Áskoranir í samgöngumálum í kastljósinu á samgönguþingi
Hátt á annað hundrað manns sátu samgönguþing 2018 sem fram fór í dag. Fjallað var um helstu áherslur í samgönguáætlun 2019-2033 sem lögð verður fyrir Alþingi í haust, áskoranir í samgöngumálum, framkvæmdir og fjármögnun, almenningssamgöngur, umferðaröryggi og hlutverk upplýsingatækninnar í framtíðarsamgöngum. Frummælendur fjölluðu um hvert málefni og í kjölfarið voru umræður með þátttöku sérfræðinga á viðkomandi sviði, ásamt fyrirspurnum úr sal.
Samgöngukerfið er lífæð landsins
„Eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar er að hraða uppbyggingu í vegamálum til að tryggja umferðaröryggi vegfarenda og treysta fjölbreytt atvinnulíf um land allt. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að við forgangsröðun í vegamálum verði litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra m.a. í ávarpi sínu á þinginu. Hann kom víða við og sagði að samgönguáætlunin sem lögð verður fram í haust verði í takt við þær fjárheimildir sem eru til umráða hverju sinni og taki mið af fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem eru til 5 ára. „Það er liðin tíð að Samgönguáætlun sé einhver óskalisti, hún á að vera raunsæ og tímasett áætlun um samgöngukerfið, sem er lífæð landsins.“
Ráðherra sagði ljóst að við stæðum á nokkurs konar krossgötum umbreytinga í vegakerfinu og því væri nauðsynlegt að ræða um framtíðarstefnu við fjármögnun þess. Skýrði hann frá því að hann hefði ákveðið að setja á laggirnar starfshóp til að koma með tillögur um hvernig flýta megi uppbyggingu greiðra og öruggra samgöngumannvirkja til að mæta auknu álagi á einstaka leiðum. Verið sé að skipa nefnd um fjármögnun í vegakerfinu sem verði falið að stilla upp sviðsmyndum af svokölluðu flýtigjaldi fyrir stærri framkvæmdir eins og að brúm og göngum og horft verði til annarra landa í þeim efnum. Hann nefndi sem dæmi mögulega gjaldtöku af einstaka mannvirkjum á þjóðvegi 1 þar sem staðsetning miðist við að ökumenn hafi þann valkost að aka aðrar leiðir. Gjaldið yrði að vera hóflegt og tímabundið og innheimt með sjálfvirkum hætti. Önnur útfærsla væri að taka nokkurs konar tímagjald fyrir afnot af kerfinu. Hugsa mætti sér að fjármögnun vegakerfisins samanstæði af blandaðri fjármögnun, þ.e. hefðbundinni fjárveitingu og gjaldtöku. „Þannig er ekkert til fyrirstöðu að innleiða blandaða leið að einhverju marki og ekkert til fyrirstöðu að taka ákvörðun um að hefja tilteknar framkvæmdir, svo sem við Sundabraut sem er orðin löngu tímabær.“
Hann sagði að eigi að síður væri markmiðið að fjármagn til vegaframkvæmda sem eru á fjárlögum ríkisins hækki og verði um 1,5% af vergri landsframleiðslu – til lengri tíma. Þar með yrði snúið við þróun undanfarinna ára sem hefur einkennst af samdrætti. Ég vil ítreka að vinnan er að hefjast – leiðir og útfærslur eru allar eftir og ætlunin er að taka umræðuna, í samfélaginu - við pólitíkina. Hér hafa fyrst og fremst verið nefnd dæmi.“
Helstu áherslur í samgönguáætlun 2019-2033
Þórunn Egilsdóttir, formaður samgönguráðs, fjallaði um stöðu og helstu áherslur í samgönguáætlun 2019-2033. Sagði hún stefnu í samgöngumálum vera mótaða á margvíslegan hátt en mikilvægast sé að hafa samráð og eiga samtöl við sem flesta. „Samgönguráð lagði upp með að fara um landið, hlusta á fólk, safna í verkfærakistuna efni sem vinna má úr, nýta hugmyndir, samræma sjónarmið og setja fram samgönguáætlun sem hald er í.“ Meðal helstu niðurstaðna samráðsfundanna væri að alls staðar leggi fólk mikla áherslu á öryggi, kallað sé eftir sýnilegu eftirliti og lækkun hámarkshraða þar sem þarf. Þá megi lesa úr niðurstöðum að fólk vilji forgangsraða nýframkvæmdum þannig að áhersla verði lögð á þau svæði sem setið hafa eftir og ánægja sé með áform um bættar almenningssamgöngur og áherslu á styrkingu innanlandsflugs sem hluta af því. „Það er mín bjargfasta trú að besta fjárfesting þjóðarinnar til framtíðar sé að fjárfesta í samgöngumannvirkjum. Þannig getum við byggt landið allt og nýtt tækifærin sem eiga eftir að koma.“
Benedikt S. Benediktsson, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti, fjallaði um skattstofna ökutækja og eldsneytis – og framtíðaráskoranir þar að lútandi. Áskoranir fælust í skuldbindingum í loftslagsmálum, minni eldsneytiseyðslu, minni notkun bifreiða, orkuskiptum í samgöngum og tekjuþörf ríkissjóðs og forgangsröðun við tekjuöflun. Sjá glærur.
Sérfræðingar í umræðum um framkvæmdir voru Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, og Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, sem fluttu einnig stutt innlegg.
Árni Freyr Stefánsson, verkfræðingur hjá Mannviti, sem er verkefnisstjóri í vinnu við mótun heildarstefnu um almenningssamgöngur sagði frá verkefninu. Hann kvað það vera áskorun hve dreifbýlt landið sé og flókið sé fyrir notendur að nálgast upplýsingar um almenningssamgöngur. Markmiðið sé að mynda heildstætt kerfi, þá opnist áfangastaðir og náist aukin hlutdeild fyrir alla íbúa landsins. Sjá glærur.
Sérfræðingar í umræðum voru Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, Páll S. Brynjarsson, framkvæmdastjóri SSV, og Þorsteinn R. Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, sem fluttu einnig stutt innlegg.
Berglind Hallgrímsdóttir, umferðarverkfræðingur hjá Eflu fjallaði um umferðaröryggi og samfélagslegan kostnað. Samfélagslegur kostnaður er kostnaður þar sem tekið er tillit til tapaðra lífsgæða, sársauka og þjáningar þess sem verður fyrir slysi, ásamt því að horft er til útgjalda samfélagsins vegna umferðarslysa (samfélagslegur kostnaður, eignatjóns og einstaklingsbundinn kostnaður). Sýndi hún slysakort fyrir Reykjavík 2012-2016 en á þeim árum voru skráð 14.134 slys. Samfélagslegur kostnaður allra slysa í Reykjavík á þeim árum hafi verið reiknaður 14, 7 milljarðar. Sjá glærur.
Ástandið í umferðinni og ávinningur af sýnilegu eftirliti kallaðist erindi Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns á Selfossi. Fjallaði hann um störf lögreglu og umferðaröryggi. Umferð hafi aukist gríðarlega og mikilvægi umferðareftirlits að sama skapi. Sýnilegt eftirlit sé áhrifarík og fljótvirk leið til að draga úr ökuhraða. Sjá glærur.
Sérfræðingar í umræðum um öryggi voru Sigríður Vala Halldórsdóttir, forstöðumaður hagdeildar hjá Sjóvá, og Haraldur Sigþórsson, verkfræðingur og fluttu þau einnig stutt innlegg.
Upplýsingatækni og samgöngur: Hvað færir 4. iðnbyltingin okkur? var heiti erindis Ara Kristins Jónssonar, rektors Háskólans í Reykjavík. Hann sagði stafræna byltingu vera í fullum gangi – og væri hún búin að vera það í töluverðan tíma. Snjalltækin séu alls staðar og viðskiptamódel breytt. Í samgöngum benti hann á sjálfkeyrandi
bíla og þá þróun sem orðið hefur á þeim á síðustu árum. Lykilbreytingin sé gervigreindin. Tæknin geti lært næstum hvað sem er. Sjá glærur.
Sérfræðingar sem tóku þátt í umræðum um tæknina voru Lilja G. Karlsdóttir, framkvæmdastjóri Viaplan, og Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.
Sóli Hólm sló á létta strengi við lok samgönguþingsins. Þingstjóri var Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri.