Hoppa yfir valmynd
11. júní 2019 Forsætisráðuneytið

793/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019

Úrskurður

Hinn 31. maí 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 793/2019 í máli ÚNU 19050016.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 10. maí 2019, kærði A synjun Sýslumannsins á Vestfjörðum á beiðni hans um aðgang að gögnum sem sýndu fram á hver hafi fengið greiddar líftryggingabætur eftir B, sem fæddist árið 1878 og lést árið 1900.

Kærandi óskaði eftir framangreindum gögnum með bréfi, dags. 16. október 2018. Áður hafði þjóðskjalavörður tjáð kæranda að gögnin lægju ekki fyrir hjá Þjóðskjalasafni Íslands. Starfsmaður hjá Sýslumanninum á Vestfjörðum hafði svo upplýst kæranda um að gögnin væru fyrirliggjandi hjá embættinu í geymslu í kjallara húss á Patreksfirði.

Með svari Sýslumannsins á Vestfjörðum, dags. 30. október 2018, var beiðni kæranda synjað. Í fyrsta lagi var vísað til 5. gr. reglugerðar um dánarskrár, gerðabækur og málaskrár nr. 136/1992, þar sem fram kemur að upplýsingar verði ekki veittar úr dánarskrá og eftirrit ekki látin af hendi af gögnum, sem sýslumaður hafi tekið við eða gert vegna dánarbús, nema sá sem leiti eftir slíku hafi lögvarinna hagsmuna að gæta að mati sýslumanns. Í öðru lagi var vísað til 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um að lögin gildi ekki um skipti á dánarbúum. Einnig var tekið fram að óvíst væri hvort þau gögn sem kærandi bæði um væru í vörslum embættisins þar sem engin heildstæð skrá væri til yfir eldri gögn sem færð voru í skjalageymslur embættisins í tíð þáverandi embættis sýslumannsins á Patreksfirði.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum sem sýna fram á hver fékk greiddar líftryggingabætur eftir B, sem fæddist árið 1878 og lést árið 1900. Meira en 30 ár eru frá því að gögnin urðu til. Fer því um aðgang að þeim eftir lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014, sbr. 4. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í 46. gr. laganna er mælt fyrir um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í 2. mgr. segir að um meðferð slíkra kærumála gildi ákvæði V. kafla upplýsingalaga.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal mál skv. 20. gr. borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnunum var tilkynnt um ákvörðun stjórnvaldsins. Sýslumaðurinn á Vestfjörðum synjaði beiðni kæranda með bréfi dags. 30. október 2018 en kæra barst úrskurðarnefnd 16. maí 2019. Hún barst því rúmlega fimm mánuðum eftir að kærufrestur skv. 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga rann út. Í svari Sýslumannsins á Vestfjörðum til kæranda var honum þó hvorki leiðbeint um kæruheimild þá sem kveðið er á um í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 46. gr. laga um opinber skjalasöfn, né kærufrest samkvæmt 1. mgr. 22. gr. svo sem er áskilið er í 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Eins og hér stendur á telur úrskurðarnefndin skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt, enda þótt Sýslumaðurinn á Vestfjörðum hafi ekki leiðbeint kæranda um kærurétt og kærufrest. Í þessu sambandi athugast að almennur kærufrestur fyrir stjórnsýslukærur er þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, en kæran barst rúmum þremur mánuðum eftir það tímamark. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því ekki talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá telur úrskurðarnefndin ekki vera fyrir hendi veigamiklar ástæður sem mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, enda kemur niðurstaða þessi ekki í veg fyrir að kærandi geti óskað eftir þessum upplýsingum aftur við Sýslumanninn á Vestfjörðum og kært þá synjun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál innan lögbundins 30 daga kærufrests. Verður samkvæmt þessu ekki hjá því komist að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 10. maí 2019, á hendur Sýslumanninum á Vestfjörðum er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir   Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta