Hoppa yfir valmynd
16. maí 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2006

Þriðjudaginn, 16. maí 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl, Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 2. febrúar 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 29. janúar 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 4. nóvember 2005 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Síðastliðinn október sótti ég um fæðingarstyrk og þann 2. nóvember 2005 var þeirri umsókn synjað. Forsendan fyrir þessari synjun er sú að ég hef ekki flutt erlendis vegna náms og þar af leiðandi uppfyllti ég ekki skilyrði um undanþágu frá lögheimilisskilyrði (sbr. fylgiskjali um synjun fæðingarstyrks). Hér með kæri ég þann úrskurð á þeim forsendum að ég flutti erlendis vegna náms maka míns þar sem við erum gift og erum fjölskylda. Einnig kæri ég úrskurðinn á þeim forsendum að Ísland er í samstarfi við hin Norðurlöndin með Norðurlandasamningi um almannatryggingar sem á að tryggja norrænum borgurum sem dvelja í öðru norrænu landi sömu réttindi og þeir njóta í heimalandi sínu. Þar sem ég hef ekki rétt á fæðingarstyrk í búsetulandinu óska ég eftir aðstoð frá heimalandi mínu...

Með því að neita mér um fæðingarstyrk og benda mér á að ef ég flyt til Íslands eða færi lögheimili mitt til Íslands þá fái ég fæðingarstyrk lítum við svo á sem það sé verið að reyna að koma upp á milli okkar og tvístra fjölskyldu okkar upp. Það brýtur í bága við Hjúskaparlögin frá 1993. Ennfremur samræmast slíkar aðgerðir ekki stefnu íslenska ríkisins um aðgerðir til þess að styrkja stöðu fjölskyldunnar.

Með gerð Norðurlandasamnings um almannatryggingar er verið að „tryggja norrænum ríkisborgurum sem starfa eða dveljast í öðru norrænu landi, sama félagslegt öryggi og ríkisborgurum landsins“ (Norðurlandasamningur um almannatryggingar 1992). Jafnframt segir í Norðurlandasamningi frá árinu 2003 að Norðurlöndin skuldbinda sig til að beita ákvæðum reglugerðarinnar að verulegu leyti einnig gagnvart tilteknum hópi manna sem reglugerðin tekur ekki beint til, þ.e. þeim sem eru ekki eða hafa ekki verið í starfi hjá öðrum á eigin vegum í skilningi reglugerðarinnar...”. Eiginmaður minn B hefur ekki starfað hjá öðrum á meðan á dvöl okkar hefur staðið í D-landi og þar af leiðandi fellur hann undir þann tiltekna hóp manna sem Norðurlandasamningurinn nær yfir. Það þýðir jafnframt að 5. gr. 2.mgr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar frá árinu 2003 á við mig sem maka B. Ég hef ekki rétt á fæðingarstyrk né fæðingarorlofi í D-landi sbr. fylgiskjali „Neitun um fæðingarstyrk/aðstoð“. Ég sem norrænn ríkisborgari á ekki að missa réttindi mín við flutning milli Norðurlandanna. Þar sem réttindin eru ekki til staðar í búsetulandinu skal minn réttur fylgja mér frá Íslandi eins og ég væri áfram búsett þar (sbr. 5.gr. 2 mgr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar frá árinu 2003). Ég fell ekki undir D-lenska löggjöf og þar af leiðandi á ég að falla undir íslenska löggjöf og fá fæðingarstyrk frá Íslandi. Til þess var Norðurlandasamningurinn um almannatryggingar settur á, til þess að hjálpa fólki í nákvæmlega sömu stöðu og ég er í. Ég tel það einnig vera mannréttindi mín að fá fæðingarstyrk til þess að geta verið heima með fjölskyldu minni og sinnt barni okkar!...“

 

Með bréfi, dagsettu 9. febrúar 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 6. mars 2006. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 18. október 2005, sem móttekin var 21. október 2005, sótti kærandi um fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar í sex mánuði frá 1. nóvember 2005 vegna barns hennar sem fætt er 19. september 2005.

Í umsókn kæranda kom fram að hún hefði verið búsett í D-landi frá 23. ágúst 2003. Jafnframt að hún hefði starfað í D-landi tímabilið 1. september 2004 til 17. júní 2005, fengið greiddar atvinnuleysisbætur þar tímabilið 20. júní til 18. september 2005 og þá átt inni 10 daga sumarfrí sem hún hefði áunnið sér með starfi sínu þar.

Umsókn kæranda fylgdu fæðingarvottorð barns hennar, dags. 11. október 2005, bréf frá E-sveitarfélaginu, dags. 22. júní 2005, 7. júlí 2005 og 20. september 2005, greiðsluyfirlit, dags. 28. september 2005 og yfirlit yfir áunna frídaga, dags. 22. september 2005.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 4. nóvember 2005, var umsókn kæranda um fæðingarstyrk synjað á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði um lögheimili á Íslandi.

Í 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar. Þar er í 2. málslið 2. mgr. sett það skilyrði fyrir fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar að foreldri skuli eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma.

Í 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004 er framangreint lögheimilisskilyrði áréttað í 1. mgr. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar segir síðan að til þess að heimilt sé að taka til greina búsetu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins á þeim tíma sem tilgreindur er í 1. mgr. skuli foreldri afhenda Tryggingastofnun ríkisins staðfesta yfirlýsingu (E-104) sem sýni tryggingatímabil er foreldri hefur lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem það heyrði undir. Þá segir í 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar að hafi verið gerður samningur við annað ríki sem nái til greiðslna vegna fæðingar barns skuli meta búsetu foreldris í því ríki samkvæmt ákvæðum samningsins.

Barn kæranda fæddist, eins og að framan greinir, þann 19. september 2005. Kærandi var þá með lögheimili í D-landi og hafði haft þar lögheimili frá 20. ágúst 2003, sbr. upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands. Uppfyllti kærandi þar af leiðandi ekki framangreint skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks um lögheimili, sem sett er í fæðingar- og foreldraorlofslögunum og reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma í umsókn kæranda og gögnum er fylgdu umsókn hennar þá hafði kærandi hvort tveggja lögheimili í D-landi við fæðingu barns hennar og var þá á D-lenskum vinnumarkaði, þannig að ætla má að hún hafi haft tækifæri til að ávinna sér rétt til fæðingarorlofsgreiðslna í D-landi.

 

Vegna tilvísana í kæru kæranda til Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sem gerður var 18. ágúst 2003 og öðlast hefur lagagildi á Íslandi samkvæmt lögum nr. 66/2004, skal tekið fram að samkvæmt samningum skulu einstaklingar utan vinnumarkaðar njóta almannatrygginga í því landi sem þér búa í en einstaklingar á vinnumarkaði eru tryggðir í því landi sem þeir vinna í, sbr. tilvísun Norðurlandasamningsins til reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, sbr. II. bálk reglugerðar nr. 1408/71. Kærandi átti því að vera tryggð í danska almannatryggingakerfinu hvort sem var vegna vinnu sinnar þar eða vegna búsetu sinnar þar við fæðingu barns hennar.

Ákvæði 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, varðar fæðingarstyrk til foreldra í fullu námi. Þar er í 3. málslið 2. mgr. gert heimilt að veita undanþágu frá almenna lögheimilisskilyrðinu hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Síðan segir í 4. málslið 2. mgr. 19. gr. laganna að njóti foreldri greiðslu vegna sömu fæðingar í búsetulandinu komi hún til frádráttar fæðingarstyrknum, sbr. 3. mgr. 33. gr. Samskonar undanþáguheimild frá lögheimilisskilyrðinu er að finna í V. kafla reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004, sem varðar greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í námi. Er námsmönnum þannig veittur rýmri réttur til fæðingarstyrks frá Íslandi heldur en felst í Norðurlandasamningum. Þessi rýmkun á rétti til fæðingarstyrks frá Íslandi á ekki við um foreldra utan vinnumarkaðar því undanþáguheimild sem þessa er ekki að finna í þeim laga- og reglugerðarákvæðum sem varða rétt foreldra utan vinnumarkaðar til fæðingarstyrks, sbr. ákvæði 18. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004 og ákvæði IV. kafla reglugerðar nr. 1056/2004.

Með vísan til alls framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar samkvæmt 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 9. mars 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 20. mars 2006 þar sem hún áréttar kröfur sínar.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks utan vinnumarkaðar.

Í rökstuðningi með kæru vísar kærandi m.a. til 2. mgr. 5. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar. Samningnum var veitt lagagildi með lögum nr. 66/2004 en í II. hluta samningsins eru lagaskilareglur. Í 5. gr. eru ákvæði um hvaða löggjöf skuli beita um einstaklinga utan vinnumarkaðar en samkvæmt 1. mgr. er meginreglan að beita skuli löggjöf búsetulandsins. Í 2. mgr. 5. gr. er sérákvæði um maka og börn undir 18 ára aldri, sem fylgja launþega eða sjálfstætt starfandi einstaklingi frá einu norrænu landi til annars. Samsvarandi sérákvæði er ekki um maka og börn sem fylgja námsmanni frá einu norrænu landi til annars.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr.95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldri getur fengið í heild eða foreldrar skipt honum með sér. Foreldri skal eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma sbr. 2. mgr. 18. gr. ffl. sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004, sbr. og 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Skilyrði um lögheimili er í samræmi við búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Til að heimilt sé að taka til greina búsetu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins á þeim tíma sem um ræðir í 1. mgr. skal foreldri afhenda Tryggingastofnun ríkisins staðfesta yfirlýsingu (E-104) sem sýnir tryggingatímabil er foreldri hefur lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem það heyrði undir. Hafi verið gerður samningur við annað ríki sem nær til greiðslna vegna fæðingar barns, ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur skal meta búsetu foreldris í því ríki samkvæmt ákvæðum samningsins sbr. 2. og 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi ól barn 19. september 2005. Á þeim tíma var kærandi með lögheimili í D-landi og hafði verið með lögheimili þar frá 20. ágúst 2003 samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Hún uppfyllir því ekki skilyrði 2. mgr. 18. gr. ffl. um lögheimili hér á landi við fæðingu barns.

Kærandi flutti til D-lands vegna náms maka. Undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis á eingöngu við um greiðslu fæðingarstyrks til námsmanna. Engar undanþágur eru veittar í lögum nr. 95/2000 með síðari breytingum né reglugerð nr. 1056/2004 um að heimilt sé að greiða maka námsmanns fæðingarstyrk sem foreldris utan vinnumarkaðar í þeim tilvikum sem hér um ræðir. Með hliðsjón af því er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldris utan vinnumarkaðar er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta