Hoppa yfir valmynd
14. júní 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Öryggi og heilbrigði á vinnustöðum verður grundvallarregla innan Alþjóðavinnumálastofnunarinnar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, á 110. Alþjóðavinnumálaþinginu í Genf.  - mynd

Á Alþjóðavinnumálaþinginu, sem haldið var í 110. skipti í Genf dagana 30. maí - 12. júní sl., var ákveðið að bæta öryggi og heilbrigði á vinnustöðum við grundvallarreglur Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO). Á þinginu var samþykkt ályktun sem felur í sér að fimmtu grundvallarreglunni var bætt við yfirlýsingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarviðmið og réttindi við vinnu frá árinu 1998.

Hingað til hafa fjórar meginreglur verið taldar vera grundvallarreglur á vinnumarkaði: Félagafrelsi og rétturinn til að stofna félög og semja sameiginlega, bann við barnavinnu, bann við nauðungarvinnu og skylduvinnu og bann við misrétti með tilliti til atvinnu eða starfa. Öryggi og heilbrigði á vinnustöðum verður nú fimmta reglan í þessum flokki. Þetta felur í sér að samþykkt nr. 155 um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi og samþykkt nr. 187  um að efla öryggi og heilbrigði við vinnu bætast við þær samþykktir stofnunarinnar sem teljast vera grundvallarreglur og grundvallar samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. 

Ákvörðunin hefur það í för með sér að öll aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar ber að virða þau grundvallarréttindi sem felast í öruggum og heilbrigðum vinnuháttum á vinnustöðum, óháð því hvort ríkin hafi fullgilt þessar samþykktir stofnunarinnar.

Ísland hefur fullgilt báðar samþykktirnar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta