Rekstur Vinjar, athvarfs fyrir geðsjúka, tryggður
Áframhaldandi rekstur Vinjar, athvarfs fyrir geðsjúka, hefur verið tryggður með samningi milli Rauða krossins, velferðarráðuneytisins, Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Vinafélags velunnara Vinjar, sem undirritaður var í dag. Velferðarráðuneytið leggur samtals tæplega 21 milljón króna til rekstursins til ársloka 2014.
Vin er athvarf fyrir fólk með geðraskanir sem Rauði kross Íslands hefur rekið í 18 ár að Hverfisgötu 47 í Reykjavík. Þangað getur fólk leitað á eigin forsendum og án skuldbindinga, notið samveru við aðra og fengið sálfélagslegan stuðning. Daglega koma að jafnaði 24 gestir í Vin og nýta sér aðstöðu og þjónustu sem þar stendur til boða en markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun fólks, draga úr endurinnlögnum á geðdeildir og skapa umhverfi þar sem ríkir traust og tillit er tekið til hvers og eins með áherslu á að styðja fólk til sjálfshjálpar.
Um tíma leit út fyrir að rekstri Vinjar yrði hætt vegna fjárskorts en með samningnum sem undirritaður var í dag hefur reksturinn verið tryggður til ársloka 2014. Reykjavíkurborg leggur starfseminni til húsnæði og greiðir jafnframt til starfseminnar samtals 26,5 milljónir króna á samningstímanum. Velferðarráðuneytið leggur til tæplega 21 milljón króna og Vinafélag Vinjar tæpar 16 milljónir króna.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði við undirritun samningsins í dag að Reykjavíkurdeild Rauða krossins ætti mikinn heiður skilinn fyrir starfsemi Vinjar og þjónustuna sem þar er veitt. Hún væri ómissandi fyrir fólkið sem þangað kæmi og því hefði ekkert annað komið til greina en að leggja fram fjármuni til að tryggja áframhaldandi starfsemi.