Faglegt starf á frístundaheimilum
Hlutverk þess er m.a. að:
• Að draga saman hugmyndafræðilegan grundvöll frístundaheimilisstarfs á Íslandi og hvetja til umræðu um mikilvægi starfsins.
• Að veita stjórnendum frístundaheimila stuðning í starfi, sérstaklega í nýliðaþjálfun.
• Að vera upplýsandi fyrir foreldra og allan almenning um starf frístundaheimila.
• Að vera hvatning fyrir sveitarfélög til að tryggja frístundaheimilum aðbúnað og faglega umgjörð við hæfi.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Frístundaheimili gegna mikilvægu hlutverki í lífi margra fjölskyldna barna á grunnskólaaldri og við vinnum að því í góðri samvinnu að efla faglegt starf þeirra með markvissum hætti. Það er von mín að útgáfa þessi rati sem víðast og komi að gagni í blómlegu starfi frístundaheimila vítt og breitt um landið. Útgáfa þessi markar ákveðin tímamót því hún er bæði lokahnykkur þess ferlis sem hófst með gerð gæðaviðmiða fyrir frístundaheimili en einnig fyrsta þemaheftið sem ætlað er að vera faglegur stuðningur við nýja menntastefnu Íslands til ársins 2030.“
Í þemaheftinu er m.a. fjallað um félags- og samskiptahæfni, leik og lýðræði, raddir barna, margbreytileikann og fjölmenningu, mál og læsi, útivist og ævintýri, skapandi starf, samþættingu og samstarf, leiðtoga og þróunarstarf og umgjörð frístundaheimila.
Samhliða gefur mennta- og menningarmálaráðuneyti út sjálfsmatstæki fyrir frístundaheimili sem byggir á viðmiðum um gæði í starfi frístundaheimila. Sjálfsmatstækið er einfalt í notkun og markmið þess fyrst og fremst að vera hvati til umræðu og forgangsröðunar verkefna.
Miðvikudaginn 2. júní nk. verður haldinn kynningarfundur fyrir starfsfólk og stjórnendur frístundaheimila um þemaheftið og sjálfsmatstækið. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Kolbrún Pálsdóttir forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands ávarpa fundinn en Oddný Sturludóttir, ritstjóri þemaheftisins og aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Ísland, kynnir þemaheftið og sjálfsmatstækið og Ingimar Guðmundsson, tómstunda- og félagsmálafræðingur og forstöðumaður í frístundamiðstöðinni Bungubrekku í Hveragerði mun lýsa reynslu síns teymis af því að nýta sér viðmiðin til þróunar gæðastarfs.
(Uppfært: Upptöku frá fundinum má nálgast hér).