Atvinnuþátttaka hvergi meiri en á Íslandi
Skráð atvinnuleysi í apríl var 6,5% á móti 8,1% atvinnuleysi á sama tíma í fyrra samkvæmt nýjum tölum Vinnumálastofnunar sem spáir því að í maí lækki það niður fyrir 6%. Velferðarráðherra segir að mun minna atvinnuleysi hér á landi og meiri atvinnuþátttaka en gerist hjá öðrum Evrópuþjóðum skapi Íslendingum mikilvægt forskot á leið út úr kreppunni.
Samkvæmt mánaðarlegu uppgjöri Vinnumálastofnunar voru 10.837 manns að meðaltali án atvinnu í apríl og hafði þá fækkað um 620 frá fyrri mánuði. Miðað við hefðbundnar árstíðarsveiflur á vinnumarkaði spáir Vinnumálastofnun því að áfram dragi úr atvinnuleysi í maí sem verði þá á bilinu 5,6-6%.
Vinnumálastofnun áætlar að fjöldi fólks á vinnumarkaði hafi í apríl síðastliðnum hafi verið um 167.560 eða um 3.450 fleiri en í apríl í fyrra.
Atvinnuleysi mælist nú jafn mikið hjá körlum og konum, eða 6,5%. Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu mældist 7,1% í apríl en 5,4% á landsbyggðinni. Sem fyrr er atvinnuleysi mest á Suðurnesjum þótt það minnki verulega milli mánuða og hafi farið úr 12,2% í mars niður í 11% í apríl. Minnst atvinnuleysi er á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra þar sem það mælist 2,7%.
Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hefur verið gengið frá tæplega 660 ráðningarsamningum í tengslum við verkefnið Vinnandi vegur og fleiri ráðningarsamningar bíða undirritunar.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir að enn sé atvinnuleysi hér á landi meira en landsmenn eigi að venjast. Hins vegar sé staða okkar mun sterkari en flestra annarra Evrópuþjóða þar sem atvinnuleysi er að meðaltali nálægt 11% á móti um 6,5% atvinnuleysis hér á landi, jafnframt því sem atvinnustig er hvergi hærra hér á landi (sjá mynd hér að neðan): „Þetta tvennt hefur gefið okkur mikilvægt forskot á leið út úr kreppunni umfram aðrar þjóðir og dregið verulega úr áhrifum kjaraskerðingar af hennar völdum. Þetta kemur meðal annars skýrt fram í nýlegri úttekt sem Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands vann fyrir velferðarráðuneytið um áhrif fjármálahrunsins á lífskjör þjóðarinnar.“