Hildigunnur Birgisdóttir fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2024
Hildigunnur Birgisdóttir hefur verið valin fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í myndlist sem haldinn verður í sextugasta sinn árið 2024. Tvíæringurinn er einn mikilvægasti vettvangur samtímalistar á heimsvísu og það er mikill heiður fyrir þann myndlistarmann sem valinn er til þátttöku á tvíæringnum hverju sinni. Þátttaka Íslands á Feneyjatvíæringnum hófst árið 1960 og hafa margir fremstu listamenn þjóðarinnar sýnt þar m.a. Jóhannes Kjarval, Ragnar Kjartansson, Hrafnhildur Arnardóttir, Rúrí og Egill Sæbjörnsson. Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur líkt og undanfarin ár umsjón með íslenska skálanum fyrir hönd menningar- og viðskiptaráðuneytisins.
Hildigunnur Birgisdóttir (fædd 1980) býr og starfar í Reykjavík. Á síðasta ári voru verk hennar á sýningum í Listasafni Reykjavíkur; listasafninu GES-2, sem rekið er af V-A-C Foundation í Moskvu og H2H í Aþenu. Verk hennar má meðal annars finna í safneign Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Nýlistasafnsins og European Patent Office. Hildigunnur útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2003.
Frá sýningunni Friður / Peace í i8 gallerí, 2022. Með leyfi listamannsins og i8 gallerí, Reykjavík
Á marglaga ferli sínum hefur Hildigunnur rannsakað hugmyndir okkar um fegurð, notagildi, samhengi hlutanna og hvetur áhorfandann til að efast um jafnvægið á milli skynjunar og raunveruleika. Hildigunnur skoðar oft fáfengilega hluti líkt og takka lyklaborðs, plastklemmur og úðabrúsa, og er hver hlutur valinn út frá einfaldleika sínum eða tilvist. Með því að setja fram óskáldlega hluti í nýjum efnum og stærðum undirstrikar Hildigunnur kunnulega eiginleika þeirra en samtímis því dregur hún notagildi þeirra í efa. Bjögunin undirstrikar skúlptúrískt gildi hinna upprunalegu hluta og fagnar fagurfræði þess sem fæstir gefa gaum.
Hildigunnur Birgisdóttir, Frá innsetningunni GDP (verg landsframleiðsla), sem hluti samsýningarinnar To Moscow! To Moscow! To Moscow!, GES-2 House of Culture, unnið fyrir V-A-C Foundation, Moskva, 2021. Mynd eftir Ivan Erofeev. Með leyfi listamannsins og i8 gallerí, Reykjavík.
Valferli fulltrúa Íslands á Feneyjatvíæringinn 2024
Öllum aðilum fulltrúaráðs Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar barst boð um að senda allt að þrjár tillögur að listamanni, sýningarstjóra eða sýningarhugmynd. ulltrúaráðið samanstendur af Samtökum listamannarekinna myndlistarrýma, Myndstefi, fimm fulltrúum Sambands íslenskra myndlistarmanna og einum fulltrúa frá öllum viðurkenndum listasöfnum á Íslandi.
Fjöldi hugmynda bárust og í kjölfarið fór fagráð KÍM auk tveggja gesta fór yfir tillögurnar og valdi listamann úr þeim hópi. Fagráð KÍM í valferlinu skipuðu: Starkaður Sigurðarson (f.h. SÍM), Auður Jörundsdóttir (forstöðumaður KÍM) og Harpa Þórsdóttir (f.h. listasafna). Gestir fagráðs voru Una Björg Magnúsdóttir og Sigurður Guðjónsson.