Hoppa yfir valmynd
16. maí 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 3/2006

Þriðjudaginn, 16. maí 2006

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 16. janúar 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 11. janúar 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 6. desember 2005 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks hér á landi á grundvelli sameiginlegs réttar.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Samkvæmt bréfi frá Tryggingastofnun Ríkisins dagsett 6. desember 2005 var umsókn minni um greiðslu sameiginlegs fæðingarstyrks synjað. Ég vil gjarnan fá nánari upplýsingar um hvers vegna ekki er fallist á að greiða mismuninn á íslenska og danska orlofinu. Þó svo barnsmóðir mín taki allt sameiginlegt orlofið hér í B landi þá eru upphæðirnar mun lægri. Að auki hef ég engan rétt til að taka þetta sameiginlega orlof né það orlof sem feður geta tekið hér í B landi. Satt að segja þá skil ég ekki alveg lagagreinina sem þið vísið í (3. mgr. 33.gr. laga nr. 95/2000). “Greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sömu fæðingar og fyrir sama tímabil koma til frádráttar við greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. og greiðslu fæðingarstyrks skv. 18 og 19 gr”. Ef greiðslur frá öðrum ríkjum koma til frádráttar hvers vegna snýst þá dæmið ekki við þegar við eigum að fá greiddan mismun?

3 mánuðir í fæðingarstyrk frá Íslandi m.v. X krónur á mánuði = X krónur.

3 mánuðir í fæðingarorlof frá B landi m.v. X krónur á mánuði = X krónur.

Mismunurinn er því X krónur.

Þetta er kannski ekki mikill peningur en skiptir máli þar sem við erum bæði mjög tekjulág. Ég sjálfur á námslánum og eins og sjá má fær barnsmóðir mín mjög lítinn pening á mánuði. Ég vil gjarnan að litið sé aftur á málið mitt og það endurskoðað og fá nánari upplýsingar um hvers vegna umsókninni var synjað.“

 

Með bréfi, dagsettu 8. febrúar 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 3. mars 2006. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 20. apríl 2005, sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna vegna barnsfæðingar, sem áætluð var 15. maí 2005. Umsókninni fylgdi hluti af mæðraeftirlitsskýrslu, faðernisyfirlýsing, dags. 15. apríl 2005, E-104 vottorð, dags. 21. mars 2005, staðfesting frá I sveitarfélaginu, dags. 23. mars 2005, um réttleysi kæranda til fæðingarorlofsgreiðslna í B landi, staðfesting I-háskóla, dags. 15. mars 2005, um skólavist kæranda og vottorð J-háskóla, dags. 12. apríl 2005, um skólavist kæranda.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 11. maí 2005, var óskað eftir frekari gögnum frá kæranda. Þann 19. maí 2005 barst Tryggingastofnun ríkisins fæðingarvottorð barns kæranda, dags. 12. maí 2005 og staðfesting á námsframvindu kæranda, dags. 17. maí 2005.

Þann 2. júní 2005 voru kæranda send tvö bréf frá lífeyristryggingasviði. Annars vegar var um að ræða bréf þar sem fram kom að umsókn hans um fæðingarstyrk hefði verið samþykkt og að honum yrði greiddur fæðingarstyrkur námsmanna í maí, júní og júlí 2005. Hins vegar var um að ræða bréf þar sem fram kom að þar sem hann hefði sótt um að nýta sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofsgreiðslna og þar sem réttur móður til greiðslna erlendis hefði áhrif á réttindi hans hér á landi yrði hann að leggja fram gögn frá B lenskum yfirvöldum varðandi rétt móðurinnar til fæðingarorlofsgreiðslna í B landi.

Þann 8. nóvember 2005 bárust lífeyristryggingasviði bréf kæranda, dags. 5. nóvember 2005, þar sem fram hann sótti um að fá að nýta sér sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs/styrks og staðfesting I sveitarfélags, dags. 3. nóvember 2005, þar sem sagði að barnsmóðir kæranda ætti rétt til fæðingarorlofs í 46 vikur eftir fæðingu barns.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 6. desember 2005, var umsókn kæranda um fæðingarstyrk umfram þrjá mánuði synjað.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði, hvort um sig, vegna fæðingar. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldrið getur fengið í heild eða foreldrar skipt með sér.

Í 2. mgr. 19. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna er kveðið á um að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrðinu hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k fimm ár fyrir flutning. Njóti foreldri greiðslu vegna sömu fæðingar í búsetulandinu kemur hún til frádráttar fæðingarstyrknum, sbr. 3. mgr. 33. gr. laganna.

Í áðurnefndu bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 2. júní 2005, var fallist á að hann uppfyllti skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks námsmanna.

Í 3. mgr. 33. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, sem vísað er til í lokamálslið 2. mgr. 19. gr. laganna, segir m.a. að greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sömu fæðingar og fyrir sama tímabil komi til frádráttar við greiðslu fæðingarstyrks skv. 19. gr.

Samkvæmt upplýsingum sem lífeyristryggingasvið hefur frá B landi eiga foreldrar í B landi rétt til fæðingarorlofsgreiðslna í 46 vikur alls. Fyrstu 14 vikurnar tilheyra móður en foreldrar geta skipt með sér þeim 32 vikum sem eftir eru. Meðal þeirra gagna sem lífeyristryggingasviði hafa borist vegna umsóknar kæranda er staðfesting á að barnsmóðir hans eigi rétt á 46 vikna fæðingarorlofi í B landi. Engin gögn hafa verið lögð fram því til staðfestu að hún nýti sér ekki þann rétt en af fyrirliggjandi upplýsingum má ráða að hún nýti hann.

Á grundvelli þess að í fæðingar- og foreldraorlofslögunum er gerður greinarmunur á sjálfstæðum rétti foreldris og sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarstyrks og með hliðsjón af ákvæði 7. mgr. 19. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna þar sem segir að taki annað foreldri hluta af sameiginlegum rétt foreldra til fæðingarorlofs og njóti greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur, þá lítur lífeyristryggingasvið svo á að eigi foreldrar rétt til fæðingarorlofsgreiðslna eftir ólíkum kerfum, t.d. í sitt hvoru landinu, þá geti foreldri ekki nýtt sér sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofsgreiðslna samkvæmt því kerfi sem það fellur undir nema stytta að sama skapi tímabil fæðingarorlofsgreiðslna á grundvelli sameiginlegs réttar til hins foreldrisins sem fellur undir annað fæðingarorlofskerfi.

Samkvæmt framangreindu á barnsmóðir kæranda rétt á fæðingarorlofsgreiðslum í B landi í 46 vikur, þar af munu 14 vikur vera sjálfstæður réttur hennar en 32 vikum geta foreldrar skipt á milli sín sem sameiginlegum rétti eigi þau bæði rétt á fæðingarorlofsgreiðslum í B landi. Sameiginlegur réttur foreldra í B landi er því lengri en sameiginlegur réttur foreldra samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. lög nr. 90/2004. Með því að barnsmóðir kæranda taki fæðingarorlof í B landi í 46 vikur lítur lífeyristryggingasvið svo á sem sameiginlegur réttur kæranda til fæðingarstyrks á Íslandi hafi verið skertur að fullu og að hann eigi ekki rétt á fæðingarstyrk á Íslandi umfram sjálfstæðan rétt sinn til fæðingarstyrks í þrjá mánuði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 9. mars 2006, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks hér á landi á grundvelli sameiginlegs réttar.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004 eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði, hvort um sig, vegna fæðingar barns. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldrið getur fengið í heild eða foreldrar skipt með sér. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 7. mgr. 19. gr. ffl.

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, skal foreldri að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Njóti foreldri greiðslu vegna sömu fæðingar í búsetulandinu kemur hún til frádráttar fæðingarstyrknum, sbr. 3. mgr. 33. gr. ffl.

Barn kæranda er fætt 4. maí 2005. Staðfest er að kærandi átti rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður og viðurkenndur réttur hans til greiðslu fæðingarstyrks í þrjá mánuði. Með bréfi dagsettu 6. desember 2005 var kæranda hins vegar synjað um frekari greiðslu fæðingarstyrks á grundvelli sameiginlegs réttar foreldra í fæðingarorlofi.

Kærandi átti ekki rétt á greiðslum í fæðingarorlofi í B landi. Samkvæmt gögnum málsins átti móðir barnsins hins vegar rétt á greiðslum í fæðingarorlofi í B landi í 46 vikur. Sjálfstæður réttur hennar til greiðslna mun vera 14 vikur og 32 vikur sem er sameiginlegur réttur sem foreldrar geta skipt sín á milli. Gögn málsins bera með sér að hún muni nýta bæði sjálfstæðan rétt og sameiginlegan rétt.

Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. ffl. koma greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sömu fæðingar og fyrir sama tímabil til frádráttar greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. og greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. og 19. gr. laganna. Að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála á kærandi samkvæmt því rétt á greiðslu sameiginlegs fæðingarstyrks í þrjá mánuði að frádregnum greiðslum sem móðir barnsins átti rétt á vegna sameiginlegs réttar í B landi fyrir sama þriggja mánaða tímabil. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á grundvelli sameiginlegs réttar er því hafnað.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks á grundvelli sameiginlegs réttar foreldra er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk námsmanna á grundvelli sameiginlegs réttar í þrjá mánuði að frádregnum greiðslum sem móðir barnsins átti rétt á vegna sameiginlegs réttar í B landi fyrir sama tímabil.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta