Hoppa yfir valmynd
27. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2014

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 27. maí 2014 var tekið fyrir mál nr. 7/2014:

                                  Kæra A                             

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 25. febrúar 2014, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 23. desember 2013, um að synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns hennar sem fæddist þann Y. ágúst 2013. Kærandi sótti um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu barns með erindi, dags. 8. desember 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. desember 2013, þar sem ekki hafi verið ráðið af framlögðu læknisvottorði, dags. 25. nóvember 2013, að veikindi móður mætti rekja til fæðingarinnar sjálfrar og hún hafi af þeim völdum verið ófær að annast um barn sitt. Kærandi lagði fram nýtt læknisvottorð, dags. 7. janúar 2014, og með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 27. janúar 2014, var kærandi upplýst um að vottorðið breytti ekki fyrri ákvörðun sjóðsins. Frekari upplýsingar frá lækni kæranda bárust Fæðingarorlofssjóði með tölvupósti þann 6. febrúar 2014, og með bréfi Fæðingarorlofssjóðs var kærandi upplýst um að upplýsingarnar breyttu ekki fyrri ákvörðun sjóðsins.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála með bréfi, dags. 25. febrúar 2014. Með bréfi, dags. 27. febrúar 2014, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 2. mars 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. mars 2014, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst eiga við bæði líkamleg og andleg veikindi að stríða sem magnast hafi á meðgöngu og eftir fæðingu. Hún hafi verið haldin alvarlegu þunglyndi í mörg ár sem erfitt hafi reynst að halda í skefjum þrátt fyrir læknismeðferð. Á meðgöngu hafi kærandi orðið að breyta lyfjameðferð sinni og hafi það haft veruleg áhrif til hins verra á heilsu hennar og eigi hún langt í land svo náist sá árangur sem kominn hafi verið fyrir meðgöngu. Eftir fæðingu hafi hún glímt við erfiða grindargliðnun og sé í meðhöndlun hjá sjúkraþjálfara. Auk þessara veikinda séu heimilisaðstæður hennar erfiðar. Hún sé einstæð móðir með tvö börn. Auk ungabarnsins sé hún með tíu ára einhverfan son sem þarfnist mikillar umönnunar umfram önnur börn. Í læknisvottorði séu veikindi hennar staðfest og lagt til að hún verði frá vinnu enn um sinn til að ná heilsu. Á grundvelli þessa læknisvottorðs óskar kærandi eftir framlengingu fæðingarorlofs.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs vegna málsins kemur fram að í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 6. gr. laga nr. 136/2011 og 13. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, komi fram að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda hafi hún í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Í 5. mgr. 17. gr. laganna komi fram að þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi skv.
1.–4. mgr. skuli rökstyðja með vottorði sérfræðilæknis. Í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til framangreindra laga sé tekið fram að við það sé miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingarinnar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Síðar í athugasemdunum segi að önnur veikindi foreldra lengi ekki fæðingarorlof. Í athugasemdum við 6. gr. laga nr. 136/2011, sem breytt hafi 3. mgr. 17. gr. ffl., komi síðan fram að lagt sé til að í 3. mgr. 17. gr. laganna verði skýrt kveðið á um að skilyrði þess að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu sé að hún hafi í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Ekki sé um að ræða breytingu á framkvæmd þar sem efnislega samhljóða ákvæði hafi verið að finna í reglugerð nr. 1218/2008.

Í samræmi við framangreint hafi það verið skilningur Fæðingarorlofssjóðs að einungis sé átt við þau veikindi móður sem hægt sé að rekja beint til fæðingarinnar sjálfrar. Önnur veikindi móður sem kunni að koma upp síðar og ekki sé hægt að rekja til fæðingarinnar sjálfrar svo og veikindi móður sem komi upp á meðgöngu en ekki í fæðingunni sjálfri, jafnvel þó þau haldi áfram eftir fæðingu, falli þá utan umrædds ákvæðis. Jafnframt þurfi veikindin síðan að valda því að móðir sé ófær um að annast um barn sitt í fæðingarorlofinu eigi að geta komið til framlengingar fæðingarorlofs. Hafi þetta verið staðfest í úrskurðum úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, til dæmis í málum nr. 43/2009, 10/2010 og 33/2010.

Í læknisvottorði, dags. 25. nóvember 2013, sé að finna lýsingu á veikindum móður á meðgöngunni. Þar komi meðal annars fram að hún hafi verið með grindarlosverki og ekki síst í framhaldinu. Jafnframt sé þar minnst á þunglyndi og að kærandi hafi þurft meðferð og eftirlit geðlæknis. Í lýsingu á sjúkdómi móður eftir fæðingu segi: „Grindarlos og verkir eru heldur versnandi núna 3 mán postpartum, er að byrja í sjúkraþjálfun.“ Niðurstaða skoðunar er: „SLR og Nevrologi ok en er mjög aum yfir lumbosacral svæði, paravertebralt einnig, á iliolumbal ligamentum, einnig niður á Iliosacral ligament og liði. Einnig aum á Symph. pubis.“ Í læknisvottorði, dags. 7. janúar 2014, sé sama lýsing á veikindum móður á meðgöngu og í fyrra vottorði. Í lýsingu á sjúkdómi móður eftir fæðingu segi: „Grindarlos og verkir eru enn slæmir og hún enn óvinnufær til sinnar vinnu á leikskóla af þessum sökum. Einnig áfram þunglyndisástand og er í eftirliti og meðferð geðlæknis áfram.“ Niðurstaða skoðunar er sú sama og á fyrra vottorði en bætt við: „Vægt lækkað geðslag en engin geðrofseinkenni.“ Í tölvupósti læknis frá 6. febrúar 2014 komi meðal annars fram að læknirinn hafi hitt kæranda og hún hafi haft mikla grindarverki sem byrjað hafi á meðgöngu og ekki lagast eftir fæðingu. Hún sé enn óvinnufær með öllu vegna þessa.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að samkvæmt báðum læknisvottorðunum og tölvupóstinum liggi fyrir að kærandi sé með grindarloseinkenni sem að mati læknanna sé ástæða þess að hún sé nú ófær til vinnu sinnar. Jafnframt komi fram að um sé að ræða grindarloseinkenni sem hafist hafi á meðgöngunni en virðist ekki hafa lagast eftir fæðinguna og það sama megi segja um þunglyndiseinkennin. Þannig verði ekki séð að neitt hafi komið upp í fæðingunni sjálfri sem skýrt geti núverandi veikindi kæranda eða að þau hafi versnað vegna fæðingarinnar sjálfrar. Ekki verði heldur séð að kærandi hafi verið ófær í sínu fæðingarorlofi að annast um barn sitt vegna veikindanna. Að mati Fæðingarorlofssjóðs uppfylli kærandi því hvorugt þeirra skilyrða sem áskilin séu skv. 3. mgr. 17. gr. ffl. svo heimilt sé að veita henni framlengingu á fæðingarorlofi. Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður í tengslum við fæðingu, sbr. synjunarbréf, dags. 23. desember 2013, 27. janúar 2014 og 10. febrúar 2014.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu.

Í 3. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) kemur fram að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu enda hafi hún í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Í athugasemdum með 17. gr. í greinargerð frumvarps sem varð að lögum nr. 95/2000 er tekið fram að við það sé miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Þá kemur einnig fram að styðja skuli þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæði 17. gr. með vottorði læknis en það sé lagt í hendur tryggingayfirlæknis að meta hvort lenging fæðingarorlofs verði talin nauðsynleg. Enn fremur segir að önnur veikindi foreldra eða barna lengi ekki fæðingarorlof. Með 6. gr. laga nr. 136/2011 var ákvæði 17. gr. ffl. breytt og kveðið á með skýrari hætti að skilyrði þess að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu sé að hún hafi í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Í athugasemdum við ákvæðið segir að ekki sé um að ræða breytingu á framkvæmd þar sem efnislega samhljóða ákvæði hafi verið að finna í reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Kærandi ól barn Y. ágúst 2013. Í læknisvottorði B, dags. 25. nóvember 2011, kemur fram að kærandi hafi þjáðst af hyperemesis í byrjun meðgöngunnar og hún hafi verið óvinnufær frá 22. janúar 2013. Hún hafi einnig þjáðst af sykursýki, háþrýstingi og þunglyndi á meðgöngunni og þurft meðferð og eftirlit geðlæknis. Þá hafi hún verið með grindarlos og verki á meðgöngunni og ekki síst í framhaldinu. Hún þurfi að byrja í sjúkraþjálfun strax. Í læknisvottorðinu segir um sjúkdóm móður eftir fæðingu að grindarlos og verkir séu heldur versnandi þremur mánuðum eftir fæðingu og kærandi sé að byrja í sjúkraþjálfun.

Til þess að veikindi, hvort heldur sem er líkamleg eða geðræn, veiti heimild til framlengingar fæðingarorlofs þurfa þau tvímælalaust að uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í 3. mgr. 17. gr. ffl. Af framangreindu læknisvottorði verður hins vegar ekki séð að mati nefndarinnar að þau veikindi kæranda sem þar eru greind megi rekja til fæðingarinnar sjálfrar. Þá verður heldur ekki talið að veikindi kæranda hafi verið þess eðlis að hún hafi verið ófær um að annast barnið. Með hliðsjón framangreindu verður ekki talið að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr. 17. gr. ffl. um rétt til lengingar fæðingarorlofs í tilviki kæranda. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. desember 2013, um að synja kæranda, A um framlengingu fæðingarorlofs er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta