Hoppa yfir valmynd
8. ágúst 2014 Utanríkisráðuneytið

Demantar og duft í Tehran

Í Ferhendum tjaldarans, ljóði eins frægasta skálds Persa, Ómars Kajams, á seinni hluta 11. aldar, má finna eftirfarandi ljóðlínur, í þýðingu Magnúsar Ásgerissonar:


Ó, njótum sumars fyrir feigðarhaust,
er frostköld, háðsleg gellur dauðans raust:
Hverf duft til dufts! Í dufti hófið mitt
helst drykklaust, sönglaust, gestlaust endalaust!

Það sýnir e.t.v. betur en nokkuð annað hversu vel Íslendingar hafa kunnað að meta boðskap Kajams (nafnið merkir tjaldagerðarmaður á frummálinu), að ferskeytlur hans, Rúbajat, hafa verið þýddar a.m.k. sex sinnum á íslensku. En fyrir fólk á Vesturlöndum, þ.á m. á Íslandi, stendur munúðin sem lýst er í kveðskapnum oft í litlu samhengi við Íran nútímans, land þar sem mannlífið er talið lúta boðum og bönnum Kóransins.


Ómar Kajam

Við fyrstu sýn, mætti ætla að lífið í hinni rykugu höfuðborg Írans, Tehran, ætti margt sameiginlegt með hófi Kajams í duftinu. Borgin er t.a.m. drykklaus í þeim skilningi að refsivert er að neyta áfengis og ekki finnast krár og þaðan af síður næturklúbbar. Þegar nánar er að gáð, kemur þó í ljós að höfuðborgin er síður en svo jafn gleðisnauð og margir kynnu að ímynda sér. Tehran hefur að geyma eitt stærsta demantasafn veraldar. Götulíf blómstrar, ekki síst í kringum tehús borgarinnar, og vinsælir veitingastaðir státa af rótgróinni matargerðarhefð sem rekja má margar aldir aftur í tímann. Íranir bera með sér að vera gestrisnir og vinalegir, en auk þess mikið fjölskyldufólk. Í Tehran heyrist víða söngur og ekki getur borgin talist gestlaus; frá síðasta ári hefur ferðamannastraumurinn aukist hröðum skrefum.

Íran er annað stærsta ríkið sem sendiráð Íslands í Osló hefur fyrirsvar gagnvart, en þar búa 78 milljónir. Þjóðin hefur vel menntað vinnuafl og býr að gríðarlegum olíuauðlindum. Á síðari árum hefur einnig komið æ betur í ljós að Íranir hafa lykilhlutverki að gegna á stóru svæði í Miðausturlöndum, sem teygir sig frá botni Miðjarðarhafs til Pakistans, en mikið er í húfi fyrir öll ríki veraldar  að  takist að tryggja frið og stöðugleika á svæðinu. Á ýmsu hefur hins vegar gengið í samskiptum Írans og vestrænna ríkja á undanförnum árum. Skemmst er að minnast þess að öryggisráð S.þ., Bandaríkin og Evrópusambandið ákváðu að beita Írani viðskiptahömlum í því skyni að koma í veg fyrir að þeir tileinkuðu sér kjarnavopn, en aðgerðirnar byggja m.a. á ályktunum öryggisráðsins frá tímabilinu 2006 - 2010. Vonir eru nú við það bundnar að samningaviðræður við Írani, sem fram fara í umboði ráðins, muni leiða til viðunandi lausnar fyrir 24. nóvember nk.

Takist að koma samskiptunum við Íran aftur á réttan kjöl - og þar með að aflétta núverandi refsiaðgerðum - má búast við að gríðarstór markaður opnist í landinu. Hefur því jafnvel verið haldið því fram að þjóðarframleiðsla Írana kynni að tvöfaldast á mjög stuttum tíma. Má hafa það til marks um áhuga margra vestrænna ríkja á tækifærunum í Íran að háttsettir ráðamenn, þ.á m. frá Norðurlöndunum, hafa heimsótt  landið á undanförnum mánuðum. Einnig hafa viðskiptasendinefndir gert þéttfarið til höfuðborgarinnar og var t.a.m. frönsk sendinefnd, skipuð fulltrúum meira en 100 fyrirtækja, á ferðinni þar í febrúar sl.

Utanríkisráðherra ákvað fyrr á þessu ári að endurvirkja gagnkvæm diplómatísk samskipti með því að fela sendiherra Íslands gagnvart Íran með aðsetur í Osló að afhenda trúnaðarbréf sitt í Tehran. Gekk sendiherra á fund forseta Írans, Dr. Hossein Rouhani, 22. júlí sl. og afhenti honum þá skilríki sín við hátíðlega athöfn. Af því tilefni átti hann einnig viðræður við utanríkisráðherrann, þrjá aðra ráðherra og hátt setta embættismenn, í þeim tilgangi að leggja mat á tækifæri í tvíhliða samskiptum Íslands og Írans og stofna til tengsla fyrir stjórnvöld og viðskiptalíf. Fram kom að Íranir hafa mikinn áhuga á samstarfi við Ísland um alþjóðamál og viðskipti og var sjónum ekki síst beint að sjávarútvegi og jarðhita.

Afhending trúnaðarbréfs í Tehran

Ríkin búa bæði að ríkri menningararfleifð. Skáldskaparhefð Persa nær aftur til sjálfs Zaraþústra, á sjöttu öld fyrir Krist. Líkt og Snorri Sturluson skrásetti sögu Noregskonunga, ritaði 11. aldar skáldið Ferdowsi sögu fornkonunga í Konungabók (Shahnameh), sjálfa undirstöðuna að sögulegum sjálfsskilningi Persa. Má sjá ýmis merki þess að Íranir, ekki síður en Íslendingar, hafi lengi kunnað að meta þau langvarandi menningarlegu verðmæti sem mölur og ryð fá ekki grandað, sbr. eftirfarandi ljóðlínur eins af persnesku höfuðskáldunum, í þýðingu Helga Hálfdánarsonar:

Þó burt sé dýrum demant fleygtí duftið, er hans gildi jafnt; og eins er duftið ávallt samtþó upp til skýja sé því feykt.

Höfundurinn er Gunnar Pálsson, sendiherra í Ósló

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta