphafsdagur fæðingarorlofs. Með hliðsjón af því uppfyllir kærandi ekki það skilyrði að hafa verið í samfelldu starfi í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þar sem hún starfaði ekki á vinnumarkaði í maí 2004, né ávann sér rétt á annan hátt, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof heimila ekki að vikið sé frá skilyrði um sex mánaða samfellt starf vegna fyrirburafæðingar.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta