Nýjar ráðleggingar um mataræði fyrir landsmenn
„Við þurfum að stefna að því að gera holla valkostinn að auðveldasta kostinum“ sagði Alma D. Möller heilbrigðisráðherra í ræðu hjá embætti landlæknis í dag þegar kynntar voru nýjar íslenskar ráðleggingar um mataræði. Slíkar ráðleggingar voru fyrst gefnar út árið 1986 en hafa síðan þá verið endurskoðaðar fjórum sinnum. Í nýju ráðleggingunum er aukin áhersla á grænmeti, ávexti og heilkornavörur, minna ráðlagt af rauðu kjöti en áður og sérstaklega varað við neyslu á unnum kjötvörum. Fjallað er um neyslu orkudrykkja í leiðbeininingunum sem er nýmæli og eru skilaboð embættisins skýr þess efnis að orkudrykkir séu ekki ætlaðir börnum og ungmennum yngri en 18 ára.
Mikil áhrif mataræðis á heilsu
Alma ræddi um tengsl mataræðis og lýðheilsu og hvað mataræði hafi mikil áhrif á heilsu fólks. Því væru opinberar og aðgengilegar ráðleggingar um mataræði sem byggja á gagnreyndum upplýsingum afar mikilvægar. Með ráðleggingunum værum við á einfaldan og skýran hátt minnt á að það skiptir máli hvað við borðum: „Ekki bara fyrir líkamlega og andlega heilsu okkar, heldur líka fyrir orku, líðan, einbeitingu – já, og jafnvel gleðina í daglegu lífi. Við þurfum að skapa samfélag þar sem hollur og góðour matur er sjálfsagður hluti dagsins og hann á að vera aðgengilegur, sýnilegur og girnilegur fyrir öll – ekki bara sum.“ Hún sagðist jafnframt vonast til að sá tími renni upp að holl matvara eins og ávexti og grænmeti verði ódýrari en það sem óhollt er.
Hún talaði líka um samverustundir fjölskyldu og vina yfir hollri máltíð og minnti á að góð fordæmi í þessum efnum móti börnin mest. „Þau gera ekki eins og við segjum, heldur það sem við gerum. Ef þau fá hollan og fjölbreyttan mat í leikskólanum, skólanum, íþróttahúsinu og heima þá verður það hluti af vana þeirra. Og við vitum að lengi býr að fyrstu gerð“.