Nr. 473/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 30. september 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 473/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU21060003
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 1. júní 2021 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Fílabeinsstrandarinnar (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. maí 2021, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Að lokum er gerð sú krafa að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og stofnuninni verði gert að taka mál hans til meðferðar á ný.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi hinn 24. september 2018. Hinn 3. desember 2018 komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að ekki skyldi taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og var sú ákvörðun staðfest með úrskurði kærunefndar hinn 12. febrúar 2019. Hinn 21. desember 2020 lagði kærandi fram beiðni til kærunefndar um endurupptöku máls síns. Með úrskurði í stjórnsýslumáli nr. KNU20120040 uppkveðnum hinn 4. febrúar 2021 féllst kærunefnd á beiðni kæranda um endurupptöku máls hans og lagði fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. dagana 18. og 22. febrúar 2021 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 11. maí 2021, var kæranda synjað um alþjóðlega vernd ásamt því að honum var synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 1. júní 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda hinn 10. júní 2021 ásamt fylgigögnum. Frekari gögn bárust 9. og 14. september 2021. Í ljósi frásagnar kæranda og skýrslna um heimaríki taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er vísað til greinargerðar sem lögð var fram hjá Útlendingastofnun, dags. 7. apríl 2021, hvað varðar umfjöllun um aðstæður á Fílabeinsströndinni og stöðu mannréttindamála, þ. á m. stöðu samkynhneigðra.
Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki vegna aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi sem samkynhneigður maður, sbr. d-lið 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að samkvæmt landaupplýsingum um stöðu LGBTI einstaklinga á Fílabeinsströndinni njóti slíkir einstaklingar ekki raunverulegrar verndar og standi ekki til boða vernd yfirvalda þar í landi. Framangreindu til stuðnings vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála í stjórnsýslumáli nr. KNU20120022, dags. 28. janúar 2021, þar sem meðal annars komi fram að samkvæmt heimildum sé hægt að beita hegningarlögum Fílabeinsstrandarinnar gegn hinsegin fólki. Þá hafi það verið niðurstaða kærunefndar að ekki yrði séð að aðili málsins gæti leitað til stjórnvalda vegna áreitis og ofbeldis sem hún yrði fyrir vegna kynhneigðar sinnar. Hafi kærunefnd fallist á að málsaðili hefði leitt með nægilega rökstuddum hætti líkur að því að hún hefði ástæðuríkan ótta við að verða ofsótt í heimaríki sínu, Fílabeinsströndinni, vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi sem samkynhneigður einstaklingur. Kærandi vísar til þess að hann sé samkynhneigður maður og hafi mátt þola áreiti, alvarlegt ofbeldi og pyndingar af hálfu almennings og yfirvalda vegna kynhneigðar sinnar. Kærandi telur að töluverðar líkur standi til þess að hann muni verða fyrir kerfisbundinni mismunun eða ofsóknum af hálfu yfirvalda og samborgara sinna í heimaríki verði honum gert að snúa þangað aftur. Þá telur hann jafnframt að honum verði gert að sæta handtöku og fangelsisrefsingu verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.
Kærandi telur að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.
Kærandi byggir varakröfu sína um viðbótarvernd, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, á því að hann eigi á hættu að sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð enda eigi hann á hættu ofsóknir vegna stöðu sinnar sem samkynhneigður maður. Kærandi vísar til þess að fjölskyldumeðlimir hans hafi verið myrtir vegna tengsla föður hans við stjórnarandstöðuflokk og telur kærandi að það sé vísbending um að hann eigi á mikilli hættu að lenda í sömu eða svipuðum aðstæðum verði hann sendur til baka. Þá telur kærandi að færa megi rök fyrir því að aðstæður í fangelsum á Fílbeinsströndinni séu það slæmar að vistun í þeim ein og sér feli í sér brot gegn 3. mgr. mannréttindasáttmála Evrópu. Vísar kærandi framangreindu til stuðnings til dóms Mannréttindadómsstóls Evrópu í máli Peers gegn Grikklandi, nr. 28524/95, frá 19. apríl 2001.
Önnur varakrafa kæranda er sú að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að þegar aðstæður hans séu metnar heildstætt sé ljóst að félagslegar aðstæður hans í heimaríki hafi verið afar erfiðar og að taka verði sérstakt tillit til þess að stjórnvöld í heimaríki hans séu meðal þeirra aðila sem hann óttist að muni ofsækja hann auk þess sem að hann standi frammi fyrir mismunun og útskúfun frá almenningi í landinu. Þá telur kærandi rétt að líta til þess hvaða áhrif Covid-19 veiran og það ástand sem hún hafi skapað hafi á stöðu hans í heimaríki sínu. Telur kærandi að ljóst sé að hann kunni að vera í hópi þeirra sem verði fyrir hvað verstum áhrifum vegna Covid-19 í heimaríki hans.
Kærandi byggir þriðju varakröfu sína á því að þar sem annmarkar hafi verið á málsmeðferð Útlendingastofnunar beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka málið til meðferðar á ný. Kærandi telur að ýmsir annmarkar hafi verið á trúverðugleikamati Útlendingastofnunar í máli hans. Í fyrsta lagi vilji kærandi vekja athygli á því að þau gögn sem hann lagði fram og voru tekin til skoðunar hjá skilríkjarannsóknarstofu lögreglustjórans á Suðurnesjum og metin hafi verið ótraust hafi hann lagt fram í góðri trú um að þau væru ófölsuð frumrit. Kærandi telur að rétt sé að horfa til þeirra fyrirvara sem séu settir í skýrslu skilríkjarannsóknarstofunnar og í því samhengi vísar kærandi til þess að hann hafi leitast til að greina skýrlega frá málum sínum og veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins. Telur kærandi að stjórnvöldum beri að túlka allan hugsanlegan vafa honum í hag. Í öðru lagi telur kærandi að misræmi í frásögn hans hvað varði endursendingu til heimaríkis frá Noregi hafi verið sökum þess að hann hafi verið þunglyndur á þeim tíma sem hann hafi svarað spurningum stofnunarinnar árið 2018 og hann viti ekki af hverju hann hafi svarað með þeim hætti sem hann hafi gert. Framangreindu til stuðnings vísar kærandi til þess að í gögnum máls hans liggi fyrir nótur sálfræðings þar sem hann hafi greint frá slæmri andlegri líðan. Í þriðja lagi telur kærandi að misskilningur hafi verið í túlkun varðandi frásögn hans um hver hefði komið að honum og kærasta hans að stunda kynlíf. Kærandi telur vert að taka fram í þessu sambandi að efnismeðferðarviðtal Útlendingastofnunar hafi verið mjög langt og krefjandi fyrir alla viðkomandi, saga hans sé flókin og erfitt að ná allri frásögninni niður á blað í gegnum túlk. Í fjórða lagi telur kærandi að Útlendingastofnun hafi gefið skýringum hans á því hvers vegna hann hafi ekki minnst á samkynhneigð sína í Noregi lítið vægi. Kærandi vísar til þess að í hinni kærðu ákvörðun sé ekki tilgreint að hann hafi greint frá þeim ótta sem hann hafi upplifað við að greina frá kynhneigð sinni á landamærum Rússlands og Noregs.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun bárust stofnuninni gögn frá norskum stjórnvöldum vegna umsóknar hans þar í landi. Í gögnunum var m.a. að finna afrit af vegabréfi kæranda útgefnu af stjórnvöldum á Fílabeinsströndinni. Þar sem um afrit af vegabréfi er að ræða var auðkenni kæranda ekki talið sannað með fullnægjandi hætti. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt til að sanna á honum deili og yrði því leyst úr því á grundvelli trúverðugleikamats. Útlendingastofnun taldi að ekkert hefði komið fram sem gæfi tilefni til að draga þjóðerni kæranda í efa og lagði til grundvallar að hann væri ríkisborgari Fílabeinsstrandarinnar. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé ríkisborgari Fílabeinsstrandarinnar.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður á Fílabeinsströndinni m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- Amnesty International Report 2020/21 – The State of the World’s Human Rights (Amnesty International, 7. apríl 2021);
- Claiming Human Rights – in the Côte d´Ivore (Claiming Human Rights. Guide to International Procedures Available in Cases of Human Rights Violations in Africa, janúar 2010);
- Côte d´Ivore: A fragile human rights situation. Amnesty International submission for the UN Universal Periodic Review, 33rd session of the UPR Working Group (Amnesty International, maí 2019);
- Côte d´Ivore: Application of article 360 of the Penal Code against sexual minorities (2014) CIV105029.FE (Immigration and Refugee Board of Canada, 22. desember 2014);
- Côte d´Ivoire – COI Compilation (United Nations High Commissioner for Refugees, 31. ágúst 2017);
- Côte d´Ivoire – COI Compilation (ACCORD, 20. desember 2020);
- Côte d´Ivoire Country Focus – Country of Origin Information Report (EASO, 5. júní 2019);
- Côte d´Ivoire: Country Reports on Human Rights Practices for 2020 (United States Department of State, 30. mars 2021);
- Côte d´Ivoire: Treatment of sexual minorities by society and the authorities, including legislation; state protection and support services (2006 – February 2014) (Immigration and Refugee Board of Canada, 27. febrúar 2014);
- Côte d´Ivoire: World Report 2020: Events of 2019 (Human Rights Watch, 14. janúar 2020);
- Côte d´Ivoire. 2020 OSAC Crime and Safety Report (United States Department of State, 13. mars 2021);
- Côte d´Ivoire Country Focus – Country of Origin Information Report (European Asylum Support Office, júní 2019);
- Elfenbenskysten: Situasjonen for personer som er, eller antas å være, knyttet til tidligere president Gbagbo og det tidligere regimet (Landinfo, 9. júlí 2012);
- Erasing 76 crimes, Ivory Coast as LGBT sanctuary? Except when it´s not (12. júlí 2016);
- Freedom in the World 2021: Côte d´Ivoire (Freedom House, 3. mars 2021);
- International Criminal Court: Annex 2. Public. ICC-02/11(11-02/11-HNE-2. L´asension de M. Blé Goudé au sein de l´entourage immédiat de Laurent Gbagbo. „Situation in the Republic of Côte d´Ivoire in the Case of the Prosecutor v. Chales Blé Goudé (9. október 2014);
- International Criminal Court: Warrant Of Arrest For Charles Blé Goudé (21. desember 2011);
- International Justice Monitor: Gbagbo and Blé Goudé Trial: The Former Head of the Republican Guard Group 1 Talks About His Sidelining (22. september 2016);
- Ivory Coast election: Alassane Ouattara wins amid boycott (BBC News, 3. nóvember 2020);
- Hegningarlög Fílabeinsstrandar. Loi N. 2019-574 du 26 Juin 2019 portant Code Penal (vefslóð https://loidici.biz/2019/08/17/le-code-penal-2019/lois-article-par-article/codes/);
- National Rapport submitted in accordance with paragraph 15(a) of the annex to the Human Rights Council resolution 5/1, Côte d´Ivoire (UN Human Rights Council, 3. september 2009);
- Rapport de mission en République de Côte d´Ivoire du 25 novembre au 7 décembre (OFPRA og CNDA, 7. desember 2019);
- Report of the Independent Expert on capacity-building and technical cooperation with Côte d´Ivoire: in the field of human rights (United Nations Human Rights Council, 19. maí 2017) og
- The World Factbook: Côte d´Ivore (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 8. september 2021).
Samkvæmt upplýsingum frá World Factbook er Fílabeinsströndin lýðræðisríki með rúmlega 28 milljónir íbúa. Fílabeinsströndin öðlaðist sjálfstæði frá Frakklandi árið 1960 og gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum hið sama ár. Ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1991 og valfrjálsa viðbótarbókun um þátttöku barna í vopnuðum átökum við þann samning árið 2012. Ríkið fullgilti mannréttindasáttmála Afríku árið 1992. Sama ár fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og valfrjálsa bókun við hann árið 1997. Þá fullgilti ríkið samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1995 ásamt því að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum.
Í sömu heimild kemur fram að frá því Fílabeinsströndin öðlaðist sjálfstæði hafi ríkið verið eitt af mest velmegandi löndum í Vestur-Afríku. Það hafi þó ekki komið í veg fyrir pólitíska ókyrrð í landinu sem hafi verið talsverð frá síðustu aldamótum. Árið 1999 var ríkisstjórn landsins í fyrsta skipti steypt af stóli með valdaráni hersins. Við völdum tók Robert Guei en stjórnartíð hans entist í skamman tíma þar sem hann tapaði í kosningum undir lok árs 2000 fyrir Laurent Gbagbo sem leiddi stjórnmálaflokkinn Ivorian Popular Front (FPI). Árið 2002 hafi misheppnuð tilraun til valdaráns leitt til uppreisnar og að lokum til borgarastyrjaldar í landinu. Árið 2007 hafi náðst sáttir á milli ríkisstjórnar og uppreisnarsinna. Í kosningum árið 2010 hafi Laurent Gbagbo lotið í lægra haldi fyrir Alassane Dramane Ouattara en neitað að láta völd sín af hendi. Hafi það leitt til fimm mánaða ofbeldisfullra átaka þar til Laurent Gbagbo hafi verið neyddur frá völdum af stuðningsmönnum Outtara með aðstoð Sameinuðu þjóðanna og franskra hersveita. Samkvæmt skýrslu Freedomhouse fyrir árið 2020 hefur Alassane Dramane Ouattara verið við völd síðan þá eftir að hafa verið endurkjörinn árið 2015 í kosningum sem voru metnar trúverðugar, gegnsæjar og frjálsar af eftirlitsaðilum auk þess sem þær hafi farið friðsamlega fram ólíkt fyrri forsetakosningum í landinu sl. tvo áratugi. Frá því að Ouattara var kjörinn forseti Fílabeinsstrandarinnar hafi landið tekið töluverðum framförum á ýmsum sviðum auk þess sem dregið hafi úr pólitískri ókyrrð og átökum. Outtara hafi hafið þriðja kjörtímabilið sitt í desember 2020 í kjölfar umdeildra kosninga í október sem stjórnarandstaðan hafi sniðgengið. Að minnsta kosti 85 manns hafi látist og hundruð særst vegna mótmæla sem brutust út í kjölfar kosninganna. Stjórnarskrá Fílabeinstrandarinnar takmarki setu forseta á stóli við tvö kjörtímabil en forsetinn og stuðningsmenn hans telji að samþykkt nýrrar stjórnarskrár árið 2016 hafi gert honum kleift að endurnýja umboð sitt.
Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2020 kemur fram að alvarlegustu mannréttindabrotin á Fílabeinsströndinni séu m.a. handahófskennd og ólögmæt manndráp af hálfu yfirvalda, slæm aðstaða fanga í fangelsum, skortur á sjálfstæði dómstóla, takmarkanir á tjáningarfrelsi, takmarkanir á félaga- og fundafrelsi og ofbeldi gagnvart konum og stúlkum, ofbeldi gegn meðlimum LGBTI+ samfélagsins og barnaþrælkun.
Í sömu skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að ríkislögreglan (e. The National Police) og herlögreglan (e. National Gendarmerie) séu ábyrgar fyrir löggæslu í landinu. Herlögregla og herdómstóll sjái um rannsókn og saksókn vegna meintra brota af hálfu öryggissveita. Stjórnarskrá landsins leggi bann við handahófskenndum handtökum og varðhaldi en þó hafi verið greint frá slíkum tilvikum, þ. á m. tilvikum þar sem einstaklingar hafi verið í varðhaldi í langan tíma í senn. Fram kemur í skýrslu Freedom House frá 2021 að dómstólar landsins séu ekki sjálfstæðir og að dómarar verði fyrir miklum utanaðkomandi áhrifum og þiggi mútur. Samkvæmt stjórnarskrá landsins eigi borgarar landsins jafnan rétt til að leita réttar síns fyrir yfirvöldum en algengt sé að það sé ekki virt í framkvæmd. Yfirvöld eigi þar að auki í erfiðleikum með að útvega efnaminni einstaklingum lögfræðilega aðstoð til þess að gæta réttar þeirra gagnvart yfirvöldum. Þá hafi löggæslustarfsmenn gerst sekir um mútuþægni og séu sjaldan dregnir til ábyrgðar vegna misferlis í starfi.
Í greinum frá 2020 segir að þrátt fyrir sterkan efnahag standi landið aftar en önnur minni þróaðri ríki þegar kemur að ýmsum heilbrigðisviðmiðum. Vegna pólitísks óstöðugleika og átaka í landinu um árabil hafi heilbrigðisgeirinn verið undirfjármagnaður. Eftir að átökum hafi lokið og ákveðinn stöðugleiki náðst í landinu hafi stjórnvöld hins vegar gripið til samstilltra aðgerða undanfarin ár til þess að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu, endurbæta og byggja upp betri aðstöðu og bæta kerfið svo að það samrýmist alþjóðlegum stöðlum. Í því sambandi hafi fjárframlög frá ríkinu til heilbrigðisgeirans aukist töluvert undanfarin ár. Í landinu séu fimm háskólasjúkrahús, fimm sérhæfðar heilbrigðisstofnanir og fjórar opinberar heilbrigðisstofnanir. Þá séu í landinu 2027 heilsugæslustöðvar og 84 almenn sjúkrahús. Margir ríkisborgarar Fílabeinsstrandarinnar hafi aðeins haft takmarkað aðgengi að heilbrigðisþjónustu þar í landi vegna þess kostnaðar sem greiða þurfi fyrir umrædda þjónustu. Vegna þess hafi yfirvöld ákveðið að innleiða nýtt sjúkratryggingakerfi sem standi öllum til boða með það að markmiði að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu og draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Innleiðingin hafi hafist árið 2017 og stefnt sé að því að 38% af ríkisborgurum heyri undir kerfið árið 2023. Kerfið sé tvíþætt og bjóði annars vegar upp á möguleika á að greiða mánaðarlegt gjald fyrir ákveðna heilbrigðisþjónustu og hins vegar upp á möguleika sem ekki þurfi að greiða fyrir, fyrir þá sem eigi í fjárhagserfiðleikum. Auk þess eigi ríkisborgarar Fílabeinsstrandarinnar kost á því að njóta heilbrigðisþjónustu innan einkageirans hafi þeir tök á því að greiða fyrir slíka þjónustu.
Af skýrslu EASO frá 2019 og skýrslu Amnesty International frá 2019 má ráða að fordómar ríki í garð samkynhneigðra meðal almennings í Abidjan og samkynhneigðir fari almennt leynt með kynhneigð sína svo þeir verði ekki fyrir aðkasti. Umburðarlyndi sé þó meira í stærri borgum en á dreifbýlli svæðum landsins. Fram kemur í fyrrnefndri skýrslu Freedom House frá árinu 2021 að meðlimir LGBTI samfélagsins verði fyrir áreiti í landinu. Samkvæmt framangreindum heimildum sé samkynhneigð ekki bönnuð með lögum og kynferðisleg sambönd milli samkynja einstaklinga ekki refsiverð en hins vegar séu engin ákvæði sem banni mismunun á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar. Í hegningarlögum landsins sé í 416. gr. að finna ákvæði sem geri ósiðsamlega háttsemi á almannafæri refsiverða og kunni slík háttsemi að varða fangelsisrefsingu allt að tveimur árum auk sektar. Sé brotið framið í návist einstaklings undir 18 ára aldri megi tvöfalda refsingu. Þó bera heimildir með sér að umræddu ákvæði hafi ekki verið beitt í framkvæmd. Af þessu leiðir að ekki sé unnt að meta hvort umrætt ákvæði hafi í raun haft þvingandi áhrif á líf hinsegin fólks á Fílabeinströndinni. Í nýjum hegningarlögum nr. 574/2019 frá 26. júní 2019 hafi verið gerð breyting á framangreindu refsiákvæði þar sem felld hafi verið út refsihækkun ef samkynja einstaklingar fremdu brotið. Hins vegar væri í lögunum vísað til óskilgreindra ,,óeðlilegra athafna“ og „brota á góðu siðferði“. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2020 kemur fram að mannréttindasamtök hafi vakið athygli á því að hinsegin einstaklingar á Fílabeinsströndinni sæti mismunun og ofbeldi á grundvelli kynhneigðar og að viðbrögð löggæsluyfirvalda hafi verið sein og árangurslaus í slíkum málum. Þá hafi komið upp mál þar sem hinsegin einstaklingum hafi verið gert að yfirgefa heimili sín af leigusala eða fjölskyldu og einnig tilvik þar sem öryggissveitir hafi niðurlægt hinsegin einstaklinga opinberlega. Einnig hafi verið tilkynnt um atvik þar sem hinsegin einstaklingum hafi verið neitað um heilbrigðisþjónustu vegna kynhneigðar. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2018 kemur fram að mannréttindasamtök hafi greint frá því að meðlimir LGBTI+ samfélagsins tilkynni sjaldan ofbeldi vegna ótta við hefndir og frekara ofbeldi auk fordóma vegna kynhneigðar. Oft væru þeir krafðir um greiðslu til að rannsókn færi fram. Þá séu starfandi frjáls félagasamtök, svo sem Alternative Côte d´Ivore, viðurkennd af stjórnvöldum þar í landi, sem berjist fyrir réttindum samkynhneigðra og hinsegin einstaklinga. Önnur samtök um réttindi LGBTI+ einstaklinga hafi unnið með mannréttindasamtökum til að þrýsta á lögreglu að rannsaka brot gegn hinsegin einstaklingum. Þá hafi þeir skipulagt viðburði með trúarleiðtogum um málefni samkynhneigðra og hinsegin einstaklinga.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærunefnd hefur jafnframt litið til leiðbeininga Flóttamannastofnunarinnar er varðar kröfur um alþjóðlega vernd á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar (Guidelines on International Protection No. 9: Claims to Refugee Status based on Sexual Orientation and/or Gender Identity within the context of Article 1A (2) of the 1951 Convention and/or its 1967 Protocol relating to the Status of Refugee, UN High Commissioner for Refugees, október 2012).
Krafa kæranda um alþjóðlega vernd er byggð á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu annars vegar vegna þess að faðir hans hafi verið í stjórnarandstöðuflokknum FPI (e. Ivorian Popular Front) og hins vegar vegna þess að kærandi sé samkynhneigður. Kærandi eigi því á hættu ofsóknir vegna aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi sem samkynhneigður maður, sbr. d-lið 38. gr. laga um útlendinga.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram það mat stofnunarinnar að ósamræmi í frásögn kæranda, skortur á haldbærum og trúverðugum gögnum henni til stuðnings, það að hann hefði lagt fram fölsuð skjöl og vísvitandi veitt rangar og misvísandi upplýsingar leiddi til þess að frásögn hans væri ótrúverðug í heild sinni. Var því ekki lagt til grundvallar við úrlausn málsins að hann væri samkynhneigður. Af lestri ákvörðunarinnar verður ekki ráðið hvort málsástæða kæranda um tengsl föður hans við stjórnarandstöðuflokk á Fílabeinsströndinni sé hluti af framangreindu mati. Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar, m.a. gerir kærandi athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi gefið skýringum hans á því hvers vegna hann hafi ekki borið fyrir sig málsástæðu um samkynhneigð í málsmeðferð í Noreg lítið vægi og talið þær ótrúverðugar. Kærandi hafi greint frá því í viðtali að hann hafi verið hræddur um að greina frá samkynhneigð sinni í Noregi þar sem hann hafi óttast að verða dæmdur í Rússlandi vegna þess.
Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, viðtölum og gögnum sem lágu fyrir í stjórnsýslumálum kæranda hjá kærunefnd nr. KNU18120067 og KNU20120040, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.
Í gögnum málsins liggur fyrir afrit af viðtali sem norska útlendingastofnunin (UDI) tók við kæranda hinn 7. desember 2015 vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd þar í landi. Aðspurður í viðtalinu um ástæður flótta frá heimaríki greindi kærandi frá því að faðir hans hefði verið aðalritari FPI stjórnmálaflokksins í bænum [...]. Eftir kosningar 2010 hafi faðir hans misst húsið sitt og plantekru. Árið 2012 hafi ríkið leyft fólki að fá eignir sínar til baka og hafi faðir hans fengið sínar til baka. Hinn 1. janúar 2014 hafi hermenn komið að heimilinu meðan kærandi hafi verið fjarverandi og eftir það hafi kærandi aldrei séð föður sinn aftur. Kærandi og litli bróðir hans hafi í kjölfarið farið til Máritaníu en snúið til baka stuttu síðar. Hinn 17. febrúar 2014 hafi kærandi verið staddur á netkaffihúsi þegar skotið hafi verið á heimili þeirra. Kærandi hafi heyrt að það hefði verið herinn sem hafi gert það. Kærandi hafi ekki þorað að leita til yfirvalda og því haft samband við vin sinn og ákveðið að yfirgefa heimaríki sitt aftur. Aðspurður í viðtalinu um hvað kærandi óttaðist við heimkomu kvaðst kærandi óttast að verða skotinn eins og hefði hent litla bróður hans en stjórnvöld væru á eftir kæranda. Aðspurður í viðtalinu að því hvort það væri eitthvað annað sem hafi komið fyrir hann í heimaríki neitaði hann og kvað framangreinda atburði vera aðalástæðuna fyrir flótta frá heimaríki. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 7. nóvember 2018 greindi kærandi frá því að þegar hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd við landamæri Rússlands og Noregs hafi verið tekið viðtal við hann sem hafi staðið í 15 til 20 mínútur og síðan hafi hann verið fluttur í fangelsi í sex klukkustunda fjarlægð. Kærandi hafi átt að fá annað viðtal en það hafi aldrei farið fram og þá hafi hann aldrei fengið aðstoð lögfræðings og ekki fengið að kæra. Í afriti af úrskurði kærunefndar útlendingamála í Noregi (UNE), dags. 31. mars 2016, kemur fram að lögmaður kæranda hafi kært ákvörðun norsku útlendingastofnunarinnar í máli kæranda hinn 18. febrúar 2016. Hafi málatilbúnaður kærunnar annars vegar byggst á því að upplýsingar um aðstæður í heimaríki hans væru ekki réttar og hins vegar á því að kærandi væri samkynhneigður. Þá kemur fram að hinn 9. mars 2016 hafi kærandi verið skráður horfinn úr þjónustuúrræði og því hafi ekki verið hægt að spyrja kæranda nánar út í hina nýju málsástæðu. Þá má sjá af endurriti viðtals kæranda hjá norsku útlendingastofnuninni að það hafi tekið tvo tíma og má jafnframt sjá að það er nokkuð ítarlegt, einkum um ástæður flótta, og virðist kærandi ekki hafa átt í erfiðleikum með að svara spurningum spyrjanda og þá hafi hann fengið að koma að málsástæðum er vörðuðu flótta hans frá heimaríki.
Við framlagningu umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum hinn 24. september 2018 greindi kærandi frá því að hann hefði farið frá heimaríki 18. mars sama ár. Kærandi hafi farið til Líbýu og ferðast þaðan til Ítalíu og Danmerkur og frá Danmörku til Íslands. Kærandi kvaðst hafa verið sakfelldur í heimaríki fyrir að vera samkynhneigður og setið í fangelsi vegna þess í tvö ár með þriggja ára skilorðsbundinn dóm. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 1. október 2018 greindi kærandi frá því að hann hefði verið sendur frá Noregi til heimaríkis og setið í fangelsi í tvö ár þar sem hann hafði verið eftirlýstur. Í viðtali hjá stofnuninni hinn 7. nóvember 2018 greindi kærandi frá því að þegar hann hafi verið sendur frá Noregi til heimaríkis hafi hann verið tvo mánuði í fangelsi og þriðja mánuðinn hafi hann farið á geðdeild á spítalanum. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 18. febrúar 2021 neitaði kærandi hins vegar því að hafa verið fluttur til heimaríkis frá Noregi og kvaðst aðspurður hafa sagt þetta á fyrri stigum þar sem hann hefði verið þunglyndur árið 2018. Samkvæmt framangreindu er óljóst hvað kærandi hafi gert eftir að hann hvarf úr málsmeðferð í Noregi í mars 2016 og að mati kærunefndar eru framangreindar skýringar kæranda á framburði hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun árið 2018 ótrúverðugar og verða ekki lagðar til grundvallar.
Eins og áður segir hefur kærandi borið fyrir sig að vera í hættu í heimaríki þar sem hann sé samkynhneigður og hafi hlotið dóm eftir að komið hafi verið að honum og öðrum manni hinn 4. apríl 2013. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 9. mars 2021 var kærandi spurður að því hvort hann hefði nýlega átt í nánum samböndum sem samkynhneigður maður. Greindi kærandi frá því að hann hefði átt í sambandi við mann að nafni [...] þegar hann hafi verið í Danmörku og hafi þeir verið saman í átta mánuði. Aðspurður um hvenær það hefði verið kvaðst kærandi halda að það hafi verið frá desember 2019 til júní 2020. Kærandi var í viðtalinu hvattur til að leggja fram gögn um samskipti hans við umræddan [...]. Kærandi lagði engin gögn fram um þau samskipti við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun en við málsmeðferð hjá kærunefnd lagði kærandi fram skjáskot af samskiptum hans á Whatsapp við mann að nafni [...] og virðast samskiptin hafa átt sér stað í október 2020. Kærunefnd sendi talsmanni kæranda fyrirspurn hinn 9. september 2021 og óskaði eftir frekari upplýsingum frá kæranda um umræddan [...]. Hinn 14. september 2021 bárust kærunefnd svör frá kæranda. Í þeim kom fram að kærandi sé ekki með Facebook eða Instagram reikninga þannig að hann geti ekki leitað upplýsinga þar. Kærandi hafi átt myndir af honum og [...] saman en sá sími sé í dag ónýtur. Síðar sama dag barst kærunefnd annað tölvubréf frá talsmanni kæranda þar sem tengill var á Facebook síðu manns að nafni [...]. Kærandi kvaðst hafa fundið tengilinn með því að leita á Google. Framangreind skjáskot eru af samtali sem virðist hafa átt sér stað í október 2020. Samkvæmt frásögn kæranda liggur fyrir að samband hans og [...] hafi endað í júní það sama ár. Kærunefnd telur skjáskotin því hafa takmarkað sönnunargildi í málinu. Þá telur kærunefnd að fyrrnefndur tengill inn á Facebook síðu manns að nafni [...] sé ekki til þess fallinn að styðja við frásögn kæranda og þá sé ekki hægt að sannreyna að um sama mann sé að ræða.
Til stuðnings málatilbúnaði sínum um kynhneigð sína og hvað hafi gerst í kjölfarið að komið hafi verið að kæranda og manni að nafni [...] hinn 4. apríl 2013 lagði kærandi fram þrjú skjöl er hann kveður vera dómsskjöl. Kærandi kveður að um sé að ræða boðun í yfirheyrslu, skýrslu læknis fyrir dómi og fyrirkall vegna ákæru. Voru skjölin send til skilríkjarannsóknastofu lögreglustjórans á Suðurnesjum í rannsókn. Í skjalarannsóknarskýrslu lögreglustjórans, dags. 31. mars 2021, kemur fram að skjal varðandi boðun í yfirheyrslu sé ekki frumrit, hvergi sé tekið fram á því að um afrit sé að ræða og sé skjalið lagt sem frumrit megi líta á það sem skjalafals. Þá séu skjölin, skýrsla fyrir dómi og fyrirkallið, í grunninn ótraust þar sem þau beri enga öryggisþætti en stimpill yfirvalds sé þó blautstimpill og undirskrift sé gerð með penna. Í athugasemdum í rannsóknarskýrslunni er tekið fram að skjölin séu mjög heilleg miðað við að þau sé útgefin árið 2013. Þá megi sjá að sami aðilinn undirriti bæði skýrsluna og fyrirkallið og í því ljósi veki það athygli að prent á skjölunum sé ólíkt og pappírinn og frágangur skjalahausanna sé ólíkur. Þá sé vísað í ákvæði franskra hegningarlaga sem séu fallin úr gildi. Jafnframt liggur fyrir samkvæmt rannsókn Útlendingastofnunar á innihaldi framangreindrar læknaskýrslu að þar sé bein tilvísun úr fræðigrein sem hafi verið birt árið 2016, eða þremur árum eftir útgáfu skjalsins. Dregur framangreint verulega úr trúverðugleika skjalanna og frásagnar kæranda hvað varðar kynhneigð hans.
Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að kærandi hefur gefið upplýsingar fyrir norskum og íslenskum stjórnvöldum sem verulegt ósamræmi er á milli, svo sem um ástæður flótta, tímalínu atburða, andlát/hvarf föður og litla bróður hans og hvort hann hafi farið aftur til heimaríkis eftir synjun í Noregi. Þá hefur kærandi lagt fram gögn sem vafi leikur á um trúverðugleika, þ. á m. eitt sem telst líklega falsað auk þess sem önnur gögn eru ótraust. Að mati kærunefndar dregur það úr trúverðugleika kæranda að misræmi hafi verið milli frásagna kæranda um atriði sem hann ætti að geta verið staðfastur um. Þá er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki gefið haldbærar skýringar á ósamræmi milli viðtala um það hvers vegna hann hafi greint frá því í viðtölum við Útlendingastofnun árið 2018 að hann hafi verið sendur heim frá Noregi og við heimkomu settur í fangelsi. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að málatilbúnaður kæranda um samkynhneigð sé heildstætt metinn ótrúverðugur og verður hann því ekki lagður til grundvallar við úrlausn málsins.
Kærandi hefur þó verið samkvæmur í frásögn sinni hvað varðar að faðir hans hafi verið háttsettur innan FPI flokksins á milli málsmeðferðar í Noregi og hér á Íslandi. Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn þessu til stuðnings er að mati kærunefndar ekki ástæða til að útiloka möguleg tengsl föður kæranda við framangreindan flokk árið 2011. Samkvæmt framangreindum gögnum ríkti borgarastyrjöld árið 2011 á Fílabeinsströndinni sem braust út í kjölfar átaka á milli stuðningsmanna Laurent Gbago, leiðtoga FPI flokksins og sitjandi forseta landsins, og stuðningsmanna nýkosins forseta Alassane Ouattara sem hafði verið viðurkenndur alþjóðlega sem réttilega kjörinn forseti. Með aðstoð Sameinuðu þjóðanna og franska heraflans var Gbagbo handtekinn í apríl 2011 og hafi landið tekið töluverðum framförum á ýmsum sviðum auk þess sem dregið hafi úr pólitískri ókyrrð og átökum. Að mati kærunefndar benda gögn ekki til þess að kærandi sé í hættu að sæta ofsóknum í heimaríki sínu á grundvelli ætlaðra stjórnmálaskoðana sinna eða stjórnmálaskoðana föður hans en eins og áður segir ríkir annað stjórnmálaástand þar í landi nú. Þá benda gögn málsins ekki til þess að kærandi eigi á hættu á að sæta ofsóknum í heimaríki af öðrum ástæðum sem 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vísar til, sbr. 3. mgr. 38. gr. laganna.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Kærunefnd hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði lögð til grundvallar frásögn kæranda um að hann sé í hættu í heimaríki vegna kynhneigðar sinnar eða ætlaðra stjórnmálaskoðana. Verður því ekki talið að ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki af þeim sökum. Þá er það mat kærunefndar, að virtum gögnum málsins og upplýsingum um aðstæður á Fílabeinsströndinni, að kærandi eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingum, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum.
Í ljósi framangreinds trúverðugleikamats kærunefndar á frásögn kæranda, þ. á m. um kynhneigð, er ekki tilefni til að taka til skoðunar aðstæður hans skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af þeirri málsástæðu.
Í greinargerð kæranda, dags. 10. júní 2021, sem lögð var fram til kærunefndar er vísað til þess að í ákvörðun Útlendingastofnunar komi fram að kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem renni stoðum undir þá frásögn hans að hann hafi verið hýddur í heimaríki. Kemur fram í greinargerðinni að kærandi hefði óskað eftir tíma hjá lækni í þeim tilgangi að láta skoða þau ör sem hann bæri á líkamanum og yrðu gögnum skilað inn til kærunefndar jafnskjótt og þau lægju fyrir. Hinn 8. september 2021 sendi kærunefnd talsmanni kæranda tölvubréf þar sem vakin var athygli á því að framangreind heilbrigðisgögn hefðu ekki borist nefndinni og var kæranda veittur frestur til að leggja fram slík gögn. Hinn 9. september 2021 bárust frá talsmanni komunótur vegna heimsókna kæranda á heilsugæsluna í Breiðholti dagana 4., 21. og 23. júní 2021. Fram kemur í samskiptaseðli frá 21. júní 2021 að kærandi sé með ör á hægri fæti sem hann kveði vera eftir að ráðist hafi verið á hann með hníf vegna samkynhneigðar hans og þá sé hann með ör utan á hægri kálfa að eigin sögn eftir byssuskot í borgarastríði á Fílabeinsströndinni. Þá sé hann aðallega með ör á hnjánum. Þá vakni kærandi stundum upp við martraðir um að mennirnir sem hafi ráðist á hann með sverði séu að elta hann. Að mati kærunefndar hafa framangreindar upplýsingar í ljósi trúverðugleikamats kærunefndar á frásögn kæranda takmarkað sönnunargildi um þá áverka sem kærandi kveðst hafa hlotið í heimaríki. Þá gefa önnur gögn málsins ekki til kynna annað en að kærandi sé heilsuhraustur en hafi glímt við þrálátt fótamein og svefnvandamál. Þá er hann ekki í meðferð hér á landi sem læknisfræðilega óforsvaranlegt er að rjúfa. Þá benda gögn um aðstæður á Fílabeinsströndinni til þess að kæranda standi til boða heilbrigðisþjónusta í heimaríki.
Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.
Í 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 2. mgr. gildi ekki um útlending sem eitt eða fleira af eftirfarandi á við um:
- útlendingur hefur framvísað fölsuðum skjölum með það að markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd,
- útlendingur hefur dvalist á ókunnum stað í meira en tvær vikur eða hefur yfirgefið landið án leyfis,
- útlendingur hefur veitt rangar upplýsingar um fyrri dvöl í ríki sem tekur þátt í Dyflinnarsamstarfinu eða í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns án þess að umsókn hans um alþjóðlega vernd hefði fengið fullnægjandi skoðun,
- útlendingur á sjálfur þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér landi þann 24. september 2018. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærandi sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi og þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 30. september 2021, eru liðin rúm þrjú ár. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi m.a. fram skjal sem er tilkynning um boðun í yfirheyrslu. Samkvæmt áðurgreindri rannsóknarskýrslu skilríkjarannsóknarstofunnar lögreglustjórans á Suðurnesjum er það ekki öryggisskjal og ber enga öryggisþætti. Um afrit sé að ræða en hafi ekki verið merkt sem slíkt. Taldi fulltrúi skilríkjarannsóknarstofunnar að ef skjalið hefði verið lagt fram sem frumrit bæri að líta á það sem skjalafals. Að mati kærunefndar verður því að líta svo á að kærandi hafi framvísað fölsuðu skjali með það að markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd, sbr. a-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá kemur fram í gögnum málsins að kærandi hafi verið skráður horfinn af Útlendingastofnun í mars 2019 en síðan mætt til stofnunarinnar í nóvember 2020 og beðið um áframhaldandi málsmeðferð. Samkvæmt framangreindu hefur kærandi dvalist á ókunnum stað í meira en tvær vikur og hefur yfirgefið landið án leyfis, sbr. b-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er ljóst að ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eigi ekki við um kæranda, sbr. 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er að finna heimild til að víkja frá ákvæðum 3. mgr. 74. gr. þegar sérstaklega stendur á. Er það mat kærunefndar að aðstæður í máli kæranda séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að víkja frá ákvæðum 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði b- og d-liðar 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verður honum ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laganna.
Krafa kæranda um ógildingu á ákvörðun Útlendingastofnunar
Að lokum er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka mál kæranda til meðferðar á ný. Byggir kærandi framangreinda kröfu á því að ýmsir annmarkar hafi verið á málsmeðferð Útlendingastofnunar, einkum á trúverðugleikamati stofnunarinnar. Kærandi telur að stofnunin hafi átt að horfa á þá fyrirvara sem hafi verið settir fram í skýrslu skilríkjarannsóknarstofu lögreglustjórans á Suðurnesjum og hefði hann átt að njóta vafans þar um. Þá telur kærandi að skýringa hans á því hvers vegna misræmi hvað varði endursendingu til heimaríkis frá Noregi hafi átt að vega þyngra og að líta hafi átt til nótu sálfræðings um andlega líðan hans. Jafnframt telur kærandi að Útlendingastofnun hafi gefið skýringum hans á því hvers vegna hann hafi ekki minnst á samkynhneigð sína í Noregi lítið vægi.
Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga.
Kærunefnd hefur farið yfir málsmeðferð Útlendingastofnunar og gögn málsins og komist að sömu niðurstöðu og stofnunin. Þá fellst kærunefnd ekki á skýringar kæranda á því hvers vegna hann hafi greint frá því í viðtölum í lok árs 2018 að hafa verið endursendur frá Noregi árið 2016 til heimaríkis og setið þar í fangelsi.
Að framangreindu virtu er mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.
Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi kom hingað til lands 24. september 2018 og sótti um alþjóðlega vernd samdægurs. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.
Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kæranda vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda.
Athygli er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.
Tómas Hrafn Sveinsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir