Hoppa yfir valmynd
9. ágúst 2021 Innviðaráðuneytið

Ný reglugerð samræmir öryggiskröfur fyrir jarðgöng

Ný reglugerð um öryggiskröfur fyrir jarðgöng nr. 895/2021 hefur tekið gildi og leysir af hólmi eldri reglugerð um sama efni. Með setningu reglugerðarinnar er leitast við að samræma öryggiskröfur til sambærilegra jarðganga, sem eru lengri en 500 metrar, og að efla enn frekar eftirlit með að öryggiskröfum sé fylgt. Ellefu jarðgöng falla undir nýju reglugerðina.

Gert er ráð fyrir virku öryggisstjórnunarkerfi í öllum jarðgöngum sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar. Tilgangurinn er að færa aðferðafræði við öryggisstjórnun mannvirkja til samræmis við það sem í dag tíðkast varðandi öryggisstjórnun og eftirlit.

Samgöngustofu er samkvæmt nýju reglugerðinni falið skýrt eftirlitshlutverk með því að öryggiskröfur í jarðgöngum séu uppfylltar. Stofnunin skal m.a. sjá til þess að reglubundnar skoðanir séu gerðar á jarðgöngum. Þá eru Samgöngustofu veittar skýrar heimildir til að stöðva tímabundið eða takmarka starfsemi jarðganga ef öryggiskröfum er ekki fullnægt. Vegagerðin hafði víðtækt eftirlitshlutverk samkvæmt eldri reglugerð en með breytingunum eru verkefni veghaldara og eftirlitsaðila aðskilin.

Jarðgöng á Íslandi verða framvegis flokkuð í tvo flokka eftir aldri og legu og ólíkar kröfur gerðar til hvors flokks fyrir sig. Í flokki I eru jarðgöng sem tilheyra samevrópska vegakerfinu og öll jarðgöng tekin í notkun eftir 30. apríl 2006, hvort sem þau tilheyra samevrópska vegakerfinu eða ekki. Í flokki II eru jarðgöng utan samevrópska vegakerfisins sem tekin voru í notkun fyrir 1. maí 2006.

Breytingar á gildissviði og eftirliti

Gildissvið eldri reglugerðar (nr. 992/2007) náði aðeins til jarðganga á Íslandi, sem tilheyra hinu svonefnda samevrópska vegakerfi, en það eru öll göngin fjögur á Hringveginum (Hvalfjarðargöng, Vaðlaheiðargöng, Fáskrúðsfjarðargöng og Almannaskarðsgöng). Reglugerðin tók einnig aðeins með skýrum hætti til jarðganga, lengri en 1.000 metrar, og þar sem umferðarþungi er meiri en 2.000 ökutæki að meðaltali á dag á akrein, þrátt fyrir að hafa skyldi hliðsjón af ákvæðum viðauka hennar við hönnun annarra jarðganga. Engin jarðgöng utan samevrópska vegakerfisins á Íslandi uppfylltu þessi skilyrði.

Jarðgöng sem falla undir reglugerðina (nafn – opnunarár – lengd) 

  • Hvalfjarðargöng – 1998 – 5.770 m
  • Dýrafjarðargöng – 2020 – 5.600 m
  • Göng undir Breiðadals- og Botnsheiði – 1996 – 2.000/4.000/3.000 m
  • Bolungarvíkurgöng – 2010 – 5.400 m
  • Strákagöng – 1967 – 800 m
  • Héðinsfjarðargöng – 2010 – 7.100+3.900 m
  • Múlagöng – 1990 – 3.400 m
  • Vaðlaheiðargöng – 2018 – 7.500 m
  • Norðfjarðargöng – 2017 – 7.900 m
  • Fáskrúðsfjarðargöng – 2005 – 5.900 m
  • Almannaskarðsgöng – 2005 – 1.300 m

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta