Hoppa yfir valmynd
5. mars 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 51/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 5. mars 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 51/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 7. nóvember 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 7. nóvember 2011 tekið ákvörðun um að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Ástæðan var sú að kærandi var í námi og hafði ekki gert námssamning við Vinnumálastofnun. Ákvörðunin var tekin með vísan til c-liðar 3. gr. og 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir rökstuðningi stofnunarinnar á ákvörðun sinni og barst honum rökstuðningur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 21. desember 2011. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 16. mars 2012. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 19. september 2011.

 

Umsókn kæranda var tekin fyrir þann 13. október 2011 og með bréfi dagsettu sama dag óskaði Vinnumálastofnun eftir því að kærandi færði fram staðfest skólavottorð. Ekki lá ljóst fyrir hvaða nám kærandi stundaði á sama tíma og hann var skráður atvinnulaus hjá stofnuninni eða í hversu háu námshlutfalli hann var. Þann 19. október 2011 barst Vinnumálastofnun tölvupóstur frá kæranda þar sem námsfyrirkomulagi er lýst. Ekkert skólavottorð hefur borist Vinnumálastofnun. Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti stundaði kærandi nám í skólaunum á haustönn 2011 frá 23. ágúst til 20. desember. Hann lauk 12 einingum í náminu.

 

Á fundi Vinnumálastofnunar þann 7. nóvember 2011 var tekin sú ákvörðun að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli c-liðar 3. gr. og 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hann var í námi við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Kæranda var tilkynnt þessi ákvörðun stofnunarinnar með bréfi þann 7. nóvember 2011.

 

Í kæru, dags. 16. mars 2012, krefst kærandi þess að viðurkennt verði að hann hafi verið atvinnulaus frá skráningardegi. Til vara krefst kærandi þess að viðurkennt verði að hann hafi verið atvinnulaus frá 28. nóvember 2011 en það kvöld hafi kennslu lokið í skráðum námsfögum. Til þrautavarna krefst kærandi þess að hann hafi verið atvinnulaus frá 16. desember 2011 en þann dag hafi hann lokið sveinsprófi í húsasmíði.

 

Kærandi kveðst hafa lokið burtfararprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 19. desember 2003. Þar með hafi hann lokið öllu nauðsynlegu bók- og verknámi til að geta fengið réttindi sem húsasmiður. Einungis hafi verið eftir nauðsynleg verkþjálfun, 72 vikna vinnustaðanám og í framhaldi af því sveinspróf sem veiti réttindi til starfa í iðninni.

 

Kærandi hafi lokið námi samkvæmt námskrá sem þá hafi verið í gildi. Fram að þeim tíma sem eldri námskrá hafi verið í gildi hafi iðnmenntaskólar yfirleitt haldið sérstök námskeið til undirbúnings fyrir sveinspróf þar sem farið hafi verið yfir þá þætti sem reyndi á í sveinsprófi. Þessi námskeið hafi ekki verið hluti af námi í húsasmíði en nær allir nemendur sem hafi reynt við sveinspróf hafi farið á þau. Til upplýsingar þá sé sveinspróf í húsasmíði verklegt 20 klukkustunda próf og tveggja tíma bóklegt próf. Verklega prófið sé unnið með handverkfærum og samkvæmt núgildandi námskrá sé sérstakur lokaáfangi „lokaverkefni í húsasmíði“ sem allir nemendur í húsasmíði taki sem búi þá undir sveinsprófið.

 

Til að auka líkur kæranda á því að ná sveinsprófinu, þar sem langt hafi verið liðið frá því að námi lauk og ekki sé lengur í boði undirbúningsnámskeið fyrir sveinspróf hafi kærandi óskað eftir því við Fjölbrautaskólann í Breiðholti að skrá sig í námskeiðið „lokaverkefni í húsasmíði“ í kvöldskóla fjölbrautaskólans. Þar sem nám í kvöldskóla sé með helmingi færri kennslutímum en í dagskóla, einnig í verknámsfögum, hafi kæranda verið ráðlagt að skrá sig í aðra námsáfanga til að eiga rétt á að vera í verknámshúsi skólans þau kvöld sem áfangarnir voru kenndir. Það sem hafi ráðið því í hvaða áfanga kærandi var skráður hafi verið hvaða áfanga Fjölbrautaskólinn í Breiðholti vantaði nemendur í, enda hafi kærandi aðeins unnið að verkefnum sem tengdust áfanganum „lokaverkefni í húsasmíði“. Kærandi var skráður í 12 einingar sem sé að mati Lánasjóðs íslenskra námsmanna ekki fullt lánshæft nám, enda væri það undarlegt að mati kæranda að tvö kvöld í viku með tímasókn frá 18 til 22 og engri heimavinnu teldist fullt nám.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 30. maí 2012, er tekið fram að lög um atvinnuleysistryggingar, gildi um atvinnuleysisbætur launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir.

 

Vinnumálastofnun bendir á c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem nám sé skilgreint. Þá lúti málið að 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bent á að fram komi í 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna að þrátt fyrir framangreint ákvæði geti atvinnuleitendur í háskólanámi átt rétt til atvinnuleysisbóta að nánari skilyrðum uppfylltum. Í máli kæranda sé ekki um að ræða nám á háskólastigi og eigi undanþágur í 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna því ekki við. Fram hafi komið í gögnum kæranda til úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi verið skráður í 12 eininga nám á framhaldsskólastigi. Verði af þessu að álykta að meginregla sú er fram komi í 1. mgr. 52. gr. eigi við um atvik í máli kæranda.

 

Ljóst sé af framangreindum ákvæðum að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stunda nám. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögunum sé í umfjöllun um greinina haldið fram að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum hvort sem um sé að ræða dagskóla, kvöldskóla eða fjarnám. Auk þess sé það eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysisbótum launamanna að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Samkvæmt undanþáguheimild 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geti sá sem stundar nám talist tryggður sé námið hluti af vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í 5. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitanda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009, sé fjallað um námssamninga. Sé Vinnumálastofnun með 5. gr. reglugerðarinnar veitt heimild til að gera námssamning við atvinnuleitendur. Samkvæmt framangreindu sé það skilyrðið fyrir því að geta sótt nám samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta að hinn tryggði hafi sótt um gerð námssamnings hjá Vinnumálastofnun. Verði ekki séð að kærandi hafi óskað eftir eða athugað hvort fyrir hendi væru skilyrði til gerðar námssamnings hjá stofnuninni.

 

Þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á meðan hann stundaði nám, sbr. 1. mgr. 52. gr. laganna, telur stofnunin að hafna beri umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur.

 

Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar hafi kærandi meðal annars gert kröfu um að Vinnumálastofnun greiði honum atvinnuleysisbætur frá 16. desember 2011 þegar námi hans lauk í húsasmíði. Með bréfi, dags. 7. nóvember 2011, hafi kæranda verði tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur væri hafnað. Hafi kærandi ekki sótt um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni eftir að honum hafi verið synjað um greiðslur atvinnuleysisbóta. Í ljósi synjunar á umsókn kæranda verði ekki séð að Vinnumálastofnun standi heimild til að greiða kæranda atvinnuleysisbætur á grundvelli eldri umsóknar. Beri kæranda að sækja um greiðslur atvinnuleysisbóta að nýju enda geti atvinnuleitandi skv. 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar einungis átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. júní 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 13. júní 2012. Frekari athugasemdir og gögn bárust frá kæranda með bréfi dags, 24. júní 2012.

 

Í athugasemdum kæranda mótmælir hann sjónarmiði Vinnumálastofnunar harðlega og segir ástæðurnar vera eftirfarandi sjö:

 

Í fyrsta lagi hafi nám það sem kærandi hafi verið skráður í eingöngu verið vegna undirbúnings sveinsprófs. Þess beri að geta að um hafi verið að ræða nám sem hafi verið tvö kvöld í viku á tímabilinu september til nóvember 2011, en ekki um eiginlegt nám í húsasmíði að ræða þar sem kærandi hafði þegar árið 2003 lokið öllu námi í húsasmíði með burtfararprófi í desember 2003. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til 3. gr. reglugerðar um sveinspróf, nr. 698/2009, þar sem fram komi skilyrði sem próftakar þurfi að uppfylla til að taka sveinspróf og að á grundvelli þess hafi kærandi hafið undirbúning að því að taka sveinspróf með námi í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.

 

Í annan stað hafi nám þetta því hvorki verið hluti af reglulegu iðnnámi þar sem því hafi þegar verið lokið né nám sem hafi uppfyllt skilyrði aðalnámskrár framhaldsskóla, en samkvæmt henni sé reiknað með að fullt nám miðist við 20 einingar. Jafnvel þótt um reglulegt nám væri að ræða sem þó hafi ekki verið í þessu tilviki sé ljóst að fjöldi þeirra eininga sem kærandi hafi verið skráður í var aðeins 60% af reglulegri námsframvindu.

 

Í þriðja lagi hafi námið verið tvö kvöld í viku á framangreindu tímabili, eins og áður er fram komið, og ekki hafi verið um neitt annað að ræða en verklega þjálfun á þessu tímabili. Hvorki hafi verið verkefni né próf sem kærandi hafi þurft að skila eða taka. Nám þetta hafi því ekki uppfyllt skilyrði Lánasjóðs íslenskra námsmanna varðandi námslán enda geri reglur lánasjóðsins varðandi lánshæfni náms í húsasmíði ráð fyrir 18 eininga námsframvindu. Af þessu megi sjá að hér hafi ekki verið um reglulegt nám að ræða og eðlilega námsframvindu samkvæmt skilgreiningum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til frumvarps til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar þar sem skilgreindur sé megintilgangur Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þar sem ekki sé um nám að ræða sem uppfylli skilyrði lánasjóðsins verði ekki séð að Vinnumálastofnun hafi verið stætt á því að hafna umsókn undirritaðs á grundvelli þess rökstuðnings sem stofnunin hafi sett fram.

 

Í fjórða lagi hafi komið fram í rökstuðningi Vinnumálastofnunar að ekki hafi borist vottorð frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti varðandi námið. Vinnumálastofnun hafi þó verið fullljóst að hér hafi ekki verið um reglulegt nám að ræða, sbr. lýsingu náms sem Vinnumálastofnun hafi borist 18. október 2011. Ekki verði séð að Vinnumálastofnun hafi kannað fyrirkomulag náms áður en umsókn hafi verið hafnað. Með vísan til c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé ljóst að námið sem um hafi verið að ræða hafi ekki uppfyllt skilgreiningu á námi.

 

Í fimmta lagi hafi í rökstuðningi Vinnumálastofnunar verið vísað til þess að kærandi hafi ekki sótt um námssamning og það tilgreint sem ástæða höfnunar. Eins og að framan hafi verið tilgreint þá hafi nám (upprifjun vegna sveinsprófs) ekki verið nám til prófgráðu, eins sé ljóst að ákvæði varðandi umsókn um námssamning eigi ekki við og þar af leiðandi sé þessari röksemd Vinnumálastofnunar alfarið hafnað. Ekki verði séð að Vinnumálastofnun hafi kynnt sér málavexti varðandi þetta í þaula þegar umsókn kæranda hafi verið hafnað.

 

Í sjötta lagi vísar kærandi til 3. mgr. athugasemda með 52. gr. frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar sem fjalli um skyldu Vinnumálastofnunar að meta sérstaklega hvort atvinnuleitandi sem stundar nám í skilningi frumvarpsins en sé í lægra námshlutfalli en 75% uppfylli skilyrði frumvarpsins þrátt fyrir námið. Jafnframt sé tilgreint mikilvægi þess að Vinnumálastofnun meti aðstæður atvinnuleitanda heildstætt og þá einkum með tilliti til þess hvort hann teljist geta verið í virkri atvinnuleit. Þrátt fyrir að 75% viðmiðunarreglunni hafi verið breytt með lögum nr. 37/2009 þá breyti það því ekki að Vinnumálastofnun beri að meta aðstæður atvinnuleitanda heildstætt. Ekki verði séð að Vinnumálastofnun hafi uppfyllt þessa skyldu sína um mat á aðstæðum kæranda þegar umsókn um atvinnuleysisbætur hafi verið hafnað. Enda komi ekkert fram í rökstuðningi Vinnumálastofnunar varðandi þetta atriði.

 

Í sjöunda og síðasta lagi hafi í rökstuðningi Vinnumálastofnunar verið nánar fjallað um að stofnunin hafi ekki talið sér heimilt að greiða atvinnuleysisbætur á grundvelli eldri umsóknar. Í samtölum kæranda við starfsmenn Vinnumálastofnunar hafi aldrei komið fram að kæranda bæri að sækja um atvinnuleysisbætur á ný með vísan til þess að umsókn hafi verið hafnað. Kærandi hafi frá umsóknardegi staðfest atvinnuleit og sé Vinnumálastofnun fullkunnugt um þetta eins og sjá megi á útprentunum á staðfestingum um atvinnuleit. Ljóst sé því að Vinnumálastofnun hafi vanrækt leiðbeiningarskyldu sína varðandi þetta atriði og því sé þessum röksemdum Vinnumálastofnunar harðlega mótmælt.

 

Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 31. október 2012, var kæranda tilkynnt með vísan til 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að afgreiðsla máls hans myndi tefjast vega mikils fjölda kærumála hjá úrskurðarnefndinni.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, segir að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum við nefnda lagagrein í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað er við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dagskóla, kvöldskóla eða fjarnám. Í 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna er fjallað um undanþágur frá meginreglunni varðandi atvinnuleitendur í háskólanámi. Í máli þessu er ekki um að ræða nám á háskólastigi og eiga undanþágur í 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna því ekki við.

 

Í málinu liggur fyrir vottorð frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti um að kærandi hafi stundað nám við skólann á tímabilinu 23. ágúst til 20. desember 2011 og hann hafi á þessum tíma lokið tólf einingum í kvöldskóla. Þessar upplýsingar eru í samræmi við frásagnir kæranda sjálfs af náminu. Þótt kærandi hafi sett fram ýmsar málsástæður og tínt til margvíslegar röksemdir haggar sá málflutningur hans ekki þeirri staðreynd að hann stundaði nám í skilningi c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á sama tíma og hann lagði fram umsókn um greiðslu atvinnuleysistrygginga, dags. 19. september 2011. Með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. sérstaklega 1. mgr. þess ákvæðis, er fallist á að kærandi átti ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta á grundvelli fyrrnefndrar umsóknar sinnar.

 

Hér verður einnig til þess að líta að kærandi stundaði nám á haustönn 2011 án þess að gerður hafi verið við hann námssamningur skv. 5. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009. Í málinu liggur einnig fyrir að kærandi hafi ekki óskað eftir að gerður yrði við sig námssamningur.

 

Kærandi hefur einnig haldið því fram fyrir nefndinni að hann hafi orðið atvinnulaus í lok nóvember 2011 þegar kennslu lauk. Sé ekki á þetta fallist telur kærandi að hann hafi orðið atvinnulaus frá og með 16. desember 2011 en þá lauk hann sveinsprófi í húsasmíði. Þegar taka á afstöðu til þessara sjónarmiða kæranda verður til þess að horfa að skv. 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar getur atvinnuleitandi einungis átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Þar sem umsókn kæranda frá 19. september 2011 var afgreidd með þeim hætti að henni var hafnað ber kæranda að sækja um að nýju til þess að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta. Lagaskilyrði standa því ekki til þess að fallast á ofangreind sjónarmið kæranda.

 

Með vísan til framanritaðs, en að öðru leyti með skírskotun til þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur sett fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, þá verður hún staðfest.

 

 

 


 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. nóvember 2011, um að hafna kæranda, A, um greiðslur atvinnuleysisbóta, er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta