Hoppa yfir valmynd
25. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Málefni Úkraínu efst á baugi á fundi Eystrasaltsráðsins

Utanríkisráðherrar Eystrasaltsráðsins. - mynd

Málefni Úkraínu voru ofarlega á baugi á fundi utanríkisráðherra Eystrasaltsráðsins í Kristiansand í dag. Í sameiginlegri yfirlýsingu sinni fordæmdu utanríkisráðherrarnir harðlega innrás Rússlands í Úkraínu og lýstu yfir samstöðu og algjörum stuðningi við Úkraínu. Rússlandi var meinuð þátttaka í allri starfsemi Eystrasaltsráðsins með yfirlýsingu ráðherranna frá 3. mars síðastliðinn. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fordæmdi innrás Rússlands í Úkraínu og lagði í ávarpi sínu ríka áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar og svæðisbundinnar samvinnu og lýðræðislegra gilda í álfunni. Þar hefði Eystrasaltsráðið áfram hlutverki að gegna. 

„Innrás Rússa í Úkraínu minnir okkur á að sameiginleg gildi okkar eru ekki sjálfgefin, hægt er að þynna þau út og glata ef við hlúum ekki að þeim og verndum. Við verðum að standa vörð um grundvallarréttindi fólks í frjálsu samfélagi og hafa í huga að það er ekki alltaf auðvelt að búa í slíku samfélagi. Við erum heppin að búa í samfélögum þar sem hugmyndir eru ræddar opinberlega, þar sem leiðtogar eru gagnrýndir opinskátt og ágreiningur er eðlilegur hluti þjóðfélagsumræðunnar. Þetta eru ekki veikleikar sem við þurfum að óttast heldur styrkleikar sem Pútín og aðrir sem ríkja í krafti valdboðs óttast,“ sagði Þórdís Kolbrún í ávarpi sínu.

Hún lagði einnig áherslu á aukið og reglubundnara samstarf Eystrasaltsráðsins við aðrar svæðisbundnar stofnanir. Þá lagði hún ríka áherslu á starf Eystrasaltsráðsins á sviði barnaverndar, en Ísland hefur um árabil verið leiðandi á því sviði innan ráðsins og meðal annars hefur barnahúsum að íslenskri fyrirmynd víða verið komið á fót í aðildarríkjum ráðsins. Eystrasaltsráðið ætti að leita leiða til að styðja Úkraínu á þessu sviði en Úkraína er áheyrnaraðili að Eystrasaltsráðinu.

Eystrasaltsráðið hefur aðsetur í Stokkhólmi. Það hefur víðtækt verkefnasvið og innan þess fer fram margþætt efnislegt og faglegt samstarf aðildarríkjanna um málefni á borð við barnavernd, málefni ungmenna, aðgerðir gegn mansali, nýsköpun og stjórnmálalegt samstarf. 

Eystrasaltsráðið var stofnað 1992 og eiga þar sæti Norðurlöndin, Eystrasaltssríkin, Pólland, Þýskaland, auk Evrópusambandsins. Rússland tilkynnti um úrsögn sína úr ráðinu 17. maí síðastliðinn.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta