Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 30/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 20. janúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 30/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU21110086

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik

Hinn 20. ágúst 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. apríl 2021, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 23. ágúst 2021. Hinn 30. ágúst 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og var þeirri beiðni hafnað með úrskurði kærunefndar hinn 22. september 2021.

Hinn 25. nóvember 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust kærunefnd dagana 6. desember 2021 frá Útlendingastofnun og hinn 15. desember 2021 frá stoðdeild ríkislögreglustjóra. Athugasemdir bárust frá kæranda hinn 20. desember 2021.

Af greinargerð kæranda má ætla að beiðni hans um endurupptöku málsins byggi á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda kemur fram að hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 25. nóvember 2020. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 skuli taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum þar til endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi og að tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs. Þar sem 12 mánuðir séu nú liðnir og kærandi sé enn hér á landi sé stjórnvöldum skylt að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi vísar til úrskurðar kærunefndar útlendingamála í máli nr. KNU17090040 frá 24. október 2017 máli sínu til stuðnings.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hafi samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum sé þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar séu í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þótt 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 25. nóvember 2020 og hefur hann ekki enn yfirgefið landið. Því eru liðnir rúmlega 12 mánuðir frá því að umsókn kæranda barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og því kemur til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Hinn 6. desember 2021 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra um hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort þær væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svar frá Útlendingastofnun barst kærunefnd hinn 6. desember 2021 en þar kemur fram að það sé mat stofnunarinnar að kærandi hafi ekki tafið mál sitt á meðan á málsmeðferð hans hjá Útlendingastofnun stóð.

Svar frá stoðdeild barst hinn 15. desember 2021 en þar kemur m.a. fram að lögreglumenn á vegum stoðdeildar hafi hinn 19. október 2021 farið að dvalarstað kæranda og rætt við hann um fyrirhugaðan flutning hans til Ungverjalands. Kærandi hafi greint frá því að ætla ekki aftur til Ungverjalands. Í kjölfarið hafi stoðdeild hafist handa við að útvega ferðaskilríki handa kæranda þar sem ungversk ferðaskilríki hans hafi verið útrunnin. Stoðdeild hafi hinn 4. nóvember 2021 bókað Covid-19 sýnatöku fyrir kæranda sem hafi verið fyrirhuguð hinn 9. nóvember 2021. Sama dag hafi stoðdeild farið á dvalarstað kæranda til þess að ræða við hann en hann hafi ekki verið heima. Stoðdeild hafi í kjölfarið hringt í kæranda og boðað hann á fund hinn 5. nóvember 2021. Hinn 8. nóvember 2021 hafi stoðdeild haft samband við kæranda og greint honum frá því að hætt hafi verið við fyrirhugaða ferð hinn 10. nóvember 2021 og Covid-19 sýnataka afpöntuð. Kæranda hafi verið greint frá því að Covid-19 sýnatakan myndi fara fram hinn 16. nóvember 2021 en kærandi gert stoðdeild ljóst að hann hygðist ekki ætla að undirgangast Covid-19 sýnatöku og ítrekaði að hann ætlaði sér ekki að fara aftur til Ungverjalands. Kærandi hafi greint frá því að hafa rætt við lögmann sinn sem hafi ráðlagt honum að fara í ekki í Covid-19 sýnatöku og að lögreglan ætti að hafa samband við lögmanninn í tengslum við mál kæranda. Þegar stoðdeild hafi haft samband við kæranda hinn 15. nóvember 2021 til að minna hann á fyrirhugaða Covid-19 sýnatöku þá hafi kærandi greint frá því að vera orðinn veikur. Kærandi hafi greint frá því að ætla að hafa samband við starfsmenn Reykjavíkurborgar til að fá tíma hjá lækni. Hinn 16. nóvember 2021 hafi stoðdeild hringt í kæranda til að athuga hvernig hann hefði það en hann hafi enn verið slappur. Aðspurður að því hvort kærandi hafi undirgengist Covid-19 sýnatöku hafi kærandi greint frá því að veikindi sín væru bakverkur. Stoðdeild hafi bent kæranda á að hann þyrfti að fara í Covid-19 sýnatöku vegna fyrirhugaðs flutnings til Ungverjalands og þá hafi kærandi greint frá því að ætla ekki í sýnatöku þar sem hann væri bólusettur auk þess sem að hann vildi ekki fara til Ungverjalands. Þann 16. nóvember 2021 hafi stoðdeild farið á dvalarstað kæranda og kynnt fyrir honum eyðublað Tilkynning um framkvæmd ákvörðunar um frávísun frá Íslandi til Ungverjalands. Kærandi hafi neitað samvinnu og Covid-19 sýnatöku auk þess sem að hann hafi greint frá því að geti ekki framvísað bólusetningarvottorði þar sem hann hefði bara fengið fyrri skammt bóluefnisi. Kærandi hafi neitað að skrifa undir tilkynninguna og þá hafi hann ekki viljað fá afrit.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 16. desember 2021, var kærandi upplýstur um afstöðu Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra og gefinn frestur til að koma að andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Andmæli kæranda bárust kærunefnd hinn 20. desember 2021. Þar kemur m.a. fram að við meðferð málsins hafi stoðdeild verið að kanna afstöðu kæranda til fyrirhugaðs flutnings með almennum hætti og athygli kærunefndar vakin á því að þrátt fyrir að úrskurður kærunefndar hafi verið birtur fyrir kæranda hinn 23. ágúst 2021 þá hafi hann ekki verið boðaður í Covid-19 sýnatöku fyrr en í nóvember. Þá liggi ekki fyrir nein gögn sem sýni með ótvíræðum hætti að kærandi hafi verið boðaður í Covid-19 sýnatöku á þessum tímapunkti, en það væri í samræmi við góða og vandaða stjórnsýsluhætti að tryggja sönnur um slíkar aðgerðir stjórnvalda. Aðgerðir stoðdeildar og framkvæmdin hafi því verið ómarkviss enda sé tilkynning stoðdeildar birt fyrir kæranda 9 dögum áður en 12 mánaða fresturinn rann út. Að mati kæranda geti stoðdeild ekki mætt örfáum dögum áður en umræddur frestur renni út og komið þar með í veg fyrir endurupptöku málsins með því að framvísa tilteknum pappírum sem hafi enga þýðingu fyrir úrlausn málsins, enda sé greinilegt að stoðdeild hafi þegar fyllt út skjalið án nokkurs samráðs við við kæranda. Að mati kæranda sé óforsvaranlegt að stoðdeild reyni að bera fyrir slík slíka pappíra sem séu lagðir fyrir hann án túlks eða lögmanns. Þá standist það ekki skoðun að það eitt að neita að undirrita slíka pappíra sem séu torskildir og ekki á móðumáli kæranda teljist töf á afgreiðslu málsins. Ekkert í málinu gefi til kynna að kærandi hafi tafið mál sitt með öðrum hætti en að neita að skrifa undir pappír sem hann hafi ekki skilið, sem hafi að auki verið birtur örfáum dögum áður en fresturinn hafi runnið út. Kærandi hafi til að mynda aldrei falið sig eða reynt að koma sér undan stjórnvöldum. Þannig standist það ekki skoðun að líta svo á að kærandi hafi tafið mál sitt með slíkum hætti, enda hafi kærunefnd útlendingamála áður komist að þeirri niðurstöðu að yfirlýsing þess efnis að vilja ekki undirgangast Covid-19 sýnatöku eða snúa aftur til móttökuríkis, geti ekki eitt og sér talist vera töf á afgreiðslu málsins.

Þá kemur fram í andmælum kæranda að af svari stoðdeildar megi ráða að ekki hafi verið gerðar frekari tilraunir af þeirra hálfu að undirbúningi flutnings og framkvæmdin því ómarkviss. Kærandi telur að auki að munnleg yfirlýsing hans um að hann vilji ekki snúa aftur til Ungverjalands eða undirgangast Covid-19 sýnatöku til þess að gera stjórnvöldum kleift að flytja hann geti ekki heldur talist vera töf á afgreiðslu málsins. Þá hafi kærandi jafnframt gefið greinargóða skýringu á því hvers vegna hann hafi ekki getað framvísað bólusetningarvottorði. Þá sé í tilkynningunni ekki hakað við hvort að kærandi sé reiðubúinn að framvísa slíku vottorði. Kærandi vísar í þessu samhengi til úrskurða kærunefndar í málum nr. KNU21070020, dags. 26. ágúst 2021, og KNU21080008, dags. 22. september 2021.

Líkt og að framan greinir sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi þann 25. nóvember 2020. Þegar stoðdeild ríkislögreglustjóra hófst handa við undirbúning á flutningi kæranda hinn 19. október 2021 var því rúmur tími til þess að framkvæma flutning á kæranda til viðtökuríkis áður en 12 mánaða fresturinn sem áskilinn er í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga rann út. Af gögnum málsins er ljóst að stoðdeild hafi hinn 19. október 2021 rætt við kæranda um fyrirhugaða ferð hans til Ungverjalands og í kjölfarið hafist handa við að undirbúa flutnings, s.s. með því að útvega ferðaskilríki og bóka Covid-19 sýnatöku. Þá er ljóst að kærandi hefur greint frá því að hann ætli ekki að gangast undir Covid-19 sýnatöku í tengslum við flutnings sinn til viðtökuríkis og að hinn 16. nóvember 2021 hafi tveir starfsmenn stoðdeildar farið að dvalarstað kæranda og kynnt fyrir honum eyðublaðið Tilkynning um framkvæmd ákvörðunar um frávísun frá Íslandi til Ungverjalands. Þá má af gögnum málsins sjá að við undirbúning á flutningi kæranda hafi hann hinn 8. nóvember 2021 rætt við lögmann sinn og fengið ráðleggingar er varðar Covid-19 sýnatöku í tengslum við flutnings hans. Að mati kærunefndar er því ljóst að það sem komið hafi í veg fyrir framkvæmd flutnings kæranda til viðtökuríkis innan tilskilins frests, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, hafi verið skortur á samstarfsvilja hans og afstaða um að gangast ekki undir Covid-19 sýnatöku sem hafi verið skilyrði fyrir viðtöku ungverskra stjórnvalda á kæranda. Þannig kom kærandi í veg fyrir flutning sinn úr landi.

Vegna tilvísunar kæranda til úrskurða kærunefndar í málum nr. KNU21070020 og KNU21080008 tekur kærunefnd fram að í umræddum úrskurðum hafi kærunefnd metið framkvæmd stoðdeildar sem ómarkvissa, m.a. varðandi boðun í Covid-19 sýnatöku og skort á fullnægjandi sönnun á afstöðu kæranda til umræddrar sýnatöku, auk þess sem að í úrskurði kærunefndar nr. KNU21070020 hafi kærandi hafi borið fyrir sig sérstakar persónulegar aðstæður sem hafi valdið töf í máli hans. Verður málsatvikum í málunum því ekki jafnað við málsatvik í þessu máli.

Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd að kærandi hafi tafið afgreiðslu umsóknar hans og það hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. er ekki uppfyllt.

Í ljósi framangreinds er því ekki fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli hans, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Endurupptöku á máli hans er þar með hafnað.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The appellant‘s request is denied

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                 Sandra Hlíf Ocares

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta