Álit, að því er tekur til skiptingar skóladaga í grunnskólum milli kennsludaga og annarra skóladaga
Vísað er í erindi yðar, dags. 16. febrúar 2012, þar sem óskað er eftir túlkun mennta- og menningarmálaráðuneytis á nokkrum álitaefnum sem lúta að skiptingu skóladaga í grunnskólum milli kennsludaga og annarra skóladaga. Spurt er í fyrsta lagi hvort heimilt sé að telja sama daginn sem kennsludag og annan skóladag, t.d. þegar jólaskemmtun er haldin í lok kennsludags eða skólaslit sem fara fram að loknum fullum kennsludegi. Í öðru lagi er spurt hvort heimilt sé að telja afmælishátíð, vorhátíð eða sambærilegar hátíðir sem haldnar eru á laugardögum eða sunnudögum til skóladaga. Í þriðja lagi er spurt hvort heimilt sé að telja sem kennsludaga þá daga þar sem nemendur mæta í skólann til að taka próf en fara heim strax að loknu prófi.
Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 skal starfstími nemenda í grunnskóla á hverju skólaári vera að lágmarki níu mánuðir og skóladagar nemenda eigi færri en 180. Skipting milli kennsludaga og annarra skóladaga nemenda er á ábyrgð skólastjóra að höfðu samráði við skólaráð og að fenginni staðfestingu skólanefndar. Í greinargerð með frumvarpi til grunnskólalaga komu fram eftirfarandi skýringar í greinargerð um starfstíma grunnskóla. „Þær breytingar sem gerðar eru á 26. gr. gildandi laga eru einkum til að sníða lagarammann að þróun undanfarinna ára og breytingum á starfstíma grunnskóla sem tilkomnar eru m.a. vegna kjarasamninga Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir því að skóladagar skuli ekki vera færri en 180 en í gildandi lögum er kveðið á um 170 kennsludaga nemenda að lágmarki á ári. Áfram er gert ráð fyrir sveigjanleika í skipulagi skólastarfs milli fullra kennsludaga nemenda annars vegar og annarra skóladaga nemenda hins vegar. Þar er m.a. átt við skólasetningar- og skólaslitadaga, foreldraviðtalsdaga, jólaskemmtanir, íþrótta- og útivistardaga og annað sem skólastjóri ákveður í hverjum skóla. Skipting milli kennsludaga og annarra skóladaga nemenda er á ábyrgð skólastjóra að höfðu samráði við skólaráð og að fenginni staðfestingu skólanefndar, enda samræmist skiptingin ákvæðum kjarasamninga á hverjum tíma. Breytingin er því einkum fólgin í að sníða lögin að almennri þróun en ekki er gert ráð fyrir að kennsludagar nemenda verði færri en í gildandi lögum, þ.e. 170.“
Ráðuneytið hefur á undanförnum árum fengið ýmsar fyrirspurnir um starfstíma grunnskóla, t.d. skilgreiningar á skóladögum, kennsludögum og hvað geti falist í öðrum skóladögum. Fyrirspurnir þessar eru til komnar vegna skertra skóladaga nemenda vegna foreldraviðtala, prófa, skemmtana, skólasetningar og skólaslita svo dæmi séu tekin. Í áliti ráðuneytisins frá apríl 2000 er litið svo á að kennsludagur sé skóladagur þar sem fram fer skipulagt starf nemenda undir leiðsögn kennara. Í áliti ráðuneytisins frá því í ágúst 1997 kom fram að foreldradagar og prófa- og námsmatsdagar gætu talist kennsludagar að því tilskildu að nemendur störfuðu þá daga í skólanum í sambærilegan tíma og gert er ráð fyrir í stundaskrá. Ráðuneytið hefur litið svo á að skólar hafi á starfstíma grunnskóla nokkuð svigrúm til að skipuleggja kennslu og annað skólastarf á skólaárinu að teknu tilliti til lágmarksréttinda nemenda til kennslu, ekki síst í kjölfar kjarasaminganna 2001 þegar samið var um 10 viðbótar skóladaga í grunnskóla. Það hefur verið í höndum einstakra grunnskóla að útfæra í skólanámskrá hvernig viðbótardagar eru nýttir. Skólaráð skal samkvæmt grunnskólalögum fjalla um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið. Skólanefnd er einnig lögbundinn umsagnaraðili um skólanámskrána.
Eftirlit ráðuneytisins með framkvæmd grunnskólalaga hefur meðal annars miðast við að tryggja nemendum árlega að lágmarki 170 kennsludaga í grunnskólum og 180 skóladaga eftir gildistöku grunnskólalaga nr. 91/2008. Ráðuneytið hefur gert þá kröfu til skóla að þessum viðmiðum sé fylgt og sent viðkomandi sveitarfélögum athugasemdir ef því ákvæði er ekki fullnægt. Ráðuneytið hefur bæði gert athugasemdir vegna grunnskóla sem hafa færri en 170 kennsludaga og einnig færri en 180 skóladaga. Ráðuneytið lítur svo á að skólum sé ekki heimilt miðað við 180 skóladaga að flokka fleiri en 10 skóladaga á hverju skólaári undir aðra skóladaga þar sem um mögulega skerta viðveru nemenda er að ræða, t.d. vegna skemmtana, foreldraviðtala eða prófa. Gera þarf grein fyrir nýtingu þessara 10 viðbótardaga í skólanámskrá ár hvert. Skólum er hins vegar heimilt að hafa fleiri en 180 skóladaga á hverju skólaári ef um það er samkomulag í skólasamfélaginu og ráðuneytið gerir ekki athugasemdir við það með hvaða hætti slíkir viðbótardagar eru nýttir. Grunnskólalög tilgreina einungis lágmarksstarfstíma skóla og útiloka því ekki að samið sé um lengra skólaár í kjarasamningum.
Hér að framan hefur verið lýst þeim breytingum sam hafa orðið á undanförnum árum á árlegum starfstíma grunnskóla, sem fyrst komu til vegna kjarasamninga 2001 og voru síðan lögfestar 2008. Þessar breytingar hafa verið gerðar til að tryggja nemendum að lágmarki 170 kennsludaga á ári en á sama tíma til að skapa skólum ákveðið svigrúm fyrir aðra skóladaga sem geta að hámarki verið 10 árlega innan lögbundinna 180 skóladaga. Við framkvæmdina á lögunum og eftirlit ráðuneytisins geta vissulega komið upp álitamál um túlkun á þessum ákvæðum laganna. Hér verður reynt að draga saman í stuttu máli svör við þeim álitamálum sem fram koma í bréfi X.
- Ekki er heimilt að tvítelja tiltekna skóladaga. Ef um lengri skóladag er að ræða en almennt gengur og gerist samkvæmt stundaskrá, t.d. vegna sérstakra verkefna, þá telst það engu að síður ávallt einn skóladagur. Mögulega geta skólar ákveðið að hefja næsta skóladag á eftir seinna að morgni, ef um það er sátt í skólasamfélaginu. Ef tilteknir viðburðir eru í lok venjulegs skóladags, eða viðbót við almennan skóladag skal einungis telja slíkt sem einn skóladag þrátt fyrir að viðvera nemenda sé lengri en á almennum skóladegi. Þannig telst t.d. kennsludagur og árshátíð nemenda sama daginn sem einn kennsludagur og einnig þátttaka í verkefni sem hefst að morgni og lýkur ekki fyrr en að kvöldi, hvort sem um er að ræða verkefni sem unnin eru í skólanum eða í vettvangs- og skólaferðum utan skóla.
- Ekki er heimilt að telja sem kennsludaga þá daga þar sem nemendur mæta eingöngu í skólann til að taka próf og fara svo strax að loknu prófi heim. Slíka daga verður að flokka undir aðra skóladaga í skilningi grunnskólalaga sem að hámarki geta verið 10 innan árlegra 180 skóladaga nemenda.
- Ekki er heimilt að telja sem skóladaga samkomur á vegum skólans um helgar, t.d. vorhátíðir, íþróttahátíðir eða afmælishátíðir nema tryggt sé að allir starfsmenn skólans og nemendur taki þátt í skólastarfinu á umræddum dögum og að slíkt fyrirkomulag hafi verið samþykkt í starfsáætlun skólans. Ráðuneytið lítur svo á að ekki sé hægt að skylda nemendur til að mæta í skólann um helgar eða á helgidögum, en í undantekningartilvikum sé hægt að skipuleggja skólahald um helgar ef um það er sátt í skólasamfélaginu, t.d. vegna sérstakra aðstæðna.
- Heimilt er að flokka vettvangsferðir og ferðalög sem kennsludaga að því tilskildu að nemendur séu skyldaðir til þátttöku og lengd ferðar sé a.m.k. sambærileg og samkvæmt stundaskrá á almennum kennsludegi. Þannig er t.d. heimilt að telja dvöl í skólabúðum til kennsludaga og skólaferðalög á vegum skólans. Ef slíkar ferðir eru skipulagðar sem helgarferðir að höfðu samráði við foreldra með þátttöku allra nemenda þá er heimilt að telja slíkar ferðir til kennsludaga. Ef hins vegar þátttaka í slíkum helgarferðum er valkvæð fyrir nemendur er ekki heimilt að telja slíkar ferðir til kennsludaga.
Það er von ráðuneytisins að með þessari túlkun sé hægt að skapa sameiginlegan skilning allra aðila skólasamfélagsins í grunnskólum á því hvað teljist til kennsludaga og annarra skóladaga. Ráðuneytið mun eftir sem áður sinni eftirlitshlutverki sínu og kanna í lok hvers skólaárs hvort og með hvaða hætti skólar sinna lögbundnu hlutverki sínu að þessu leyti. Þess er vænst að sveitarfélög, skólanefndir og skólaráð einstakra skóla fylgist einnig með árlegum starfstíma skóla í tengslum við gerð starfsáætlana grunnskóla og eftirlitshlutverk og samráðshlutverk þessara aðila með skólahaldi í grunnskólum.