Hoppa yfir valmynd
28. júní 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 383/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 28. júní 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 383/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU23040066 og KNU23040067

 

Kæra […], [...] og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 19. apríl 2023 kærðu einstaklingar er kveðast heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir K) og [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir M), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 19. apríl 2023, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kærenda og barna þeirra, [...], fd. [...], ríkisborgari Íraks (hér eftir A) og [...], fd. [...], ríkisborgari Íraks (hér eftir B), um alþjóðlega vernd á Íslandi og brottvísa þeim frá landinu. Var kærendum gert að yfirgefa landið án tafar ellegar sæta endurkomubanni í tvö ár.

Kærendur krefjast þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að taka umsóknir kærenda og barna þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar, aðallega á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 en til vara á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 42. gr. sömu laga. Til þrautavara er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kærenda og barna þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi til meðferðar á ný á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Þá krefjast kærendur þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann verði felldar niður.

Fyrrgreind ákvörðun sætti sjálfkrafa kæru samkvæmt 3. málsl. 7. gr. laga um útlendinga.

II.      Málsmeðferð

Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi 13. desember 2022. Við leit að fingraförum kærenda í Eurodac gagnagrunninum 14. desember 2022, kom í ljós að fingraför þeirra höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Grikklandi. Hinn 30. desember 2022 var beiðni um upplýsingar um stöðu kærenda beint til yfirvalda í Grikklandi, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá grískum yfirvöldum, dags. 2. janúar 2023, kom fram að kærendum og börnum þeirra hafi verið veitt viðbótarvernd 27. ágúst 2020 og hefðu gilt dvalarleyfi þar í landi til 26. ágúst 2023. Kærendur komu til viðtals hjá Útlendingastofnun 8. febrúar 2023, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Þá komu A og B til viðtals hjá Útlendingastofnun 13. febrúar 2023. Útlendingastofnun ákvað 19. apríl 2023 að taka umsóknir kærenda og barna þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað brott frá landinu með endurkomubanni til tveggja ára. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum 19. apríl 2023 og barst sjálfkrafa kæra á ákvörðunum Útlendingastofnunar sama dag til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kærenda barst kærunefnd 2. maí 2023.

III.      Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendum hafi verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi. Umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd yrðu því ekki teknar til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kærenda til Grikklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærendur hefðu ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsóknir kærenda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendum var brottvísað frá landinu, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Kærendum var ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Var skorað á kærendur að yfirgefa landið án tafar og athygli þeirra vakin á því að yfirgefi þau landið sjálfviljug yrði endurkomubannið fellt niður.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barnanna kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í málum foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, laga um útlendinga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum þeirra væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til Grikklands.

IV.      Málsástæður og rök kærenda

Kærendur vísa til viðtala sinna hjá Útlendingastofnun hvað málsatvik varðar. Kærendur greina frá því að þau hafi dvalið í Grikklandi frá því árið 2019. Kærendur hafi fengið alþjóðlega vernd þar í landi en dvalarleyfi þeirra sé að renna úr gildi í ágúst. Kærendur hafi lýst bágbornum aðstæðum í Grikklandi og eftir að þau hlutu alþjóðlega vernd hafi þeim reynst ómögulegt að fá húsnæði á leigu og því hafi þau dvalið í tjaldi hjá flóttamannabúðunum, án þess þó að njóta þjónustu þaðan. Kærendur og börn þeirra hafi ekki haft aðgang að drykkjarvatni eða salerni í flóttamannabúðunum. Þá hafi aðgengi kærenda að heilbrigðisþjónustu verið takmarkað. Kærendur hafi ítrekað reynt að skrá börn sín í skóla í Grikklandi án árangurs. Þá hafi M sætt ofbeldi af hálfu lögreglu í Grikklandi sem hafi endað á að rífa niður heimili fjölskyldunnar og þau hafi í kjölfarið flúið til Íslands. Þá hafi M glímt við alvarlegt þunglyndi og kvíða og eigi bókaðan tíma hjá sálfræðingi.

Kærendur byggja á því að hinar kærðu ákvarðanir hafi verið efnislega rangar og því beri að fella þær úr gildi, með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Kærendur vísa til þess að í stjórnsýsluframkvæmd feli orðalagið „muni eiga“ í framangreindu reglugerðarákvæði ekki í sér kröfu um afdráttarlausa sönnun þess að einstaklingur verði fyrir alvarlegri mismunun sem leiði til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar. Orðalagið geri kröfu um að tilteknar líkur verði á alvarlegri mismunun. Kærendur vísa til þess að þau séu í raunverulegri hættu á að verða fyrir mismunun eins og lýst sé í ákvæðinu. Kærendur telji jafnframt að Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað einstaklingsbundnar aðstæður sem þau hafi búið við í Grikklandi og bíði þeirra verði þau send þangað aftur. Útlendingastofnun hafi litið framhjá samhljóma frásögn kærenda af aðstæðum sínum í Grikklandi. Útlendingastofnun hafi einungis lagt til grundvallar opinberar upplýsingar frá Grikklandi og alþjóðlegar skýrslur um aðstæður einstaklinga með alþjóðlega vernd í Grikklandi. Stofnunin hafi ekki tekið tillit til raunverulegrar stöðu kærenda og hafi því brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Kærendur vísa til þess að þau hafi greint frá því að börn þeirra hafi ekki gengið í skóla í Grikklandi þrátt fyrir að þau hafi sóst eftir eftir því. Þau hafi ekki fengið viðbrögð við umsóknum sínum þrátt fyrir loforð þar um. Þá sé ekkert sem bendi til þess að þau hefðu fengið aðgengi að skóla í Grikklandi hefðu þau dvalið þar áfram. Þá vísa kærendur til þess, með hliðsjón af rökstuðningi kærunefndar útlendingamála í úrskurði nefndarinnar nr. 75/2023 frá 9. febrúar 2023, að ekkert í máli kærenda bendi til þess að hindranir á aðgengi barnanna að skóla megi rekja til Covid-19 faraldursins. Kærendur byggja á því að mat Útlendingastofnunar á aðgengi barna þeirra að menntun sé ófullnægjandi og ljóst sé að raunveruleg hætta sé til staðar að börnin verði fyrir mismunun vegna útilokunar á menntun. Brýnt sé að lagt verði raunverulegt mat á aðgengi þeirra að menntun og vísa kærendur til sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Íslenskum stjórnvöldum beri að setja það sem barni sé fyrir bestu í forgang þegar gerðar séu ráðstafanir varðandi börn, sbr. 1. mgr. 3. gr. samningsins. Auk þess vísa kærendur til rétt barnsins til menntunar sbr. 1. mgr. 28. gr. samningsins og skyldu stjórnvalda til að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja réttindi barna á flótta sbr. 1. mgr. 22. gr. samningsins.

Auk framangreinds vísa kærendur til þess að M hafi verið beittur ofbeldi af hálfu lögreglunnar í Grikklandi og tjald þeirra sem hafi verið heimili þeirra hafi verið rifið niður af lögreglu. Kærendur geti ekki leitað til lögreglu eða yfirvalda vegna þessa. Sú staðreynd að kærendur geti ekki treyst yfirvöldum og lögreglu í Grikklandi og leitað á náðir þeirra eins og aðrir borgarar landsins feli í sér alvarlega mismunun og geri stöðu þeirra verulega síðri en almennings. Þá hafi K orðið fyrir mismun og aðkasti vegna uppruna síns. Fjölskyldan hafi í reynd ekki haft aðgengi að heilbrigðisþjónustu, hreinu drykkjarvatni og rafmagni í Grikklandi. Þá telja kærendur að ómögulegt sé fyrir þau að fá atvinnu og finna húsnæði þar í landi. Af framangreindu sé ljóst að kærendur búi við mismunun og aðstæður þeirra séu hættulegar og ómannúðlegar. Aðstæður sem fjölskyldan hafi þurft að búa við í Grikklandi, og fyrirséð er að þau muni búa við verði þau endursend þangað, séu þess eðlis að brotið yrði gegn grundvallarskyldum sem íslensk stjórnvöld hafi undirgengist samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Til vara byggja kærendur á því að fella eigi hinar kærðu ákvarðanir úr gildi þar sem Útlendingastofnun hafi ekki lagt rétt mat á aðstæður í Grikklandi með hliðsjón af grundvallarreglunni um bann við endursendingum (non-refoulment), samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 42. gr. sömu laga. Kærendur vísa m.a. til þess að M hafi mátt þola ofbeldi af hálfu lögreglu og kærendur hafi mátt sæta mismunun og fordómum vegna trúarbragða. Þá sé fyrirséð að þau geti ekki fengið húsnæði eða atvinnu. Auk þess hafi þau ekki haft aðgang að hreinu drykkjarvatni eða rafmagni. Því kunni flutningur þeirra til Grikklands að fela í sér brot gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Kærendur byggja á því til þrautavara að meðferð Útlendingastofnunar byggi á ófullnægjandi rannsókn á raunverulegum aðstæðum þeirra. Því beri að fella hinar kærðu ákvarðanir úr gildi og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir þeirra og barna þeirra til meðferðar á ný á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Þá krefjast kærendur ógildingar á ákvörðunum Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann enda hafi ekki verið tekin rökstudd afstaða til andmæla kærenda. Kærendum hafi verið gefin kostur á að tjá sig um hvort þau töldu brottvísun og endurkomubann fela í sér ósanngjarna ráðstöfun. Kærendur hafi komið andmælum á framfæri en Útlendingastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að brottvísa bæri kærendum með endurkomubanni, án þess að víkja að því hvort slíkt fæli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kærendum. Ekki hafi verið tekin efnisleg afstaða til andmæla kærenda og engin rökstuðningur hafi verið settur fram í ákvörðunum Útlendingastofnunar. Slíkt brjóti í bága við 10. og 21. gr. stjórnsýslulaga. Af þeim ástæðum sé þess krafist að ákvarðanir um brottvísun og endurkomubann verði felldar úr gildi.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Aðstæður kærenda og barns þeirra

Samkvæmt gögnum málsins eru kærendur par á [...] sem eru stödd hér á landi ásamt tveimur börnum sínum sem eru [...] og [...] ára. Samkvæmt gögnum málsins lögðu kærendur og börn þeirra fram umsóknir um alþjóðlega vernd í Grikklandi 12. júní 2020 og hlutu hana í ágúst 2020. Kærendur hafi dvalið Í Grikklandi þar til þau hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi í desember 2022. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindu kærendur frá því að þau hafi búið í tjaldi eftir að þau hafi hlotið alþjóðlega vernd og ekki haft aðgang að hreinu vatni eða rafmagni. Þá hafi kærendur ekki fengið fjárhagsaðstoð og takmarkaða heilbrigðisaðstoð í Grikklandi. Kærendur greindu frá því að þau hefðu almannatrygginga- og skattnúmer í Grikklandi en hafi ekki fengið atvinnu. Kærendur hafi reynt að skrá börnin sín í skóla án árangurs. Þá greindu kærendur frá því að þau hafi mátt þola kynþáttafordóma og mismunun í Grikklandi og M hafi orði fyrir ofbeldi af hálfu lögreglunnar. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi K frá því að hún væri með ofnæmi í augum og að henni liði illa andlega. Þá gefa gögn málsins til kynna að M glími við andleg heilsufars- og svefnvandamál. Kærendur greindu frá því að B væri með tannsjúkdóm og A hafi verið með verk í eyrum.

Réttarstaða barna kærenda

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skuli það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn málanna og af þeim verður ekki annað ráðið en að hagsmunum barnanna sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða þeirra verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Börnin er í fylgd foreldra sinna og verður því tekin afstaða til mála þeirra í einum úrskurði.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b-, c- og d-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd í öðru ríki.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málanna var kærendum og börnum þeirra veitt viðbótarvernd í Grikklandi 27. ágúst 2020 og eru með gilt dvalarleyfi til 26. ágúst 2023. Að mati kærunefndar telst sú vernd sem kærendur og börn þeirra njóta í Grikklandi virk alþjóðleg vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð vísa kærendur til þess að dvalarleyfi þeirra sé að renna út fljótlega. Líkt og fjallað verður ítarlegar um hér á eftir, með vísan til alþjóðlegra skýrslna, geta handhafar viðbótarverndar endurnýjað dvalarleyfi sín til tveggja ára. Sækja skal um endurnýjun dvalarleyfis ekki seinna en 30 dögum áður en dvalarleyfi rennur út og er mögulegt að sækja um endurnýjun með tölvubréfi. Endurnýjun dvalarleyfa getur tekið allt að níu mánuði og finna má dæmi þess að endurnýjun hafi tekið enn lengri tíma. Handhafar alþjóðlegrar verndar eiga rétt á því að fá útgefið vottorð sem gefur til kynna að þeir hafi sótt um endurnýjun og gildir það í þrjá mánuði. Þó eru dæmi þess að handhafar slíks vottorðs hafi átt í erfiðleikum með að nálgast tiltekin félagsleg réttindi.

Aðstæður í Grikklandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Grikklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2022 – Country Reports on Human Rights Practices – Greece (United States Department of State, 20. mars 2023);
  • Amnesty International Report 2022/23 – The State of the World’s Human Rights (Amnesty International, 27. mars 2023);

  • Annual report 2020 (The Greek Ombudsman Independent Authority, 31. desember 2020);
  • Asylum Information Database, Country Report: Greece (European Council on Refugees and Exiles, 8. júní 2023);
  • Beneficiaries of international protection in Greece – Access to documents and socio-economic rights (Refugee Support Aegean, mars 2023);
  • Commissioner for Human Rights: Report of the Commissioner for Human Rights of the Council of Europe, Dunja Mijatovic, following her visit to Greece from 25 to 29 June 2018 (Council of Europe, 6. nóvember 2018);
  • EU/Greece: Pressure to Minimize Number of Migrants Identified as ´vulnerable´ (Human Rights Watch, 1. júní 2017);
  • Excluded and segregated – The vanishing education of refugee children in Greece (Refugee Support Aegean, 13. apríl 2021)

  • Freedom in the World 2023 – Greece (Freedom House, mars 2023);
  • Growing up in lockdown: Europe´s children in the age of Covid-19 – Eurochild report (Eurochild, nóvember 2020);
  • Migration Flows and Refugee Protection – Administrative challenges and human rights issues (The Greek Ombudsman, apríl 2017);
  • Petition to the European Parliament – Regarding degrading reception conditions and EU funding in Greece (Solidarity Now, mars 2017);
  • Report on the Living Conditions of Beneficiaries of International Protection in Greece (Passerell, nóvember 2020);
  • Reports of the Special Rapporteur on the human rights of migrants on his mission to Greece, (United Nations, General Assembly, 24. apríl 2017);

  • State of the World‘s Minorities and Indigenous Peoples 2016 – Greece (Minority Rights Group International, 12. júlí 2016);
  • Upplýsingar af vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal): https://e-justice.europa.eu;
  • Upplýsingar af vefsíðu Eurochild (http://eurochild.org);

  • Upplýsingar af vefsíðu Doctors of the World (https://mdmgreece.gr/);
  • Upplýsingasíða Refugee Info Greece (http://refugee.info/greece/) og
  • World Report 2023 – Events of 2022 (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).

Grikkland er eitt af aðildarríkjum Evrópusambandsins og því bundið af reglum sambandsins við málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd, t.a.m. tilskipunum sambandsins um meðferð umsókna um alþjóðlega vernd nr. 2013/32/EU, um móttökuaðstæður nr. 2013/33/EU og um lágmarksviðmið til þess að teljast flóttamaður nr. 2011/95/EU. Þá hefur Grikkland verið aðili að Evrópuráðinu frá 9. ágúst 1949 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1953. Grikkland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri illri og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð 6. október 1988 og fullgilti samninga Sameinuðu þjóðanna um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi árið 1997 og efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1985 og barnasáttmálann árið 1993. Þá gerðist ríkið aðili að Flóttamannasamningnum 5. apríl 1960.

Af framangreindum gögnum verður ráðið að grísk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur meðal annars bent á þau neikvæðu áhrif sem efnahagsástand í Grikklandi hafi haft á aðstæður einstaklinga sem hlotið hafi vernd þar í landi og möguleika þeirra á að aðlagast grísku samfélagi. Að mati kærunefndar er ljóst af framangreindum gögnum að þeir einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi lifa oft á jaðri samfélagsins og búi í sumum tilvikum við félagslega einangrun. Einstaklingar með alþjóðlega vernd eiga hins vegar sambærilegan rétt til félagslegrar aðstoðar og grískir ríkisborgarar og í dvalarleyfi þeirra felst jafnframt aðgangur að vinnumarkaði. Þá veita frjáls félagasamtök einstaklingum með alþjóðlega vernd aðstoð við að kynna sér réttindi sín í Grikklandi.

Samkvæmt skýrslum European Council on Refugees and Exciles (ECRE) frá júní 2023 og Passerell frá nóvember 2020 eiga einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu með sömu skilyrðum og grískir ríkisborgarar, þ. á m. nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu og lyfjum. Samkvæmt fyrrnefndri skýrslu hefur bág fjárhagsstaða gríska ríkisins haft mikil áhrif á heilbrigðiskerfi landsins og hefur kostnaðarþátttaka almennings aukist við kaup á lyfjum og þjónustu. Þannig geti verið vandkvæðum bundið að sækja sér heilbrigðisþjónustu þar í landi og þá sérstaklega sérhæfða heilbrigðisþjónustu, m.a. vegna skorts á fjármagni og starfsfólki. Þetta eigi jafnt við um alla borgara Grikklands, bæði gríska ríkisborgara og aðra sem hafi rétt til dvalar í ríkinu. Auk þess hafi útgáfa almannatrygginganúmera (AMKA) falið í sér hindranir fyrir einstaklinga með alþjóðlega vernd við að afla sér heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt upplýsingasíðu Refugee Info Greece fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og handhafa verndar í Grikklandi, sem veitir upplýsingar á grísku, arabísku, farsi, urdu, frönsku, lingala/bantu, norður-kúrdísku og ensku, hafi allir umsækjendur um alþjóðlega vernd fengið svokallað AMKA eða almannatrygginganúmer sem veitti þeim m.a. aðgang að heilbrigðiskerfinu. Í janúar 2020 hafi skilyrði fyrir útgáfu almannatrygginganúmera breyst og fái umsækjendur um alþjóðlega vernd nú útgefin tímabundin almannatrygginga- og heilbrigðisþjónustunúmer (PAAYPA), meðan þeir sem hlotið hafa alþjóðlega vernd fái útgefið varanlegt almannatrygginganúmer. Þegar umsækjanda sé veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi verði almannatrygginga- og heilbrigðisþjónustunúmerið óvirkt mánuði eftir að viðkomandi hljóti dvalarleyfi. Einstaklingar geti þá í kjölfarið sótt um varanlegt almannatrygginganúmer í næstu þjónustumiðstöð. Til að sækja um slíkt númer þurfi einstaklingar að framvísa dvalarleyfi eða ferðaskilríkjum og staðfestingu á heimilisfangi. Til að fá varanlegt almannatrygginganúmer gefið út sé nægilegt að sýna fram á heimilisfang í búðum eða í gistiskýli. Þá segir á upplýsingasíðunni að samkvæmt gildandi löggjöf séu allir aðilar í hinum opinbera heilbrigðisgeira skyldugir til að veita öllum fyrstu hjálp þegar nauðsyn beri til. Allir eigi rétt á að leita til sjúkrahúsa og fá ókeypis læknisþjónustu og lyf sem þeir þarfnist þrátt fyrir að viðkomandi hafi hvorki PAAYPA eða AMKA númer. Á upplýsingasíðunni er unnt að eiga í samskiptum við þjónustufulltrúa á netspjalli í gegnum Facebook á áðurgreindum tungumálum. Á upplýsingasíðunni er einnig hægt að nálgast skjal á grísku sem hlaða má niður þar sem þessi réttur til þjónustu fyrir alla er útskýrður.

Í skýrslu ECRE kemur fram að samkvæmt grískum lögum sé skólaskylda fyrir börn með alþjóðlega vernd í Grikklandi á grunnskólaaldri. Í skýrslu Refugee Support Aegean (RSA) kemur fram að Covid-19 faraldurinn hafi haft neikvæð áhrif á menntun flóttabarna. Mörg börn hafi ekki náð að sækja skóla í meira en ár auk þess sem það hafi verið erfiðleikum bundið að skrá sig til náms. Jafnframt eigi stór hluti flóttabarna í erfiðleikum með fjarnám vegna tungumálaerfiðleika og skorts á nauðsynlegum búnaði. Árið 2022 gaf Grikkland út aðgerðabaráætlun til þess að bregðast við tilmælum frá European Child Guarantee sem hefur það að markmiði að hvert barn í Evrópu í hættu á fátækt eða félagslegri einangrun hafi aðgengi að grunnréttindum eins og heilbrigðisþjónustu og menntun. Gríska aðgerðaráætlun felur m.a. í sér aðgerðir gagnvart börnum til þess að tryggja aðgengi þeirra að ungbarnamenntun og umönnun, menntun á skólastigi, heilsugæslu, heilbrigðu matarræði og fullnægjandi húsnæði.

Í skýrslu ECRE kemur fram að aðgengi einstaklinga með alþjóðlega vernd í Grikklandi að húsnæði sé háð sömu skilyrðum og takmörkunum og aðgengi annarra ríkisborgara þriðju ríkja með heimild til dvalar í Grikklandi. Fá gistiskýli séu í boði fyrir heimilislausa auk þess sem ekkert húsnæði sé til staðar sem einungis sé ætlað einstaklingum með alþjóðlega vernd. Erfitt geti reynst að fá pláss í gistiskýlum þar sem aðsóknin sé mikil og dæmi séu um að einstaklingar með alþjóðlega vernd hafist við í yfirgefnum húsum og yfirfullum íbúðum við mjög bágar aðstæður. Eigi þetta einnig við um einstaklinga sem hafi verið sendir aftur til Grikklands frá öðrum Evrópuríkjum. Þá hafi í mars 2020 verið gerðar breytingar á útlendingalöggjöfinni í Grikklandi sem kveði á um að þegar ákvörðun um að veita alþjóðlega vernd liggi fyrir skuli draga úr fjár- og húsnæðisstuðningi. Handhöfum alþjóðlegrar verndar sem dvelji í úrræðum innan hins svokallaða ESTIA kerfi eða öðrum úrræðum, þar með talið hótelum og íbúðum, sé skylt að yfirgefa þau innan 30 daga eftir að hafa hlotið alþjóðlega vernd. Þó séu undantekningar frá þessari reglu, sérstaklega þegar um sé að ræða fólk sem glími við alvarlegan heilsubrest. Í skýrslu Passerell kemur fram að félagasamtök bjóði upp á gistiúrræði fyrir einstaklinga með alþjóðlega vernd í Grikklandi en langur biðlisti sé eftir plássi þar og barnafjölskyldur og einstaklingar í viðkvæmri stöðu gangi fyrir.

Þá kemur fram í skýrslu ECRE að einstaklingar með alþjóðlega vernd eigi sambærilegan rétt á félagslegri aðstoð og grískir ríkisborgarar. Þær félagslegu bætur sem í boði séu í Grikklandi séu t.d. bætur fyrir fjölskyldur en skilyrði fyrir slíkum bótum sé að sýnt sé fram á fimm ára óslitna og varanlega búsetu í Grikklandi. Þá veiti grísk yfirvöld einstaklingum, m.a. handhöfum alþjóðlegrar verndar, sem búi undir fátæktarmörkum fjárhagsaðstoð í formi mánaðarlegra greiðslna, svokallaðan KEA styrk. Samkvæmt upplýsingasíðu fyrir flóttafólk þurfa einstaklingar sem hyggist nýta sér úrræðið að uppfylla ýmis skilyrði; þeir þurfi m.a. að hafa almannatrygginganúmer, skattnúmer (AFM), gilt dvalarleyfi og bankareikning. Þá þurfi þeir að leggja fram ýmis gögn, m.a. framvísa leigusamningi í þeim tilvikum þegar þeir búi í leiguhúsnæði og í tilviki heimilislausra einstaklinga þurfi þeir að framvísa vottorði um heimilisleysi frá gistiskýlinu eða sveitarfélaginu þar sem þeir búi. Samkvæmt skýrslu ECRE er erfitt að uppfylla skilyrðin. Þá séu í reynd engir aðrir framfærslustyrkir en KEA í boði. Jafnframt séu engin sérúrræði til staðar varðandi félagsþjónustu fyrir fólk í viðkvæmri stöðu, s.s. þolendur pyndinga. Þá sé félagsleg aðstoð ekki bundin við búsetu á tilteknum stað.

Samkvæmt skýrslum ECRE og Passerell hafa einstaklingar með alþjóðlega vernd aðgang að atvinnumarkaðnum með sömu skilyrðum og ríkisborgarar Grikklands. Ekki sé þörf á sérstöku atvinnuleyfi. Atvinnuleysi sé hins vegar mikið í landinu og samkeppni við grískumælandi einstaklinga og erfiðleikar við að fá skattnúmer (AFM) útgefið dragi úr atvinnumöguleikum handhafa alþjóðlegrar verndar. Þessir erfiðleikar við að sækja sér atvinnu hafi leitt til þess að einstaklingar reyni að afla sér tekna með óformlegum og jafnvel ólöglegum leiðum sem hindri þar með aðlögun þeirra að samfélaginu. Þeir einstaklingar sem ekki starfi innan hins hefðbundna atvinnumarkaðar hafi ekki aðgang að almannatryggingakerfinu og vinni sér ekki inn atvinnutengd réttindi, s.s. atvinnuleysisbætur. Mikill meirihluti einstaklinga með alþjóðlega vernd og umsækjendur um vernd reiði sig því á fjárhagsaðstoð og dreifingu matvæla og muna af hálfu stjórnvalda og mannúðarsamtaka til þess að uppfylla grunnþarfir sínar. Í skýrslu ECRE kemur fram að einstaklingar með alþjóðlega vernd hafi mætt erfiðleikum við að fá útgefið skattnúmer hjá grískum stjórnvöldum. Útgáfa skattnúmers sé grundvöllur þess að geta lifað og starfað löglega í Grikklandi og þess að einstaklingar geti sótt aðstoð og réttindi hjá grískum stjórnvöldum. Skattnúmerið sé forsenda þess að geta sótt um félagslega aðstoð, til að vinna hvort sem er sem starfsmaður hjá öðrum eða að hefja eigin rekstur, og til þess að gera samninga um leigu á húsnæði.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022 kemur fram að dæmi séu um að flóttafólk sé beitt ofbeldi, þ. á m. af hendi grísku lögreglunnar. Þá hafi borið á kvörtunum óskráðra innflytjenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd um ofbeldi við brottvísunaraðgerðir (e. pushbacks) grískra yfirvalda við landamærin. Þá kemur fram að þarlend lög og stjórnarskrá leggi bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Enn fremur séu ofbeldisbrot rannsökuð af grísku lögreglunni en embætti umboðsmanns rannsaki meint brot lögreglu. Af framangreindri skýrslu verður ráðið að ýmsir annmarkar séu á dómskerfi landsins en sjálfstæði dómstóla sé tryggt í framkvæmd, svo og réttindi brotaþola og sakborninga. Þá kemur fram að grísk stjórnvöld hafi tekið skref í átt að því að rannsaka, lögsækja og refsa opinberum starfsmönnum sem hafi gerst sekir um mannréttindabrot eða spillingu. Hins vegar hafi frjáls félagasamtök og alþjóðastofnanir gagnrýnt stjórnvöld fyrir skort á rannsókn og öðrum aðgerðum vegna ásakana um ofbeldi og illa meðferð lögreglu við brottvísunaraðgerðir á umsækjendum um alþjóðlega vernd frá Grikklandi . Fram kemur í skýrslunni að 20. júlí 2022 hafi verið samþykkt lagabreyting sem hafi sett á fót sérstakt embætti innan ráðuneytisins um fólksflutninga og alþjóðlega vernd (e. Minstry of Migration and Asylum) til að hafa eftirlit með vernd mannréttinda við málsmeðferðir umsókna um alþjóðlega vernd. Með breytingunni hafi jafnframt verið innleitt verklag um að vísa kvörtunum til stofnunarinnar (e. National Transparency Authority, NTA) og þá hafi verið stofnuð sérstök nefnd innan ráðuneytisins sem hefur það hlutverk að tryggja að grundvallarréttindi séu virt og að samræmis sé gætt á milli innlendra laga og reglugerða og tilskipana Evrópusambandsins um landmæravernd. Þá kemur fram í vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal) að útlendingar í Grikklandi sem séu þolendur glæpa og tali hvorki né skilji grísku eigi rétt á túlkaþjónustu og upplýsingum um mál þeirra á tungumáli sem þeir skilji.

Í skýrslu ECRE kemur fram að handhöfum alþjóðlegrar verndar í Grikklandi sé fyrst veitt dvalarleyfi (ADET) til þriggja ára sem hægt sé að endurnýja með umsókn eftir þann tíma. Einstaklingar sem hafa hlotið viðbótarvernd fái nú aðeins dvalarleyfi til eins árs sem sé hægt að endurnýja að þeim tíma liðnum til tveggja ára. Þá kemur fram að umsókn um endurnýjun dvalarleyfis skuli fara fram ekki seinna en 30 dögum áður en leyfið rennur út. Þrátt fyrir að umsókn um endurnýjun dvalarleyfis berist of seint kemur fram að það eitt og sér hafi ekki í för með sér að umsókninni verði synjað. Frá árinu 2017 hefur umsókn um endurnýjun farið fram í gegnum tölvubréf. Þeir einstaklingar sem ekki hafa aðgang að tölvu eða eru ólæsir hafa því mætt hindrunum við að fá endurnýjun á dvalarleyfum sínum. Þá kemur fram í skýrslunni að langur biðtími sé eftir endurnýjun dvalarleyfa og það geti tekið níu mánuði, þó dæmi séu um að endurnýjun hafi tekið lengri tíma, m.a. vegna Covid-19. Við endurnýjun fari fram skoðun á sakaskrá einstaklingsins. Ef dvalarleyfi renni út á meðan einstaklingur bíður eftir endurnýjun eigi hann rétt á að fá útgefið vottorð sem gefi til kynna að hann hafi sótt um endurnýjun og gildir í þrjá mánuði. Dæmi eru þó um að handhafar slíks vottorðs hafi átt í erfiðleikum með að nálgast tiltekin félagsleg réttindi eins og fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera. Þá sé vinnumálastofnun Grikklands (e. Manpower Employment Organization) gjarnan treg til að taka á móti slíkum vottorðum þar sem vottorðin séu m.a. án myndar af einstaklingnum og ekki vatnsmerkt.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga verður því aðeins beitt ef stjórnvöld telja, á grundvelli hlutlægra og trúverðugra upplýsinga sem eru nægilega nákvæmar og uppfærðar eftir því sem við á, að skilyrði þess séu uppfyllt. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. er til viðbótar þeirri vernd sem 3. mgr. 36. gr. veitir umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Á grundvelli 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga setti ráðherra reglugerð nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, en með henni bættust tvær greinar, 32. gr. a og 32. gr. b, við reglugerðina. Í 32. gr. a reglugerðarinnar kemur fram að með sérstökum ástæðum samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan. Þá eru í ákvæðinu jafnframt talin upp viðmið í dæmaskyni sem leggja skuli til grundvallar við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi en þau viðmið varða aðallega alvarlega mismunun eða alvarleg veikindi. Þar sem tilvikin eru talin upp í dæmaskyni geta aðrar aðstæður, sambærilegar í eðli sínu og af svipuðu alvarleikastigi, haft vægi við ákvörðun um hvort sérstakar ástæður séu til að taka mál umsækjanda til efnismeðferðar hér á landi, svo framarlega sem slíkar aðstæður séu ekki sérstaklega undanskildar, sbr. 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar skal líta til þess hvort umsækjandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, svo sem ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki. Kærunefnd telur að orðalagið „muni eiga“ feli ekki í sér kröfu um afdráttarlausa sönnun þess að umsækjandi verði fyrir alvarlegri mismunun sem leiði til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar. Orðalagið gerir þó kröfu um að tilteknar líkur verði að vera á alvarlegri mismunun, þ.e. að sýna verður fram á að umsækjandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir mismunun af þeim toga, með þeim afleiðingum, og af því alvarleikastigi sem ákvæðið lýsir en að ekki sé nægilegt að aðeins sé um að ræða möguleika á slíkri mismunun. Af því leiðir að þó svo að dæmi séu um að einstaklingar í sambærilegri stöðu og umsækjandi í viðtökuríki hafi orðið fyrir alvarlegri mismunun af þeim toga sem 32. gr. a reglugerðar um útlendinga mælir fyrir um telst umsækjandi ekki sjálfkrafa eiga slíkt á hættu heldur þarf að sýna fram á að verulegar ástæður séu til að ætla að umsækjandi, eða einstaklingur í sambærilegri stöðu og umsækjandi, verði fyrir slíkri meðferð.

Þá skal líta til þess hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Í reglugerðinni kemur fram að meðferð teljist, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur sé átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í viðtökuríkinu en umsækjanda muni ekki standa hún til boða. Við mat á því hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi lítur kærunefnd m.a. til heilsufarsgagna málsins og hlutlægra og trúverðugra gagna um hvort sú heilbrigðisþjónusta sem hann þarfnast sé honum aðgengileg í viðtökuríki.

Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar hefur heilsufar umsækjanda takmarkað vægi umfram það sem leiðir af 2. mgr. 32. gr. a, nema það teljist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði fram hjá þeim litið. Þá tekur 3. mgr. 32. gr. a af tvímæli um það að efnahagslegar ástæður geta ekki talist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Slíkar aðstæður gætu þó fallið undir 3. mgr. 36. gr. nái þær því alvarleikastigi sem við á, sbr. umfjöllun hér í framhaldinu.

Kærendur eru par á [...] sem eru stödd hér á landi ásamt börnum sínum á aldrinum [...] og [...] ára. K greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 8. febrúar 2023, að hún væri með ofnæmi í augum fyrir ryki og ilmvatni. K líði illa andlega vegna aðstæðna sem hún hafi búið við og sé hrædd um fjölskyldu sína. M greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 8. febrúar 2023, að hann sé með verk í höfði, baki og á fleiri stöðum eftir ofbeldi sem hann hafi mátt þola í heimaríki. Þá eigi hann erfitt með andadrátt og hafi fengið hjartalyf hjá lækni hér á landi. M greindi jafnframt frá því að honum líði illa andlega vegna þess sem hann hafi upplifað. Í samskiptaseðli frá sálfræðingi hjá Göngudeild sóttvarna, dags. 1. og 8. mars 2023, kemur m.a. fram að M hafi gengið í gegnum margt og eigi erfitt með að finna öruggt umhverfi og lifi í ótta um fjölskyldu sína. Niðurstöður úr skimunarprófi bendi til þess að M sé með alvarlegan kvíða og einkenni þunglyndis og sé ráðlögð læknismeðferð. M sé þó ekki með sjálfsvígshugsanir og vilji gera allt fyrir fjölskyldu sína. Samkvæmt gögnum frá heimilislækni á Göngudeild sóttvarna, dags. 8. mars 2023, var kæranda ávísað róandi/svefn lyfi. Í gögnum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 17. mars 2023, kemur fram að M hafi komið í eftirlit vegna svefnleysis. M hafi fengið aukaverkanir vegna lyfjanotkunar og hafi verið ráðlagt að hætta inntöku. Þá kemur fram að M hafi orðið fyrir líkamsárás 2019 og hafi verið særður undir holhönd. M sé með langtíma taugaverk í vinstri framhandlegg og hönd, mest yfir vinstri þumalfingri. M hafi verið ávísað lyfi. Í samskiptaseðli frá sálfræðingi sama dag kemur fram að M upplifi næturtrylling (e. night terror) og endurteknar martraðir og honum séu veittar ráðleggingar um öndun. Samkvæmt gögnum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 20. mars 2023, kemur fram að M hafi fengið ávísað lyfi sem honum líði illa af. M hafi jafnframt greint frá því að vera með höfuðverk. M sé ráðlagt að taka verkjalyf og sé settur á biðlista eftir læknatíma. Samkvæmt gögnum frá sálfræðingi á Göngudeild sóttvarna, dags. 23. mars 2023, kemur m.a. fram að M sé með einkenni áfallastreituröskunar. M upplifi ótta, óöryggi, viðkvæmni og ósanngirni vegna aðstæðna sinna. Aðstæður barna M taki sérstaklega á hann einkum varðandi skóla, tannvandamála og samskipta við stofnanir.

Í viðtali við A hjá Útlendingastofnun, dags. 13. febrúar 2023, greindi A frá því að hún hefði það ágætt. Þá greindu foreldrar A frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að A væri hraust en hafi kvartað undir verk í eyrum og hafi fengið dropa vegna þess. Í viðtali við B hjá Útlendingastofnun, dags. 13. febrúar 2023, greindi B frá því að honum væri illt í hálsi og munni. Í frásögn foreldra B í viðtölum hjá Útlendingastofnun, dags. 8. febrúar 2023, kemur fram B líði ekki vel andlega og líkamlega. Hann sé með tannsjúkdóm, bólgu í hálsi og kvarti undan höfuðverk. Þá greindu kærendur frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að þau og börnin þeirra hafi verið með kláðasjúkdóm við komuna til landsins en þau hefðu fengið lyf við honum. Í málunum liggja fyrir læknisvottorð frá Göngudeild sóttvarna, dags. 3. mars 2023, þar sem fram kemur að læknisskoðun hafi farið fram í samræmi við ákvæði sóttvarnalaga.

Kærunefnd tekur fram að kærendum var leiðbeint í viðtali hjá Útlendingastofnun 8. febrúar 2023, um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem kærendur teldu hafa þýðingu fyrir mál sitt, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð máls þeirra hjá Útlendingastofnun. Þá var kærendum, sem njóta aðstoðar löglærðs talsmanns, jafnframt leiðbeint með tölvubréfi kærunefndar, dags. 19. apríl 2023, um framlagningu frekari gagna í málinu. Engin frekari gögn hafa borist. Með vísan til fyrrgreindrar málsmeðferðar og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu telur kærunefnd að mál kærenda séu nægjanlega upplýst hvað varðar heilsufar kærenda og barna þeirra og aðra þætti varðandi einstaklingsbundnar aðstæður þeirra. Þá er ekkert sem bendir til þess að frekari gögn um heilsufar þeirra geti haft áhrif á niðurstöðu málsins.

Kærunefnd telur að gögn málsins beri ekki með sér að heilsufar kærenda og barna þeirra sé með þeim hætti að þau teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, eins og segir í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar. Í því sambandi er sérstaklega vísað til þess að meðferð telst að jafnaði ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana, sbr. 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Að mati kærunefndar er heilsufar kærenda og barna þeirra ekki þess eðlis að ástæða sé til að víkja frá þessari meginreglu. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Grikklandi verður ráðið að kærendur og börn þeirra hafi aðgang að grunnheilbrigðisþjónustu þar í landi en eins og áður hefur verið rakið eiga einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi að lögum sambærilegan rétt á heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu og lyfjum, og ríkisborgarar Grikklands þó að þeir þurfi í einhverjum tilvikum að yfirstíga ákveðnar hindranir til að nýta rétt sinn. Telur kærunefnd því að aðstæður kærenda og barna þeirra tengdar heilsufari séu ekki þess eðlis að þær teljist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá telur nefndin að heilbrigðisaðstæður kærenda og barna þeirra geti ekki talist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Þá hafa kærendur greint frá því að þau hafi haft aðgang að heilbrigðiskerfinu í Grikklandi en þau hafi í einhverjum tilvikum þurft að óska eftir leyfi til að leita á spítala. Þá kvað K í viðtali að hún hafi ekki leitast eftir heilbrigðisþjónustu eftir að hafa hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi.

Kærendur hafa jafnframt borið fyrir sig að hafa ekki fengið húsnæðis-, fjárhags- eða félagslega aðstoð frá grískum yfirvöldum. Við meðferð málsins hafa kærendur jafnframt lagt fram ljósmyndir sem þau kveða vera af aðstæðum sínum í flóttamannabúðunum þar sem þau bjuggu. Í framangreindum skýrslum og gögnum um aðstæður í Grikklandi kemur fram að einstaklingar með alþjóðlega vernd þar í landi hafi heimild til að stunda atvinnu, hafi aðgang að húsnæðismarkaðnum og eigi sambærilegan rétt á félagslegri aðstoð og grískir ríkisborgarar þó að þeir þurfi í einhverjum tilvikum að yfirstíga ákveðnar hindranir til að sækja þá þjónustu, eins og áður sagði. Þótt skýrslur um aðstæður í Grikklandi bendi til þess að aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar þar séu um margt lakari en aðstæður þeirra hér á landi, m.a. m.t.t. inntaks félagslegrar aðstoðar og aðgangs að félagslegum húsnæðisúrræðum, er það mat nefndarinnar að almennar aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar í Grikklandi séu ekki þess eðlis að þær, einar og sér, teljist til sérstakra ástæðna. Í því sambandi hefur nefndin jafnframt litið til þess sem fram kemur í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga að efnahagslegar ástæður geti ekki talist til sérstakra ástæðna. Þá er það mat kærunefndar að aðstæður kærenda séu ekki slíkar að þau geti ekki borið sig eftir þeirri þjónustu og aðstoð sem þau eiga að lögum rétt á og þurfa á að halda í Grikklandi. Líkt og komið hefur fram eiga handhafar alþjóðlegar verndar í Grikklandi sem búa undir fátæktarmörkum m.a. rétt á fjárhagsaðstoð í formi mánaðarlegra greiðslna. Skilyrði fyrir styrknum er m.a. að framvísa leigusamningi eða í tilviki heimilislausra, vottorði um heimilisleysi frá gistiskýli eða sveitarfélagi. Í úrskurðum kærunefndar frá 25. mars 2020 í málum nr. KNU19090042 og KNU20020034, KNU19110022 og KNU19110023 og KNU19110050 og KNU19110051 er fjallað um skattnúmer í Grikklandi. Skattnúmer er nauðsynlegt til þess að starfa löglega í landinu, sækja um félagslegar bætur og gera leigusamning um húsnæði. Það er því grunnforsenda þess að geta framfleytt sér löglega í Grikklandi. Í því máli sem hér er til meðferðar eru kærendur að mestu heilbrigð og vinnufær og hafa greint frá því að hafa almannatrygginga- og skattnúmer. Kærunefnd telur ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar að þau séu fær um að sækja sér þá þjónustu sem þau þurfi á að halda í viðtökuríki, þrátt fyrir þær aðgangshindranir sem geti verið til staðar.

Kærendur hafa jafnframt borið fyrir sig að þau hafi mátt þola kynþáttafordóma, ofbeldi og mismunun í Grikklandi, m.a. af hendi lögreglu. Lögreglan hafi beitt M ofbeldi og rifið niður tjaldið þeirra. Við meðferð málsins hafa kærendur lagt fram ljósmyndir af ákverkum M. Af framangreindum gögnum má ráða að flóttafólk hafi orðið fyrir fordómum og ofbeldi í Grikklandi. Má jafnframt ráða af fyrirliggjandi gögnum að óttist kærendur um öryggi sitt geti þau leitað til lögregluyfirvalda eða annarra þar til bærra stjórnvalda sökum þess.  Þá bera framangreind gögn með sér að kærandi geti lagt fram kvörtun um meint ofbeldi af hálfu lögreglu til umboðsmanns Grikklands þar sem slík brot eru rannsökuð. Þá telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að kærendur muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, s.s. ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða að þau vænst þess að staða þeirra, í ljósi sömu ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Kærendur hafa ekki sýnt fram á að aðstæður þeirra í viðtökuríki séu slíkar að önnur viðmið tengd alvarlegri mismunun, sambærileg þeim sem 32. gr. a reglugerðarinnar lýsir, leiði til þess að taka beri umsóknir kærenda til efnismeðferðar hér á landi.

Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga koma fram sérviðmið er varða börn og ungmenni. Þar segir m.a. að við mat á því hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna skuli hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi. Þá segir að við mat á hagsmunum barns skuli meðal annars að líta til þess hvort flutningur til viðtökuríkis hafi í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist eða muni aðskiljast. Líkt og að framan er rakið eru kærendur og börn þeirra handhafar alþjóðlegrar verndar í Grikklandi. Það er mat kærunefndar á grundvelli framangreinda upplýsinga um aðstæður í Grikklandi og gagna málanna að flutningur kærenda og barna þeirra til Grikklands muni ekki hafa í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist.

Í greinargerð vísa kærendur til úrskurðar kærunefndar í máli nr. 75/2023 frá 9. febrúar 2023, þar sem vísað hafi verið til þess að hindranir á aðgengi barna að skóla megi rekja til Covid-19 faraldursins, en það hafi ekki átt við í tilviki barna kærenda. Í framangreindum úrskurði var vísað til þess að samkvæmt skýrslu ECRE hafi Covid-19 faraldurinn haft neikvæð áhrif á menntun flóttabarna og mörg börn hafi ekki náð að sækja skóla í meira en ár sökum faraldursins. Að því er varðar aðgengi A og B að menntun tekur kærunefnd fram að þótt skýrslur bendi til þess að kærendur þurfi að yfirstíga ákveðnar stjórnsýsluhindranir til að skrá börn sín í skóla er að mati kærunefndar ljóst að þau eigi lagalegan rétt á menntun í Grikklandi frá 5 til 15 ára aldurs og í kjölfarið rétt til endurgjaldslausrar grískukennslu. Á vefsíðu flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna UNHCR má finna upplýsingar um hvernig megi skrá börn í skóla í Grikklandi. Þar kemur m.a. fram að handhafar alþjóðlegrar verndar eða viðbótarverndar þurfi að leggja fram sömu skjöl og grískir ríkisborgarar við skráningu í skóla. Þá geti börn verið skráð í skóla án þess að vera með fæðingar- eða fjölskylduvottorð. Nauðsynlegt sé að leggja fram gögn um að viðkomandi hafi sótt um eða sé handhafi alþjóðlegrar verndar eða gilt dvalarleyfisskjal. Þá þurfi að leggja fram heilsu- eða bólusetningarvottorð og búsetuvottorð. Þá kemur fram að sækja þurfi um skóla sem er næst búsetustað barnsins og mikilvægast sé að leggja fram vottorð um að barnið hafi fengið viðeigandi bólusetningar.

Í greinargerð kærenda er gerð athugasemd við að ekki hafi með fullnægjandi hætti verið gætt að ákvæðum sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Það er mat kærunefndar að Útlendingastofnun hafi litið til hagsmuna A og B í hinum kærðu ákvörðunum og gætt að ákvæðum 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sbr. lög nr. 19/2013, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. laga um útlendinga og ákvæða barnalaga, við meðferð umsókna þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á þeim einstaklingsbundnu aðstæðum barna kærenda sem horfa beri til við mat á því hvort rétt sé að taka umsóknir þeirra til efnismeðferðar hér á landi. Með hliðsjón af athugasemdum kærenda vísar kærunefnd til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu, m.a. í máli M.T. og aðrir gegn Svíþjóð nr. 22105/18 frá 20. október 2022. Í dómnum er vísað til þeirrar meginreglu að þrátt fyrir að barni muni vegna betur í einu aðildarríki mannréttindasáttmálans en öðru teljist það ekki falla undir hugtakið bestu hagsmunir barnsins.

Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsóknir barna kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga enda er það niðurstaða nefndarinnar að það sé ekki andstætt réttindum barna kærenda að umsóknir þeirra verði ekki teknar til efnismeðferðar hér á landi.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kærenda og barna þeirra er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál þeirra verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærendur kváðust í viðtali hjá Útlendingastofnun 8. febrúar 2023 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland en að systir K væri stödd hér á landi ásamt kærendum vegna umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd. Samkvæmt 4. mgr. 32. gr. b reglugerðar um útlendinga telst umsækjandi ekki hafa sérstök tengsl við Ísland nema aðstandandi hans sé búsettur hér á landi í lögmætri dvöl. Er það því niðurstaða kærunefndar að tengslum kærenda við landið verði ekki jafnað til sérstakra tengsla í skilningi framangreinds ákvæðis. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærendur hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kærenda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi, en þau lögðu fram umsóknir sína 13. desember 2022.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrárinnar.

Við túlkun 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga lítur kærunefnd til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi túlkun hans á 3. gr. sáttmálans. Þá hefur kærunefnd talið rétt að hafa hliðsjón af þeim meginreglum sem Evrópudómstóllinn setur fram í dómum sínum að því leyti sem þær eru til skýringar á alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins og eru samhljóma þeim.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er vísað til þeirrar meginreglu að með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar hafi ríki rétt til að stjórna hverjir ferðist yfir landamæri þeirra, hverjir dvelji á landsvæði þeirra og hvort útlendingi skuli vísað úr landi, sbr. m.a. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli F.G. gegn Svíþjóð (nr. 43611/11) frá 23. mars 2016, 111. mgr., ákvörðun Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, 65. mgr., og dóm í máli Üner gegn Hollandi (nr. 46410/99) frá 18. október 2006, 54. mgr. Dómstóllinn hefur engu að síður talið að flutningur einstaklings til annars ríkis geti leitt til brots á 3. gr. mannréttindasáttmálans ef viðkomandi einstaklingur geti á viðhlítandi hátt sýnt fram á að veruleg ástæða sé til að ætla, verði hann fluttur úr landi, að hann sé í raunverulegri hættu á að sæta meðferð sem sé andstæð 3. gr. sáttmálans, sbr. m.a. F.G. gegn Svíþjóð, 111. – 113. mgr. Í dómaframkvæmd dómstólsins er jafnframt byggt á því að annmarkar á meðferð viðtökuríkis á umsækjanda og aðbúnaði hans þurfi að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi (e. „must attain a minimum level of severity“ sbr. m.a. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011, 219. mgr.) til að ákvörðun um brottvísun eða frávísun hans verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars, sbr. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 219. mgr.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið ómannlega meðferð vera m.a. þá sem beitt er að yfirlögðu ráði, í margar klukkustundir í senn og veldur annað hvort líkamlegu tjóni eða alvarlegum andlegum eða líkamlegum þjáningum, sbr. t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Kudła gegn Póllandi (nr. 30210/96) frá 26. október 2000, 92. mgr., og M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 220. mgr. Þá hefur dómstóllinn talið meðferð vera vanvirðandi í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmálans þegar meðferðin niðurlægir eða lítillækkar einstakling, sýnir skort á virðingu fyrir eða gerir lítið úr mannlegri reisn hans, eða skapar ótta, angist eða vanmátt, sem er til þess fallinn að brjóta niður líkamlegt eða andlegt mótstöðuafl viðkomandi, sbr. t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Pretty gegn Bretlandi (nr. 2346/02) frá 29. apríl 2002, 52. mgr., og M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 220. mgr. Dómurinn hefur talið að þó að líta verði til þess hvort meðferðin sé veitt af ásetningi sé það ekki að öllu leyti útilokað að hún teljist brot á 3. gr. þó svo hafi ekki verið, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Peers gegn Grikklandi (nr. 28524/95) frá 19. apríl 2001, 74. mgr.

Í ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, 70. mgr., kemur m.a. fram að það eitt að efnahagsstaða einstaklings versni við brottvísun eða frávísun frá aðildarríki nái ekki því alvarleikastigi að teljast vanvirðandi meðferð og brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Þá verði greinin ekki túlkuð þannig að í henni felist skylda aðildarríkja til að sjá einstaklingum sem njóti alþjóðlegrar verndar fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum. Dómstóllinn áréttaði jafnframt að einstaklingur sem standi til að vísa brott geti ekki gert kröfu um áframhaldandi dvöl í ríki í því skyni að njóta þar heilbrigðis- eða félagsþjónustu. Veruleg skerðing lífsgæða sé ekki nægjanleg til að teljast brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans nema sérstaklega sannfærandi mannúðarástæður mæli gegn endursendingu, sbr. 71. mgr. ákvörðunarinnar. Málið varðaði flutning einstæðrar móður með tvö ung börn sem voru með viðbótarvernd til Ítalíu og komst dómstóllinn einróma að þeirri niðurstöðu að málsástæður hennar um að flutningur til Ítalíu væri brot á 3., 8. og 13. gr. mannréttindasáttmálans væru bersýnilega tilhæfulausar og að mál hennar væri af þeim sökum ekki tækt til meðferðar. Um inntak „sérstaklega sannfærandi mannúðarástæðna“ vísast til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli N. gegn Bretlandi (nr. 26565/05), frá 27. maí 2008, 42. mgr., og Sufi og Elmi gegn Bretlandi (nr. 8319/07 og 11449/07) frá 28. nóvember 2011, 281.-292. mgr., en dómarnir setja háan þröskuld fyrir því að meðferð eða aðstæður teljist brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans.

Samkvæmt dómaframkvæmd Evrópudómstólsins eru lög Evrópusambandsins byggð á þeirri grundvallarforsendu að aðildarríki þess deila þeim sameiginlegu gildum sem Evrópusambandið byggist á. Sú forsenda leggur grunn að gagnkvæmu trausti um að þessi gildi séu viðurkennd, að lög Evrópusambandsins verði virt og að réttarkerfi aðildarríkjanna geti veitt sambærilega og virka vernd þeirra réttinda sem sáttmáli Evrópusambandsins um grundvallarréttindi mælir fyrir um, sbr. dóma Evrópudómstólsins í Jawo, C-163/17, frá 19. mars 2019, 80. mgr., Minister for Justice and Equality (Deficiencies in the system of justice), C-216/18 PPU, frá 25. júlí 2018, 35.-37. mgr., og Ibrahim o.fl. gegn Þýskalandi, C‑297/17, C‑318/17, C‑319/17 og C‑438/17, frá 30. apríl 2019, 83.-85. mgr.

Það er hins vegar ekki útilokað að viðtökuríki kunni að glíma við meiriháttar erfiðleika tengdum aðbúnaði flóttamanna sem gæti skapað verulega hættu á að umsækjandi sæti meðferð sem samrýmist ekki sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, sbr. t.d. dóm Evrópudómstólsins í máli N. S. o.fl., C-411/10 og C-493/1021, frá 21. desember 2011, 81. mgr. Af þeim sökum verður ekki byggt á því skilyrðislaust að aðildarríki Evrópusambandsins tryggi grundvallarmannréttindi, svo sem samkvæmt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, sbr. N. S. o.fl., 99., 100. og 105. mgr., og Ibrahim o.fl., 87. mgr. Evrópudómstóllinn hefur talið, m.a. í Jawo, 85. mgr., að ekki megi flytja umsækjanda um alþjóðlega vernd til viðtökuríkis ef veigamikil rök standa til þess að raunveruleg hætta sé á að hann sæti þar eða við flutninginn ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í skilningi 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi. Þeir annmarkar sem eru á meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd verða hins vegar að ná sérstaklega háu alvarleikastigi til að endursending teljist andstæð 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þessu alvarleikastigi er náð þegar sinnuleysi stjórnvalda viðtökuríkis hefur þær afleiðingar að einstaklingur sem að öllu leyti er háður stuðningi ríkisins, t.d. vegna sérstaklega viðkvæmrar stöðu, verður í slíkri stöðu sárafátæktar að hann geti ekki mætt grundvallarþörfum sínum, og sem grefur undan líkamlegri og andlegri heilsu hans eða setur hann í aðstöðu sem er ósamrýmanleg mannlegri reisn, sbr. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 252.-263. mgr., og Jawo, 92. og 95. mgr., og Ibrahim o.fl., 90. mgr.

Til að endursending geti talist brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þarf að sýna fram á, með vísan til hlutlægra og trúverðugra upplýsinga sem eru nægilega nákvæmar og uppfærðar, að umsækjandi sé í raunverulegri hættu á að sæta meðferð sem sé ósamrýmanleg ákvæðinu, sbr. fyrri umfjöllun. Ekki er nægilegt að aðeins sé um að ræða möguleika á slíkri meðferð, sbr. Vilvarajah o.fl. gegn Bretlandi (mál nr. 13163/87; 13164/87; 13165/87; 13447/87; 13448/87) frá 30. október 1991, 111. mgr., N. gegn Finnlandi (mál nr. 38885/02) frá 26. júlí 2005, 167. mgr., og NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008, 109.-110. mgr.

Með vísan til framangreindra viðmiða, umfjöllunar um aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar í viðtökuríki og einstaklingsbundinna aðstæðna kærenda og barns þeirra er það niðurstaða kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að kærendur og barn þeirra eigi á hættu meðferð sem gangi gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Synjun á efnismeðferð umsókna kærenda og barna þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi og flutningur þeirra til viðtökuríkis leiðir því ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar sem kærendur og börn þeirra njóta alþjóðlegrar verndar í viðtökuríki telur kærunefnd jafnframt að tryggt sé að þau verði ekki send áfram til annars ríkis þar sem líf þeirra eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt framansögðu verður mál kærenda og barna þeirra ekki tekin til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Athugasemdir kærenda við ákvarðanir Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið gera kærendur ýmsar athugasemdir við ákvarðanir Útlendingastofnunar, þ. á m. við umfjöllun stofnunarinnar um aðstæður þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi og mat stofnunarinnar á stöðu kærenda og barna þeirra.

Kærendur gera athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki tekið tillit til raunverulegrar stöðu þeirra og hafi því brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Þá hafi stofnunin einungis lagt til grundvallar opinberar upplýsingar frá Grikklandi og alþjóðlegar skýrslur um almennar aðstæður í Grikklandi. Að því er varðar mat Útlendingastofnunar á einstaklingsbundnum aðstæðum kærenda tekur kærunefnd fram að kærendum var leiðbeint um framlagningu heilsufarsgagna við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun, en í viðtali var þeim leiðbeint um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem þau teldu hafa þýðingu fyrir mál sitt, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð máls þeirra hjá Útlendingastofnun. Við meðferð málsins hjá kærunefnd hefur kærendum auk þess verið leiðbeint um framlagningu frekari heilsufarsgagna. Samkvæmt gögnum málsins glímir M við andleg heilsufarsvandamál og svefnleysi. Þá glímir B við tannvandamál. Líkt og fram hefur komið benda heimildir til þess að kærendur og börn þeirra eigi að lögum sambærilegan rétt og ríkisborgarar Grikklands á grunnheilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu og lyfjum í Grikklandi. Þegar litið er til þeirra viðmiða sem 32. gr. a reglugerðar um útlendinga setur fram er ljóst að þau gögn sem liggja fyrir í málinu benda ekki til þess að frekari gagnaöflun geti haft áhrif á niðurstöðu málsins. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar er með hliðsjón af einstaklingsbundnum aðstæðum kærenda og barna þeirra vísað til alþjóðlegra skýrslna og heimilda um réttindi þeirra í Grikklandi, s.s. til heilbrigðisþjónustu, menntunar, fjárhags- og félagsstuðnings. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á þeim einstaklingsbundnu aðstæðum kærenda og barna þeirra sem horfa beri til við mat á því hvort rétt sé að taka umsóknir þeirra til efnismeðferðar hér á landi. Þá hefur kærunefnd endurskoðað aðra þætti hinna kærðu ákvarðana og fellst ekki á þrautavarakröfu kærenda um að rannsókn Útlendingastofnunar hafi verið ábótavant, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Brottvísun og endurkomubann

Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar heimfarar sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi 13. desember 2022. Eins og að framan greinir hefur umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð. Hafa þau því ekki frekari heimild til dvalar. Af framangreindu leiðir að með hinum kærðu ákvörðunum var réttilega bundinn endir á heimild kærenda til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa kærendum úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 8. febrúar 2023 var kærendum gefið færi á að andmæla mögulegri brottvísun og endurkomubanni frá Íslandi. M greindi frá því að brottvísun og endurkomubann væri ósanngjörn ráðstöfun gagnvart honum og fjölskyldu hans þar sem Ísland væri þeirra síðasta von eftir það sem þau hafi gengið í gegnum. Þá greindi K frá því að þau hafi engan stað til að fara á, þau þekki engan í Evrópu og hún hafi misst foreldra sína. Með vísan til fram kominna gagna, athugasemda kærenda og umfjöllunar kærunefndar um aðstæður kærenda í Grikklandi telst brottvísun kærenda frá Íslandi og endurkomubann ekki fela í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til 3. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skulu kærendur og börn þeirra yfirgefa landið án tafar. Samkvæmt 2. mgr. 104. gr. skal að jafnaði veita frest í 7-30 daga til sjálfviljugrar heimfarar. Með vísan til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga verður að skilja orðalagið án tafar þegar veittur er frestur til sjálfviljugrar heimfarar svo að miða verði við lágmarksfrest í 2. mgr. 104. gr. Frestur kærenda til sjálfviljugrar heimfarar er því 7 dagar og tekur ákvörðun um brottvísun og endurkomubann ekki gildi yfirgefi kærendur landið sjálfviljugir án tafar. Ákvarðanir Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann eru staðfestar.

Í greinargerð gera kærendur athugasemd við að í ákvörðunum Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann hafi ekki verið tekin rökstudd afstaða til andmæla kærenda sem brjóti í bága við 10. og 21. gr. stjórnsýslulaga. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum kæranda er lagalegur grundvöllur brottvísunar og endurkomubanns rakin. Þá kemur fram að kærendum hafi verið gefinn kostur á að andmæla mögulegri brottvísun og endurkomubanni til landsins. Í kjölfarið eru andmæli kærenda rakin um að K hafi greint frá því að hún þekki engan í Evrópu og foreldrar hennar séu látnir. Í máli kærenda kemur fram að einu tengsl þeirra innan Schengen-svæðisins séu við systur K sem sé einnig umsækjandi um alþjóðlega vernd hér á landi. Þá kemur fram að M hafi talið að um ósanngjarna ráðstöfun væri að ræða þar sem Ísland væri hans síðasta von. Með hliðsjón af andmælum kærenda komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að brottvísun kærenda fæli ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart þeim eða nánustu aðstandendum þeirra, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Það er mat kærunefndar með hliðsjón af andmælum kærenda að ákvarðanir Útlendingastofnunar hafi verið nægjanlega rökstuddar og í samræmi við 10. og 21. gr. laga um útlendinga. Þá áréttar kærunefnd að yfirgefi kærendur landið án tafar taki endurkomubannið ekki gildi.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar.

Athygli kærenda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Athygli kærenda er einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Úrskurðarorð:

 

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

 

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Sandra Hlíf Ocares                                                                Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta