Hoppa yfir valmynd
14. júní 2024

Úrslit Evrópuþingskosninganna

Að þessu sinni er fjallað um:

  • niðurstöður kosninga til Evrópuþingsins
  • leiðtogafundi á næstu dögum
  • jöfnunartolla á kínverska rafbíla

 

Niðurstöður kosninga til Evrópuþingsins

Efnisyfirlit umfjöllunar:

  • Heildarniðurstöður
  • Niðurstöður í einstökum ríkjum
  • Kjör forseta framkvæmdastjórnar ESB
  • Áhrif kosninganna á stefnumótun ESB

Heildarniðurstöður

Niðurstöður kosninga til Evrópuþingsins sem fram fóru dagana 6. – 9. júní sl. voru heilt yfir í samræmi við það sem skoðanakannanir og kosningaspár höfðu gert ráð fyrir, sbr. umfjöllun um kosningarnar í Vaktinni 3. maí sl. og 31. maí sl.

Meiri hluti miðjuflokkanna á þinginu, þ.e. meiri hluti EPP (kristilegir demókratar), Renew Europe (frjálslyndir) og S&D (jafnaðarmenn) heldur velli með 406 þingmenn af 720. Fleiri þingmenn kunna að eiga eftir að bætast í raðir þessara þingflokka á næstu dögum og vikum eða allt fram að þingsetningu um miðjan júlí nk., en þá fyrst verður endanlega ljóst hvernig þingmenn muni raða sér í þingflokka en óvissa þar um snýr fyrst og fremst að þeim 44 þingmönnum sem náðu kjöri í aðildaríkjunum en tilheyra framboðum sem enn hafa ekki lýst yfir stuðningi eða fengið inngöngu í einhvern af núverandi stjórnmálaflokkum ESB eða í þá þingflokka sem starfræktir voru á afstöðnu þingi. Almennt má gera ráð fyrir að flestir þessara þingmanna muni skipa sér í raðir þeirra þingflokka sem fyrir eru, en sá möguleiki er einnig fyrir hendi að nýir þingflokkar verði til en til að stofna þingflokk þarf 23 þingmenn frá a.m.k. 7 aðildarríkjum. Þá er loks sá möguleiki til staðar að þingmenn starfi utan þingflokka en á nýliðnu þingi voru 62 þingmenn utan þingflokka þegar þinghaldi var frestað fyrir kosningarnar og er þegar gert ráð fyrir að 45 þingmenn (sem eru til viðbótar við þessa 46 þingmenn sem áður voru nefndir) eigi ekki samleið með núverandi þingflokkum en sú áætlun byggist þó einungis á stöðunni eins og hún var á þinginu fyrir kosningar. Þannig eru nú þegar í gangi þreifingar og viðræður um að þingmenn í þeim hópi gangi til liðs við núverandi þingflokka, þá einkum flokkana lengst til hægri það er ID og ECR. Samtals eru því, eins og staðan er nú, 89 þingmenn skilgreindir utan þingflokka en viðbúið er að þessi tala muni lækka, jafnt og þétt, næstu daga og vikur.

Það er því ekki fyllilega ljóst enn sem komið er hver þingstyrkur einstakra þingflokka verður og á það við um framangreinda þrjá þingflokka sem myndað hafa meiri hluta eins og aðra. Heilt yfir má ætla að þingstyrkur meirihluta flokkanna verði samanlagt áþekkur eða eilítið lægri en hann var á afstöðnu þingi en þá höfðu umræddir flokkar 417 þingmenn af 705 í sínum röðum þegar þinghaldi var frestað fyrir nýafstaðnar þingkosningar. Innbyrðis styrkur umræddra þriggja flokka hefur þó breyst nokkuð. Þannig hefur EPP styrkt stöðu sína umtalsvert, var með 176 þingmenn við lok fráfarandi þings en hefur nú (að lágmarki) 190 þingmenn. S&D stendur svo að segja í stað, hafði 139 þingmenn en hefur nú (að lágmarki) 136. Renew Europe tapar hins vegar töluverðu, hafði 102 þingmenn en hefur nú (að lágmarki) 80 þingmenn.

Þingflokkur Greens/EFA (græningja) tapar hins vegar hlutfallslega mestu í kosningunum, hafði 71 þingmann en hefur nú einungis 52 þingmenn (að lágmarki). Þingflokkur græningja hefur á umliðnu þingi stutt dyggilega við meirihlutann á þinginu, einkum við afgreiðslu löggjafarmála er varða framgang Græna sáttmálans.

Þingflokkur ID, sem er skilgreindur lengst til hægri, bætir hlutfallslega mest við sig, hafði 49 þingmenn en fær nú (að lágmarki) 58 þingmenn. Þingflokkur ECR sem einnig er skilgreindur lengst til hægri en telst þó hófsamari en ID bætir einnig við sig, hafði 69 þingmenn en fær 76 (að lágmarki). Þess ber þó að geta að fyrir liggur að stór hluti þeirra 45 þingmanna sem skilgreindir eru utan þingflokka koma úr slíkum flokkum og munar þar mestu um 10 þingmenn Fidesz-KDNP í Ungverjalandi og 17 þingmenn AfD í Þýskalandi. Fylgisaukning flokkanna lengst til hægri er þó eftir sem áður heilt yfir minni en kosningaspár höfðu gert ráð fyrir.

Þingflokkur The Left sem er sá flokkur sem er lengst til vinstri á þinginu hafi 37 þingmenn en hefur nú (að lágmarki) 39 þingmenn. Flokkurinn heldur því sínu. Athuga ber að flokkurinn hefur líkt og á við um flokkana lengst til hægri efasemdir um frekari samþættingu aðildarríkjanna á vettvangi ESB auk þess sem afstaða flokksins til árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu er einnig að vissu leyti áþekk því sem sést hefur í málflutningi flokkanna lengst til hægri þar sem mælt er gegn vopnasendingum til Úkraínu og áhersla lögð á vopnahléssamninga.

Niðurstöður í einstökum ríkjum

Niðurstöður í einstökum aðildarríkjum endurspegla eins og vænta mátti þær stefnur og strauma sem þar ráða ríkjum, enda þótt frávik séu sýnileg. Hér á eftir er nánar rýnt í stöðuna í nokkrum aðildarríkjum þar sem niðurstöður kosninganna hafa hvað helst vakið athygli, og þá einkum vegna hinnar títtræddu hægri sveiflu.

Frakkland

Stórsigur RN (Rassemblement national eða Þjóðfylkingarinnar, upp á íslensku) flokks Marine Le Pen, undir forystu Jordan Bardella, sem hlaut 31,4% í kosningunum eru stórtíðindi í evrópskum stjórnmálum en þau úrslit voru þó ekki óvænt enda höfðu skoðanakannanir sýnt að þetta gæti orðið raunin. Sú ákvörðun forseta Frakklands að rjúfa þing og boða til snemmbúinna þingkosninga 30. júní og 7. júlí nk., sem hann tilkynnti skömmu eftir lokun kjörstaða síðastliðið sunnudagskvöld, var hins vegar afar óvænt og hefur ákvörðunin valdið gríðarlegum titringi í Frakklandi og þvert á ESB. Ljóst er að þessi ákvörðun Emmanuel Macron er djörf og að líkindum er það fordæmalaust, í Frakklandi allavega, að forseti boði til snemmbúinna þingkosninga þegar vísbendingar benda svo eindregið til þess að kosningar geti leitt til ósigurs sitjandi stjórnarflokka en þess ber þó að gæta að flokkur forsetans nýtur heldur ekki meirihluta á sitjandi þingi. Ljóst er Macron bindur vonir við að flokkur hans Renaissance og aðrir Evrópusinnaðir miðjuflokkar til hægri og vinstri geti náð vopnum sínum og haldið meiri hluta á þinginu. Hefur það m.a. verið nefnt í þessu sambandi að ólíkt kosningafyrirkomulag í þingkosningum í Frakklandi, þar sem kosið er í einmenningskjördæmum í tveimur umferðum, samanborið við hlutfallskosningakerfið sem notað er í Evrópuþingskosningum, og sú staðreynd að kosningaþátttaka er almennt mun minni í Evrópuþingskosningum, geti aukið líkurnar á því að vonir Macron verði að veruleika. Ályktanir í þessa veru eru þó umdeilanlegar. Kosningakerfi sem byggast á einmenningskjördæmum eru almennt til þess fallinn að skerpa línur á milli stærstu pólitísku aflanna sem takast á, en takmarka um leið möguleika minni flokka til að komast til áhrifa og fá menn kjörna. Hvorum megin hryggjar lukkan lendir í komandi kosningum mun því að líkindum ráðast af afli þeirra kosningabandalaga og sameiginlegra framboða sem tekst að efna til á þeim skamma tíma sem er til kosninga. Í grófum dráttum er þó fyrirséð að þrjár pólitískar blokkir muni takast á í kosningunum, þ.e. frjálslynda miðjublokkin sem Macron fer fyrir, hægri blokk Le Pen, og loks samfylking flokka á vinstri vængnum. Kosningafyrirkomulagið býður þannig upp á að umtalsverðar sviptingar geti orðið, spurningin er bara í hvaða átt sveiflan verður. Ef teningarnir falla ekki Macron í vil geta mál auðveldlega æxlast þannig að forsætisráðherrastóllinn falli í hendur RN.

Komi framangreind staða upp er óhætt að segja að flókin staða sé kominn upp í frönskum stjórnmálum og í stjórnkerfi Frakklands þar sem gjörólík hugmyndafræði og stefna væri lögð til grundvallar af forseta annars vegar og ríkisstjórn hins vegar, en Macron hefur þegar gefið það út að hann hyggist sitja áfram á stóli forseta óháð því hvernig þingkosningarnar fara.

Athyglisvert er að á blaðamannafundi sem Macron efndi til í vikunni til að útskýra ákvörðun sína kom fram að með ákvörðun sinni væri hann ekki síður að horfa til þess hvernig farið gæti í næstu forsetakosningum í Frakklandi sem áætlaðar eru 2027. Af ummælum á blaðamannafundinum er ljóst að hann óttast að áframhaldandi uppgangur aflanna lengst til hægri geti endað með því að þeim takist að hreppa forsetaembættið í næstu forsetakosningum. Þannig virðist þingrofið nú og boðaðar þingkosningar ekki síst vera hugsuð til þess að stöðva eða hægja á risi þessara flokka fyrir komandi forsetakosningar eftir þrjú ár með því að vekja almenning og hófsömu stjórnmálaöflin til umhugsunar um það hvaða afleiðingar uppgangur þeirra geti haft fyrir Frakkland. Ríkisstjórnarseta þessara afla kunni þannig jafnvel, ef almenningur kýs svo, að vera leið til að vekja fólk til þeirrar umhugsunar. Macron situr nú á stóli forseta sitt annað kjörtímabil og getur því ekki boðið sig fram að nýju árið 2027. Nýr einstaklingur mun því setjast í stól forseta 2027 og getur sá forseti ákveðið efna á ný til snemmbúinna þingkosninga eftir að hann tekur við embætti, telji hann þörf á, og þannig mögulega stytt kjörtímabilið sem fram undan er. Komi framangreind staða upp getur það hæglega haft áhrif á Evrópusamstarfið á vettvangi ESB og EES með margvíslegum hætti enda er Frakkland, ásamt Þýskalandi, kjölfesta Evrópusambandsins í sinni núverandi mynd.

Þýskaland og Austurríki

Í Þýskaland er þrennt sem einkennir niðurstöður kosninganna. Í fyrsta lagi afar slakt gengi SPD, jafnaðarmannaflokks kanslara Þýskalands Olaf Scholz, sem hlaut einungis 13,9% atkvæða. Í öðru lagi afar sterk útkoma CDU, flokk kristilegra demókrata, sem jafnframt er flokkur Ursulu von der Leyen (VdL) sem fékk 30% atkvæða. Í þriðja lagi og síðasta lagi en ekki síst hafa kosningarnar vakið athygli fyrir sterka útkomu þýska hægri öfgaflokksins AfD sem fékk 15,9% atkvæða eða næst flest atkvæði á eftir flokki CDU í kosningunum þar í landi.

Uppgangur hægri öfgaflokksins FPÖ (Die Freiheitliche Partei Österreichs) í Austurríki hefur einnig hlotið athygli þar sem flokkurinn hlut mest fylgi eða 25,4%.

Ítalía og Pólland

Á Ítalíu vann hinn þjóðernissinnaði flokkur forsætisráðherra landsins, Giorgia Meloni, Bræðralag Ítalíu, sigur með 28,8% fylgi. Flokkurinn tilheyrir þingflokki ECR sem hefur ásamt ID verið flokkaður lengst til hægri á Evrópuþinginu. Eins og áður hefur verið fjallað um í Vaktinni 31. maí sl. eru skýr merki þess að flokkur ECR sé, þrátt fyrir sínar þjóðernislegu rætur, orðinn Evrópusinnaðri á síðari árum undir stjórn Meloni en áður var.

Auk Meloni hafði einungis einn annar leiðtogi í ESB tilefni til að fagna góðum árangi í kosningunum en það var forsætisráðherra Póllands, Donald Tusk, en bandalag flokka sem hann fer fyrir, og tilheyrir þingflokki EPP, bætti verulega við sig í kosningunum en þau úrslit eru í samræmi við kosningasigur sem flokkarnir unnu á síðasta ári. Að sama skapi tapaði fyrrverandi stjórnarflokkur Póllands, Lög og regla (PiS), sem tilheyrir ECR eins og flokkur Meloni nokkru fylgi í kosningunum.

Hægri sveiflan í öðrum aðildarríkjum

Þrátt fyrir nokkra uppsveiflu flokkanna lengst til hægri heilt yfir, sbr. framangreint, er einnig athyglivert að sveiflan lengst til hægri var víða minni en kannanir höfðu bent til. Á það m.a. við um aðildarríki ESB á Norðurlöndum, Svíþjóð, Finnland og Danmörku, þar sem flokkar lengst til hægri stóðu í stað eða töpuðu fylgi. Portúgal er einnig dæmi um þetta þar sem flokkurinn Chega, sem nýlega vann sigur í þingkosningum þar í landi með 18% atkvæða, fékk einungis tæp 10% atkvæða í Evrópuþingkosningunum nú. Holland og Belgía eru einnig dæmi um ríki þar sem hægri sveiflan reyndist minni en spáð hafði verið en í þessum löndum virðist sem margir hægri sinnaðir kjósendur hafi þegar á hólminn var komið frekar ákveðið að kjósa hófsamari mið-hægri flokka en flokkana lengst til hægri. Þannig héldu flokkar í Hollandi, sem eru aðilar að EPP á Evrópuþinginu, nokkuð óvænt þeim 6 þingmönnum (þeim gæti fjölgað) sem þeir höfðu áður.

Kjör forseta framkvæmdastjórnar ESB

Eins og fjallað hefur verið um í Vaktinni 29. september sl. og 3. maí sl. þarf Evrópuþingið að samþykkja þann sem leiðtogaráð ESB tilnefnir sem  forseta framkvæmdastjórnar ESB. Kjör forseta fer þannig fram, sbr. 7. mgr. 17. gr. sáttmála um Evrópusambandið (The Treaty on European Union – TEU), að leiðtogaráð ESB tilnefnir einstakling til að gegna embættinu, með hliðsjón af niðurstöðum kosninga til Evrópuþingsins. Tilnefning ráðsins er síðan borin undir atkvæði í Evrópuþinginu, að undangenginni athugun af hálfu þingsins, og ræður einfaldur meirihluti úrslitum – að þessu sinni 361 atkvæði af 720. Náist meirihluti telst forsetaefnið réttkjörið en ella gengur sá kandídat úr skaftinu og leiðtogaráðið þarf þá að koma sér saman um aðra tilnefningu í embættið innan mánaðar. Í samræmi við þessar valdheimildir hefur vilji þingsins lengi staðið til þess að tryggja að með nýtingu kosningaréttar í kosningum til Evrópuþingsins séu kjósendur ekki aðeins að hafa áhrif á skipan þingsins sjálfs heldur einnig á það hver muni leiða framkvæmdarvaldsarm ESB sem forseti framkvæmdastjórnarinnar. Til að ná framangreindu markmiði hefur hugmyndin um oddvitaaðferðina við val á forseta framkvæmdastjórnar ESB fest rætur á umliðnum árum enda þótt framkvæmdin hafi verið brokkgeng og oddviti stærsta flokksins, Ursula von der Leyen, ekki einu sinni sjálf í framboði fyrir flokkinn. Aðferðinni svipar þó að einhverju marki til þeirrar aðferðar sem notuð er í þingræðisríkjum eins og á Íslandi við myndun ríkisstjórnar. Er þannig gert ráð fyrir að forseti framkvæmdastjórnarinnar komi úr röðum oddvita stjórnmálasamtakanna sem bjóða fram til Evrópuþingsins og að sá oddviti verði fyrir valinu sem vilji meiri hluta þingsins segir til um. Af þeirri kosningabaráttu sem háð var fyrir nýafstaðnar kosningar er ljóst hugmyndin um þessa aðferð, oddvitaaðferðina, (þý. Spitzenkandidaten process eða e. lead candidate process), við val á forseta framkvæmdastjórnar ESB heldur enn lífi, enda þótt framkvæmdin hafi e.t.v. ekki verið að öllu leyti með þeim hætti sem höfundar ætluðust til. Þannig tilnefndu stjórnmálaflokkar ESB flestir oddvita fyrir kosningarnar og mættust þeir í skipulögðum oddvitakappræðum í kosningabaráttunni, sbr. m.a. í Eurovision debate. Ef horft er til úrslita kosninganna er ljóst að einungis einn af þeim oddvitum sem þar tókust á, kom í reynd til greina í stöðu forseta, það er oddviti EPP og núverandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen (VdL) jafnvel þótt hún væri ekki sjálf í kjöri til þings. Staða EPP á þinginu í kjölfar kosninganna er gríðarsterk og má segja að flokkurinn sé í algjörri lykilstöðu sem lang stærsti flokkurinn og í raun virðist útilokað, ef horft er til samsetningar þingsins og yfirlýsinga flokka á miðjunni og vinstra megin við miðju um að hafna með öllu samstarfi við bæði ID og ECR, að hægt sé mynda meiri hluta á þinginu án aðkomu flokksins. Staða EPP er því afar sterk og um leið staða VdL sem yfirlýsts oddvita flokksins.

Hvað sem framangreindu líður þá tilnefnir leiðtogaráð ESB í stöðu forseta. Við þá tilnefningu er það ekki bundið af því að tilnefna einstakling úr röðum oddvita flokkanna. Þó hlýtur ráðið að þurfa að tilnefna kandídat sem þingið er líklegt til að samþykkja. Af því leyti er í raun óhjákvæmilegt að það hafi hliðsjón af niðurstöðu kosninganna. Eins og áður hefur verið rakið í Vakinni þá var það einmitt það sem gerðist eftir síðustu Evrópuþingskosningarnar árið 2019. Manfred Weber hafði þá háð langa kosningabaráttu sem oddviti EPP og jafnvel þótt flokkur hans fengi langflesta menn kjörna á Evrópuþingið 2019 gerði leiðtogaráðið ekki tillögu um hann í embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB heldur VdL eins og kunnugt er. VdL kom þó einnig, líkt Weber, úr röðum kristilegra demókrata í Þýskalandi, og þannig séð úr baklandi EPP, og í því ljósi mátti segja að leiðtogaráðið hafi haft niðurstöður kosninganna til hliðsjónar við tilnefningu sína. Sama staða er í raun uppi nú, þ.e. hyggist leiðtogaráðið tilnefna einhvern annan en VdL til embættis forseta, sem verður þó að teljast afar ólíklegt, er langlíklegast að sá fulltrúi komi úr röðum þeirra flokka í aðildarríkjunum sem tilheyra EPP. Þannig má nánast slá því föstu að í valdataflinu sem nú á sér stað í ESB að þar sé embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB eyrnamerkt EPP.

Eins og vikið hefur verið að er langlíklegast að VdL hljóti tilnefningu leiðtogaráðs ESB til áframhaldandi setu í embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar og má vænta þess ákvörðun þar að lútandi verði tekin á fundi leiðtogaráðsins sem áformaður er 27. og 28. júní nk. en fyrstu snertingar leiðtogaráðsins á þessu fara fram á sérstökum fundi sem boðað hefur verið til að kvöldi 17. júní nk. Þar með er björninn þó ekki unninn, enda þarf hún eins og áður segir að tryggja sér meiri hluta stuðning á Evrópuþinginu eða 361 atkvæði. Í fljótu bragði mætti halda að sá stuðningur væri auðfenginn með stuðningi núverandi meiri hluta flokka á þinginu, þ.e. með stuðningi þingflokka EPP, S&D og Renew Europe sem samtals hafa nú (að lágmarki) 406 þingmenn eins og rakið er að framan. Þetta er þó ekki svo klippt og skorið. Flokkshollusta innan þingflokka á Evrópuþinginu er minni en gengur og gerist á þjóðþingum og við það bætist að atkvæðagreiðsla við kjör á forseta framkvæmdastjórnar ESB í þinginu er leynileg sem væntanlega eykur líkurnar á því að einstakir þingmenn í þingflokkum meirihlutans hlaupi undan merkjum þegar á hólminn er komið af einhverjum ástæðum. Þannig er sú þumalputtaregla oft nefnd að við kjör á forseta megi að jafnaði gera ráð fyrir 10% afföllum úr liði meirihluta flokkanna.

Skýrasta dæmið um veikleika í röðum EPP þingmanna er ef til vill í Frakklandi þar sem gengið er út frá því að liðsmenn íhaldsflokksins LR (Les Républicains), sem fékk 6 þingmenn kjörna í liðnum kosningum, muni ekki styðja VdL í væntanlegu forsetakjöri. Hvort sú atburðarás sem nú á sér stað í Frakklandi þar sem segja má að leiðtogi LR, Eric Ciotti, hafi fellt grímuna þegar hann upplýsti í vikunni að hann hefði nálgast RN, flokk Le Pen, með hugsanlegt kosningabandalag í huga breyti einhverju þar um, er erfitt að meta. Framangreind umleitan Ciotti virðist þó ekki hafa verið gerð í miklu samráði innan flokksins og hefur honum nú verið vikið úr embætti formanns flokksins. Hvað sem því líður þá má ef til vill ráða af þessum sviptingum að skilin milli hófsamari hægri afla og róttækari hægriafla (e. far right) séu sums staðar að verða óljósari.

Framangreint dæmi um veikleika í röðum EPP þingmanna er ekki einsdæmi, veikleikarnir eru víðar. Þannig kann að vera að VdL þurfi að reiða sig á stuðning þingmanna utan þingflokka meirihlutans og þar má ætla að hún eigi nokkra möguleika. Er þar fyrst að nefna þingflokk græningja, en þar er líklegt að VdL geti tryggt sér einhver atkvæði enda er hún mikils metin í þeirra röðum eftir að hafa sett Græna sáttmálann á oddinn sem flaggskip núverandi framkvæmdastjórnar. Hefur raunar verið rætt um að þingflokkurinn verði formlegur hluti af meirihluta samstarfi EPP, S&D og Renew Europe, en ekkert er þó staðfest í þeim efnum. Þá er ekki útilokað VdL kunni einnig að geta tryggt sér einhver atkvæði úr röðum þingmanna ECR og þá kannski sér í lagi frá liðsmönnum flokks Meloni á Ítalíu.

Áhrif kosninganna á stefnumótun ESB

Eftir er að koma í ljós hvaða áhrif niðurstöður kosninganna munu hafa á stefnumótun ESB til næstu fimm ára. Fyrsta birtingarmyndin verður þegar leiðtogaráð ESB gefur út stefnuáætlun sína (e. strategic agenda) til næstu fimm ára en ráðgert er að sú áætlun verði samþykkt og birt fyrir lok þessa mánaðar, sbr. umfjöllun hér að neðan í Vaktinni um næsta fund leiðtogaráðs ESB. Fjallað var um undirbúning að stefnumörkun ESB til næstu fimm ára í Vaktinni 17. maí sl. þar sem jafnframt var lagt mat á það fyrirfram, með hliðsjón af kosningaspám, hvaða áhrif kosningarnar myndu að líkindum hafa á stefnumótunarvinnuna.

Leiðtogafundir á næstu dögum

Leiðtogafundur G7-ríkjanna

Leiðtogafundur G7-ríkjanna stendur nú yfir á Ítalíu en Ítalía fer nú með formennsku í G7-samstarfinu. Auk leiðtoga aðildarríkjanna sjö, Kanada, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Japans, Bretlands og Bandaríkjanna á ESB aðild að samstarfinu og sóttu Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, fundinn fyrir hönd ESB. Dagskrá fundarins sem hófst í gær og lýkur á morgun, laugardag, með fréttamannafundi ítölsku formennskunnar er þéttskipuð, þar sem málefni Afríku, loftlagsbreytingar, staðan í Austurlöndum nær og árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu verða m.a. til umræðu og er gert ráð fyrir að sérstök yfirlýsing leiðtoganna verði gefin út á morgun.

Enda þótt málefni ESB og niðurstöður Evrópuþingskosninganna séu vitaskuld ekki til formlegrar umræðu á fundinum þá má fastlega búast við því að þær komi óformlega til tals á milli leiðtoga ESB-ríkjanna og fulltrúa ESB á fundinum.

Ráðstefna um frið í Úkraínu

Um helgina, 15. og 16. júní, fer fram stór alþjóðleg ráðstefna um frið í Úkraínu. Ráðstefnan er haldin í Sviss og eru þarlend stjórnvöld gestgjafar ráðstefnunnar. Gert er ráð fyrir að fjölmargir þjóðarleiðtogar muni mæta á ráðstefnuna en alls hafa um 90 ríki tilkynnt þátttöku en listi yfir þátttakendur hefur þó enn ekki verið birtur þegar þetta er skrifað. Fyrir liggur þó að hvorki Rússland né Kína munu taka þátt í ráðstefnunni.

Óformlegur fundur leiðtogaráðs ESB

Á mánudaginn, 17. júní, verður, eins og vikið er að að framan í umfjöllun um niðurstöður Evrópuþingskosninganna, efnt til óformlegs fundar í leiðtogaráði ESB. Á fundinum verða niðurstöður kosninganna og kjörtímabilið framundan ræddar sem og hverja skuli tilnefna eða skipa til að gegna æðstu embættum ESB á tímabilinu, en þar ber vitaskuld hæst hvern skuli tilnefna í embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB, en einnig liggur fyrir ráðinu að komast að niðurstöðu um eftirmann Charles Michel í embætti forseta leiðtogaráðsins sem og hvern skuli tilnefna í stöðu utanríkismálastjóra sambandsins. Auk framangreinds hafði verið gert ráð fyrir að drög að nýrri fimm ára stefnuáætlun leiðtogaráðs ESB (e. strategic agenda) yrði til umræðu á fundinum en nú lítur út fyrir að það náist ekki. Áfram er þó gert ráð fyrir að leiðtogaráðið samþykki nýja stefnuáætlun fyrir lok þessa mánaðar, þ.e. á formlegum fundi ráðsins 27. og 28. júní nk. Sjá nánari umfjöllun um undirbúning nýrrar stefnuáætlunar í Vaktinni 17. maí sl.

ESB leggur allt að 38% jöfnunartolla á kínverska rafbíla

Þann 12. júní sl. komst framkvæmdastjórn ESB að bráðabirgðaniðurstöðu í rannsókn á meintum niðurgreiðslum Kínverja til rafbílaframleiðslu sem hófst 4. október sl. en fjallað var um tildrög og upphaf rannsóknarinnar í Vaktinni 13. október sl. Bráðabirgðaniðurstaða rannsóknarinnar er að kínverskir rafbílaframleiðendur njóti niðurgreiðslna í þeim mæli að þær verði að teljast ósanngjarnar gagnvart bílaframleiðendum í ESB og séu til þess fallnar að valda þeim efnahagslegu tjóni.

Framkvæmdastjórn ESB hefur heimildir til að leggja á jöfnunartolla vegna ósanngjarnra niðurgreiðslna erlendra ríkja og hefur nú greint kínverskum stjórnvöldum frá niðurstöðum rannsóknarinnar og fyrirhuguðum jöfnunartollum sem verða að óbreyttu lagðir á  innflutning kínverskra rafbíla frá og með 4. júlí nk. Tollarnir munu nema frá 17,4% til 38,1%, og eru breytilegir eftir rafbílaframleiðendum í Kína. Samhliða þessu hefur framkvæmdastjórn ESB lýst yfir vilja til reyna að leysa málið á grundvelli reglna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar áður en tollar verði lagðir á. 

Kínversk stjórnvöld brugðust hart við þessari ráðstöfun og hafa hótað að svara í sömu mynt gagnvart evrópskum flugiðnaði, bændum og vínframleiðendum. Á þessari stundu liggur hins vegar ekki fyrir hvert svar Kínverja verður.

Markmið ESB með jöfnunartollunum er að jafna samkeppnisstöðu á innri markaðnum en varað hefur verið við að aðgerðirnar geti leitt til viðskiptastríðs milli ESB og Kína.  

Aðildarríkin munu þurfa að taka endanlega afstöðu til jöfnunartollana í atkvæðagreiðslu í haust en aukinn meirihluta í ráðherraráði ESB þarf til að hnekkja tollunum. Þjóðverjar hafa verið gagnrýnir á tollana og lagt áherslu á frjáls alþjóðaviðskipti í þessu samhengi á meðan Frakkar virðast að svo stöddu ekki deila þeim áhyggjum.

Málið varðar EES/EFTA-ríkin ekki með beinum hætti enda tekur EES-samningurinn ekki til tollabandalags ESB en aðgerðirnar geta þó eftir sem áður haft umtalsverð og almenn áhrif á framboð og eftirspurn rafbíla á Evrópska efnahagssvæðinu.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta