Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 360/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 23. ágúst 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 360/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18050057

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. maí 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Bosníu og Hersegóvínu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. maí 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

  1. Málsatvik og málsmeðferð

    Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 22. maí 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 3., 6. og 13. apríl 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 15. maí 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 29. maí 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt frekari gögnum þann 14. júní 2018. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að tjá sig við nefndina um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæður til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Þann 15. júní sl. bárust kærunefnd athugasemdir frá Útlendingastofnun varðandi greinargerð kæranda.

  2. Ákvörðun Útlendingastofnunar

    Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé ofsóttur og verði fyrir mismunun í heimaríki sínu vegna trúar sinnar, uppruna og vegna þess að hann hafi ekki tekið þátt í stríði sem hafi átt sér stað í heimaríki hans.

    Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

    Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

  3. Málsástæður og rök kæranda

    Fram kemur í greinargerð að kærandi kveðst vera fæddur og uppalinn í þorpinu [...] í Konjic í Bosníu og Hersegóvínu. Kærandi hafi verið búsettur í Sarajevó áður en hann hafi flúið frá landinu. Kærandi sé kristinnar trúar og tilheyri söfnuði rétttrúnaðarkirkjunnar. Kærandi og fjölskylda hans og fjöldi skyldmenna hafi fyrir stríðið á Balkanskaga búið í Konjic og átt þar fasteignir og lönd. Kærandi hafi greint frá því að þeir sem búi á þessu svæði núna séu einkum einstaklingar sem tilheyri íslamska meirihlutanum í Bosníu. Þá hafi kærandi greint frá því að íslamski meirihlutinn hafi reynt með skipulegum hætti að láta fyrrum íbúa sem séu kristinnar trúar hverfa þaðan og komið í veg fyrir að þeir settust þar að aftur. Kærandi hafi verið í hópi þeirra sem hafi átt þar eignir sem honum hafi verið gert ómögulegt að endurheimta. Kærandi hafi orðið fyrir alvarlegri og langvarandi mismunun í heimaríki af hálfu íslamska meirihlutans sem rekja megi til trúar kæranda og þjóðarbrots sem hann tilheyri. Þá hafi kærandi orðið fyrir ofbeldisfullum árásum í heimaríki af hendi einstaklinga sem tilheyri íslamska meirihlutanum. Kærandi hafi m.a. greint frá því að hafa orðið fyrir árás af hendi þriggja manna árið 1992 og hlotið áverka. Kærandi hafi þá starfað sem lögreglumaður en hafi ekki átt möguleika á vernd þar sem upplausnarástand hafi ríkt vegna stríðsins sem hafi verið að brjótast út. Þá hafi kæranda borist hótanir símleiðis í byrjun árs 2016 og telji kærandi að um hafi verið að ræða mann sem jafnframt hafi komið fyrir eggvopni fyrir utan hús kæranda skömmu síðar. Telji kærandi að reynt hafi verið að taka hann af lífi árið 2016 þar sem hann hafi verið í veiðiferð en kastað hafi verið í átt að honum stórum steini. Kærandi hafi tilkynnt árásina til lögreglu en hafi enga aðstoð fengið. Í lok maí 2016 hafi kærandi orðið fyrir árás þriggja manna um borð í strætisvagni í Sarajevó. Kærandi hafi komist undan með því að yfirgefa vagninn en hafi ekki haft forsendur til að kæra árásina. Í júní 2016 hafi kærandi orðið fyrir árás þriggja manna þegar hann hafi verið staddur í bænum Konjic. Árásarmennirnir tilheyri allir íslamska meirihlutanum og telji kærandi að einn þeirra hafi átt aðild að árásinni á sér árið 1992. Kærandi hafi tilkynnt árásina til lögreglu án þess að hún hafi aðhafst nokkuð.

    Þá hafi kærandi orðið fyrir mismunun á atvinnumarkaði vegna trúar sinnar og þjóðernis en hann hafi í fjórum tilvikum sóst eftir störfum sem hann hafi verið vel hæfur til að sinna en hafi ýmist verið neitað um eða komið hafi verið í veg fyrir ráðningu hans. Þá hafi kæranda verið neitað um nauðsynlega læknisþjónustu í heimaríki til margra ára. Kærandi hafi einnig greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann sé ofsóttur alls staðar í heimaríki. Ofsóknir á hendur honum í Sambandsríki Bosníu og Hersegóvínu (e. Federation Bosnia and Herzegovina) séu af hendi einstaklinga sem tilheyri íslamska meirihlutanum vegna trúar hans og þjóðernis en í serbneska hluta Bosníu og Hersegóvínu (Republika Srpska) sæti hann ofsóknum fyrir að hafa ekki tekið þátt og barist í stríðinu fyrir hönd serbneska hlutans. Til frekari útskýringar á atvikum sem hafi leitt til flótta hans frá heimaríki og aðstæðum sem þar ríki vísar kærandi til tveggja fylgiskjala sem hann hafi lagt fram með greinargerð til kærunefndar.

    Í greinargerð kæranda kemur fram að Bosnía og Hersegóvína telji rétt um 3,8 milljónir og þar af teljist 50,1% landsmanna vera af bosnísku þjóðerni, 30,8% af serbnesku þjóðerni, 15,4% sé af króatísku þjóðarbroti en 3,7% teljist til annarra þjóðarbrota. Trúarlega skiptist þjóðin í þrjár fylkingar þar sem um 50,7% séu múslímar, 30,7% tilheyri rétttrúnaðarkirkjunni og 15,2% tilheyri rómversk-kaþólsku kirkjunni. Þá er í greinargerð almenn umfjöllun um ástand mannréttindamála í landinu. Fram kemur að jafnvel þó borgaraleg stjórnvöld hafi stjórn á lögreglu og öryggissveitum sé flókin uppbygging stjórnkerfis landsins og skortur á skýrri verkaskiptingu og valdmörkum til vandræða. Sumir stjórnmálamenn spili markvisst á þá djúpstæðu gjá sem sé enn á milli þjóðarbrota og veiki þannig lýðræðið, stjórnvöld og réttarríkið. Þá snúi frekari mannréttindabrot í landinu m.a. að vangetu stjórnvalda til að rannsaka og saksækja þá sem hafi framið stríðsglæpi í stríðinu; ofbeldi lögreglu gagnvart varðhaldsföngum og grunuðum einstaklingum í yfirheyrslum; slæmum aðstæðum í fangelsum; réttlátri málsmeðferð grunaðra einstaklinga; skortur á þátttöku minnihlutahópa í stjórnmálum; mismunun og ofbeldi gagnvart LGBTI-einstaklingum og takmörkuðum réttindum fólks á vinnumarkaði. Þá sé spilling eitt stærsta vandamál landsins og hafi hún leitt til pólitískrar og efnahaglegrar stöðnunar. Fram komi m.a. í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2016 að jafnvel þó lög kveði á um refsingu fyrir spillingu opinberra starfsmanna þá sé lögunum ekki framfylgt né sé litið á opinbera spillingu sem alvarlegt vandamál. Spilling sé því inngróin í margar pólitískar og efnahagslegar stofnanir landsins. Þá er jafnframt í greinargerð stuttleg umfjöllun um Dayton-friðarsamninginn og þá einstaklinga sem hafi lagt á flótta frá heimkynnum sínum í stríðinu, en fram hafi komið í skýrslum alþjóðlegra stofnana að mjög hátt hlutfall þeirra sem snúið hafi aftur til baka hafi flúið þaðan aftur þar sem þeir hafi mætt ógnunum, skortur hafi verið á húsnæði og þeim hafi verið mismunað á vinnumarkaði, í menntakerfinu og hvað varðar aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Þá sé enn spenna milli þjóðarbrota í landinu og tíðni hatursorðræðu sé há. Einnig séu hatursglæpir algengir í Bosníu og Hersegóvínu og sé meginorsök þeirra talin vera vegna spennu þeirrar sem ríki milli þjóðarbrota í landinu, einkum í þeim samfélögum sem takist á við endurflutning fólks til fyrrum heimila sinna. Þá vísar kærandi í skýrslu International Crisis Group frá 2013 þar sem fjallað sé um uppgang íslamskra stjórnmálaflokka í landinu sem feli í sér ógn við hefðbundna flokka og þá sem séu ekki íslamstrúar.

    Til stuðnings aðalkröfu sinni um alþjóðlega vernd vísar kærandi til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og skilgreiningar á flóttamannahugtakinu, sbr. A-lið 1. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Þá vísar kærandi til ákvæða 38. gr. laga um útlendinga og til hvaða atvika þau taki. Kærandi vilji benda á í því sambandi að ofsóknir sem hann hafi orðið fyrir hafi verið gerðar á grundvelli trúarbragða, þjóðernis og vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi. Þá hafi þær verið endurteknar og feli þær athafnir í sér alvarleg brot á mannréttindum hans, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Einnig byggist ótti kæranda á samsafni athafna skv. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, sbr. það sem fram kemur í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016 um að tilvísun til samsafns athafna sé í samræmi við leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Meðal annars komi fram í leiðbeiningunum að staðhæfing um ótta sé meira sannfærandi ef viðkomandi hafi verið fórnarlamb fjölda ráðstafana sem feli í sér mismunun. Kærandi bendir á að hann hafi orðið fyrir ólögmætri mismunun í heimaríki sínu sem hafi m.a. haft alvarlegar takmarkanir á rétti hans til að framfleyta sér og til að iðka trú sína. Þá ríki slæmt öryggisástand í heimaríki hans einkum vegna áhrifa stríðsins í landinu sem hafi lokið fyrir 20 árum en mikil spenna ríki milli þjóðfélagshópa og innviðir landsins svo veikir að nauðsyn sé á viðvarandi stuðningi alþjóðastofnana. Með vísan til alls þess sem rakið hafi verið í greinargerð og annarra gagna málsins telji kærandi að sannað sé að ótti hans við ofsóknir vegna trúar, þjóðernis og aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi sé ástæðuríkur. Þá eigi hann ekki möguleika á fullnægjandi vernd yfirvalda í heimaríki. Kærandi telji að með því að senda hann til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki muni slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings um borgaralega og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

    Kærandi vísar einnig til 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga hvað varðar skilgreiningu á því hverjir það geti verið sem geti verið valdir að ofsóknum. Samkvæmt a-lið ákvæðisins sé það ríkið, samkvæmt b-lið séu það hópar eða samtök sem stjórni ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess og samkvæmt c-lið málsgreinarinnar geti það verið aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem falli undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir athafnir sem feli í sér ofsóknir. Kærandi vísar til þess að hann hafi lýst mismunun af hálfu opinberra aðila og ofbeldi af hálfu aðila sem ekki fari með ríkisvald en að ríkið veiti honum ekki þá vernd sem hann þarfnist. Vísað hafi verið til heimilda þar sem fram komi að yfirvöld í heimaríki hans hafi ekki haft getu eða vilja til að rannsaka né saksækja þá sem beitt hafi ofbeldi einstaklinga af minnihlutahópum sem hafi reynt að snúa aftur til fyrri heimila sinna. Kærandi telji að þeir sem hann óttist geti fallið undir ákvæði a- og c-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

    Til vara gerir kærandi kröfu um viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til lögskýringargagna að baki ákvæðinu. Þá vísar kærandi einnig til ákvæða e-liðar 2. gr., 3. og 4. mgr. 4. gr. og 15. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Við túlkun 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eigi einnig að taka tillit til þeirra alþjóðlegu mannréttindasamninga og alþjóðareglna sem reglan um viðbótarvernd byggist á og Ísland sé skuldbundið af. Einkum sé þar um að ræða ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmálans, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í greinargerð kæranda í tengslum við aðalkröfu hans sé ljóst að hann uppfylli skilyrði fyrir veitingu á viðbótarvernd, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

    Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili að veita dvalarleyfi á þeim grundvelli ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar til athugasemda við 74. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga um útlendinga þar sem fram komi að m.a. geti verið að ræða aðstæður í landi þar sem viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi vísar til umfjöllunar um aðalkröfu hans en hann telji að af henni megi vera ljóst að í heimaríki hans sé hann í hópi einstaklinga sem verði fyrir viðvarandi mannréttindabrotum sem yfirvöld veiti ekki vernd gegn, þ.m.t. ofbeldisbrotum og glæpum.

    Hvað varðar flutning innanlands bendir kærandi á að við mat á því hvort einstaklingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta upprunalands þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat á persónulegum aðstæðum hans og þeim aðstæðum sem séu í landinu. Við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að viðkomandi setjist að á því svæði sem talið sé öruggt skuli m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna en í þeim komi fram að flutningur innanlands komi ekki til greina ef einstaklingurinn er ennþá berskjaldaður fyrir ofsóknum á hinum nýja stað. Þá vísar kærandi til þess sem fram komi í athugasemdum með 4. mgr. 37. gr. í frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um útlendinga. Kærandi telji sig hvergi geta verið öruggan undan ofsóknum í heimaríki. Hann sæti mismunun af hálfu opinberra aðila og verði fyrir ofbeldi af hálfu aðila sem ekki fari með ríkisvald. Með hliðsjón af atvikum máls og því sem rakið hafi verið í greinargerð sé krafa um innri flutning hvorki raunhæf né sanngjörn en bæði skilyrðin þurfi að uppfylla til að slík ráðstöfun komi til greina.

    Þá er í greinargerð kæranda gerð athugasemd við að Útlendingastofnun hafi talið hann vera óskýran og óljósan í frásögn sinni annars vegar hvað varði ástæður ofsókna og mismununar í heimaríki hans og hins vegar varðandi það hverjir það séu sem hafi staðið að baki ofsóknunum á hendur honum. Kærandi vilji benda á að hann hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun verið ítrekað beðinn um að stytta mál sitt og það hafi haft truflandi áhrif á frásögn hans og komið í veg fyrir að hann gæti komið að fullnægjandi skýringum. Þá er gerð athugasemd við það að í ákvörðun Útlendingastofnunar sé hvergi fjallað um hið útbreidda ofbeldi sem eigi sér stað í heimaríki kæranda vegna trúarbragða og þjóðarbrota.

  4. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað vegabréfi útgefnu af yfirvöldum í Bosníu og Hersegóvínu. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé ríkisborgari Bosníu og Hersegóvínu.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Bosníu og Hersegóvínu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/2018: Bosnia and Herzegovina (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Bosnia and Herzegovina - Country Reports on Human Rights Practices for 2017 (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);
  • Bosnia and Herzegovina 2017 International Religious Freedom Report (U.S. Department of State, 29. maí 2018);
  • Bosnien-Hercegovina – Rätts och säkerhetssektorn (Lifos, 6. júlí 2014);
  • Commission Staff Working Document – Bosnia and Herzegovina 2016 Report (European Commission, 9. nóvember 2016);
  • Commission Staff Working Document – Bosnia and Herzegovina 2016 Report (European Commission, 17. apríl 2018);
  • EASO Country of Origin Information Report – Bosnia and Herzegovina Country Focus (European Asylum Support Office, nóvember 2016);
  • Freedom in the World 2016 – Bosnia and Herzegovina (Freedom House, 18. ágúst 2016);
  • Key findings of the 2018 Report on Bosnia and Herzegovina (European Commission, 17. apríl 2018);
  • Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer i Bosnien och Hercegovina 2015–2016 (Regeringskansliet, 24. apríl 2017);
  • Nations in Transit 2018 – Bosnia and Herzegovina (Freedom House, 11. apríl 2018);
  • Strategic Plan for Health Care Development in the Federation of Bosnia and Herzegovina between 2008 and 2018 (the Federation of Bosnia and Herzegovina Ministry of Health, apríl 2008);
  • Upplýsingar af vefsíðu embættis umboðsmanns í Bosníu og Hersegóvínu (e. The Institution of Human Rights Ombudsman of Bosnia and Herzegovina) (sóttar 14. ágúst 2018):

http://ombudsmen.gov.ba/Default.aspx?id=0&lang=EN;

  • Upplýsingar af vefsíðu United States Agency for International Development (USAID): https://www.usaid.gov/bosnia (sóttar 14. ágúst 2018) og
  • World Report 2018 – Bosnia and Herzegovina (Human Rights Watch, 18. janúar 2018).

 

Sambandslýðveldið Bosnía og Hersegóvína er ríki með u.þ.b. 3,8 milljónir íbúa. Ríkið gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum þann 22. maí 1992 og alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þann 1. september 1993, samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 1. september 1993 og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi þann 1. september 1993 og alþjóðasamningi um afnám alls kynþáttamisréttis þann 16. júlí 1993. Þá gerðist ríkið aðili að Evrópuráðinu árið 2002 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu sama ár. Bosnía og Hersegóvína sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2016.

Bosnía og Hersegóvína var eitt af sex ríkjum Sósíalíska sambandslýðveldisins Júgóslavía þar til yfirvöld lýstu yfir sjálfstæði ríkisins eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í mars 1992. Í kjölfar sjálfstæðisyfirlýsingarinnar braust út stríð við Serbíu og Bosníu-Serba sem neituðu að viðurkenna sjálfstæði Bosníu og Hersegóvínu. Afleiðingar stríðsins lutu meðal annars að því að tugir þúsunda landsmanna þurftu að flýja heimkynni sín og hafi margir hverjir ekki getað snúið aftur til þeirra. Í nóvember árið 1995 hittust forseti Bosníu og Hersegóvínu, forseti Króatíu (fyrir hönd Króata í Bosníu og Hersegóvínu) og forseti Júgóslavíu (fyrir hönd serbneska hluta Bosníu og Hersegóvínu) í Dayton, Ohio, í Bandaríkjunum. Forsetarnir þrír skrifuðu undir friðarsamning til að binda enda á stríðið, svonefnt Dayton-samkomulag. Samkomulagið felur m.a. í sér að landinu sé skipt í tvær sjálfstæðar einingar sem hafi aðskilin stjórnkerfi, þing og forseta. Um er að ræða annars vegar Sambandsríki Bosníu og Hersegóvínu (e. Federation of Bosnia and Herzegovina) og hins vegar Serbneska lýðveldið (Republika Srpska). Þá samanstandi Sambandsríki Bosníu og Hersegóvínu af tíu sjálfstæðum kantónum sem séu með sína eiginstjórn. Þar að auki er í landinu þriðja svæðið, Brčko, og er það með sína eigin sjálfstjórn. Dayton-samkomulagið felur jafnframt í sér að forsetaembætti landsins samanstandi af fulltrúum þriggja stærstu þjóðernishópa ríkisins, þ.e. Bosníaka, Serba og Króata, og gegnir einn af þeim stöðu þjóðhöfðingja landsins í átta mánuði í senn. Í Bosníu og Hersegóvínu er ekkert opinbert tungumál en óformlega eru tungumál hinna þriggja stærstu þjóðernishópa landsins opinber tungumál, þ.e. bosníska, serbneska og króatíska.

Í nýlegri skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna um trúfrelsi í heiminum kemur fram að við síðasta manntal sem framkvæmt hafi verið árið 2013 hafi komið í ljós að 51% þjóðarinnar séu súnni-múslímar; 31% tilheyri serbnesku rétttrúnaðarkirkjunni; 15% séu kaþólikkar og aðrir falli m.a. í hóp gyðinga eða mótmælenda. Séu trú og þjóðerni mjög samofin í Bosníu og Hersegóvínu. Þannig séu Bosníakar flest allir múslímar, Serbar séu í serbnesku rétttrúnaðarkirkjunni og Króatar séu kaþólikkar. Í stjórnarskrá Bosníu og Hersegóvínu er m.a. kveðið á um trúfrelsi og jafnrétti allra fyrir lögunum og sé mismunun á grundvelli kynþáttar, tungumáls, kyns, trúar- og lífsskoðana, stjórnmálaskoðana og þjóðernis refsiverð skv. refsilöggjöf landsins. Hafi umboðsmaður mannréttinda (e. Ombudsman) eftirlit með mannréttindum og frelsi borgara og lögaðila innan lögsögu ríkisins. Embætti umboðsmannsins hafi m.a. það hlutverk að taka til skoðunar kvartanir sem berast stofnuninni vegna mannréttindabrota opinberra stofnana Bosníu og Hersegóvínu, ríkjanna tveggja og Brčko. Embætti umboðsmannsins er ekki kærustig og hefur ekki heimildir til að skera úr um réttmæti málsmeðferða stofnananna eða leggja viðurlög á þær. Embættið getur hins vegar beint þeim tilmælum til þeirra stofnana er teljast brotleg að gera ráðstafanir til að koma mannréttindum í lag eða bæta úr slæmri stjórnsýsluframkvæmd. Kemur m.a. fram í árskýrslu umboðsmannsins fyrir árið 2017 að tilmæli hans hafi í meira mæli verið notuð sem sönnunargögn í dómsmálum vegna mismununar. Í ofangreindum heimildum kemur fram að enn skorti nokkuð á réttarvernd tiltekinna minnihlutahópa í Bosníu og Hersegóvínu, einkum minnihlutahóps Rómafólks, gyðinga, LGBTI-einstaklinga og fólks með fatlanir. Sem dæmi um langvarandi mismunun á grundvelli þjóðernis og trúar þá hafi ríkið ekki enn breytt stjórnarskrá landsins á þá leið að aðrir einstaklingar en þeir sem tilheyri þremur stærstu þjóðernis- og trúar hópum landsins geti boðið sig fram í opinber embætti og til þings þrátt fyrir að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi talið það fyrirkomulag fela í sér ólögmæta mismunun.

Þá kemur fram í ofangreindum gögnum að spilling sé töluverð í landinu og sé áhyggjuefni að ekki hafi tekist betur að útrýma henni, svo sem með lagasetningu og markvissara átaki í að saksækja vegna hennar. Hins vegar fái landið stuðning og aðhald frá ýmsum alþjóðlegum stofnunum, svo sem Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Evrópusambandinu og USAID. Sé til að mynda í gangi samstarfsverkefni USAID við stjórnvöld í Bosníu og Hersegóvínu sem miði að því að styðja við stofnanir og samtök í landinu sem gegni mikilvægum hlutverkum í réttarvörslukerfi landsins. Verkefnið sem hófst árið 2014 ljúki í september 2019 og feli það jafnframt í sér að virkja lýðræðið og grunngildi réttarríkisins.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi hefur borið fyrir sig að hann sé ofsóttur og verði fyrir mismunun í heimaríki sínu annars vegar vegna trúar sinnar og uppruna og hins vegar vegna þess að hann hafi ekki haldið uppi málstað Republika Srpska í stríðinu sem hafi átt sér stað í heimaríki hans. Kærandi sé ofsóttur af hópi fólks sem séu hátt settir múslímar.

Útlendingastofnun mat frásögn kæranda um ástæður ofsókna og mismunar sem hann hafi orðið fyrir í heimaríki bæði óskýra og óljósa og þá hafi hann einnig verið óskýr og óljós í frásögn sinni um það hverjir það væru sem hafi staðið að baki þeim ofsóknunum. Stofnunin lagði hins vegar til grundvallar að hann kynni að hafa sætt líkamlegu ofbeldi, áreiti og hótunum af einhverju tagi í heimaríki sínu en hann gæti leitað á náðir yfirvalda vegna vandamála sinna. Þó yrði því ekki jafnað til ofsókna í skilningi laga um útlendinga.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi aðspurður óttast hóp fólks sem séu háttsettir múslímar. Aðspurður kvað hann þennan hóp fólks ekki hafa beitt sig ofbeldi sjálfir heldur látið aðra einstaklinga gera það. Kærandi kveðst hafa orðið fyrir árás árið 1992 og sé fótur hans skaddaður fyrir lífstíð eftir hana. Kærandi greindi frá því að í byrjun árs 2016 hafi hann fengið símtöl með endurteknum hótunum og í lok apríl hafi hann fundið hníf fyrir utan húsið sem hann bjó í.

Í maí 2016 hafi verið kastað í hann grjóti þegar hann hafi verið í veiðiferð í nágrenni Sarajevo. Hafi hann farið á lögreglustöðina í […] og tilkynnt árásina. Þá hafi kærandi, í sama mánuði, þegar hann hafi verið í strætisvagni, orðið fyrir árás þriggja manna sem hann hafi ekki kannast við, og hafi einn þeirra, sem hafi verið undir áhrifum, beitt priki gegn honum og sagt niðrandi hluti um fjölskyldu hans. Kærandi hafi náð að hlaupa í burtu frá þeim. Þá hafi árás átt sér stað í Konjic í júní 2016. Kærandi hafi farið á bar með vini sínum og hafi þrír menn sem hann kannaðist við ráðist á hann. Gruni kæranda að einn þeirra hafi átt þátt í árásinni sem hann hafi orðið fyrir árið 1992. Sá maður hafi komið að borðinu hans og rokið í hann og þeir hafi slegist. Kærandi kvaðst hafa tilkynnt árásina til lögreglunnar í Konjic. Lögreglan í Konjic, sem hann þekki frá því að hann hafi unnið þar, hafi skráð kvörtun hans niður í dagbók. Lögreglan hafi sagt honum að mennirnir sem hafi ráðist að honum á barnum í Konjic séu hættulegir glæpamenn og hafi valdið miklum vanda á svæðinu.

Kærandi lagði fram frekari gögn með greinargerð til kærunefndar. Annars vegar yfirlýsingu hans þar sem fram kemur ítarlegri frásögn um þá aðila í heimaríki sem hann telji að standi að ofsóknum gegn sér og hins vegar þýðingar á sex blaðagreinum. Það er mat kærunefndar að framangreind gögn leggi ekki frekari grunn eða styðji frásögn kæranda um þær athafnir sem hann telji jafngilda ofsóknum á hendur sér eða sýni fram á að þeir aðilar sem tilgreindir eru í framangreindum gögnum standi að baki árásum þeim sem hann hafi orðið fyrir. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn til stuðnings þess að hann hafi leitað til lögreglu vegna þessara árása sem hann telji jafngilda ofsóknum á hendur sér. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á að þeir aðilar sem hann kveðst óttast hafi átt þátt í framangreindum árásum á hendur honum eða hafi slík tengsl við yfirvöld í heimaríki að hann geti ekki fengið aðstoð og vernd hjá þeim. Kærandi hefur hins vegar greint frá því að hann hafi leitað til lögreglu og fengið upplýsingar varðandi þá aðila sem hafi ráðist á hann. Samkvæmt frásögn kæranda hafi því kvartanir hans vegna framangreindra árása verið teknar til skoðunar hjá lögregluyfirvöldum. Engin gögn hafa hins vegar verið lögð fram um það í hvaða farvegi mál hans eru hjá þeim lögregluembættum er hann hafi leitað til. Kærunefnd telur því að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld geti ekki eða vilji ekki veita honum vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem kunni að fela í sér ofsóknir. Kærunefnd telur að ekkert bendi til þess að flótta kæranda hafi borið svo brátt að að ósanngjarnt sé að gera þá kröfu að hann afli gagna sem leggi grunn að málsástæðum hans.

Kærandi hefur einnig byggt á því að hann verði fyrir mismunun í ríkjasambandi Bosníu og Hersegóvínu af hendi einstaklinga sem tilheyri íslamska meirihlutanum vegna þess að hann sé kristinn en í Serbneska lýðveldinu sæti hann ofsóknum fyrir að hafa ekki tekið þátt og barist í stríðinu fyrir hönd serbneska hlutans. Kærandi greindi frá því að vegna framangreinds þá fái hann ekki vinnu við sitt hæfi í heimaríki. Fram kemur í ofangreindum gögnum að trúfrelsi sé varið í stjórnarskránni og þá sé óheimilt samkvæmt stjórnarskrá og lögum landsins að mismuna fólki m.a. eftir trú, þjóðerni og uppruna. Í afriti af fyrsta viðtali sem tekið var við kæranda hjá Útlendingastofnun þann 22. maí 2017 greinir kærandi frá því að hann hafi verið í vandræðum með fót sinn í 20 ár og þess vegna fá hann ekki vinnu. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn eða frekari skýringar sem leggja grunn að staðhæfingum hans um að hafa orðið fyrir ofsóknum eða mismunun á grundvelli þess að hann hafi ekki tekið þátt í að halda uppi málstað Serba í stríðinu. Þá benda þau gögn sem kærunefnd hefur skoðað til þess að þeir ríkisborgarar Bosníu og Hersegóvínu sem telji að á réttindum sínum hafi verið brotið geti leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn mála sinna. Þá sé einnig hægt að leita til embætti umboðsmanns (e. Ombudsman) en hann taki kvartanir um meint brot stjórnvalda á mannréttindum borgara landsins til skoðunar. Kærandi hefur því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef hann telur sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.

Með vísan til alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur m.a. fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Kærandi hefur byggt á því að hann hafi orðið fyrir áverkum árið 1992 og glími enn við afleiðingar af þeim. Kæranda hafi verið neitað um læknisþjónustu vegna þeirra í heimaríki. Kærandi hefur lagt fram samskiptaseðla frá Göngudeild sóttvarna, dagsetta frá 31. maí 2017 til 2. febrúar 2018. Í samskiptaseðli frá 31. maí 2017 kemur fram að kærandi hafi m.a. verið með sár á utanverðum fótleggi. Gert hafi verið að sárinu og teygjanlegt bindi sett utan um fótinn. Í samskiptaseðli frá 30. júní 2017 kemur fram að sárið sé alveg búið að loka sér. Í samskiptaseðlum frá 17. nóvember 2017 og 2. febrúar 2018 kemur fram að kærandi glími við sveppasýkingu og að skrifað hafi verið upp á lyf við því.

Í ofangreindum gögnum um heilbrigðisaðstæður í Bosníu og Hersegóvínu kemur fram að þrátt fyrir að réttindi ríkisborgara landsins á grundvelli sjúkratrygginga séu ólík eftir landssvæðum, þ.e. fari eftir því hvort viðkomandi tilheyri Serbneska lýðveldinu, Sambandsríki Bosníu og Hersegóvínu eða Brčko þá eigi allir rétt á heilbrigðisþjónustu og óheimilt sé að mismuna fólki eftir trúarbrögðum, uppruna eða efnahagsstöðu. Fram kemur að þeir einstaklingar sem séu atvinnulausir öðlist rétt til heilbrigðistryggingar með því að skrá sig hjá atvinnumálastofnun. Í afritum af samskiptaseðlum má m.a. sjá að kærandi hafi greint lækni á Göngudeild sóttvarna frá því að hann hafi getað leitað til læknis í heimaríki og fengið aðstoð og þá hafi hann einnig getað keypt þar í landi sérstaka sápu fyrir sár sem hann hafi verið með á fótleggi. Engin gögn hafa verið lögð fram um það að kæranda hafi verið synjað um heilbrigðisþjónustu í heimaríki. Með vísan til þess sem fram hefur komið í gögnum málsins og ofangreindum gögnum um heilbrigðisaðstæður í Bosníu og Hersegóvínu og á grundvelli heildstæðs mats á aðstæðum hans telur kærunefnd að kærandi geti fengið aðstoð í heimaríki sem og aðgang að meðferðum og lyfjum sem hann þurfi á að halda vegna heilsufarsvandamála sinna, leiti hann eftir því. Þá er kærandi ekki í meðferð hér á landi sem sé læknisfræðilega óforsvaranlegt að rjúfa.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir kæranda við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Kærandi gerir í greinargerð sinni athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar. Kærandi gerir einkum athugasemdir við það hvernig Útlendingastofnun hafi staðið að trúverðugleikamati á frásögn hans en stofnunin hafi metið frásögn hans óskýra og óljósa. Kærandi vilji benda á að hann hafi ítrekað verið beðinn um að stytta mál sitt í viðtali hjá Útlendingastofnun og hafi það haft truflandi áhrif á frásögn hans og komið í veg fyrir að hann gæti komið að fullnægjandi skýringum.

Þann 15. júní sl. bárust athugsemdir frá Útlendingastofnun vegna athugasemda í greinargerð kæranda við málsmeðferð stofnunarinnar í máli hans. Bent var á að í viðtali við kæranda sem fór fram dagana 3. 6. og 13. apríl 2018 hafi sérstaklega verið áréttað á tveimur stöðum að kærandi þyrfti ekki að stytta mál sitt. Kærandi hafi aftur á móti verið leiðbeint um að halda sér við aðalatriði er snéru að ástæðum flótta hans, þ.e. svara þeim spurningum sem lagðar væru fyrir hann og halda sér frá atriðum sem væru því óviðkomandi. Þá hafi kærandi verið í lok viðtals spurður að því hvort hann hefði frekari athugasemdir. Kærandi hafi svarað því að hann hefði ekki við fleiru að bæta. Ábendingar Útlendingastofnunar eru samhljóða því sem fram kemur í endurriti viðtala við kæranda, en endurritin voru lesin yfir og staðfest af kæranda. Þá hefur kærandi lagt fram greinargerð og frekari gögn þar sem hann hefur fengið tækifæri til að tjá sig nánar um ástæður flótta og aðstæður sínar í heimaríki.

Kærunefnd hefur með sjálfstæðum hætti farið yfir málsmeðferð Útlendingastofnunar og gögn málsins og telur hvorki tilefni til að gera athugasemd við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun né rökstuðning ákvörðunar kæranda.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 22. maí 2017 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

 

The Decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                        Erna Kristín Blöndal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta