Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá alla helstu þjónustu á einum stað

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og Gylfi Þór Þorsteinsson við opnunina í dag.  - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, opnaði formlega í dag móttökumiðstöð á Egilsgötu 3 í Reykjavík, þar sem Domus Medica var áður til húsa, en þar fá umsækjendur um alþjóðlega vernd alla helstu þjónustu sem nauðsynleg er í fyrstu snertingu við komuna til landsins. Móttökumiðstöðin er ný þjónusta sem miðar fyrst og fremst að þörfum umsækjandans. Þar koma saman ólíkar stofnanir sem allar vinna saman með það að markmiði að taka sem best á móti því fólki sem hingað kemur á flótta og veita þeim skjóta og skilvirka þjónustu við komuna.

Í móttökumiðstöðinni sér lögreglan um skráningu og auðkenningu fólks, Útlendingastofnun tekur móttökuviðtöl, undirbýr fyrstu búsetu og í tilfelli umsækjenda frá Úkraínu afgreiðir stofnunin umsóknir þeirra samdægurs. Heilsugæslan framkvæmir fyrstu heilbrigðisskoðun og Fjölmenningarsetur gerir þarfagreiningu í tengslum við varanleg húsnæðisúrræði og miðlar jafnframt umsækjendum sem komnir eru með vernd í bráðabirgðahúsnæði.

Félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur skipað sérstakan framkvæmdahóp vegna komu einstaklinga á flótta frá Úkraínu og fer hópurinn með framkvæmd aðgerða og vinnur að skipulagningu á móttöku umsækjenda um vernd. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið réð Gylfa Þór Þorsteinsson, fyrrum forstöðumann farsóttarhúsanna, sem aðgerðarstjóra hópsins og sér hann um samræmingu verkefna hópsins auk þess sem hann verður í forsvari fyrir móttökumiðstöðina. Þá svarar Gylfi Þór fyrirspurnum fjölmiðla vegna málefna fólks á flótta frá Úkraínu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: „Opnun móttökumiðstöðvarinnar í dag er stórt og mikilvægt skref í þjónustu við fólk á flótta. Ég bind miklar vonir við að reynsla, þekking og samvinna allra þessara aðila þvert á stjórnkerfið, sem nú eru undir sama þaki, eigi eftir að skila okkur betri og öflugri þjónustu við hóp fólks í viðkvæmri stöðu.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta