Lilja fundaði með menningarmálaráðherrum Norðurlandanna
Petri Honkonen, rannsókna- og menningarmálaráðherra Finnlands, Ane Halsboe-Jørgensen, menningar- og kirkjumálaráðherra Danmerkur, Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Annika Hambrudd, mennta- og menningarmálaráðherra Álandseyja, Jeanette Gustafsdotter, menningarmálaráðherra Svíþjóðar, Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Annette Trettebergstuen, menningar- og jafnréttismálaráðherra Noregs og Peter P. Olsen, mennta-, menningar- og kirkjumálaráðherra Grænlands.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, fundaði með menningarmálaráðherrum Norðurlandanna í Óperuhúsinu í Ósló þann 4. maí. Þetta var fyrsti ráðherrafundur ársins undir formennsku Noregs. Aðild að samstarfinu eiga Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.
„Menningarlíf sem er lifandi, frjálst og fyrir alla styrkir lýðræðislegan hugsunarhátt, fjölbreytni og lífsgæði. Listamenn og aðrir sem sinna menningarmálum að geta unnið frjálst að sinni list og án þess að eiga á hættu á hatursorðræðu, ógnunum eða ofsóknum,“ segir Lilja en menningarpólitísk samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar 2021-2024 slær því föstu að listrænt frelsi, tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi sé undirstöðuatriði í lýðræðislegu samfélagi.
Ráðherrar Norðurlandanna funda reglulega á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar en Ísland fer með formennsku í nefndinni á næsta ári.
Circolo í Róm
Lilja hvatti aðra menningarráðherra Norðurlandanna til þess að berjast gegn því að stuðningur til menningar og lista verði skertur á vettvangi Norðurlandaráðs. Ráðherra vakti einnig athygli á því að til stendur að loka listamiðstöðinni Circolo Scandinavo í Róm og hvatti til þess að ákvörðunin yrði endurskoðuð. Í Circolo hafa norrænir listamenn, þar á meðal íslenskir, haft vinnu- og rannsóknaraðstöðu í hinum ýmsu listgreinum sl. 160 ár.
Hvatning ráðherra varð til þess að ákvörðunin um lokun verður tekin til endurskoðunar. „Það er mikið fagnaðarefni,“ segir Lilja sem heimsótti Circolo Scandinavo í síðasta mánuði.
VOLT menningar og tungumálaáætlun fyrir börn framlengd
Á fundinum var tekin ákvörðun um að halda áfram með VOLT- menningar og tungumálaáætlunina fyrir börn og ungmenni allt að 25 ára aldri. VOLT-áætlunin hefur starfað frá árinu 2017 og styður verkefni sem styðja listir, menningu og tungumál á Norðurlöndunum. Norræna menningargáttin (NKK) í Helsinki annast umsjón sjóðsins og umsóknarfrestur er einu sinni á ári.
Endurbætur á Norræna húsinu
Norræna húsið í Reykjavík var til umræðu á fundinum en ráðast þarf í umfangsmiklar viðgerðir á því sem eru um það bil að hefjast. Norræna ráðherranefndin mun að mestu fjármagna þessar framkvæmdir en húsið er í eigu hennar.
Nordic Bridges
Ráðherrarnir ræddu m.a. um sameiginlega menningarkynningu landanna Nordic Bridges en hátíðin fer nú fram víðsvegar um Kanada eftir eins árs frestun. Fjöldi listamanna tekur þátt og um 20 menningarstofnanir og hús eru samstarfsaðilar. Markmiðið með þessari sameiginlegu menningarkynningu Norðurlandanna er meðal annars að efla samskipti norrænna listamanna, kynna norræna menningu og skapa aukin tækifæri fyrir þátttakendur.